09.05.1959
Sameinað þing: 46. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1919 í B-deild Alþingistíðinda. (2350)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég sá í gær, að hæstv. utanrrh. var kominn hér í þinghúsið, og hafði gert mér vonir um, að hann yrði hér í dag, en heyri nú, að hann muni ekki koma til þings í dag af heilsufarsástæðum. Ef lengra hefði verið eftir af þingtíma, hefði ég, þar sem ég ætlaði að beina máli mínu til hæstv. utanrrh., heldur kosið að fresta að flytja þetta mál mitt, sem ég tel vera nokkuð alvarlegt mál, þangað til hann væri viðstaddur, en held, að það sé eins gott, að honum berist þá mitt mál, svo að hann geti gefið svar við því, t.d. á næsta fundi, þegar hann gæti verið hér að þingstörfum, enda er nú hæstv. forsrh. viðstaddur og aðrir ráðherrar, svo að ég vænti þess, að þeir af góðvild beri honum það, að ég hafi beint máli mínu til hans.

Þetta mál, sem ég ætlaði að vekja athygli hæstv. utanrrh. á, er um það, að setuliðið á Keflavíkurflugvelli hefur nú upp á síðkastið traðkað mjög á rétti íslenzkra verkalýðssamtaka, að því er snertir það atriði að hafa trúnaðarmenn á vinnustöðum, og flæmt hvern á fætur öðrum þessara trúnaðarmanna þaðan í burtu. Þetta kom fyrir sem einstök tilfelli fyrr á tíð, en nú upp á síðkastið virðist vera komið skipulag á þetta hjá þeim, þannig að þeir leggi nú stund á að hrekja hvern trúnaðarmann verkalýðssamtakanna á brott. Það hefur verið reynt að fá réttingu þessara mála gegnum varnarmáladeild utanrrn., en það hefur ekki borið árangur, og nú er komið svo, að Alþýðusambandið treystist ekki til að tilnefna trúnaðarmenn, þar sem nokkurn veginn má telja víst, að viðkomandi trúnaðarmanni yrði þá fljótlega sagt upp starfinu.

Seinustu dæmin um þessa árás setuliðsins á Keflavíkurflugvelli á trúnaðarmenn verkalýðssamtakanna, skipaða samkv. ákvæðum vinnulöggjafarinnar, eru þessi:

Seint í júnímánuði s.l. barst Alþýðusambandinu bréf, dags. 19. júní 1958, undirritað af 22 starfsstúlkum hjá Iceland Central Exchange á Keflavíkurflugvelli. Í bréfinu var þess óskað, að Ivonna Berglund verði lögum samkvæmt kjörin trúnaðarmaður á vinnustaðnum. Þessu bréfi var svarað munnlega á þá leið, að óskað væri eftir ábendingu um annan trúnaðarmann til viðbótar, þar sem vinnuveitandinn ætti rétt á því að velja á milli tveggja. Í framhaldi af þessu barst svo Alþýðusambandinu annað bréf frá starfsstúlkunum, dags. 21. júlí, þar sem greint er frá kjöri þeirra Ivonnu Berglund og Ragnhildar Ericsen og borin fram ósk um það, að Alþýðusambandið sjái um, að önnur hvor þeirra fái löglega útnefningu sem trúnaðarmaður. Að svo komnu máli ritaði Alþýðusambandið bréf til varnarmálanefndar, dags. 28. júlí, þar sem óskað var eftir, að önnur hvor þessara stúlkna væri tilnefnd sem trúnaðarmaður. Bréf þetta mun hafa verið lagt fram á fundi varnarmálanefndar 29. júlí. Tveim dögum síðar, hinn 31. júlí, var þeim Ivonnu Berglund og Ragnhildi Ericsen báðum sagt upp störfum bréflega með þriggja mánaða fyrirvara. Þær höfðu verið starfsmanneskjur þarna árum saman, og tveimur dögum eftir, að tilnefning þeirra sem trúnaðarmanna hafði verið rædd hjá varnarmálanefnd, er þeim báðum sagt upp og engum öðrum stúlkum. Það er því alveg augljóst mál, að þeim er sagt upp vegna þess, að þær áttu að taka að sér að vera trúnaðarmanneskjur fyrir starfssystur sínar á þessari vinnustöð. Ýtarlegar tilraunir hafa verið gerðar til þess að fá leiðréttingu á þessu, en stúlkurnar hafa ekki náð rétti sínum.

Seinna dæmið, sem er ekki síður alvarlegt og augljóst, er í aðalatriðum á þessa leið: Hinn 21. okt. s.l. barst Jóni Magnússyni, sem starfað hefur nokkur undanfarin ár sem strætisvagnstjóri hjá setuliðinu á Keflavíkurflugvelli og jafnframt gegnt þar störfum sem trúnaðarmaður Alþýðusambands Íslands fyrir ökumenn strætisvagnanna á vellinum, uppsagnarbréf, þar sem honum er sagt upp starfi frá og með kvöldi sama dags. Vegna skyldu sinnar sem trúnaðar maður kom það oft í hlut Jóns Magnússonar að bera fram umkvartanir við yfirmenn setuliðsins vegna lélegs ástands strætisvagnanna og ófullnægjandi aðbúnaðar vagnstjóranna. Eitt sinn var um að ræða kæru út af því, að kolsýringur væri í vögnunum, og er það atriði stutt sterkum rökum, m.a. vottorði héraðslæknisins í Keflavík, sem skoðar einn vagnstjórann og telur hann hafa orðið fyrir kolsýringseitrun, en hann hafði þá, rétt áður en hann fór til læknisins, ekið í 3 klst. slíkum strætisvagni. Fleiri voru dæmin, að strætisvagnstjórarnir töldu lífi og heilsu stofnað í hættu með því að aka þessum vögnum í því ástandi, sem þeir voru. Bifreiðaeftirlitsmenn íslenzkir og lögreglumenn skoðuðu vagnana og komust að þeirri niðurstöðu, að kolsýrings gætti í þessum vögnum og hefði verið gerð sérstök aðgerð til þess að bæta úr öðrum ágalla, sem á vögnunum var, en hefði opnað kolsýringnum leið upp í vagnana. Í annað sinn varð Jón Magnússon, þessi umræddi trúnaðarmaður, að taka strætisvagn úr notkun vegna þess, hversu laus hann var í stýri, og taldi Jón, að vagninn væri hættulegur í umferðinni, ef ekki væri við hann gert. Þetta tilvik er einnig mjög vel rökstutt, m.a. af vottorðum. En þetta og ýmislegt fleira var síðan gert þessum trúnaðarmanni að sök og honum sagt upp starfi fyrirvaralaust, og var ætlunin, að kaupgreiðsla hans félli niður samdægurs. Mál þetta hefur verið rannsakað vandlega af varnarmálanefnd, og er mér kunnugt um, að íslenzki hluti n. er þeirrar skoðunar, að Jón Magnússon hafi verið hrakinn frá starfi eingöngu vegna skyldustarfa sinna sem trúnaðarmaður. En leiðréttingu mála sinna hefur hann enga fengið þrátt fyrir það, þó að Alþýðusambandið, lögfræðingur þess, hafi gert allt, sem unnt var, til þess að rétta hans mál, og ég þori að segja einnig hinn íslenzki hluti varnarmálanefndar, sem telur manninn sýknan af þeim sökum, sem á hann hafa verið bornar.

Brottför Jóns Magnússonar úr starfi ásamt uppsögn þeirra Ivonnu Berglund og Ragnhildar Ericsen, sem sagt var upp starfi hjá Iceland Central Exchange, eftir að þær höfðu verið formlega tilnefndar af Alþýðusambandinu til trúnaðarmannakjörs, hefur orsakað slíka hræðslu hjá íslenzku starfsfólki varnarliðsins við að taka að sér að vera trúnaðarmenn á vinnustað, að fólk á vellinum er ófáanlegt til að gegna trúnaðarmannsstörfum. Hið íslenzka starfsfólk þarna er því án trúnaðarmanna, og hefur þó sýnt sig, sérstaklega að því er snerti vagnstjórana, að það var fyllilega þörf á, að íslenzkur trúnaðarmaður gætti hagsmuna hins starfandi fólks þarna. Það gat jafnvel verið um lífshættulega aðbúð að ræða. Af hendi Alþýðusambandsins standa málin líka þannig, að það vill ekki stofna starfsfólki á vellinum í þá hættu, að því sé þegar í stað sagt upp starfi, þegar það hafi verið tilnefnt sem trúnaðarmenn, og hefur Alþýðusambandið því ákveðið að tilnefna ekki trúnaðarmenn að svo komnu, fyrr en rétting hafi fengizt á þessum málum.

Viðvíkjandi máli Jóns Magnússonar skal ég aðeins að lokum geta þess, að vottorð mjög eindregið honum í vil hefur borizt frá 22 strætisvagnstjórum á Keflavíkurflugvelli, þar sem þeir lýsa yfir, að trúnaðarmaður þeirra á vinnustað, Jón Magnússon, hafi innt trúnaðarstarf sitt af hendi af samvizkusemi og háttvísi, „enda annarra sök, hvernig sambúðin var á þessum vinnustað“, segja þeir. „Ástandi vagnanna var í mörgu mjög ábótavant, og margir þeirra voru langtímum ókeyrsluhæfir, þó að okkur hafi verið skipað að aka þeim. Við teljum því, að Jóni Magnússyni hafi verið sagt upp af þeirri ástæðu einni, að hann krafðist þess, að bifreiðarnar væru lagfærðar, þegar þær voru óökufærar og beinlínis hættulegar í akstri í mörgum tilfellum.“ Sama er niðurstaðan hjá íslenzka hluta varnarmálanefndar, að honum hafi verið sagt upp starfi eingöngu vegna þess, að hann gætti skyldu sinnar sem trúnaðarmaður.

Hæstv. utanrrh. mun vera að öllu leyti kunnugt um þessi mál. En ég taldi samt rétt bæði að gera þingheimi kunnugt um þessi mál og eins að ítreka það við hæstv. ráðh., að nú er það krafa Alþýðusambandsins, að áðurnefndir trúnaðarmenn verði tafarlaust teknir til sinna starfa aftur. Og ég heiti á hæstv. utanrrh. að taka málið upp við ambassador Bandaríkjanna hér og krefjast þess, að þessu máli verði kippt í lag. Nú er málið komið í þann farveg, að Alþýðusamband Íslands hefur leitað allra ráða til þess að vernda þessa trúnaðarmenn samkv. íslenzkum lögum og ekki fundið neinar leiðir til þess, — ástandið er orðið svo alvarlegt, þegar hið starfandi fólk er þarna trúnaðarmannslaust, að nú verður ekki komizt hjá að leita samstarfs við verkalýðsfélögin í Reykjavík um stöðvun aðflutninga á nauðsynjavörum til vallarins, ef þessu verður ekki kippt í lag. Ég tel þetta mál svo alvarlegt, að það sé full ástæða til, að hæstv. ráðh., sem málið helzt heyrir undir, viti um það, hvað til stendur og í hvaða óefni málið er að komast, áður en í sjálft óefnið er komið.

Ég vona, að þessi skýrsla mín um þetta mál berist hæstv. ráðh., og ég vænti svars hans um það á næsta fundi, þegar hann getur hér verið, hvort hann sjái sér ekki fært að taka málið upp við ambassador Bandaríkjanna, svo að komizt verði hjá því, að verkalýðsfélögin beiti stöðvunaraðgerðum gegn vöruflutningum til Keflavíkurflugvallar.