11.05.1959
Sameinað þing: 48. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (2337)

Almennar stjórnmálaumræður

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Háttvirtir áheyrendur. Eðli ríkjandi stjórnarstefnu má nokkuð marka af því, að það er höfuðeinkenni á núv. valdhafa landsins, Sjálfstfl., að hann leggur á það sérstaka áherzlu að segjast stefna að allt öðru, en hann framkvæmir og sýnast vera annar, en hann er. Í rökréttu samhengi við þetta hefur hann þó látið hjá líða þrátt fyrir valdaaðstöðuna að koma á stjórn í eigin nafni, og því er hér nú að formi til Alþfl.- stjórn, þó að stjórnarathafnirnar sverji sig beint í íhaldsættina. Þegar stjórnarstefnan er tekin til athugunar, verður því auðvitað fyrst og fremst að beina gagnrýninni að höfundi og eiganda stefnunnar, Sjálfstfl., þótt hann haldi sig í felum. En það er gamall siður slóttugra ribbalda að senda fákæna umkomuleysingja fram á athafnasviðið til fólskuverka og hugsa málið út frá því gamla og refslega sjónarmiði, að það sé gott að hafa strákinn með í förinni til að kenna honum um klækina.

Það var sem sagt Sjálfstfl., sem tók við völdum hér á messudegi hins blessaða Þorláks í lok jólaföstu í vetur, þó að Alþfl. legði til ráðherrana, og var það framlag Alþfl. til valdatöku íhaldsins raunar ekkert í líkingu við þrumu úr heiðskíru lofti, því að hluti flokksins hafði þá um skeið unnið að því kappsamlega með Sjálfstfl. að efla í verkalýðshreyfingunni óvild milli hennar og fyrrv. ríkisstj. Þar gerðust þessir kauplækkunarsamherjar meira að segja kaupkröfumenn um skeið, og núv. málgagn valdhafanna, Morgunblaðið, þreytti kapp við málgagn ráðherranna, Alþýðublaðið, um að ausa óhróðri á þau félagssamtök verkamanna, sem hugleiddu með gát, hverjar leiðir væru verkafólki farsælastar til bættra kjara. Eða hver man nú ekki lengur illmæli blaða þessara um Dagsbrúnarstjórnina fyrir það, að hún efndi ekki nógu fljótt til verkfalla til að ná fram hækkuðu kaupi, og allt þótti þeim of seint ganga með Dagsbrún, á meðan Dagsbrún undirbyggði mál sinna manna af festu og einbeitni? Þá taldi íhaldið kauphækkun sjálfsagða. Þá töldu kratarnir það glæpsamlegt að láta hjá líða viku eða daga að hækka kaup. Slíkt ætti að gerast á stundinni.

Í þessu höfðu núv. stjórnarflokkar raunar margt rétt fyrir sér. Vissulega var tekjuskipting þjóðarinnar röng á tímum þessa boðskapar, eins og hún alla daga hefur verið, þannig að hið vinnandi fólk fékk til sín minna af þjóðartekjunum, en sanngjarnt var. Svo hefur þetta jafnan verið, og er rangskiptingin raunar miklu meir í óhag hinu vinnandi fólki nú, en þá var.

Það þætti víst ekki vita á gott, ef kölski færi að þylja guðsorð. Og það vissi ekki heldur á gott, þegar íhaldið prédikaði kauphækkunina sem sinn boðskap.

Fyrstu lögin, sem núv. stjórnarvöld settu, hétu lög um niðurfærslu verðlags og launa. Það kom sem sagt í ljós, að fyrsta blaðið, sem hinir fyrrverandi kauphækkunarboðendur úr röðum íhalds og Alþfl. sýndu Alþingi, var einmitt frv. um kauplækkun, frv. um ógildingu allra kaupsamninga í landinu og lækkun á öllu kaupi um 13.4%, þ.e. um kr. 3.19 á hvern dagvinnutíma í almennri vinnu og um kr. 6.38 á hvern næturvinnutíma. Liðsinni það, sem þeir fáum mánuðum áður þóttust leggja verkalýðsstéttinni, reyndist ekkert nema skrumið eitt og eingöngu til þess ætlað að koma fjandmönnum vinnandi fólks á valdastóla til þess að rýra kjör þess, til þess að minnka hlutdeild þess í þjóðartekjunum.

Eftir að hið lögþvingaða kauprán hafði átt sér stað, hefði mátt ætla, að ekki væru maðkarnir í mysunni í íslenzku efnahagslífi, því að af hálfu þeirra, sem meta lítils hlut hins vinnandi fólks, er jafnan talið, að enginn efnahagslegur vandi eigi rætur til annarra hluta að rekja, en til of hárra kaupgreiðslna. Og það voru einmitt þeirrar skoðunar menn, sem nú höfðu stillt kaupið á það, sem þeim fannst hæfilegt.

En um svipað leyti og kauplækkunarhugsjónir stjórnarflokkanna urðu að veruleika kom einnig annað á daginn, sem ekki var með öllu heldur þýðingarlaust fyrir fjárhag hins opinbera. Á vegum stjórnarinnar hafði sem sagt verið gerður nýr verðbótasamningur við framleiðendur. Ekki getur samningur sá kostað minna en 100 millj. kr. í auknum útgjöldum og er sumpart fólginn í aukinni verðbótagreiðslu, en að nokkru í því, að ríkissjóði er gert að greiða að fullu lán þau, er ríkið er í ábyrgð fyrir vegna bráðafúaviðgerða á bátum, og er þar enginn skilsmunur gerður á, hvort lántakandinn, sem lánið fær upp gefið, er efnalega á flæðiskeri eða hvort sá, er gjöfina fær, er milljónamæringur og í engum vandræðum með skuldir sínar, en svo er því raunar háttað um suma þá, sem ríkisvaldið víkur nokkrum hundruðum þúsunda að gjöf í leiðinni, þegar samið er um rekstrargrundvöll yfirstandandi árs. En þetta voru raunar sömu samningarnir sem ráðizt var í aftan að sjómönnum og ríkisstj. hafði af fiskverði til þeirra um 90 kr. af hverju tonni hreinlega með því að hafa rangt við í samningunum við þá. En þær eru svo sem ekki hér með upp taldar, efnahagsráðstafanirnar, sem af stjórnarvaldanna hálfu voru framkvæmdar á öndverðu þessu ári. Í tveim áföngum hafa verið ákveðnar stórfelldar aukningar á niðurgreiðslu vöruverðs og þjónustu. Tók hin fyrri þeirra gildi í ársbyrjun, en hin síðari hinn 1. marz. Þessar auknu niðurgreiðslur eru taldar kosta 120 millj. kr. á þessu ári, en þó vafalaust nær 130 millj., ef framkvæmd verður niðurgreiðsla sú á innfluttum áburði, sem stjórnin hefur nú aflað sér aukaheimildar til.

Þegar til fjárlagaafgreiðslu kom, var ljóst, að núv. stjórnarflokkum hafði tekizt á sínum 4 mánaða valdaferli að efna til útgjaldaaukningar, sem gat ekki numið lægri fjárhæðum en 250 millj. kr., en það er upphæð, sem samsvarar næstum þriðjungi af heildartölu fjárlaga s.l. árs. Og þegar tillit er tekið til þess, að til hækkunarinnar er efnt á einum ársþriðjungi, þá verður skiljanlegt, að menn reki í vörðurnar, þegar spurt er, eins og einn hæstv. ráðh. hefur nýlega gert og með nokkru stolti, að því er virðist: Hvenær hefur nokkur stjórn gert eins mikið á jafnskömmum tíma? Hitt er annað mál, að almennt verður ráðh. sjálfsagt ekkert öfundaður af þessu Íslandsmeti sínu, og hins munu menn frekast vilja óska, að langur tími líði, áður en því verði hnekkt.

Nú ræður það af líkum, að þegar stofnað hefur verið til tröllaukinna útgjalda, samtímis því að vinnandi fólk er rúið kaupi, var ekki álitlegt að leggja á nýja skatta til að mæta gjöldunum, sem til hafði verið stofnað. Það skildi stjórnarliðið, og fór um það nokkur hrollur, enda höfðu kosningar verið boðaðar á þessu vori, og almenn skatta- eða tollaaukning hlaut að stinga illa í stúf við hina boðuðu stefnu um niðurfærslu. En nú voru góð ráð dýr. Fjárlög varð að setja. Þar varð að áætla og ákveða tekjur og gjöld ríkissjóðs. Útflutningssjóður, sem, inna skal af hendi niðurgreiðslur og verðbætur, varð einnig að sýna áætlun um tekjur á móti gjöldum. En með því að báðir þessir sjóðir fá að mestu tekjur af innflutningi, varð auðvitað einnig að gera áætlun um innflutning til landsins á árinu, og sú áætlun varð að sýna svo mikinn innflutning á gjaldahæstu vöruflokkunum, að tekjur hins opinbera drýgðust að verulegum mun og teygðust í áttina að því að mæta útgjöldunum.

Þessi innflutningsáætlun er raunar einhver veigamesta upplýsing, sem um það er fáanleg, hver stefna stjórnarvaldanna raunverulega er. Ráðherrar og hvers kyns valdamenn geta haldið ræður og sagt, að þeim búi þetta eða hitt í huga, að þeir vilji efla framleiðsluna, að þeir vilji treysta efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar og þar fram eftir götunum, og ekki vil ég efast um, að slíkar óskir hreyfi sér einhvers staðar inni fyrir hjá flestum þeirra. En af orðum þeirra einum saman verður ekki mikið ráðið um það, hver einlægni þeirra er. Það sést miklu betur á því, hvað þeir hugsa sér að flytja inn frá útlöndum fyrir gjaldeyri þjóðarinnar.

Þegar innflutningsáætlunin er skoðuð, kemur fyrst í ljós, að innflutningur fiskiskipa er ráðgerður stórum mun minni, en að undanförnu, raunar nokkru minni en svo, að ætla megi, að nægilegt sé til viðhalds fiskiskipaflotanum, svo að ekki sé minnzt á svipaða aukningu og varð á s.l. ári. Ekki verður þessi niðurskurður skipainnflutningsins skýrður með neinni almennri gjaldeyrissparnaðarnauðsyn, því að gjaldeyristekjur þjóðarinnar hafa aldrei verið meiri, en á s.l. ári, öll framleiðsla okkar er í fullum gangi og líkur til, að stefna núverandi stjórnarflokka geti þrátt fyrir allt ekki orðið svo fljótvirk, að framleiðslan dragist saman á þessu ári. En innflutningsáætlunin sannar, að stefnan í þessu efni er: fiskiflotinn skal minnka.

Hvað skal þá koma í staðinn fyrir fiskiskip, hvaða innflutning á að auka? Þess þarf ekki lengi að leita. Fólksbílainnflutning á að auka um 40%. Í fyrra voru fluttir inn rösklega 850 fólksbílar, nú eiga þeir að verða rúmlega 1.200. Sú stefna, sem fylgt hefur verið að undanförnu, að auka og bæta fiskiskipaflotann og kjör sjómanna, á nú greinilega að víkja, og þótt ekkert standi beinlínis um það í innflutningsáætluninni, getur það tæpast svifið fram hjá, svo að ekki verði eftir því tekið, að nákvæmlega samtímis ráðagerðunum um að láta bátaflotann rýrna er samið um að leyfa hinu erlenda hernámsliði að koma sér upp nýjum stöðvum einmitt í næsta nágrenni við aflasæl og uppvaxandi sjávarþorp vestur á Snæfellsnesi. Bílar hafa um langt skeið verið sá innflutningur, sem hæst aðflutningsgjöld og tolla hefur borið. Það var því auðvitað engin tilviljun, að einmitt á þeim skuli ráðgerður aukinn innflutningur.

En af stjórnarvaldanna hálfu hefur ekki verið látið sitja við það eitt að auka innflutninginn, sem út af fyrir sig væri ekkert ámælisvert, ef gjaldeyrisástæður leyfðu. En af þeirra hálfu hefur einnig verið ráðgert að hækka aðflutningsgjöldin af bílunum, þannig að í stað þess, að bilar hafa hér að undanförnu verið seldir á svo sem sexföldu innkaupsverði nýir út úr umboðum, verða þeir framvegis væntanlega seldir á sjö- eða áttföldu innkaupsverði, ef fram gengur lagafrv. stjórnarinnar um þetta efni, sem nú er hér til afgreiðslu á Alþingi.

Það er sem sagt eitt skrefið að því marki að sýna hallalausan ríkisbúskap á blaði, að efnt hefur verið til nýrra verðhækkana mitt í niðurfærslu verðlags og launa, eins og stefnan heitir, bæði á bílum og einnig á einkasöluvörum ríkisverzlana, áfengi og tóbaki. Upp úr þessu áætlar ríkisstj. samtals að hafa 50–60 millj. kr. Það er því með öllu rangt, sem stjórnarliðar fullyrða öðru hverju, að engar nýjar álögur hafi verið framkvæmdar.

Þessar ráðstafanir, sem þá hafa verið gerðar, hossa þó ekki hærra í hítina en svo, að nálægt 200 millj. kr. af bagga þeim, sem stjórnin hefur bundið þjóðarbúskapnum, eru samt óleystar. Og hvernig er ætlunin að standa undir þeirri byrði?

Nú vita það allir, sem fylgzt hafa með málum, að stjórnarvöldin gera enga raunhæfa tilraun til þess að láta tekjur yfirstandandi árs jafnast gjöldunum. Og þau hafa sýnt, að þau telja það engu máli skipta, þótt upp verði staðið frá skuldahaugum og galtómum hirzlum. En á pappírum sínum og plöggum leggja þau ofurkapp á að láta standa letrað, að gjöld og tekjur mætist. En einnig það hefði þeim orðið næsta erfitt, ef viðskilnaður fyrri stjórnar hefði verið slíkur sem sá næsti verður. Helming þeirrar upphæðar, sem þannig vantar, eftir að nefndar verðhækkanir hafa verið taldar til tekna, fá stjórnarvöldin að arfi frá fyrrv. ríkisstj. Tekjuafgangur ríkissjóðs á s.l. ári nam raunverulega um 70 millj. kr. auk óinnheimtra tollskulda. En af því að honum var að nokkru leyti varið til ýmiss konar lána fyrir s.l. áramót og einnig til þess að greiða upp eldra ríkislán, urðu þó ekki nema 25 millj. af honum eftir, sem hægt var að taka inn á tekjudálk fjárlaganna. Um 30 millj. kr. falla til í fjárlagatekjur með þeim hætti, að fyrri ríkisstj. lét lausar til Sogsvirkjunarinnar ýmsar efnivörur, án þess að tollur væri af þeim greiddur, og hafði þannig myndazt tollskuld, er ríkið átti hjá fyrirtæki þessu. Nú er á hinn bóginn ráðgert að innheimta skuld þessa í ár, og verkar skuldagreiðsla þessi því alveg á sama hátt og tekjuafgangurinn, enda raunverulega hluti af honum.

Við áramótauppgjör ríkissjóðs kom í ljós, að ýmsir og flestir tekjustofnar ríkisins gáfu mun meiri tekjur, en ætlað hafði verið á fjárlagafrv., og þannig voru tekjur ríkisins þar vanreiknaðar um eitthvað yfir 50 millj. kr. að minnsta kosti. Með því að breyta áætlun þessari hóflega og hirða þá fjármuni, sem eftir lágu beinlínis í kassa eða í skuldakröfum á Sogsvirkjunina, þegar fyrri stjórn stóð upp, hafði núv. stjórn Sjálfstæðis- og Alþfl. borizt í hendur eins konar happdrættisvinningur eitthvað yfir 100 millj. kr. að upphæð og auðvitað sá langstærsti, sem um getur hér á landi fyrr og síðar.

Þótt sögunni af því, hvernig íhaldsöflin, sem nú stjórna landinu, setja endanlega upp áætlanir sínar um fjármálastjórnina, sé hér ekki lokið, þá er þó engin leið að hlaupa svo hratt framhjá stóra happdrættisvinningnum, sem fjármálastjórn Eysteins Jónssonar færði íhaldinu upp í hendur, að þar sé ekki skoðuð nokkru nánar sú veila fyrri ríkisstj., sem ásamt íhaldssamvinnu Alþfl. í verkalýðshreyfingunni lagði framfarastefnu hennar því sári, að hún má sín nú ekki um skeið.

Það var einn helzti ágreiningur Alþb. og Framsfl. í fyrri ríkisstj., að undir forustu fjmrh. og með stuðningi Alþfl. leitaðist Framsfl. jafnan við að hafa skattheimtu hins opinbera af þjóðinni hærri og meiri en Alþb. taldi nauðsyn á. Þetta varð t.d. opinbert ágreiningsefni þessara flokka á s.l. vetri, og reyndi Tíminn mjög að ófrægja Lúðvík Jósefsson með því, að hann teldi tekjuþörf bæði útflutningssjóðs og ríkissjóðs minni, en hún raunverulega væri, og bar þar raunar svo á milli, að þar sem Lúðvík taldi í milljónatugum, þar nefndi Eysteinn til hundruð milljóna. Þegar svo tekjuaukningin var ákveðin með lögum um útflutningssjóð á s.l. vori, voru báðir auðvitað óánægðir, Framsfl., sem taldi tekjurnar ekki mundu hrökkva, og Alþb., sem taldi hér oftekið. Reynslan hefur nú sýnt, hvað rétt var. Með ráðstöfunum, sem þó voru allar hóflegri, en ella hefði orðið fyrir andspyrnu Alþb., var dýrtíðin aukin meira, en þörf var á, því að útflutningssjóður stóð við allar sínar skuldbindingar og greiddi upp gömul vanskil, en um 100 millj. kr. flóðu út af kassanum hjá Eysteini og hafa nú hafnað sem happdrættisvinningur hjá leppstjórn íhaldsins. Fyrir alla þá menn í landinu, sem vilja, að rekin sé raunveruleg vinstrisinnuð stjórnarstefna, er hér fenginn dýrmætur, en einnig dýrkeyptur lærdómur.

Þá er það ekki síður athyglisvert, einkum fyrir þá, sem treyst hafa á heiðarleik og einlægni Framsóknarforingjanna í vinstra samstarfi, að líta á það, hvernig stjórnarslitin fóru fram. Eysteinn Jónsson með 100 millj. kr. afganginn sinn gerði skilyrðislausa kröfu um, að verkalýðssamtökin samþykktu á sig kauplækkun til að vinna bug á þeirri dýrtíð, sem ekki hvað sízt hafði skapazt af óhóflega hárri skattheimtu. Um ráðstöfun á sjóði sínum var hann ekki til viðtals. Það var sem sagt ákveðið að slíta stjórnarsamstarfinu. Þingi verkalýðssamtakanna voru settir úrslitakostir, sem fyrir fram var þó vitað að þau mundu hafna. Slíkt var raunar aðeins að fullnægja formsatriði, sem skammsýnustu öflin í Framsfl. töldu sér henta á því augnabliki. Sú þröngsýni og sá einstrengingsháttur, sem þarna var að verki, er næsta torskilinn, þegar á það er litið, að allur þorri hinna almennu flokksmanna Framsfl. vildi víssulega og vill enn standa að heiðarlegu vinstra samstarfi um stjórn landsins.

En hvort sem hið furðulega framferði flokksforingjanna með afgangssjóðinn og kauplækkunarkröfuna hefur á sínum tíma heldur verið hugsað sem tilraun til að halda hinu mjög riðandi Hræðslubandalagi Framsóknar og Alþfl. saman eða beinlínis með próventu hjá íhaldinu fyrir augum, skiptir raunar ekki lengur neinu máli, því að hvorugt hefur tekizt. Engum, sem vill Framsfl. vel, blandast nú hugur um það, að með stjórnarslitunum stigu flokksforingjarnir alvarlegt öfugspor. Ástæðan til þess liggur ekki alveg í augum uppi. Er trúlegt, að hún eigi rót sína í hinni ranglátu kjördæmaskipun og því kosningabraski, sem flokkurinn framkvæmdi í skjóli hennar 1956 með þeim árangri, að hann fékk 17 þm. út á tæp 13.000 atkv., þegar t.d. Alþb. fékk 8 þm. út á tæp 16.000 atkv. Það væri a.m.k. ekkert furðulegt, þótt ýmsar stærðir rugluðust fyrir þeim, sem temja sér að líta á þennan kosningaárangur sem hið eina sanna réttlæti, og víst er um það, að stærð og styrk verkalýðshreyfingarinnar hafa Framsóknarforingjarnir vanmetið illa á síðasta hausti.

En þrátt fyrir þá sjóði, sem skildir voru eftir, þegar fyrri stjórn vék frá, og þrátt fyrir verulegar fjárhæðir í nýjum álögum var þó enn ófyllt í skarð aukinna útgjalda, svo að nam hálfu til heilu hundraði millj. kr. Í fjárl. var þetta fyllt að kalla með niðurfellingu ýmiss konar útgjalda ríkisins. Nú er það auðvitað allra góðra gjalda vert, að sýnd sé, þótt ekki væri nema dálítil viðleitni til sparnaðar í rekstri hins opinbera. Þá leið kusu hins vegar núverandi stjórnarflokkar ekki að fara. Á nokkrum liðum hefur þó verið lækkað framlag hins opinbera til verklegra framkvæmda, svo sem til skólabygginga, sjúkrahúsabygginga, til byggingar íbúða í því skyni að útrýma heilsuspillandi húsnæði, og á fleiri slíkum póstum hefur verið ráðgert að leggja fram nokkru minna fé, en lögboðið er að ríkið greiði. Þetta er auðvitað enginn raunverulegur sparnaður, því að eftir sem áður ber ríkinu skylda til að inna þessar greiðslur af hendi. Með því að áætla þessa liði lægra, en lög standa til er því einungis velt yfir á bæjar- og sveitarfélög, sem hafa slíkar framkvæmdir á döfinni, að standa undir fjáröflun til þeirra og taka á sig kostnað, sem af því leiðir, að ríkið skýtur skyldu sinni á frest. Hinn raunverulegi greiðslusparnaður í till. stjórnarinnar var sáralítill, máske þó einhvers staðar á öðrum milljónatugnum, og mun einkum segja til sín í holóttari þjóðvegum og minnkuðum flugvallarframkvæmdum og einnig með breyt. á raforkuframkvæmdunum, því að á þessum liðum er sparnaðurinn einna helzt ráðgerður. Till. Alþb. um sparnað á ríkisrekstrarliðum voru allar felldar. Þær voru t.d. um að sameina íslenzku sendiráðin á Norðurlöndum, um að láta nægja að hafa eitt sendiráð í París, en þar eru, svo sem kunnugt er, tvö íslenzk sendiráð nú, annað til að sinna venjulegum sendiráðsstörfum, en hitt til að sýna hernaðarbandalaginu NATO sóma og virðingu, samtímís því sem helztu forustuþjóðir þess ýmist beita okkur þjófnaði og ránskap í skjóli þess, að þær eiga vígdreka og fallbyssur, eða sitja hér í víghreiðrum sem ráðnir verndarar okkar og horfa á vígdrekana varna varðbátum okkar eðlilegrar löggæzlu við strendur landsins, samþykkir ræningjunum í einu og öllu. Þá var ekki heldur nálægt því komandi hjá stjórnarflokkunum, að sparaður yrði kostnaður við sendiráðið í Lundúnum, á meðan Bretar telja sér ekki fært að umgangast okkur eins og sjálfstæða þjóð. Sparnaðarandi stjórnarvaldanna var ekki heldur slíkur, að forsvarsmenn hennar treystust til þess að spara svo sem 5% af útgjöldum stjórnarráðsins, utanríkisþjónustunnar, dómgæzlunnar eða toll- og skattaskrifstofanna. Þeir felldu slíkar tillögur. Þeirra sparnaður var svo sem enginn í reynd, heldur aðeins tölur á blaði, að mestu samhengislausar við veruleikann og settar fram til þess eins að sýnast.

Á fjárlagaafgreiðslunni er því raunverulega stórkostlegur halli, bæði vegna þess, að þessa árs tekjur eru þar ætlaðar miklum mun minni en útgjöldin, því að auðvitað eru hvorki tekjuafgangurinn frá 1958 né væntanlega innborgaðir tollar frá eldri tímum þessa árs tekjur, og eins vegna hins, að fyrirsjáanlega hljóta að hlaðast upp skuldahalar, bæði hjá ríkissjóði vegna vangreiddra ýmiss konar lögboðinna framlaga, t.d. til skólabygginga, einnig hjá útflutningssjóði, þannig að í sama horf sæki hjá honum og á fyrri valdatíð Sjálfstfl., þegar útvegsmenn og bændur fengu ekki lögmætt uppgjör fyrir framleiðsluvörur sínar, fyrr en mánuðum og árum síðar, en vera hefði átt, enda er þess þegar farið að gæta og vanskil útflutningssjóðs nema þegar um nokkrum tugum milljóna.

Það væri blindur maður, sem sæi ekki, að nú hefur verið tekin upp stefna á gömlu íhaldshugsjónina, þessa sem flokkurinn kærir sig þó ekki um að verði sýnileg fyrr, en eftir kosningar. Nú er það í uppsiglingu, að kreppt sé að framleiðslunni með vanskilum hins opinbera og með því að varna henni eðlilegrar endurnýjunar á tækjum sínum og þó ekki siður með því að deyfa áhuga íslenzkra manna fyrir sjósókn með því að svíkja þá í samningum. Gleggsta og ótvíræðasta dæmið um það, hvert stefnir, er þó máske það, að af 98 millj. kr. erlendu lánsfé ríkisins, sem ráðgert er að endurlána til opinberra sjóða og framkvæmda á næstunni, er fiskveiðasjóði, einu stofnlánastarfsemi útvegsins, ekki ætlaður einn elnasti eyrir. Það á sem sagt ekki langt í land, eins og nú horfir, að leitt verði yfir okkur sams konar atvinnulegt ósjálfstæði og orðið var á hinum fyrrí valdadögum íhaldsins, þegar ekki mátti á milli sjá, hvorum við vorum háðari, Bandaríkjamönnum eða Færeyingum.

Fjármálastefnan sjálf er heldur engin niðurfærslustefna, nema hún er óumdeilanlega kauplækkunarstefna. Hækkun fjárlaga úr 807 millj. í 1.033 millj. boðar vissulega enga niðurfærslu. Verðlag hefur yfirleitt ekki lækkað nema þá í beinu sambandi við kauplækkanir og niðurgreiðslur, og á mörgum sviðum hefur það beinlínis hækkað þrátt fyrir niðurgreiðslurnar og kaupránið. En það alvarlegasta er þó mitt í öllu þessu, að enn er safnað skuldahaugum, sem fyrr eða síðar verður að greiða upp með almannafé, þannig að enn er kallað á nýja kjaraskerðingu, sem auðvitað verður framkvæmd með þeirri gengisfellingu, sem að er stefnt af stjórnarvaldanna hálfu á komandi hausti, þegar hjá eru liðnar kosningar þær, sem Sjálfstfl. ætlar að leyna andliti sínu fram yfir, ef þau öfl ráða þá enn, sem nú stjórna.

Af öllu þessu verður glöggt séð, að Sjálfstfl. hefur fulla ástæðu til þess að reyna að leyna áformum sínum og láta sem minnst á sér bera sem framkvæmdaaðila þessarar stefnu, þótt hann fagni því mjög að ráða. En hann getur hins vegar ekki, hvernig sem hann reynir, komizt hjá því að verða dreginn til ábyrgðar fyrir verk sín., til þess eru fingraför hans of ljós og greinileg, og í komandi kosningum hlýtur allur landslýður að gera þá spurningu upp við sig, hvort stefna íhaldsins sé þjóðholl. Er gengisfelling og aukin kjaraskerðing æskileg? Er þrengdur hagur framleiðslunnar lyftistöng fyrir íslenzkan þjóðarbúskap? Eru þjónustustörf hjá erlendu herliði æskilegur atvinnuvegur fyrir Íslendinga? Nei, vissulega ekki. Allt þetta brýtur í bága við velferð íslenzku þjóðarinnar. Öll meginstefna Sjálfstfl. í efnahagsmálum gerir það, og ekki hefur hún sízt verið óþjóðholl, stefna hans í okkar langstærsta efnahagsmáli, landhelgismálinu, þar sem þessi flokkur auðmannastéttarinnar reynir stöðugt að draga það mál inn á samningaumleitunargrundvöll hjá hernaðarbandalagi því, sem Sjálfstfl. á sínum tíma hafði forgöngu um að draga okkur inn í og þar sem greinilega eru allsráðandi þau öfl, sem okkur eru fjandsamlegust í þessu lífsnauðsynjamáli okkar. Raunar er það helzt á flokksforingjum íhaldsins að heyra, að þeir telji, að íslenzk ríkisstjórn eigi fyrst og fremst að vera nokkurn veginn ómenguð umboðsstjórn fyrir NATO og lítið annað.

En góðu heilli hefur nú raunverulega komið í ljós, að við höfum náð svo stórum sigrum í landhelgismálinu, að ekkert nema hin herfilegustu þjóðsvik hérlendra manna getur forðað Bretum frá fullum ósigri í málinu, eins og nú er komið. Það liggur fyrir í skýrslum þeirra sjálfra, að afli sá, sem þeir hljóta nú á Íslandsmiðum, er aðeins lítið brot af því aflamagni, sem þeir áður tóku hér, því að auðvitað er ekki hægt að stunda fiskveiðar með þeim hætti, sem Bretar gera nú. Þannig er að vísu hægt að reka hernað, en ekki veiðar með árangri. Á hinn bóginn verður það tæpast talin tilviljun ein heldur, að bátafloti okkar hefur í heild skilað meira aflamagni á land á einni veríð, en nokkru sinni fyrr, þrátt fyrir það að næstum hálft vertíðartímabilið týndist í frátafir vegna óvenju þrálátra illviðra.

Því ber að fagna, að Alþingi hefur nú samþ. einróma ályktun um að hvika hvergi frá 12 mílna fiskveiðilandhelginni, og vonandi reynast allir flokkar trúir þeirri samþykkt, einnig eftir kosningar, þótt fordæmi íhaldssinnuðu flokkanna og sósíaldemókrata frá Færeyjum sanni, að þeim flokkum auðnaðist ekki þar að standa við fyrri kosningalofoð sín, þegar þeir höfðu hlotið þingmeirihluta út á þau. Og vísasti vegurinn fyrir íslenzka kjósendur til að vera fullvissir um, að ekki verði upp á okkur svikin einhvers konar Færeyingalandhelgi eftir kosningar, er að sýna þeim flokkum, sem sótt hafa það að skjóta landhelgismálinu á vettvang til fjandmanna okkar, ekki allt of mikinn trúnað í komandi kosningum.

Alþýðubandalagið lýsir yfir andstöðu sinni gegn núverandi stjórnarstefnu. Stefna Alþb. er framleiðslustefna, sú stefna, að vandamálum efnahagslífsins beri að mæta með því að gera allt, sem unnt er, til að auka framleiðslu okkar. Við Alþb.-menn neitum því, að undirrót vandamálanna sé fyrst og fremst of hátt kaupgjald við almenn störf. Og við teljum lögþvingaðar lækkanir frá hinu umsamda kaupi ekki rétta lausn á efnahagsvandamálum. Aukin framleiðsla er okkar leið til efnahagslegrar velmegunar. Þátttaka Alþb. í síðustu ríkisstj. miðaði að því að ná þessu marki, og í því efni náðist sannarlega mikill árangur, þótt á þeirri braut væri skemmra gengið á sumum sviðum en við hefðum kosið. Með þeirri stjórnarsamvinnu var atvinnuleysinu útrýmt af Íslandi. Með henni varð líka þeirri öfugþróun íhaldsstjórnartímabilsins, sem hrakti Íslendinga í land af fiskiflotanum, snúið við, þannig að nú er floti okkar aftur að langmestu leyti mannaður Íslendingum. Og fyrir atbeina Alþb. hefur nú verið framkvæmd sú landhelgisstækkun, sem gefur allri þjóðinni bjartari framtíðarvonir.

Alþb. harmar það, að Alþfl. skyldi skorta svo einlægni og manndóm til að vinna að hagsmunamálum alþýðufólks, að hann hefur nú tekið upp íhaldssamvinnu gegn flestum sínum fyrri áhugamálum. Alþb. harmar það einnig, að skammsýni og röng fjármálastefna Framsfl. skyldi reynast svo ósveigjanleg, að hún hlaut tvímælalaust að greiða afturhaldsöflunum veginn til valda.

En þótt nú sé hér rekin kauplækkunarstefna, sem grípur til verkamanna, sjómanna og bænda, þótt nú séu skornar hér niður verklegar framkvæmdir, þótt nú séu gefnar hér milljónagjafir af opinberu fé til stórgróðamanna og þótt nú sé hlaðið upp vanskilaskuldum, þá er þetta ekki stefna íslenzkrar alþýðu, þá er þetta ekki stefna hinnar framsæknu íslenzku þjóðar. Og það vita höfundar og eigendur stefnunnar og hafa því fulla ástæðu til þess að vilja sýnast annað, en þeir eru. Íslenzk alþýða býr yfir miklum þrótti. Hún veltir Grettistökum, hvar sem hún beitir samstilltu afli sínu. Afköst hennar í framleiðslu eru þau mestu, sem dæmi þekkjast um. Þess vegna blasir framtíðin við þjóðinni einnig nú, þótt svikráðir leppar auðmannastéttarinnar haldi sinni feigu hönd um stjórnvöl þjóðarskútunnar.

Alþb. treystir því, að þrátt fyrir annríki vinnandi fólks gefi það sér tíma til að glöggva sig á því, hverjir vinni að þjóðmálum í þess hag og hverjir vinni gegn því, og láti þar engin dulargervi villa um fyrir sér. — Góða nótt.