26.11.1958
Sameinað þing: 11. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (2344)

Fríverslunarmálið

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Það er ekki ágreiningur um það, að fríverzlunarmálið, ef af stofnun fríverzlunarsvæðis Evrópu verður, hlýtur mjög að snerta hagsmuni okkar Íslendinga, hvort sem við komum til með að taka þátt í því eða ekki. Meðal annars af þeirri ástæðu mun varla ágreiningur um það, að rétt sé, að Íslendingar fylgist með því, sem í málinu gerist, og kynni sér sérstaklega, hvaða kjör okkur yrðu boðin, ef til aðildar af okkar hálfu kæmi að slíkum samtökum.

En ég verð að segja það, að ég sakna þess mjög, bæði í sambandi við þær skýrslur, sem gefnar hafa verið um þetta mál af hálfu hæstv. ríkisstj., og raunar flest annað, sem um þetta mál hefur verið rætt, að því hafa lítil skil verið gerð, hvaða breyt. okkur væri nauðsynlegt að gera á okkar hagkerfi, ef þátttaka af okkar hálfu ætti að koma til greina. En einmitt þá hlið málsins verður að telja ekki síður mikilvæga frá okkar sjónarmiði.

Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því, sem fram kom í ræðu hæstv. iðnmrh., þar sem hann drap á það, til hvers væri ætlazt af okkur og raunar öðrum þátttökuríkjum, ef af slíkri þátttöku yrði. Hann drap á það, að afnema þyrfti innflutningshöft. Það þyrfti að lækka tolla. Talað væri um það, að þau Evrópulönd, sem aðilar yrðu að þessu samstarfi, mundu efna til náinnar samvinnu á sviði efnahagsmála sín á milli með það fyrir augum að fyrirbyggja hagsveiflur, eins og hann orðaði það, o.s.frv.

Nú mun það út af fyrir sig láta vel í eyrum flestra, að æskilegt sé að afnema innflutningshöft, æskilegt sé að lækka tolla, og þýtt á meira alþýðlegt mál hygg ég, að menn muni yfirleitt vera sammála um það, að æskilegt sé að gera ráðstafanir til þess að útrýma hagsveiflum, en með því er í fyrsta lagi átt við ráðstafanir til þess að fyrirbyggja atvinnuleysi o.s.frv. En sá hængur er þó á þessu, að þó að flestir séu sammála um það, að æskilegt sé, að þessar ráðstafanir séu gerðar hér á landi, þá fer ekki hjá því, að við verðum að gera mjög róttækar breyt. á okkar hagkerfi og þá fyrst og fremst á fyrirkomulagi okkar gjaldeyrismála.

Í þessu sambandi er kannske alveg sérstakt tilefni til þess, einmitt vegna þess, að hv. 3. þm. Reykv. (EOl) gerði það að umtalsefni í sinni ræðu, að ræða nokkuð þátttöku Íslands í væntanlegu samstarfi Norðurlanda um þessi mál. Hv. 3. þm. Reykv. virtist vera því hlynntur, og það kom mér að sumu leyti á óvart, að Ísland gæfi þessu samstarfi Norðurlandanna meiri gaum, en gert hefði verið. Ég fagna þessari afstöðu út af fyrir sig, því að þótt ég væri honum um ýmislegt ósammála í hans ræðu, sem ég hirði ekki að rekja nánar, þá er ég honum fyllilega sammála um það, að Íslendingar hefðu átt að gefa þeim viðræðum, sem farið hafa fram á milli Norðurlandanna innbyrðis um þetta mál, meiri gaum, en gert hefur verið.

Nú er þetta mál orðið nokkuð gamalt. Það mun hafa verið mjög skömmu eftir stríðið, sem farið var að hreyfa því af alvöru, og var þá skipuð n. sérfróðra manna af hálfu Norðurlandanna til þess að fjalla um þetta mál. Fyrstu árin, sem þetta mál var á döfinni, tók Ísland í því nokkurn þátt. Það tilnefndi a.m.k., svo að mér sé kunnugt, einn fulltrúa af sinni hálfu til þess að taka þátt í slíkum fundum. Það var Birgir Kjaran hagfræðingur, sem er hinn hæfasti maður á þessu sviði. En það mun ekki hafa verið nema tiltölulega skamman tíma, sem Íslendingar tóku reglulegan þátt í þessum viðræðum. Og hver ætli hafi verið ástæðan til þess, að virkri þátttöku Íslands í undirbúningi tollabandalags Norðurlanda var í rauninni hætt? Ég býst við, að þessar ástæður hafi aðallega verið tvær:

Önnur var sú, að hugsað var sem svo, að það væri ekki eftir svo miklu að slægjast á Norðurlöndum hvað snerti markað fyrir okkar útflutningsvörur o.s.frv., að ástæða væri til þess að taka á okkur þau óþægindi, sem það hlyti að hafa í för með sér að gera þær breyt. á okkar hagkerfi, sem nauðsynlegar væru til þátttöku í þessari efnahagssamvinnu Norðurlanda. Ég tel að vísu, að þessi ástæða sé í meginatriðum á misskilningi byggð. Það mun að vísu rétt að, að óbreyttu ástandi í gjaldeyrismálum o.s.frv. eru sennilega takmarkaðir möguleikar á því að auka markað fyrir okkar útflutningsafurðir á Norðurlöndum. En þessi mál mundu koma til að horfa að mínu áliti allt öðruvísi við, ef tekizt hefði að skapa það jafnvægi í efnahagsmálum Íslendinga, að við gætum orðið aðilar að þessu samstarfl. Hinn hái framleiðslukostnaður, sem nú er á Íslandi og hefur verið, gerir það auðvitað að verkum, að erfitt er að selja þessar afurðir á Norðurlöndum, en ef gjaldeyrismál Íslendinga væru í jafnvægi við það, sem er annars staðar á Norðurlöndum, mundi þetta breytast, og fyrir utan þá möguleika, sem þá kynnu að verða á því að auka markaði fyrir okkar sjávarafurðir á Norðurlöndunum, þá hef ég trú á því, að miðað við slíkar kringumstæður gæti komið til greina að flytja út iðnaðarvörur til Norðurlandanna. Þó að segja megi e.t.v., að ýmislegt af þeim iðnaði, sem risið hefur upp hér á landi undanfarna áratugi, sé ekki líklegt til þess að vera samkeppnisfært, ef innflutningur til landsins væri frjáls, má ekki loka augunum fyrir því, að hér hefur risið upp margs konar iðnaður, t.d. má sérstaklega nefna handiðnað í því sambandi, sem er að ýmsu leyti sérstæður og ekki ósennilegt, að miðað við jafnvægisástand í efnahagsmálum mætti skapa markað fyrir slíka vöru, m.a. á Norðurlöndunum. Ég nefni þetta sem dæmi.

En það var önnur ástæða, sem er meira raunhæf og var höfuðástæðan til þess, að svo virðist sem stjórnmálamenn hér yfirleitt hafi verið sammála um það, að slík þátttaka okkar í norrænu tollabandalagi kæmi ekki til greina, — því að ég hef yfirleitt ekki orðið var við, að ákveðnar raddir hafi komið fram um, að við hefðum átt að sinna þessu meira, en gert var, — og ástæðan, sem hér er um að ræða, var sú, að menn töldu, að það mundi ekki vera hægt að gera þær breyt, á okkar hagkerfl, gjaldeyrisverzlun o.s.frv., sem óhjákvæmilegt skilyrði hlyti að vera fyrir þátttöku okkar í hinni norrænu samvinnu á þessu sviði. En auðvitað verða viðhorfin alveg þau sömu og ekki síður, ef um það ætti að vera að ræða, að við gerðumst aðilar að fríverzlunarsvæði Evrópu.

Ég ætla ekki að ræða það hér, hverjar þær ráðstafanir eru, sem gera yrði, ef þátttaka okkar í slíku samstarfi ætti að vera annað, en nafnið tómt. Ég gerði því máli einmitt nokkur skil í sambandi við skýrslu þá, sem hæstv. iðnmrh. flutti um þetta sama efni 18. febr. í fyrra. Þá drap ég nokkuð á það, í hverju þessar ráðstafanir þyrftu að vera fólgnar. Ég lýsti ekki skoðun minni á því, hverjar af þeim leiðum, sem þar kæmu til greina, bæri að fara, og því síður leitaðist ég við að leggja dóm á það, hvort slíkar ráðstafanir mundu vera framkvæmanlegar af stjórnmálalegum eða öðrum orsökum. En ég tók það fram þá og vil einmitt sérstaklega taka það fram hér, að ég álít, að allar umræður um þetta mál séu í rauninni meira eða minna óraunhæfar, ef þessi hlið málsins er ekki rædd sérstaklega, hvaða breyt. við þurfum að gera á okkar hagkerfi, til þess að um virka þátttöku af okkar hálfu í þessu samstarfi geti orðið að ræða, og hvaða möguleikar séu á því að framkvæma þessar ráðstafanir.

Ég sé að öðru leyti ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál frekar að sinni. Að vísu kom það fram í ræðu hæstv. ráðh., að hann gerði ráð fyrir því, að ef til aðildar okkar að þessu samstarfi kæmi, þá mundi fást lengdur sá frestur til aðlögunar, sem þátttökuríkjunum annars er ætlaður. Sjálfsagt er þetta nauðsynlegt. En þó að við fáum þannig lengri frest, verðum við eftir sem áður að horfast í augu við það, að þessar ráðstafanir verður að gera. Og mér finnst rétt, að það komi fram, að jafnvel þó að ekki yrði nú af því, að fríverzlunarsvæði Evrópu yrði stofnað, þá verður þó að telja líklegt, að einhvers konar samvinna á sviði efnahagsmála takist meðal Vestur-Evrópuþjóða. Og ætlum við Íslendingar að vera virkir aðilar að slíku samstarfi, verður ekki komizt hjá því að gera þessar sömu ráðstafanir, þó að þær þurfi kannske ekki að vera í eins stórum stíl.

Ég ætla þá aðeins að ljúka máli mínu með því, sem ég ætlaði að byrja ræðu mína á, en gerði ekki, af því að hæstv. iðnmrh. var ekki viðstaddur, að þakka honum fyrir að mínu áliti greinargóðar upplýsingar um það, hvernig þetta mál stendur nú, þó að ég hins vegar telji, að þetta mál þurfi að ræðast frá fleiri hliðum en þeim, sem fram komu í skýrslu hæstv. ráðherra.