04.03.1959
Sameinað þing: 31. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í D-deild Alþingistíðinda. (2291)

121. mál, innflutningur véla og verkfæra

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi harmaði það, að nú mundi verða á þessu ári það, sem hann kallaði samdrátt í innflutningi landbúnaðarvéla. Ég skal gera nákvæman samanburð á gjaldeyrisúthlutuninni á s.l. ári og áætluninni nú. Hann er þannig:

Landbúnaðarvélar til heyskapar, úthlutunin í fyrra nam 3.9 millj. kr., en er nú ráðgerð 4 millj., 100 þús. meira, eða svo að segja sama upphæðin. Til jarðræktarvéla var í fyrra úthlutað 12.9 millj., en er nú ráðgert 8 millj., þ.e. 4.9 millj. minna. En þess ber að geta, að úthlutunin í fyrra var sú langhæsta, sem nokkurn tíma áður hefur verið gerð, og er undirstaða þess, að eftirspurn er nú miklu minni, en mörg undanfarin ár, m.a. heldur en í fyrra. En til varahluta var í fyrra úthlutað 7.7 millj., en nú gert ráð fyrir 9 millj., þ.e. aukningu um 1.3 millj., með þeirri viðbótaryfirlýsingu, að sýni reynslan, að skortur ætli að verða á varahlutum, muni sá innflutningur verða aukinn. Það er hiklaust mín skoðun, að það, sem nauðsynlegast sé af öllu fyrir landbúnaðinn í þessu sambandi, sé, að ekki sé skortur á varahlutum. Það er tilgangslaust að reyna að viðhalda vélastofni með miklum innflutningi, sem síðan er ekki hægt að halda í rekstri vegna skorts á varahlutum. Það eru lítil búhyggindi, en því miður hefur of oft áður á undanförnum árum orðið svo.

Hv. þm. sagði einnig, að nú mundi verða dreginn saman innflutningur varahluta. Þetta er auðvitað á misskilningi byggt, eins og greinilega kemur fram af tölum, sem ég hef nefnt. Hann mun þvert á móti verða aukinn um 1.3 millj., miðað við það, sem var í fyrra.

Hv. 2. þm. Reykv. (BÓ) spurðist fyrir um það, hversu miklu væri gert ráð fyrir að verja af gjaldeyristekjum þjóðarinnar til innflutnings á hátollavörum á yfirstandandi ári. Í innflutningsáætluninni er gert ráð fyrir hátollavöruinnflutningi fyrir 209 millj. kr., en sá innflutningur mun skiptast þannig, að af honum munu verða jafnmiklar tekjur og af 220 millj. kr. innflutningi, miðað við innflutningsáætlunina í fyrra. Það er lögð aukin áherzla á innflutning á nokkrum vörum, sem eru í hæstu gjaldaflokkum, þannig að 209 millj. kr. innflutningur ætti að gefa jafnmiklar tekjur í útflutningssjóð og ríkissjóð og 220 millj. kr. innflutningur hefði gefið, ef áætluninni í fyrra hefði verið fylgt út í æsar.

Með þessu vona ég, að þessari fsp. sé svarað. Hv. 1. þm. S-M. gagnrýndi þá stefnu, sem í orðum mínum fælist, að semja svo nákvæma innflutningsáætlun, að þar væri gert ráð fyrir fastákveðinni upphæð í hátollavöru, sem síðar mundi gefa ríkissjóði og útflutningssjóði ákveðnar tekjur. Hann sagði, að þessi stefna hefði aldrei verið framkvæmd fyrr, það hafi aldrei verið gerðar bindandi áætlanir á þennan hátt um innflutninginn, og mótmælti þessu sjónarmiði. Mér komu þessi orð vægast sagt mjög á óvart. Það má til sanns vegar færa, að þessi stefna hafi ekki verið framkvæmd, af því að það mistókst að framkvæma hana. En hinu vil ég ekki trúa, að hv. þm. kannist ekki við, að það hafi verið tilætlunin að framkvæma hana. Til hvers voru þau 3 ár, sem ég hef fylgzt með þessum málum, gerðar innflutningsáætlanir? Er ekki meiningin að fara eftir þeim? Hv. þm. staðfesti á s.l. ári innflutningsáætlun, þar sem gert var ráð fyrir 220 millj. kr. hágjaldainnflutningi einmitt til þess að tryggja afkomu ríkissjóðs og útflutningssjóðs. Hitt er rétt, að eftir áætluninni var ekki farið, — það tókst ekki. Það ber vissulega að harma, en ekki hlakka yfir því eða telja það til fyrirmyndar. Til fyrirmyndar er það sannarlega ekki. Það hefði átt að takast. Og það mun verða reynt nú í ár að láta framkvæmd þessarar áætlunar, sem nú hefur verið gerð, takast, og til þess hafa raunar verið gerðar sérstakar ráðstafanir, reynt að búa tryggilegar um hnútana, en gert var í fyrra og hittiðfyrra. Orð hans má því ekki skilja þannig, að það hafi ekki verið ætlunin að framkvæma nákvæmlega sömu stefnu á undanförnum árum. Það var sannarlega ætlunin. Þess vegna kemur það sérstaklega á óvart, að þessu sjónarmiði, sem í orðum mínum felst, skuli vera mótmælt. Það að semja innflutningsáætlun og fylgja henni svo ekki eða láta sér mistakast að fylgja henni, það er stefna hallarekstrar í ríkisbúskapnum og hjá útflutningssjóði, því að hvaða afleiðingu mundi það hafa, ef þessari áætlun yrði ekki fylgt, eins og mér skildist hv. þm. vera að óska eftir í raun og veru? Það mundi auðvitað hafa þau áhrif, að það yrði verulegur halli bæði hjá útflutningssjóði og ríkissjóði, eins og hefði orðið á s.l. ári, ef ekki hefðu alveg sérstakar ástæður valdið, eins og ég gat um í minni fyrri ræðu. Það hefði orðið halli hjá ríkissjóði, ef ekki hefðu orðið alveg sérstakar tekjur af sölu áfengis og tóbaks, og það hefði orðið halli hjá ríkissjóði og útflutningssjóði, ef þannig hefði ekki hagað til, að útflutningssjóður þurfti ekki að greiða bætur nema nokkurn hluta ársins eftir hinum nýju lögum frá því í maí á s.l. vori, en fékk hins vegar tekjur meiri hluta ársins, en hann þurfti að greiða hinar hækkuðu bætur. Sú stefna að semja innflutningsáætlun og fylgja henni síðan ekki, það er stefna hallarekstrar hjá ríkissjóði og útflutningssjóði, og ég hefði satt að segja sízt af öllu búizt við því, að hv. 1. þm. S-M. yrði talsmaður hallastefnu hjá ríkissjóði og útflutningssjóði.