05.11.1958
Sameinað þing: 7. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1923 í B-deild Alþingistíðinda. (2353)

Landhelgismál

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Svo sem kunnugt er, fór hæstv. utanrrh. á fund Sameinuðu þjóðanna, er þær voru kallaðar saman í september, til þess þar að vinna að landhelgismáli Íslendinga. Hann er nú kominn hingað til lands fyrir alllöngu og hefur á þeim degi, sem helgaður er minningu Sameinuðu þjóðanna eða haldinn þeim til heiðurs, m.a. í ýtarlegu erindi, er hann flutti, vikið að landhelgismálinu og skýrt þar frá því, að ekki væru horfur á, að tillaga Íslands um, að málið yrði afgreitt á sjálfu allsherjarþinginu, mundi hljóta stuðning. Hið sama kom fram í erindi, sem hæstv. utanrrh. hélt í flokksfélagi sínu í gærkvöld, að því er Alþýðublaðið segir frá í dag.

Það er skoðun margra þingmanna, a.m.k. sjálfstæðismanna, að vel færi á því og raunar meira en það, — að sjálfsagt sé, að þetta mál og meðferð þess sé rætt innan þingsins. Það voru horfur á því, fyrst eftir að hæstv. utanrrh. kom úr ferð sinni, að hann mundi gefa skýrslu um málið á fundi utanrmn. En síðan reyndist svo, að ekki hefur þótt kleift að setja þá n. á laggirnar, eins og lög standa til, og þeim fundi, sem þar var boðaður, til þess að ráðh. gæfi sina skýrslu, hefur nú verið frestað a.m.k. um rúmar tvær vikur, og að því er ég bezt veit, er enn óráðið, hvenær sá fundur verði haldinn.

Ég vildi því fara þess á leit fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, að hæstv. utanrrh. gæfi þá skýrslu, sem hann hafði fyrirhugað, annaðhvort á fundi í Sþ. í almannaáheyrn eða ef hentara þykir, að skýrslugjöfin verði fyrir luktum dyrum, en hvort heldur yrði ákveðið með þeim hætti, að þm. gæfist kostur á að ræða málið og bera fram fsp. og hreyfa aths. út af meðferð þess, ef atvik þykja standa til. Eins og sakir standa, mundum við ekkert hafa við það að athuga, að fundurinn yrði haldinn fyrir luktum dyrum, ef hæstv. ríkisstj. og utanrrh. kjósa það heldur. En við teljum, að það megi ekki dragast, að til slíks samráðs hæstv. utanrrh, við þingheim sé stofnað.