04.03.1959
Sameinað þing: 31. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í D-deild Alþingistíðinda. (2292)

121. mál, innflutningur véla og verkfæra

Eysteinn Jónason:

Hæstv. ráðh. sagðist vera dálítið hissa á því, að ég hefði gagnrýnt þá stefnu, sem hann flutti hér yfirlýsingu um, sem sé þá að slá fastri fjárhæð um innflutning á hátollavörum, og síðan yrðu aðrar vörur að víkja. Hann sagði, að það hefðu áður verið gerðar innflutningsáætlanir. Já, það hafa verið gerðar innflutningsáætlanir, en ég hef ævinlega haft þann fyrirvara um þessar innflutningsáætlanir, að þær væru ekki bindandi og ef það sýndi sig, að nauðsynjar þyrftu að flytjast inn meiri, yrði áætlunin að víkja fyrir þeirri nauðsyn. Þetta sjónarmið hef ég ævinlega flutt í ríkisstj. fyrrverandi, eins og hæstv. ráðh. hlýtur að vita, og þess vegna hefur verið vikið frá þeirri áætlun, sem gerð hefur verið, í framkvæmd, eins og hann sjálfur greindi frá, að hún hefur verið gerð með þessum fyrirvara, að hún yrði að víkja, ef það sýndi sig, að þörf væri á meiri nauðsynjavörum, en gert var ráð fyrir í áætluninni. Það hefur aldrei komið fyrir í eitt einasta skipti, að ég hafi rekið á eftir því á undanförnum árum í ríkisstjórnum, að aukinn væri innflutningur á hátollavörum og nauðsynjavörur látnar víkja til þess að ná í peninga handa ríkissjóði eða útflutningssjóði. Ég hef ævinlega fengið því ráðið, að áætlanirnar hafa verið gerðar svo varlega, að það mátti gera sér vonir um, að það næðust saman endarnir, án þess að sú stefna væri tekin upp. Að vísu mistókst þetta 1957 lítillega, en aftur varð afgangur 1958. Ég hef aldrei verið talsmaður þess, eins og ég veit að hæstv. ráðh. kannast vel við, að sú stefna væri tekin, sem hann nú boðar, og í framkvæmdinni hefur þessum áætlunum, sem ekki hafa verið bindandi, verið breytt og látið sitja í fyrirrúmi að flytja nauðsynjarnar inn. En nú lýsir hæstv. ráðh. því yfir skýrt og skorinort, að þessar hátollavörur skuli koma, um það geta menn verið alveg vissir, og það eigi að ganga út yfir nauðsynjarnar. Það er þetta, sem er það nýja, sem er að gerast, og þessu leyfi ég mér að mótmæla.

Hér kom hv. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, og sagði nokkur orð af þessu tilefni. Aðallega voru þetta hnútur í minn garð. Hann sagði, að það væri einkennilegt, að ég væri að finna að því, að gert væri ráð fyrir, að innflutningnum yrði hagað þannig, að tekjur gætu komið inn eftir fyrir fram gerðri áætlun. Hver hefur slegið fastri tekjuáætlun núna fyrir þetta ár, sem er að líða, fyrir ríkissjóð og útflutningssjóð? Eru ekki fjárlögin óafgreidd og tekjuáætlunin algerlega óafgreidd? Og hver hefur hér á hv. Alþingi slegið fastri einhverri tekjuáætlun fyrir útflutningssjóð, sem verði svo að haga innflutningnum eftir? Það hafa engar áætlanir enn þá verið gerðar endanlega um þetta ár, hvorki varðandi tekjur ríkissjóðs né útflutningssjóðs. Þess vegna er þetta alveg út í bláinn hjá hv. þm. En þetta, sem hv. þm. sagði, sýnir náttúrlega greinilega, að Sjálfstfl. er samþykkur þessari stefnuyfirlýsingu, sem hæstv. viðskmrh. gaf, og það er vitanlega þýðingarmikið og raunar aðalatriði að hafa fengið það fram, því að allt það, sem hv. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, sagði, var til þess að mæla með stefnu ráðherrans, menn væru bundnir við þennan hátollavöruinnflutning, hann yrði svona að vera, eins og hæstv. ráðh. hefði lýst yfir, og það væri bara óviðunandi skætingur hjá 1. þm. S-M. að vera að finna að þessu. Þetta væri einhver örlagadómur, sem hefði verið kveðinn upp, og honum yrðu menn að hlíta. Innflutningurinn á hátollavörunum yrði að vera þessi, og það væri hreint ábyrgðarleysi, ef einhver vildi hafa hann öðruvísi eða minni. — Þetta var tónninn í því, sem hv. þm. sagði.

Á þessu sjáum við greinilega, hvert stefnir, og það er út af fyrir sig ágætt, að það komi fram. En ég leyfi mér að mótmæla þessu sjónarmiði, og ég leyfi mér að setja undir það stórt strik, sem kom fram í ræðu hæstv. viðskmrh., að í framkvæmdinni var þessum málum ekki hagað svona hjá fyrrv. ríkisstj. Það var gerð áætlun með fyrirvara, sem varð til þess, að sú áætlun hlaut að víkja fyrir raunveruleikanum. En nú lýsir hæstv. ráðh. því yfir, að hátollavörurnar skuli koma og menn geti verið vissir um það, hitt verði að víkja. Ég mótmæli því.