13.11.1958
Efri deild: 18. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

40. mál, þingsköp Alþingis

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Árið 1951 var sú breyting gerð á 16. gr. laga um þingsköp Alþingis, að kjósa skyldi þrjá menn innan utanrmn. í sérstaka undirnefnd. Þingið skyldi eftir sem áður vísa málum, sem teldust til utanríkismála, til utanrmn. til meðferðar. En utanrmn. sjálf skyldi ekki lengur vera til samstarfs og samráðs við ríkisstj., heldur átti þessi þriggja manna nefnd að gera það, bæði á þingtíma og utan þingtíma.

Reynslan af þessari breytingu hefur orðið sú, að utanrmn. hefur að jafnaði ekki haldið nema tvo fundi á ári, annan til að kjósa sér formann og ritara, hinn til að kjósa þriggja manna undirnefnd.

Ég hef athugað í utanrrn., hvort nokkur skilríki finnist þar fyrir því, að hve miklu leyti samráð hefur verið haft við þessa þriggja manna undirnefnd, síðan hún var lögtekin, en hef ekki getað fundið þar nein skilríki fyrir því, að samráð hafi yfirleitt verið haft við þessa þriggja manna nefnd. Þar finnast engar fundargerðir og engin skjöl, sem benda til neins slíks samstarfs. Það mun þó rétt til getið, að ráðherra hafi rætt við þessa þrjá nefndarmenn, þegar honum hefur þótt ástæða til, án þess að haldnir hafi verið formlegir fundir eða nokkrar bókanir liggi fyrir um það, sem þar hefur gerzt.

Þetta er óviðkunnanlegt fyrirkomulag. Það er nauðsynlegt fyrir ríkisstj. að hafa samráð við utanrmn. á sem breiðustum grundvelli, þannig að hægt sé að hafa samráð og samstarf við þingflokkana yfirleitt.

Af þessum ástæðum er frv. þetta lagt fyrir Alþingi. Þingflokkarnir hafa haft samráð um að hraða málinu og vænti ég þess, að unnt verði að ljúka afgreiðslu þess hér í deildinni í dag.