11.05.1959
Sameinað þing: 48. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (2338)

Almennar stjórnmálaumræður

Ólafur Thors:

Herra forseti. Ég mun að þessu sinni láta nægja að vísa til hinna mörgu, merku og margþættu till., sem síðasti landsfundur sjálfstæðismanna samþykkti, eins og þær liggja fyrir og hafa birzt almenningi í blöðum og í útvarpi. Þær sýna kosningastefnuskrá Sjálfstfl., og mun ég og aðrir ræða þær ýtarlega á næstunni í blöðum, útvarpi og á mannfundum. Eldhúsdagurinn er líka, svo sem flestir vita, fyrst og fremst dagur reikningsskila við valdhafana.

Þegar núverandi hæstv. ríkisstj. var mynduð í desembermánuði s.l., gaf hún okkur sjálfstæðismönnum þrjú fyrirheit:

1) Að ríkisstj. mundi beita sér fyrir víssum aðgerðum, sem sérfræðingar í efnahagsmálum töldu að megnuðu að stöðva verðbólguskriðuna, þar til auðið yrði að freista þess að sameina þjóðina um varanlegri lausn þeirra miklu vandamála.

2) Að Alþfl. mundi flytja með Sjálfstfl. frv. um breytingu á kjördæmaskipuninni í höfuðefnum eins og það frv., sem nú hefur verið lögfest.

3) Að hvernig svo sem um það frv. færi, skyldi þing rofið og nýjar kosningar fara fram snemma á þessu sumri.

Gegn þessu hét Sjálfstfl. því að freista þess til hins ýtrasta að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög með Alþfl. og að verja hæstv. ríkisstj. vantrausti, þar til búið væri að afgreiða fjárlög og útséð um örlög kjördæmabreytingarinnar.

Hæstv. ríkisstj. hefur staðið við öll þessi fyrirheit. Við teljum þess vegna ástæðulaust að deila á hana. Við sjálfstæðismenn höfum einnig að okkar leyti efnt samkomulagið og ber því ekki lengur skylda til að verja stjórnina vantrausti. Við munum þó gera það, vegna þess að við erum andvígir stjórnarskiptum fyrir kosningar. Eftir kosningar munum við taka það mál til nýrrar athugunar.

Rétt þykir mér að geta þess, að fjárlögin, sem Alþingi hefur nú samþykkt, eru þau hæstu, sem fram að þessu hafa þekkzt hér á landi. Er það í áframhaldi af stefnu undanfarinna ára undir forustu Eysteins Jónssonar. Hærri og hærri fjárlög, dýpra og dýpra í buddu skattþegnanna, fleiri og fleiri milljónatugi í heimildarlausar umframgreiðslur, þetta virðist hafa verið leiðarljós fjármálastjórnarinnar upp á síðkastið.

Ég er ekki allsendis ánægður með þessi fjárlög. Vegna viðskilnaðar fyrrv. stjórnar við sjóði ríkisins annars vegar, en hins vegar viðleitni núverandi valdhafa til að forðast nýjar álögur, hefur tekjuáætlun fjárlaganna, ef til vill verið teygð fullhátt. Er það varhugavert, en þó miklu skárra, en að falsa hana algerlega vísvitandi, svo sem gert hefur verið undanfarin ár. Hefur það athæfi átt að heita búhyggindi, en verið undirrót siðspillandi óhófseyðslu og einræðis ríkisstjórnar og einkum þó fjmrh. yfir milljónatugum. Eru það víti til varnaðar, og verður Alþingi hér eftir raunverulega að afgreiða fjárlögin, en ekki að sitja krunkandi mánuðum saman yfir smámunum og láta svo allt enda í sem næst einræði fjmrh. bak við Alþingi.

Læt ég svo útrætt um núverandi ríkisstjórn, enda aðrir, sem dóms bíða.

Hinn mikli sökudólgur er fyrrv. ríkisstj. og allir þeir, sem ábyrgð bera á henni, að meðtöldum núverandi ráðherrum. Ákæruskjal mitt á hendur þeim er prentað í Mbl. 13. marz s.l. Það tók mig 21/2 klst. að flytja það á landsfundi sjálfstæðismanna og var þó aðeins stiklað á því stærsta. Það mun nú og birtast í landsfundarskýrslunni. Til þess vísa ég. En hér verð ég fáorður, enda naumur tími til umráða fyrir mig, m. a. vegna þess, að við sjálfstæðismenn viljum, að raddir sem flestra sjálfstæðismanna heyrist í þessum umr.

Hv. þm. Str. (HermJ) tókst að sýna tvennt í sinni furðulegu ræðu hér í kvöld: Að hann er furðu gleyminn eða alveg úti á þekju í þjóðmálunum og að hann er óvenju spaugilegur karl. Eftir að hafa deilt hart og auðvitað án raka á okkur sjálfstæðismenn hugðist hann ganga frá mér sjálfum alveg dauðum með því að skýra frá því, að f ræðu hafi ég lýst yfir, að við sjálfstæðismenn mundum berjast fyrir okkur, fyrir flokk okkar og fyrir þjóðina. Þessi ummæli mín lýstu vel innræti mínu og flokksins, sagði Hermann Jónasson. Ég skal nú fræða Hermann Jónasson á því, að Einar Þveræingur notaði sömu vinnubrögð í frægri ræðu sinni, en þó kann ég skil á öðrum manni, sem Hermann Jónasson metur enn meir en Einar Þveræing, en hann heitir líka Hermann Jónasson. Þegar Hermann Jónasson var forsrh., stóð hann hér frammi fyrir þingheimi og hrópaði hástöfum: Heill forseta vorum og fósturjörð. Nú vita að sönnu allir, að Hermann Jónasson metur vel og elskar forseta Íslands. Þó þykir víst, að þessi mikli fósturlandsvinur elski ættjörðina enn meir. Hermanni Jónassyni hefur því orðið sama skyssan á og Einari Þveræingi og mér, að nefna síðast það, sem hann metur mest, — ef það er skyssa.

Fjarstæðukenndust var þó árás Hermanns Jónassonar á okkur sjálfstæðismenn út af landhelgismálinu. Allir vita þó, að það erum við sjálfstæðismenn, sem frá öndverðu höfum haft alla forustu á hendi í þessu mikla máli. Hinir fyrstu og stærstu sigrar unnust fyrir okkar atbeina, og síðan höfum við alltaf fylgt málinu fram af ráðum og dáð. Mundi og betur komið, en raun ber vitni, ef okkar ráðum hefði verið fylgt.

Karl Guðjónsson beindi einnig kaldyrðum til okkar sjálfstæðismanna út af þessu máli. Honum og flokksbræðrum hans er hentast að hafa hægt um sig, því að margir af þeim örðugleikum, sem við nú stríðum við, stafa einmitt af því, að þeir mátu ekkert minna að kveikja ófriðarbálið en að leysa landhelgismálið.

Alveg af sömu hvötum spruttu árásirnar á Bjarna Benediktsson út af stjórn hans á varnarmálunum. Allir vita, að hann hefur í þeim efnum borið langt af öðrum, sem um þau mál hafa fjallað, að þeim annars ólöstuðum. Á þetta sama við um alla utanríkismálastjórn hans, því að það var einmitt hann, sem tókst með einurð og festu að skapa virðingu fyrir íslenzkum stjórnarvöldum út á við, en halda jafnframt vinfengi annarra þjóða.

Hermann Jónasson sagði, að það hefði verið regla hjá okkur sjálfstæðismönnum að lofa miklu og vanefna allt. Ég vil nú upp á gamlan kunningsskap taka Hermann Jónasson á hné mér og bæta upp minnisleysi hans og gleymsku.

Í marzmánuði 1956 mælti þjóðkunnur maður þessi víðfrægu orð: „Haldið hefur verið lengra og lengra inn í eyðimörk fjárhagslegs ósjálfstæðis.“ Man Hermann Jónasson, hver þetta var?

Skömmu áður hafði hann og aðrir áhyggjufullir og einkum þó hræddir föðurlandsvinir myndað með sér fóstbræðralag, sem nefnt var Hræðslubandalagið. Í stefnuyfirlýsingu þess sagði m.a.: ,Nú verður að brjóta í blað í íslenzkum stjórnmálum. Ef ekki verður gripið fast í taumana, myndast algert öngþveiti í efnahags- og fjármálalífi þjóðarinnar.“ Og aðalblað bandalagsins sagði: „Niðurgreiðslurnar eru engin framtíðarlausn, heldur hættuleg svikaleið. Gegn þessum voða þarf þjóðin að rísa, áður en það er of seint.“

Var nú einskis látið ófreistað til þess, að takast mætti að „brjóta í blað“, og ekki skirrzt við að hagnýta veilur úreltrar og ranglátrar kjördæmaskipunar né heldur að rjúfa orð og eiða f þessu skyni, sbr. Hræðslubandalagið og samstarfið við kommúnistana.

Hinn 24. júlí 1956 myndaði hinn áðurnefndi víðkunni maður ríkisstjórn og tilkynnti þjóðinni, að „stjórnin hefði verið stofnuð til samstarfs á grundvelli nýrrar stefnu“. Hét hann síðan að aflétta sköttum og hætta niðurgreiðslum og uppbótum, greiða skuldir og lægja verðbólguna. Jafnframt skyldu af þjóðinni þvegin óþrif erlends varnarliðs í landinu.

Hefst nú löng saga vanefnda, niðurlægingar og vonbrigða. Hún er öllum kunn. Menn vita, að niðurgreiðslur og uppbætur fóru síhækkandi. Sköttum var ekki af létt, heldur á lagðir 1.090 millj. kr. nýir árlegir skattar auk stóreignaskatts, sem nemur 130 millj. kr. Verðbólgan hjaðnaði ekki, heldur óx hún um 241/2%. Erlendar skuldir lækkuðu ekki, heldur hækkuðu um 436 millj. kr. Og allt þetta skeði í augsýn hersins, því að hann fór ekki, heldur sat sem fastast eins og ormur á því erlenda gulli, sem hingað streymdi í beinu sambandi við áframhaldandi dvalarheimild hans á Íslandi. Sveið mörgum góðum Íslendingi sárast, að betlilánin voru órjúfanlega tengd rétti vinaþjóðar til að verja ættjörð okkar, ef nauður rekur til. Lá heiður Íslands eftir á þeim blóðvelli. Hermann Jónasson sannaði það áðan, að hann er stoltur af þessari þjóðarskömm. Rek ég þetta ekki frekar að sinni. Sögulokin þekkja menn.

Hermann Jónasson féll í glímunni við verðbólguna. Hann taldi óþarft að ræða málið við Alþingi Íslendinga. Hann gafst upp. Hann lét nægja að tilkynna Alþingi hinn 4. des. s.l., að hann hefði beðizt lausnar, vegna þess að „ný verðbólgualda væri skollin yfir“ og að innan stjórnar hans væri „engin samstaða“, heldur hver höndin upp á mótí annarrí. Dánarvottorð líflæknis ríkisstjórnarinnar hljóðaði þannig: „Þjóðin er að ganga fram af brúninni.“ Það var undirritað af sérfræðingi ríkisstj. í efnahagsmálum, Jónasi Haralz ráðuneytisstjóra.

Eftir dauðann iðraðist Hermann Jónasson og bað um þjóðstjórn, þ.e.a.s. að fá flokkinn, sem hann hafði talið allra meina bót að gera með öllu áhrifalausan, til þess að leggja á ráðin og bjarga þjóðarskútunni úr strandinu. Önnur bjargráð kom hann ekki auga á. Það var kannske von.

Svona stóðu sakir, þegar flokksþing Framsfl. kom saman um miðjan marz s.l. Foringinn sagði hátt til lofts og vítt til veggja, en hjörðin kenndi andþrengsla.

Menn minntust nú þess, að í upphafi vinstra tilhugalífsins var það æðsta markmiðið að hrekja stærsta flokk þjóðarinnar út í yztu myrkur stjórnmálalegs áhrifaleysis, eins og Hermann Jónasson hældist um af. Nú skyldi gera góða veizlu. Völd, bein og bitlingar. Allt var ein gleðivíma í vistarverum vinstrisinna. Heitust var þó ást ráðherranna til stólanna. Þeir hétu hver öðrum 20 ára samstarfi og samlífi í einingu og ást.

En snögglega dró fyrir sólu, og fyrr en varði hrönnuðust skýjabólstrarnir um allan himin gleðinnar. Þjóðin hafði tekið í taumana.

Við bæjar- og sveitarstjórnarkosningarnar í janúar 1958 var því yfir lýst af öllum, að þær snerust fyrst og fremst um traust eða vantraust á stjórn Hermanns Jónassonar. Þrír flokkar stóðu gegn einum. Þessi eini fékk þó traust meiri hl. þeirra 80% kjósenda, sem til var leitað, og þar af í sjálfum höfuðstaðnum hvorki meira né minna en 57% greiddra atkvæða.

Þá fór að fara um vinstri mennina. Þeir urðu hræddir, fyrst hver við annan, en síðan hver við og um sjálfan sig. Allir hugsuðu um að koma sjálfum sér undan, forða sér, áður en skipið sykki. Eins og fyrr getur, komst sá síðasti í land 4. des. s.l. Þá hófst innbyrðisorrustan. Ekki aðeins var nú ástin kulnuð, heldur hafði og heiftareldurinn brennt hof Hræðslubandalagsins til ösku. Í stónni lá 20 ára valdadraumurinn. Framsókn rambaði á stokknum og tautaði: Þeim skal ég verst, sem ég unni mest, og beindi flestum eiturörvum sínum að Alþfl. Sannarlega máttu foringjar Alþfl. segja: „Önnur var ævin, er Gaukur bjó á Stöng.“ Blíðara var atlætið, meðan Hermann og Eysteinn sátu í stjórnarráðinu og héldu sig hafa lífstíðarábúð á Steinastöðum kratanna. Annað var á sömu bók lært.

Ekkert varð úr 20 ára útlegð sjálfstæðismanna. Sumir segja jafnvel, að þeir ráði þó nokkru. Ekkert varð heldur úr einræði eyðimerkurleiðtogans. Sumir segja jafnvel, að hann sé yfirgefinn og áhrifalítill o.s.frv.

Vissulega olli þetta öllum þeim miklum vonbrigðum, sem trúðu á vinstra samstarf eða óskuðu þess vegna beina og bitlinga. En nú var komið sem komið var.

Það mun því ekki ofmælt, að forustumenn Framsfl. utan af landsbyggðinni komu kvíðnir til mótsins. En fæstir munu þó hafa gert sér fulla grein fyrir því, hversu hörmulega flokksforustan hafði haldið á málum og hversu herfilega hún hafði gloprað úr höndum sér og mölbrotið fjöregg flokksins. Sagt er, að mörgum hafi brugðið, er þeir horfðust í augu við grímulausan sannleikann. En í liðinu er margur röskur kappi, hertur í eldi áratuga þrotlausrar baráttu. Ekki að brotna, sögðu þeir. Við snúum vörn í sókn. Við drekkjum syndum og svikum foringjanna í Reykjavík í orðaflaumi um kjördæmamálið. Við teljum sveitunum trú um, að þær verði sviptar valdi sínu, og heitum þeim forustu um vandamál þeirra og hagsmuni og undir vígorðinu „verndum sveitirnar“ mörkum við fasta, ákveðna og óbifanlega stefnu í stærsta máli þjóðarinnar, kjördæmamálinu.

Í það vígi skyldi nú liðinu stefnt. Þaðan skyldi varizt til hinztu stundar. Í nafni ástar til sveitanna skyldu gerðar útrásir, og stóra sigra átti jafnvel að vinna. Þeir, sem ætluðu að drepa sveitavaldið með 11 uppbótarþm., skyldu sjálfir drepnir. Þeir, sem ætluðu að éta upp ríkissjóðinn með því að fjölga þm. upp í 60, skyldu sjálfir étnir. Þeir, sem ætluðu að svíkja byggðavaldið með því að fjölga þm. Reykv., skyldu sjálfir svikarar o.s.frv. Stefnan var ein, óbrotin og hrein: Afnám allra uppbótarþingmanna. Enga þingmannafjölgun, ekki um svo mikið sem einn einasta. Enga fjölgun þm. í Reykjavík. Engar hlutfallskosningar. Og hjörðin hélt heim, uggandi að sönnu og raunamædd, en þó ekki svipt síðustu voninni. Sveitirnar skyldu þeir vernda, eða öllu heldur, sveitirnar skyldu vernda þá.

Rétt er að skýra frá því, að þegar þessir loftkastalar voru byggðir, mun Reykjavíkurvald Framsfl. hafa treyst því, að kjördæmabreytingin næði ekki fram að ganga, enda haft til þess ærna ástæðu, sem ég ræði ekki að þessu sinni. En þrátt fyrir það var mikill uggur í flokksþingsmönnum Framsfl. og ekki að ástæðulausu.

Nú leið og beið, þar til hinn 11. apríl, að um landið spurðust þau tíðindi, að formenn allra flokka Alþ., að Framsfl, undanskildum, hefðu sameiginlega flutt frv. um kjördæmabreytingu. Hvað var nú á seyði? Höfðu þá forustumenn framsóknarmanna enn reynzt falsspámenn? Mundi kannske kjördæmamálið ná fram að ganga eftir allt saman? Þannig spurðu margir, en engir ákafar en hinir nýheimkomnu flokksþingsmenn Framsóknar.

Reykjavíkurforustan mun enn þótzt hafa örlög málsins í höndum sér og því talið sér fært að róa liðið.

Bar nú ekkert til tíðinda fyrr en 14. apríl, að fram fóru útvarpsumræður frá Alþ. um kjördæmamálið. Forustumenn Framsóknar í strjálbýlinu biðu með mikilli eftirvæntingu boðskapar liðsodda þeirra í Reykjavík og þóttust þess vissir, að við hinir fengjum nú maklega hirtingu. Þetta fór nú nokkuð á annan veg, en það er önnur saga og kannske engin nýjung. Hin miklu tíðindi voru hinar óvæntu yfirlýsingar eins höfuðleiðtoga framsóknarmanna við þessar umr. Framsóknarmenn um land allt voru sem þrumu lostnir. Menn spurðu sjálfa sig: Heyri ég rétt? Var hugsanlegt, að hin fámenna framsóknarklíka í Reykjavík dirfðist að gera heyrinkunnugt, að hún ætlaði að þurrka gersamlega út glænýjar samþykktir flokksþingsins og það í sjálfu því máli, sem flokksþingið hafði ákveðið að reyna að láta kosningarnar snúast um? Voru þessir menn algerlega heillum horfnir? Fór þá allt saman: fyrirlitning þeirra fyrir öllu forustuliði flokksins úti á landsbyggðinni, óskammfeilni þeirra og fyrirhyggjuleysi?

Um margt þetta og margt fleira spurðu menn. Þeir þurftu ekki lengi að bíða í óvissunni. Leiðtoginn lýsti yfir, að það væri allsendis ástæðulaust að halda fast við 52 þm. og þaðan af síður að afnema uppbótarþingsæti. Þvert á móti. Þm. ættu einmitt að vera 60 og uppbótarþm. ekki færri en 10. Reykjavík væri vel að því komin að fá 12 þm. í stað 8. Og hlutfallskosningar væru alls ekki forboðnar, heldur gætu þær einmitt verið ágætar, þó með fyrirvara, þ.e.a.s. þeim, að þær ættu aðeins að gilda þar, sem Framsfl. græddi á þeim; annars staðar væru þær sama og útrýming bændamenningarinnar á Íslandi.

Við þetta vil ég bæta því, að á nærri hálfs fjórða áratugs þingmennskutíð minni hef ég aldrei heyrt jafnfjarstæðukenndan málflutning sem framsóknarmenn hafa nú haft í frammi í kjördæmamálinu. Hafa þeir sér til afsökunar, að í málinu verður engum vörnum við komið. Það er t.d. á einskis manns færi að verja þá óhæfu, að 15% kjósenda fái kosna 17 þm., þegar 42% fá aðeins 19, svo að aðeins eitt dæmi sé nefnt.

Um rökin læt ég nægja eina einustu tilvitnun — í ritstjórnargrein Tímans, dags. 25. f.m. Hún er kjarni í málsvörn framsóknarmanna og táknræn fyrir allan þeirra málflutning. Þar segir, að höfuðtilgangur kjördæmabreytingarinnar sé að veikja Framsfl. Síðan heldur áfram: „Einnig það er örvona tilraun. Framsóknarflokkurinn mun síður en svo veikjast við þessar tiltektir. En dreifbýlið allt er verr farið en áður.“

Þessi örfáu orð úr Tímanum sýna prýðilega mynd af framsóknarmönnum um þessar mundir. Allir drættir eru skýrir. Tilgangur okkar með kjördæmabreytingunni er ekki réttlæti, heldur refsing. Hamfarir Framsóknar eru sízt vegna eigin hagsmuna, — það er nú eitthvað annað, — enda engin ástæða til, því að „Framsfl. mun síður en svo veikjast við þessar tiltektir“. Markið er hærra og göfugra, hugsjónin stærri og háleitari. Nú skal bitið í skjaldarrendurnar, því að „dreifbýlið allt, er verr farið en áður“.

Langar skýringar eru óþarfar. Aðeins spyrja menn: Hvernig má það vera, ef „Framsfl. mun síður en svo veikjast“, þ.e.a.s. styrkjast, að þá skuli leiða af því, að „dreifbýlið allt er verr farið en áður“? Hvernig fær þetta staðizt, nema í því felist játning á, að ekkert samband sé á milli styrkleika Framsfl. og hagsmuna sveitanna?

Annars er óþarft að fjölyrða um kjördæmamálíð. Því er lokið á þessu þingi. Það er fagnaðarefni, svo langt sem það nær. En aðalatriðið er, að sigur þess í kosningunum er fyrir fram tryggður. Það er vegna þess, að við, sem að málinu stöndum hér á Alþ., höfum sameinazt um það, þótt við að öðru leyti eigum litla samleið, eftir beinum og óvenju ótvíræðum fyrirmælum kjósenda okkar. Og það er þjóðin öll, sem ræður þessu mikla máli, en ekki eingöngu framsóknarmenn.

Að lokum spyr ég: Hefur nokkru sinni nokkur flokkur nokkurs staðar leikið þjóð sína jafnilla á jafnstuttum tíma, jafnt inn á við sem út á við, elns og Framsfl. hefur gert undanfarin 21/2 ár með stjórnarforustu sinni? Allur þorri Íslendinga, þ. á m. margir framsóknarmenn, segir nei. Samt sem áður hefur þessum fámenna hópi forustumanna Framsfl. tekizt að leika flokk sinn enn verr.

Allt er þetta rétt, sem ég hef nefnt, — en er það kannske eitthvert gleðiefni? Sannarlega ekki allt. Vissulega er hörmulegt, hvernig er búið að leggja margt í rúst og hversu örðugt þeim hefur verið gert, sem við eiga að taka. En fram úr því ræðst eins og öllu öðru, ef hvorki vantar vit né vilja. Miklu þyngra áfall er vansæmdin út á við og vantraustið á þjóð okkar, sem af atferli vinstriliða leiðir. Þann blett tekur tíma að afmá. En um það dugir ekki að fást. Fram úr því ræðst líka, ef þjóðin þekkir sinn vitjunartíma og felur þeim völdin, sem kunna að gæta sóma hennar með festu án stirfni, einurð án hroka.

Við skulum ekki mikla fyrir okkur tjón okkar. Ýmislegt hefur unnizt. Þjóðin er nú reynslunni ríkari. Vinstri villan er dauð og verður ekki endurvakin, a.m.k. ekki á næstunni. Framsóknarguttinn hefur sett hæfilega niður, flestum til farsældar. Og hinu hróplega ranglæti kjördæmaskipunarinnar er nú loks verið að ryðja úr vegi, en það var undirrót mikillar spillingar.

Með lögum skal land byggja. Undir forustu sjálfstæðismanna munu Íslendingar nú hefja nýja og öfluga sókn, ekki aðeins á hendur erlendum kúgurum, heldur og alhliða sókn til betri og fullkomnari hagnýtingar á auðlindum landsins, Íslendingum öllum til velfarnaðar og blessunar. — Góða nótt.