15.04.1959
Sameinað þing: 38. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í D-deild Alþingistíðinda. (2318)

140. mál, verðbætur bátaútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var aðeins í tilefni af ummælum, sem hér féllu. Mér fannst það liggja í orðum hæstv. forsrh., að hér væri í rauninni farið samkvæmt venju, sem áður hefði verið í þessum efnum. Hann hefði dregið það í lengstu lög að kveða upp úrskurð um það, hvaða fiskverð fiskkaupendur eða hraðfrystihúsin fyrst og fremst ættu að greiða bátunum fyrir nýjan fisk, nú á þessari vertíð, af því að hann hafi vænzt þess, að þeir kæmu sér saman um þetta, eins og áður hefði verið gert. En ég vil benda á, að að þessu sinni hafa verið höfð alveg gerólík vinnubrögð í þessum efnum við það, sem áður var: Þannig hafði verið frá samningum gengið alltaf áður, að strax í upphafi vertíðar var alveg frá því gengið sem grundvallaratriði í samningunum, hvaða verð frystihúsin eða fiskkaupendur ættu að greiða bátunum út, og síðan, hvaða viðbótaruppbótarprósentu bátarnir ættu að fá í sinn eigin hlut til útdeilingar í gegnum Landssambandið til einstakra báta. Það var sem sé grundvöllur samninganna, að sagt var við frystihúsaeigendur: Þið fáið tilteknar útflutningsuppbætur á útfluttar afurðir ykkar gegn því skilyrði, að þið greiðið bátunum tiltekið verð út strax og að þeir fái síðan tiltekinn hluta af útflutningsprósentunni. En núna var þessu hagað á gersamlega annan hátt. Nú er aðeins samið um þetta allt í einu lagi til útvegsmanna, jafnt fiskkaupara sem báta, og það er sem sagt fyrst nú, þegar komið er að vertíðarlokum, að það er ráðizt í að ákveða, hvaða verð frystihúsin eiga að borga bátunum á vertíðinni út fyrir hvert kg af fiski. Og það er vitanlega með öllu óþolandi fyrir bátaútvegsmenn að gera út báta sína mánuð eftir mánuð, þurfa að ganga sem beiningamenn til frystihúsanna og biðja um að borga eitthvað tiltekið út á fiskkíló, en þeir hafa engin plögg í höndunum um það, hvaða verð frystihúsunum ber að borga bátunum. Það er sem sé fyrst núna, þegar komið er að lokum vertíðar, að þetta er ákveðið, og þá er ákveðið, að frystihúsin eiga að borga fyrir nýjan fisk, miðað við þorsk, kr. 1.57 á kg. Það er auðvitað gott, að þetta skuli vera ákveðið nú. En ég tel, að hér hafi í rauninni tekizt mjög illa til og klaufalega í þessum efnum. Og í rauninni undrast ég það þó allra mest, að fulltrúar bátanna, sem áttu að gæta hagsmuna þeirra í samningunum, skuli hafa gengið þannig frá samningum að þessu sinni að hirða ekki um það í upphafi, að þeir ættu neitt ákveðið útborgunarverð, en ættu það allt undir ákvörðun allt annarra aðila síðar, hvernig skiptin yrðu.

Ég skal svo ekki heldur segja um það, ég dreg það í nokkurn efa, að það sé fullkomlega pottþétt, að þeir, sem keypt hafa fisk frá áramótum og fram að þessum tíma, séu raunverulega fullkomlega skyldir til þess að borga það verð, sem nú fyrst er upp kveðið um. Það þurfti ekki að bíða eftir samþykkt breytinga á lögum um útflutningssjóð, eldri lög voru í gildi um þetta, og þetta var í rauninni eðlilegt grundvallaratriði f samningunum um áramót, en var þá gengið fram hjá því illu heilli, og ber vitanlega að koma í veg fyrir það við næstu samninga.