22.04.1959
Neðri deild: 114. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1919 í B-deild Alþingistíðinda. (2348)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Mig langaði til að bera hér fram fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. um það, hvort hann hefði veitt því athygli, að í frétt í Morgunblaðinu í morgun um sumarfagnað stúdenta í ákveðnu veitingahúsi hér í bæ er komizt svo að orði m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Meðal skemmtiatriða verður nýstárlegt uppboð, sem Sigurður Benediktsson stjórnar. Verða þar boðnar upp nokkrar flöskur af fyrsta flokks áfengi, sem ýmsir þjóðkunnir menn hafa áritað eða myndskreytt.“ Og meðal þessara manna eru taldir hér upp Jóhannes Kjarval, Sigurður Nordal, Tómas Guðmundsson og Jón Pálmason, sem mundi kannske vera forseti sameinaðs Alþingis, ef ég skil það rétt.

Nú vildi ég spyrja hæstv. dómsmrh. að því, hvort hann hefði veitt þessu athygli og hvort hann teldi það geta samrýmzt áfengislöggjöf vorri, að haldið sé opinbert uppboð á áfengi. Vænti ég þess, að hæstv. dómsmrh. gefi við þessu svör.