11.05.1959
Sameinað þing: 48. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (2336)

Almennar stjórnmálaumræður

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Það er löngum haldið uppi ádeilum á ríkisstjórnir, núverandi og fyrrverandi, fyrir stefnu þeirra og verk. Til þess að reyna að draga fram hið sanna ætla ég að bera fram nokkrar spurningar og svör í samræmi við staðreyndir í ýmsum stærstu málum þjóðarinnar, sem hana skipta mestu um alla afkomu og velferð.

Ég ætla að bera fram nokkrar spurningar viðkomandi fyrrverandi ríkisstjórn. — Var ástandið gott, þegar fyrrv. ríkisstj. tók við? Nei, sjóðir voru allir tæmdir, flestar framkvæmdir að stöðvast vegna fjárþrots og útflutningsframleiðslan á heljarþröm. Þessu eymdarástandi kippti fyrrv. ríkisstj. í lag á fyrstu mánuðum valdatímabilsins.

Var framleiðsla þjóðarinnar rekin af kappi í tíð fyrrv. ríkisstj.? Já, aldrei með meira fjöri og minni stöðvunum.

Var atvinnuleysi? Það mun sjaldan eða aldrei hafa verið jafnari vinna um allt land. Voru miklar framfarir? Aldrei meiri framkvæmdir né jafnari um allt landið.

Hvernig voru tekjur almennings? Talið er, að þær hafi orðið með allra mesta og jafnasta móti um allt land.

Voru miklir fólksflutningar til suðvesturhluta landsins? Þeir næstum stöðvuðust.

Þetta eru staðreyndir, og þær tala sínu máli. Það er eftirtektarvert, að þeir stjórnmálaflokkar, sem felldu fyrrv. ríkisstjórn, hafa lagt sig meira fram við það, en flest annað, að telja þjóðinni trú um, að þeir séu saklausir af því verki. Skyldu þeir sverja af sér verkið vegna þess, að þeir haldi, að stjórnin hafi verið óvinsæl með þjóðinni? Þessu getur hver maður svarað fyrir sig.

Nú segir fyrrv. stjórnarandstaða að vísu: Fyrrv. ríkisstj. sveikst um að leysa efnahagsmálin og hljóp frá öllu, þegar dýrtíðaraldan var að skella yfir. Við skulum einnig athuga þetta í ljósi staðreyndanna. — Þegar fyrrv. ríkisstj. fékk samþ. efnahagslögin vorið 1958, opnuðust alveg nýjar leiðir til þess að skapa jafnvægi í öllum greinum efnahagsmálanna. Í grg., sem fylgdi efnahagsfrv. og allir fyrrv. ráðh. stóðu að, var skýrt fram tekið, að til þess að lögin næðu tilgangi sínum, mætti kaupgjald ekki hækka um meira en 5%. Ef hækkunin yrði meiri, færi dýrtíðarflóðið af stað og efnahagskerfið úr skorðum. Þegar þessi skýrsla, þessi staðreynd, birtist í útvarpi og blöðum, var eins og óteljandi árar væru settir í gang. Sjálfstfl. magnaði nú og margfaldaði fyrri áróður fyrir kauphækkun með íhaldsdeild Alþfl., og Þjóðviljinn, undir stjórn kommúnistadeildarinnar, birti æðisgengnar hvatningargreinar um nauðsyn kauphækkunar. Þessi samstillti áróður hlaut að bera tilætlaðan árangur. En hann var gerður gegn betri vitund. Allir kumpánarnir sem að áróðrinum stóðu, vissu upp á hár, að enginn grundvöllur var til fyrir kauphækkun. Þeir víssu hins vegar, að ef kaupið hækkaði nægilega mikið, kollvarpaði það efnahagsl. og felldi ríkisstjórnina.

Kaupið hækkaði um 6–10% umfram 5%, skemmdarverkið hafði tekizt. Nú var ekki annað eftir, en að láta Alþýðusambandsþingið neita að falla frá nokkru af þessum kauphækkunum í nokkurri mynd. Með samstilltu átaki sömu aðila heppnaðist það skemmdarverk einnig prýðilega, eins og landfrægt er orðið.

Tillaga ráðherra Framsfl., þar sem launamönnum voru tryggð sömu lífskjör og í febrúar 1958 eða í október 1958, voru felldar í ríkisstj., en úrslitakostir, sem Alþýðusambandsþing hafði verið látið samþykkja, gerðir að úrslitakostum í ríkisstj. og hún þar með felld, eins og til hafði verið stofnað með samfelldri hernaðaraðgerð.

Nú reyndi Sjálfstfl. að fá Alþb. og Alþfl. til að mynda með sér ríkisstj. Eftir að það mistókst, gaf Sjálfstfl. út hátíðlegan boðskap, dags. 9. des. 1958, um það, hvað þyrfti að gera til þess að koma efnahagsmálunum aftur í jafnvægi. Þar segir með stórri fyrirsögn:

„Lækkun kaupgjalds og verðlags. — Launþegar afsali sér 6% af grunnkaupi sínu, og verð landbúnaðarafurða breytist vegna hliðstæðrar lækkunar á kaupi bóndans og öðrum vinnukostnaði við landbúnaðarframleiðsluna. Þó verði grunnlaun engra stétta lægri, en þau voru, þegar efnahagsráðstafanir ríkisstj. tóku gildi s.l. sumar. Ráðstafanir þessar til stöðvunar verðbólgunnar eru aðeins fyrsta skrefið til jafnvægisbúskapar og heilbrigðrar þróunar í atvinnulífi þjóðarinnar.“

Í þessari yfirlýsingu er sagt, að kaupið þurfi að lækka aftur um 6%, þ.e. að launin þurfi aftur að lækka niður í það, sem ráðgert var í efnahagslöggjöf fyrrv. ríkisstj. Sagt er orðrétt, að þetta sé „fyrsta skrefið til jafnvægisbúskapar og heilbrigðrar þróunar í atvinnulífi þjóðarinnar“.

Með þessu játar Sjálfstfl. frammi fyrir alþjóð, að kauphækkunarherferðin hafi verið vísvitandi skemmdarverk. Til þess að hægt sé að stjórna landinu sé hið fyrsta nauðsynlega að lækka kaupið aftur.

Ég hef heyrt ýmsa sjálfstæðismenn halda því fram, að þessi játning hafi komizt í Morgunblaðið af vangá. Það skiptir engu máli. Hin gífuryrta og margendurtekna árás Sjálfstfl. á fyrrv. ríkisstj. fyrir að hafa ekki leyst efnahagsmálin verður heldur rislág, þegar fyrir liggur játning um það, að það var Sjálfstfl. og kumpánar hans, sem með vísvitandi skemmdarverkum komu í veg fyrir lausnina. Það er svo mál út af fyrir sig, að þegar samið var við Alþb. 1956 um stjórnarsamstarf, hellti Sjálfstfl. og handbendi hans óhróðrinum yfir hinn vestræna heim út af þessari stjórnarmyndun, taldi þetta samstarf stórhneyksli og varaði hinar vestrænu þjóðir við hættunni, kommúnistar mundu öllu ráða í ríkisstj. Áhrif þessa áróðurs til þess að vinna þjóðinni ógagn út á við urðu veruleg. En fyrsta verk Sjálfstfl., eftir að fyrrv. ríkisstj. féll, var að knékrjúpa kommúnistum og biðja þá fund eftir fund að koma með sér í ríkisstj. Finnst ykkur þetta ekki sýna heiðarleik og heilindi og andlegan skyldleika við framkomuna í efnahagsmálunum ?

Illyrtar og margtuggðar eru árásir Sjálfstfl. á fyrrv. ríkisstj. út af því, að hún hafi tekið mikil lán, og hvar í veröldinni sem til stóð að taka þessi lán, voru þau kölluð mútur. Þó voru lán fyrrv. ríkisstj. tekin eins og lán höfðu verið tekin áður, sbr. Marshallhjálpina. En Sjálfstfl. hefur verið hálfskömmustulegur og litið minnzt á lántökur undanfarið. Ástæðan er sú, að nú nýlega var farið í fótspor fyrrv. ríkisstj. og lán tekið í Bandaríkjunum. Einnig á þessu sviði þurfti Sjálfstfl. að ganga á bak orða sinna, ómerkja áróður sinn og verða sér til minnkunar.

Ár eftir ár hefur Sjálfstfl. sagt þjóðinni, að ríkisreksturinn væri mesta sukk, sem yrði auðvitað lagfært, þegar flokkurinn kæmi þar nærri. Meðan Eysteinn Jónsson vann með sjálfstæðismönnum, bað hann þá hvað eftir annað um sparnaðartillögur; þær komu aldrei. Nú hafa sjálfstæðismenn haft sérfræðinga sína við skoðun fjárl. í 4 mánuði með fjmrh. Útkoman er eins og af öðru, sem þeir hafa sagt: Sparnaðartillögur fyrirfinnast ekki, nema ein einasta, um innheimtu orlofsfjár, nokkur hundruð þúsund. En í þess stað eru verklegar framkvæmdir, raforkuframkvæmdir alveg sérstaklega, skornar niður, svo að skiptir tugum milljóna. Orðheldnin er söm við sig hjá Sjálfstfl., einnig í þessu máli.

Þó er framkoma Sjálfstfl. í landhelgismálinu eitt hið mesta óþurftarverk, sem hann hefur unnið. Eftir útfærsluna lék flokkurinn lengi vel tveim skjöldum, sem var til þess fallið að ýta undir þá skoðun með erlendum þjóðum, að við Íslendingar stæðum ekki saman í málinu. Jafnframt var látið skina í þá fjarstæðu, að það væru kommúnistar, sem stæðu að þessum aðgerðum okkar. Þetta var einnig til hins sama fallið. Ég efast um, að Bretar hefðu ráðizt í þá óhæfu, sem þeir hafa undanfarið framið við Íslandsstrendur, ef þeir hefðu ekki vegna þessara blaðaskrifa og fleira haldið, að íslenzka þjóðin stæði ekki einhuga í málinu.

Talað hefur verið með talsverðum hávaða um að kæra athæfi Breta fyrir ráði Norður-Atlantshafsbandalagsins. Kæran getur þýtt tvennt, þ.e. tvær ólíkar leiðir. En Sjálfstfl. hefur margspurður aldrei fengizt til að segja, hvað hann meinar. Kæran getur þýtt það, að við séum með henni að gefa til kynna, að við viljum, að ráð NATO beiti sér fyrir því, að teknir séu upp samningar í málinu. Málið var til ýtarlegrar umræðu í NATO. Að biðja um að taka það þar upp aftur getur falið í sér undanhald. Þá leið tel ég óhugsandi með öllu. En kæran getur líka þýtt annað og meira. Hún getur þýtt það, að ef NATO-ráðið geti ekki fengið Breta til þess að hætta ofbeldisaðgerðum sínum, verði málinu af Íslands hálfu fylgt eftir með viðurlögum. Á þessa leið var bent í samþykktum frá Akranesi, sem voru hinar fyrstu. Einnig var bent á það sama í samþykktum stúdentafundar og í samþykktum Skagfirðinga nýlega. Það getur komið að því innan stundar, að ekki verði hjá því komizt að athuga þessa leið, — ekki hina fyrrnefndu, heldur hina síðarnefndu.

Sjálfstfl. hefur oft ráðizt á fyrrv. ríkisstj. fyrir það að framkvæma ekki þál. frá 28. marz 1956 um brottför hersins. Á þeim tíma, sem samþykktin var gerð, 28. marz, var friðvænlegt í heiminum og friðarhorfur bjartar. En á þeim tíma, sem átti að semja um brottför hersins, haustið 1956, hafði hvort tveggja brotizt út, uppreisnin í Ungverjalandi og styrjöldin í Súez, sem olli því, að heimurinn var að allra áliti nær heimsstyrjöld, en hann hefur verið nokkurn tíma, síðan heimsstyrjöldinni lauk.

Þeir Íslendingar munu vera mjög fáir, sem töldu annað koma til mála en að fresta samningum um brottför hersins, eins og á stóð.

Skoðanir framsóknarmanna og stefna, sem fram kemur í ályktuninni 28. marz, hefur ekki breytzt, en horfurnar, sem þá voru í heimsmálum, gerbreyttust, án þess að nokkur gæti séð það fyrir 28. marz. Þetta eru sögulegar staðreyndir.

En er nú saga Sjálfstfl. slík í hervarnarmálunum, að hann sé þess um kominn — þar frekar, en á öðrum sviðum — að gera sig að dómara yfir öðrum? Þegar við gerðumst þátttakendur í NATO, var það með því fororði, sem þáverandi utanrrh., Bjarni Benediktsson, fékk loforð fyrir, að her skyldi aldrei vera á Íslandi á friðartímum. Þegar herinn var tekinn inn í landið vegna meintrar yfirvofandi stríðshættu vegna Kóreu-styrjaldarinnar, var ákveðið, að hernum mætti víkja úr landi með 18 mánaða fyrirvara. — Hvernig Bjarni Benediktsson lét herinn vaða hér uppi eftirlitslaust, er saga, sem þjóðin þekkir og er ekki búin að gleyma. Það vansæmdar- og niðurlægingarástand, sem þjóðin var komin í vegna þess, var fyrst lagfært verulega, er dr. Kristinn Guðmundsson tók við störfum sem utanrrh. Nú notar Bjarni Benediktsson hvert tækifæri til þess að ráðast á dr. Kristin Guðmundsson og til þess að smeygja þeirri hugsun inn hjá landsmönnum í ræðu og riti, að friðarhorfur hafi ekkert að segja, meðan kommúnismi sé til, logi allt undir yfirborðinu og því viti enginn, hvenær ófriður gjósi upp. Þessi röksemdafærsla þýðir auðvitað, að her þurfi að vera á Íslandi, meðan heimskommúnisminn er til. Við þessari stefnu skyldu menn gjalda varhuga.

Árás Sjálfstfl. á fyrrv. ríkisstj. fyrir að hafa ekki framkvæmt áætlunina frá 28. marz er eingöngu yfirdrepsskapur, til þess gerður að leiða athyglina frá því, sem hann sjálfur er að fara og reyna að leiða landsmenn inn á. Einnig í þessu máli er Sjálfstfl. samur við sig. Það er stíll í öllu þessu.

Það er erfitt að segja, hvar Sjálfstfl. kemst lengst í óhellindum, sem víða verða augljós, þegar hann nú kemst í stjórnaraðstöðu og á að standa við fyrri orð. Það er mál út af fyrir sig, að sjálfstæðismenn héldu því fram dögum saman á Alþ., að Alþýðuflokksþingmenn væru flestir ólöglega kosnir og ættu að víkja af þingi, en nú nota þeir þessa ólöglega kosnu þm. fyrir ríkisstj. og til þess að fela sig og úrræðaleysi sitt bak við. Og eitt helzta málið, sem Sjálfstfl. nú beitir sér fyrir, er byltingarkennd breyting á kjördæmaskipun landsins. Í þessu stóra máli hafa flestir af forvígismönnum Sjálfstfl. fyrr sagt skoðun sína, svo að þjóðin hefði átt að mega vita, hvar Sjálfstfl. stóð, ef orðum foringjanna væri treystandi. Það er óþarft að lesa hér öll þessi ummæli og svardaga, en það er skemmst af því að segja, að þar er þjóðin fullvissuð um það, að lífsnauðsyn sé fyrir héraðakjördæmin að hafa sérstaka fulltrúa, þess vegna komi aldrei til mála að taka þessa fulltrúa af dreifbýlinu með því að breyta kjördæmaskipun landsins, þannig að hlutfallskosningar verði í stórum kjördæmum. Þetta eitt sé víst og það, sem allir geti reitt sig á. Og þetta ætti nú öllu öðru fremur að geta staðizt, þar sem álit hlutfallskosninga fer stöðugt minnkandi. Þær þjóðir, sem hafa breytt kosningalögum og stjórnarskipun seinni árin, hafa horfið frá hlutfallskosningum. En nú hefur Sjálfstfl. komið sér upp ríkisstj. til þess að gera einmitt það, sem formaður hans lofaði m.a., að aldrei skyldi gert. Nú er rétt úr ránfuglsklóm til að hrifsa það, sem lofað var, að aldrei skyldi snert, sjálfstæði kjördæmanna og réttur þeirra til að hafa sérstakan þm. Og nú er rökunum alveg snúið við: það að leggja kjördæmin niður, þurrka þau út, afmá, það er nú kallað að styrkja þau. — Hvað er það, sem Sjálfstfl. getur ekki boðið kjósendum sínum án nokkurs tillits til þess, hvað hann hefur sagt um málið áður, ef hann getur boðið þeim þetta með sæmilegum árangri?

En nú þykjast forvígismenn Sjálfstfl. báðum fótum í jötu standa og tala drýgindalega. M.a. er sagt við bændur: Gætið ykkar, ykkur er að fækka, hafið hægt um ykkur, komið ykkur vel við okkur, annars mun ykkur illa farnast. Í ofmetnaði sínum virðast þessir menn ekki skilja það, að bændur eru um ófyrirsjáanlegan tíma, ein stærsta stétt þjóðarinnar og ein hin máttugasta, ef hún vill láta sér lærast að treysta nægilega félagssamtök sín, eins og aðrar stéttir gera. Samstillt bændastétt er fær um að halda rétti sínum fyrir hverjum sem er. En þessar hótanir, þótt dulbúnar séu, sýna betur, en allt annað, hvert er stefnt með kjördæmaráninu. Það staðfestir og niðurskurður verklegra framkvæmda úti um landið, þó að það sé aðeins örlítil byrjun á því, sem síðar kemur.

En þrátt fyrir alla hringsnúninga og hringsól Sjálfstfl. tekur þó út yfir allan þjófabálk, þegar kemur að lausn efnahagsmálanna. Sjálfstfl. hefur talað og skrifað mikið um fyrirhugaðar stóraðgerðir sínar í þeim málum, ef hann aðeins fengi að fara um þessi mál höndum. Hver eru úrræðin? Þau fyrst, sem ég hef nefnt, að fella niður þá kauphækkun, sem launamönnum var í sumar sagt að væri sáluhjálparatriði og réttlætismál að þeir fengju. Og þeir fengu hana. Nú er stofnað til þess með miklum umsvifum að bjarga þjóðinni út úr dýrtíðarflóðinu. Og þá er það allt í einu orðið jafnmikið réttlætismál og sáluhjálparatriði að taka af launþegum aftur kauphækkunina, sem var svo nauðsynleg kjarabót s.l. sumar. Þetta er aðalráðstöfunin. Og svo er vísitala borguð niður í 175 vísitölustig og þjóðinni sagt, að búið sé að ráða niðurlögum dýrtíðarinnar. Þessar niðurgreiðslur kosta talsvert á annað hundrað millj. kr. eða eins mikið og meginhluti verklegra framkvæmda, sem fé er veitt til á fjárlögum. Til viðbótar þessum geysilegu niðurgreiðslum eru svo stórauknar bætur til útflutningsframleiðslunnar. Þetta ásamt nokkrum minni upphæðum veldur hækkun útgjalda fyrir ríkissjóð og útflutningssjóð, sem nemur um 250 millj. kr. Þetta er jafnað með því að eyða milljónatugum af tekjuafgangi síðasta árs, fá 25 millj. með hækkun áfengis og tóbaks, ná 25 millj. kr. með hækkun innflutningsgjalda á bílum og auka stórkostlega innflutning þeirra. Hitt er svo jafnað á pappírnum með niðurskurði fjárveitinga til verklegra framkvæmda, falskri lækkun á lögboðnum útgjöldum fjárlaga og hækkun á tekjuáætlun fjárlaganna, er nemur um 60 millj. kr.

Rétt fyrir jólin birtir Morgunbl. grein með fyrirsögninni: „Almenningur borgar hvern eyri, sem fer í niðurgreiðslurnar.“

Nú er þó fólki allt í einu talin trú um, að dýrtíðin sé stöðvuð, a.m.k. í bráð, með niðurgreiðslum. Nú er þjóðinni sagt, að engar álögur þurfi á almenning til þess að greiða dýrtíðina niður, því að fjárlögin séu tekjuhallalaus þrátt fyrir mikið á annað hundrað millj. króna niðurgreiðslur. Stjórnarflokkarnir segja þetta á móti betri vitund. Þeir vita, að stórfelldur tekjuhalli vofir yfir, og afleiðingarnar koma í ljós í haust. Þá verður krafizt mikilla álagna á almenning eða gengisfellingar. Það á að blekkja almenning fram yfir tvennar kosningar, til þess er Alþýðuflokksstjórnin notuð og til að dylja, að Sjálfstfl. hefur engin úrræði. Hverjum dettur í hug, að flokkurinn sýndi ekki úrræði sín fyrir kosningar, ef þau væru til og vinsæl?

Ég hef dregið fram nokkrar staðreyndir um Sjálfstfl. Reglan virðist vera loforð, að lofa og vanefna. Ekki vil ég halda því fram, að þetta sé óbrigðul regla, þó að hún sé nærri lagi. Hið sanna er, að flokkurinn miðar öll sín viðhorf til málefna og manna við hagsmuni fámennrar klíku, sem ræður flokknum og sækist með sjúklegri áfergju eftir völdum og auði. Málefni er gott eða illt, einstaklingur góðmenni eða fúlmenni, eingöngu eftir því, hvort hann styrkir klíkuna eða vinnur á móti henni. Á þessa vog er kjördæmamálið auðvitað fyrst og fremst vegið. Þess vegna verður afstaða til þess máls eins og allra annarra mála eitt í dag og annað á morgun, allt eftir því, sem hæfir hagsmunum klíkunnar. Þeir, sem ekki skilja þetta, láta blekkjast. En ef menn skilja þetta innsta eðli Sjálfstfl., verður flest í fari hans auðskilið.

Formaður Sjálfstfl. ræddi eitt sinn um þrenns konar hagsmuni, sem hann vildi berjast fyrir. Röðin var ósjálfrátt þessi: fyrst hagsmunir okkar, næst hagsmunir flokksins, síðast hagsmunir þjóðarinnar. Þetta var prentað eftir honum í Mbl. og var umræðuefni um land allt. Út frá þessu ættu menn t.d. að skilja, hvers vegna íhaldinu er orðið svona hlýtt til flestra forvígismanna Alþfl. seinni árin.

Ég kem að lokum aftur að kjördæmamálinu. Það er höfuðmál þeirra alþingiskosninga, er nú fara í hönd. Um það stendur baráttan fyrst og fremst, a.m.k. víðast hvar á landinu, hvort flokksvaldinu á að líðast að sölsa undir sig rétt kjördæmanna. Héraða- og kaupstaðakjördæmi með sinn hefðbundna rétt til að eiga sérstaka fulltrúa á Alþingi Íslendinga eru meðal höfuðvirkja alþýðunnar til sjávar og sveita í baráttunni fyrir því að halda jafnvægi í byggð landsins og treysta grundvöll framtíðarinnar. Þessi varnarvirki ætla forustumenn Sjálfstfl. sér að brjóta niður, og þeim hefur tekizt að lokka skammsýna foringja hinna svokölluðu verkalýðsflokka til að ganga með sér að því verki. Sumir úr þeim hópi leyfa sér að segja, að þetta sé hagsmunamál verkalýðsins í landinu. Það er furðudjarft að halda slíku fram, þegar vitað er, að fjöldi verkamanna í kjördæmum, sem leggja á niður, er algerlega andvigur og hefur opinberlega mótmælt því, að þannig verði farið að.

Forustumenn þríflokkanna munu reyna að bera sig mannalega í þessum umr. En undir niðri er þeim órótt. Þeir hafa víða fengið orð í eyra í vetur frá mörgum þeirra, sem áður fylgdu þeim að málum. Mótspyrnuhreyfingin í kjördæmamálinu fer vaxandi, og hún mun enn færast í aukana fram að kjördegi. Nú reynir á það fyrir alvöru, hvort fólkið í byggðum landsins lætur bjóða sér hvað sem er, ef það, sem á að gera, hefur á sér einhvern vissan flokksstimpil, eða hvort menn leyfa sér að snúast til sjálfsvarnar, neita að þurrka út kjördæmi sitt og minna á, gefin heit. Væri ekki hollt fyrir okkur kjósendur í þéttbýlinu að leiða hugann að því næstu vikur, hvort við stöndum ekki í einhverri þakkarskuld við fólkið úti um landið, m.a. fyrir þann menningararf, er einn var svo máttugur, að hann gerði okkur þrátt fyrir veraldlegt umkomuleysi að sjálfstæðri þjóð í eigin vitund og aflaði okkur viðurkenningar annarra þjóða fyrir því, að við ættum skilið að vera sjálfstæð þjóð? Ættum við ekki að hugleiða það, hvort það muni auka giftu þéttbýlisins og þjóðarinnar í heild að veikja nú með kjördæmabyltingu aðstöðu einmitt þessa fólks í lífsbaráttu þess? Enn er þessu máli ólokið. Kjósendur eiga leikinn. Það er á þeirra valdi að fella frambjóðendur þríflokkanna í kjördæmunum og draga svo úr fylgi þeirra nú, að þeir fari að hugsa sig betur um. Það er ekki alveg vist, að það þurfi fullan helming atkv. í sumar á Alþingi til þess að fella það, sem nú hefur verið komið fram. Ef þríflokkarnir tapa nokkrum kjördæmum, munu einhverjir úr þeirra hópi gera sér ljóst, að kapp er bezt með forsjá, eða það ættu þeir a.m.k. að gera, ef þeir líta lengra, en til dagsins í dag.

Framsóknarmenn um land allt og aðrir andstæðingar kjördæmabyltingarinnar: Heilir hildar til, heilir hildi frá.