04.03.1959
Sameinað þing: 31. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í D-deild Alþingistíðinda. (2298)

121. mál, innflutningur véla og verkfæra

Lúðvík Jósefsson:

Það var aðeins út af þessum ummælum hjá hv. 1. þm. Reykv. Það er rétt, sem ég upplýsti hér áður, að bæði árin 1955 og 1956 var gjaldeyriseyðsla til innflutnings á þessum vörum, sem kallaðar eru hátolla vörur, miklum mun meiri en á árunum 1957 og 1958. En það er rangt hjá honum að halda því fram, að gjaldeyrisleg afkoma þjóðarinnar hafi verið miklu betri á árunum 1955 og 1956, en á árunum 1957 og 1958, og vitanlega sannar það ekkert í þeim efnum, þó að hann nefni það til, að skuldir ríkisins hafi vaxið. Í rauninni furðar mig á málflutningi hans hér síendurteknum á Alþ. að óskapast yfir því, að skuldir íslenzka ríkisins kunni að hafa vaxið. Eftir þessari kenningu skilst mér t.d., að við ættum alls ekki að kaupa okkur 15 togara, af því að við þurfum að taka lán til þess. Auðvitað er ekki hægt að kaupa hér 15 togara til landsins, sem kosta yfir 200 millj. kr., án þess að við tökum erlend lán til þess. (Gripið fram í.) Það er rétt, sem hér hefur líka verið kallað fram í, í sambandi við Sogsvirkjunina. Auðvitað hefði verið hægt að skulda þeirri fjárhæð minna af hálfu Íslendinga, sem nemur þeirri lántöku, sem gengur til þess að virkja Sogið. Ef um það er að ræða, að skuldir ríkisins vaxi, á sama tíma sem arðbærar eignir vaxa ekki eða koma ekki til greina, er vitanlega um hættulega skuldasöfnun að ræða. En um skuldasöfnun, sem stendur á móti hagstæðum eignum, sem landsmenn þrá að eignast og eru hagstæðar fyrir afkomu þjóðarinnar, það er alveg furðulegt, að menn skuli vera að endurtaka það í sífellu, að það sé eitthvað voðalegt, að stofnað hefur verið til slíkra skulda. Það var því ekki um breytta stefnu í þessum efnum á neinn hátt að ræða frá því, sem áður var. Hér var aðeins um það að ræða, að innflutningur á þessum svonefndu hátollavörum var eins lítill á árunum 1957 og 1958 og nokkur leið var að hafa þann innflutning. Og borið saman við árin á undan, var innflutningur þessara vara miklum mun meiri, einnig borið saman við gjaldeyristekjur þjóðarinnar á þeim tíma og gjaldeyrissöluna á þeim sömu árum.