15.04.1959
Sameinað þing: 38. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í D-deild Alþingistíðinda. (2315)

140. mál, verðbætur bátaútvegsins

Fyrirspyrjandi (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Svo sem kunnugt er, hefur af hálfu ríkisvaldsins um hver áramót nú að undanförnu verið gerður sérstakur samningur við útveginn um hans rekstrargrundvöll fyrir það ár, sem þá fór í hönd. Þetta var einnig gert nú um áramótin. En þó er sá munur á þeim síðasta samningi og þeim, sem gerðir voru a.m.k. tvö næstu ár þar á undan, að ekkert hefur legið fyrir til þessa um fiskverð það, sem fiskkaupendur ættu að greiða til útvegsmanna, þegar þeir taka á móti aflanum eða þegar þeir greiða eða þegar þeir gera upp við þá. Af þessu hefur hlotizt hinn mesti bagi, þannig að verð það, sem fiskvinnslustöðvar greiða til útvegsmanna nú, er ákveðið af stöðvunum sjálfum og mismunandi hátt á ýmsum stöðum eða þá greiddar eru beinlínis einhverjar áætlunarupphæðir, sem enginn veit enn þá, hverjar endanlega eiga að vera.

Á undanförnum árum mun það hafa verið svo, að Landssamband ísl. útvegsmanna hefur f.h. útvegsbænda gert samning um það við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og sjálfsagt fleiri fiskkaupendur eða fiskverkunaraðila, hvað ætti að vera útborgunarverð þeirra til bátaútvegsmanna, og mun ríkisstj. hafa sett sinn stimpil á það samkomulag. Hins vegar hefur ekki komið til þess nú, að L.Í.Ú. hafi gert samninga við fiskverkunaraðilana um þetta, og má það eiga einhvern þátt í þeim drætti, sem orðið hefur hér á, að bátaútvegsmenn eru eða hafa verið mjög óánægðir með það verð, sem í þeirra hlut hefur komið á undanförnum árum, og hafa þeir bent m.a. á það, að þar sem fiskverkun hefur farið fram á félagslegum grundvelli, hafa fiskvinnslustöðvarnar sannarlega getað greitt nokkru hærra verð, a.m.k. sums staðar, til bátaútvegsmanna, heldur en hið almenna verð hefur verið. Þannig hefur t.d. einn verkunaraðili i Vestmannaeyjum greitt þeim bátaútvegsmönnum, sem höfðu samskipti við hann, allt að 16 aura verðbætur á hvert kg af þorski, slægðum með haus, og önnur vinnslustöð á þeim stað hefur greitt 5 1/2 % í uppbætur á innlegg til bátaútvegsmanna, og ekki er nema eðlilegt, að slíkar staðreyndir sem þessar komi fram í verðákvörðun til útgerðarmannanna sjálfra.

Nú er sem sagt komið undir vertíðarlok og ekkert fiskverð hefur verið ákveðið til bátanna, enn þá. Þetta veldur hinum mestu óþægindum, og fyrir því hef ég gert hér fyrirspurn til ríkisstj. um það, hvaða verð skuli gilda i þessum efnum. Mér sýnist einnig í samningi þeim, sem gerður var af ríkisstj. hálfu um rekstrargrundvöll útvegsins við Landssamband ísl. útvegsmanna, að þar sé gert skilyrði um það í 15. lið þess samnings, að ríkisstj. samþykki skiptin á þeim verðbótum, sem útgerðinni eru greiddar. Í 15. lið segir sem sagt, með leyfi forseta: „Verðbætur bátaútvegsins úr útflutningssjóði verði greiddar í gegnum L.Í.Ú., eins og verið hefur, en samtökin skipti upphæðunum milli útvegsmanna eftir reglum, sem sjútvmrh. samþykkir.“ Ég vildi einnig spyrja um það, hvort sjútvmrn, hefur samþykkt einhverjar reglur um þetta, auk þess sem ég vænti þess, að hæstv. ráðh. svari því, hvaða fiskverð eigi að gilda, eða ef ekki er búið að ganga frá ákvæðum um þetta, hvernig standi þá samningar um þetta og hvenær megi vænta þess, að á þessi mál verði komið skipulagi.