04.03.1959
Sameinað þing: 31. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í D-deild Alþingistíðinda. (2302)

174. mál, niðurgreiðsla vöruverðs

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það er ástæðulaust að hafa nokkra framsögu um þessa fsp., sem er í þremur liðum. Ég ætla bara að lesa upp liðina áheyrendum til glöggvunar. 1. liður er svona: Um hve mörg stig lækkar framfærsluvísitalan vegna áhrifa laga um niðurfærslu kaupgjalds og verðlags? 2. liður er: Hvaða vörutegundir eru nú greiddar niður, og hve miklu nemur niðurgreiðslan á hverri vörutegund miðað við kg eða lítra? Og 3. liður er: Hvað er áætlað að niðurgreiðsla á hverri vörutegund nemi miklu samtals á yfirstandandi ári?

Þá vildi ég leyfa mér að bæta við, af því að það mundi vera enn gleggra, ef hæstv. ráðh. gæti upplýst það í leiðinni, en það náttúrlega nær þá ekki lengra, ef það er ekki hægt, en ég hugsa, að það sé mjög auðvelt, hvort vísitalan væri raunverulega komin í 202 stig með þeim niðurgreiðslum, sem eru núna, eða hvort eitthvað vanti upp á og hvað stjórnin hafi þá í hyggju í því sambandi. Enn fremur, hvort hann vildi þá vera svo vinsamlegur að nefna okkur til glöggvunar, hve mörgum stigum nemi þær niðurgreiðslur, sem bætt hefur verið við í tíð núv. stjórnar í heild, og hvort hann hafi þá kannske líka á reiðum höndum upplýsingar um það, hvað mikið sú viðbót út af fyrir sig kosti. Mig minnir endilega, að í umr. þeim, sem urðu hér um frumvörp stjórnarinnar, hafi verið gert ráð fyrir því, að þær niðurgreiðslur, sem þá hafi verið bætt við, mundu kosta um 75 millj. kr. eða svo. Þá væri spurningin, hversu miklu þetta næmi núna, viðbæturnar í heild. Annars nær það auðvitað ekki lengra, ef hæstv. ráðh. hefur þær tölur ekki til, því að ég get ekki vænzt svars um annað en það, sem er í skriflegu fyrirspurninni. En niðurgreiðslurnar eru nú orðnar svo tröllaukinn þáttur í okkar þjóðarbúskap, að mér fannst full ástæða til, að það kæmi fram, hvernig því máli er háttað í einstökum atriðum.