10.10.1958
Efri deild: 1. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (2322)

Minning

Aldursforseti (JJós):

Hæstv. forseti lýðveldisins. Háttvirtu alþingismenn. Frá því er síðasta Alþingi sleit, hefur einn fyrrv. alþm. látizt, Sigurjón Þ. Jónsson, fyrrv. bankastjóri. Hann lézt í sjúkrahúsi hér í bæ 24. júlí s.l., áttræður að aldri.

Sigurjón Þorgrímur Jónsson fæddist 27. júní 1878 í Efra-Lýtingsstaðakoti í Tungusveit í Skagafirði. Foreldrar hans voru Jón bóndi þar og síðar á Stóru-Seylu Jónsson og kona hans, Björg Pétursdóttir bónda að Reykjum í Tungusveit Bjarnasonar. Hann lauk stúdentsprófi í Reykjavík árið 1901, var einn vetur kennari við gagnfræðaskólann á Akureyri, en sigldi því næst til Kaupmannahafnar og hóf þar verkfræðinám. Á árinu 1905 hvarf hann aftur heim til Íslands, var kennari við Flensborgarskólann 1905-1906, við barna- og unglingaskólann á Ísafirði 1906–1910 og skólastjóri þar 1910–1915. Hann starfaði að útgerð á Ísafirði 1915–1917 og aftur á árunum 1920–1926, en var hafnargjaldkeri í Reykjavík 1918–1920. Árið 1926 gerðist hann bankastjóri við útibú Landsbanka Íslands á Ísafirði og gegndi því starfi til ársins 1937. Eftir það dvaldist hann eitt ár í Kaupmannahöfn, en bjó síðan á Helgafelli á Seltjarnarnesi til dauðadags.

Sigurjón Þ. Jónsson sinnti fleiri trúnaðarstörfum, en hér voru talin. Á Ísafirði var hann umboðsmaður Brunabótafélags Íslands 1920–1937, afgreiðslumaður Eimskipafélags Íslands 1920–1927, var formaður fasteignamatsnefndar við matið 1930 og átti mörg ár sæti í bæjarstjórn. Eftir að hann fluttist að Helgafelli, var hann oddviti Seltjarnarneshrepps á árunum 1938–1946, starfaði sem trúnaðarmaður hjá hlutafélaginu Kol & Salt í Reykjavík, átti sæti í stjórn þess félags 1938–1943 og var framkvæmdastjóri þess um skeið. Hann var trúnaðarmaður Landsbanka Íslands hjá hlutafélaginu Alliance 1939–1941 og átti síðar sæti í stjórn þess félags. Eftir 1940 var hann um hríð endurskoðandi Eimskipafélags Íslands og meðstjórnandi Fiskifélags Íslands. Þingmaður Ísafjarðarkaupstaðar var hann á árunum 1924–1927, sat á fjórum þingum.

Sigurjón Þ. Jónsson gætti í hvívetna ýtrustu reglusemi í störfum, var röggsamur skólastjóri og árangur af kennslu hans mjög rómaður. Samvizkusemi hans við bankastjórn og sveitarstjórn var við brugðið og á sama veg mun hann hafa reynzt í þeim störfum öðrum, sem honum var til trúað. Hann var afkastamikill starfsmaður, reikningsglöggur og forsjáll. Í starfi sínu á Ísafirði sinnti hann einkum kennslumálum og útvegsmálum og á Alþingi átti hann sæti í sjávarútvegsnefnd og menntamálanefnd.

Sigurjón Þ. Jónsson var fyrirmannlegur í fasi, gæddur ríkum skapsmunum, en kunni að stilla þeim í hóf. Hann var trygglyndur og hollráður vinum sínum og átti ást og virðingu nemenda sinna. Mál sitt flutti hann af einurð og festu. Tvo síðustu áratugi ævinnar naut hann sín ekki að fullu sökum heilsubrests.

Ég vil biðja hv. þingheim að minnast Sigurjóns Þ. Jónssonar með því að rísa úr sætum. [Þingmenn risu úr sætum.]