13.11.1958
Neðri deild: 20. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í B-deild Alþingistíðinda. (2354)

Landhelgismál

Ólafur Thors:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að kveðja mér hljóðs utan dagskrár í tilefni af atburðum, sem gerðust í gær í sambandi við fiskveiðar Breta innan íslenzkrar landhelgi. Í blöðunum í dag er sagt frá þessum atburðum eftir tilkynningu frá landhelgisgæzlunni á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Laust fyrir hádegi í dag kom varðskipið Þór að brezka togaranum Hackness FD-120, þar sem hann var staddur 2.5 sjómílur frá landi skammt suður af Látrabjargi.

Togarinn var með ólöglegan umbúnað veiðarfæra, og gaf varðskipið honum þegar stöðvunarmerki. Togarinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum Þórs og hélt til hafs. Skaut varðskipið þá nokkrum lausum skotum að hinum brezka togara. Þar sem sýnt þótti, að togarinn ætlaði ekki að stanza, skaut varðskipið einu föstu skoti að honum, og kom skotið í sjóinn rétt fyrir framan stefni hans. Stöðvaði togarinn þá þegar ferðina.

Brezka freigátan Russell var þarna í nágrenninu. Tilkynnti skipherrann á Þór skipherra Russells um málavexti, en hann bað skipherrann á Þór að fresta frekari aðgerðum. Kvað hann togarann hafa verið utan 4 sjómílna markanna og bannaði Þór öll afskipti af honum.

Skipherranum á Russell var boðið, að Þór færi með togarann í var upp undir land og væri þá hægt að ræða málið. Skipherrann á Russell neitaði því, og fóru nú nokkrar orðsendingar milli skipherranna. Tilkynnti Eiríkur Kristófersson skipherra á Þór skipherranum á Russell að lokum, að hann teldi sig hafa fullan rétt til þess að setja menn yfir í togarann og færa hann til hafnar. Svaraði skipherrann á Russell því með eftirfarandi orðsendingu:

„Ef þið skjótið á togarann, þá sökkvum við ykkur.“

Kom skipherrunum saman um, að Russell fengi að tilkynna yfirboðurum sínum í London um málavöxtu, og lofaði hann jafnframt að sleppa togaranum við Þór, ef hann fengi jákvætt svar.

Laust fyrir kl. 20 barst svo skeyti frá Lundúnum til herskipsins Russells með fyrirmælum um meðferð málsins. Segir þar, að fjallað verði um mál togarans eftir venjulegum diplómatískum leiðum. Skipið eigi að sigla tafarlaust til Lundúna, og beri Russell að sjá um, að íslenzk varðskip hefti ekki för þess.“

Ef þessi skýrsla er rétt, og ég hef enga ástæðu til að vefengja, að svo sé, þá er hér um ákaflega alvarleg tíðindi að ræða.

Við, sem hér erum staddir, efumst ekkert um það, að Eiríkur Kristófersson skipherra á Þór segi satt frá um, að sökudólgurinn, sem hér um ræðir, hafi verið staðinn að broti 21/2 sjómílu frá landi.

Og það raskar ekki trú okkar á sannleiksgildi þeirra ummæla, að skipherrann á Russell telur, að skipið hafi verið fyrir utan svokallaða 4 mílna línu. Ég segi: Sé hér satt og rétt frá sagt, sem við drögum ekki í efa, þá er það staðreynd, að brezkt skip er staðið að broti á landhelgislögunum, ekki eingöngu innan hinnar nýju 12 mílna línu og ekki eingöngu innan 4 mílna línunnar, sem Bretar hafa þó í raun og veru viðurkennt í verki, heldur einnig innan 3 mílna línunnar, sem Bretar sjálfir lengst af vildu halda fast í. Brotið er framið 21/2 sjómílu frá landi.

Þegar svo íslenzka lögreglan á hafinu ætlar að gera skyldu sína gagnvart sökudólg, sem staðinn er þannig og þarna að broti, þá fær hún tilkynningu um það frá brezka vopnavaldinu úti fyrir ströndum Íslands, að ef hún hafist að, verði hið íslenzka varðskip skotið niður.

Við skulum taka umbúðirnar af þessu alveg. Og þá er sannleikurinn þessi:

Við Íslendingar erum í bandalagi, við erum í fóstbræðralagi við margar aðrar þjóðir. Ein hin voldugasta þeirra í Evrópu, Bretinn, segir við okkur:

Ef við fáum ekki að brjóta lög ykkar, þau lög, sem þið eigið líf ykkar undir að í heiðri séu haldin, þá hikum við ekki við að drepa ykkur. Við hótum ekki með neinu öðru, en að skjóta niður skipin, þótt það kosti að drepa skipverja, fleiri eða færri.

Það er þetta, sem skipherrann á Russell tilkynnir okkur.

Og þó er þetta ekki það alvarlegasta. Það voveiflegasta er, að þegar sjómaðurinn hikaði, tóku þeir, sem honum eru valdameiri, af skarið. Á örlagastundinni runnu tvær grímur á skipherrann á Russell. Hann skaut ekki, heldur spurði hann sjálfan sig: Getur það hugsazt, að ég eigi að gera þetta? Er það ekki líklegt, að ég hafi ofmælt mig? Er ekki varlegra, að ég beri mig saman við yfirmenn mína, brezku stjórnina? Og íslenzki skipherrann segir: Jú, ger þú það, ger þú það. Hann gerði það og svarið kom. Takið eftir því, að skipherrann tilkynnir brezku ríkisstjórninni alla málavexti og spyr, hvað hann eigi að gera. Svarið kemur og segir, að fjallað verði um mál togarans eftir venjulegum diplómatískum leiðum. Skipið eigi að sigla tafarlaust til Lundúna og beri Russell að sjá um, að íslenzk varðskip hefti ekki för þess.

Þegar skipherrann er búinn að tilkynna brezku stjórninni, að hann hafi hótað að skjóta niður íslenzka varðskipið og jafnvel drepa mennina, sem á því eru, og spyr brezku stjórnina, hvað hann eigi að gera, þá segir brezka stjórnin: Þú átt umfram allt — og kosti hvað sem kosta vill — að hindra það, að brezka skipið verði tekið. Þetta eru fyrirmælin.

Skipið á að fara til London, og þar verður fjallað um mál togarans „eftir venjulegum diplómatískum leiðum“. Getur einhver úr hæstv. ríkisstj. sagt mér, hverjar þessar venjulegu diplómatísku leiðir séu? Eru til nokkrar diplómatískar leiðir í þessum efnum? Segjum, að brezkur sjómaður brytist inn hérna í Reykjavíkurapótek og íslenzk lögregla kæmi á vettvang, stæði hann að verki fyrir þjófnað og innbrot og ætlaði að handtaka hann. Brezkt herskip væri hér í höfninni. Hugsum okkur, að hermenn kæmu í land og segðu: Hér eru byssurnar — fallbyssurnar eru rétt við — hérna eru skammbyssurnar. Sleppið manninum undireins. Við verðum að fara með hann til London, og þar verður „eftir venjulegum diplómatískum leiðum“ dæmt, hvort hann hafi brotið íslenzk lög.

Ég þekki ekki þessar aðferðir. Ég þekki þær einar leiðir, að ef maðurinn er staðinn að broti og lögreglan tekur hann, þá sé farið með hann eftir venjulegum lagareglum og maðurinn dæmdur eftir íslenzkum lögum, hvort heldur hann er brezkur eða íslenzkur. Eru það kannske dr. Kristinn og Selwyn Lloyd, sem eiga að ákveða þessar „diplómatísku leiðir“, sem á að dæma skipið eftir?

Ég veit ekki, hvort menn gera sér jafnljóst og ég fyrir mitt leyti geri, út í hvaða hroðalegt óefni er komið, hversu langt hér er gengið og hversu botnlausa fyrirlitningu fyrir öllu velsæmi þetta athæfi Breta sýnir.

Segjum, að skipið hefði verið fyrir utan 4 mílna línuna, þá má kannske um þetta della frá þeirra sjónarmiði. En hver getur deilt um það, þegar skipið er innan 3 mílna línunnar, að við höfum, einnig að dómi Breta, skýlausan rétt til að taka það? Og hver getur deilt um það, að þegar stóri bróðir segir: Ef þú ætlar að taka skipið, þá ætla ég að skjóta þig í kaf, — hver getur þá deilt um það, að það sé villimennska?

Ég skal nú reyna að láta ekki þessi hroðalegu tíðindi draga neitt úr því, að okkur takist að fara skynsamlega að ráði okkar í þessum efnum. En ég segi: Sé þessi skýrsla sönn, og ég hef enga ástæðu til að vefengja, að hún sé sönn, þá vil ég leyfa mér af þessu tilefni í nafni Sjálfstæðisflokksins að óska þess, að ríkisstjórn Íslands beri tafarlaust fram kröfu um, að þegar í stað verði kallaður saman fundur æðstu manna NATO-ríkjanna, svo sem ráð er fyrir gert í sáttmála Atlantshafsbandalagsins, þegar svipað stendur á og þótt minna tilefni væri, til þess að Bretar verði þar hindraðir í hernaðaraðgerðum hér við land nú þegar og þannig verði girt fyrir, að næstöflugasti fóstbróðirinn í bandalagi NATO-þjóðanna drepi þegna minnsta bróðurins og hins eina þeirra, sem er vopnlaus.

Krafa okkar er sú, að girt verði fyrir þessa hroðalegu hættu án þess, að það þurfi að leiða lík íslenzkra sjómanna sem vitni um ofbeldisaðgerðir Breta gagnvart Íslendingum.

Ég leyfi mér að óska eftir umsögn hæstv. utanrrh, um þetta mál og hvað stjórnin hefur í hyggju að gera í tilefni af því.

Forsrh. (Hermann Jónasson): Herra forseti. Hv. þm. G-K. hefur gert að umræðuefni þá atburði, sem gerðust í gær í landhelgismálunum. Það, sem hann sagði um það mál og mælti eðlilega fyrst og fremst til brezku íhaldsstjórnarinnar, álit ég að sé hvergi ofsagt. Þessir atburðir eru svo alvarlegir, að ég álít, að þau orð, sem hann lét um þau falla, séu ekki ofsögð að neinu leyti, þó að þetta sé að vísu framhald af því, sem við höfum átt að venjast, og stigið skrefi lengra, en áður hefur verið stigið.

Bráðabirgðaskýrsla um þennan atburð barst í gærkvöld seint til mín.

Ég kallaði þann mann, sem hefur forustu um framkvæmd þessara mála með höndum í fjarveru Péturs Sigurðssonar framkvæmdastjóra landhelgisgæzlunnar, á minn fund í morgun til þess að fá kannaðar þær skýrslur, sem fyrir lágu, og ég get staðfest það, að eftir þeim skýrslum, sem ég hef fengið ýtarlegastar, er rétt sagt frá þessu máli opinberlega og á réttum frásögnum byggt í ummælum hv. þm. G-K.

Ég sendi að sjálfsögðu afrit af þessum skýrslum til utanrrn. þegar í morgun, og verður haldinn fundur í ríkisstj. í dag um málið, eftir að nú hafa verið sannprófaðar þær skýrslur, eftir því sem við bezt getum, sem fyrir liggja í málinu. Ég get þess vegna ekki á þessu stigi svarað því, hvað kann að verða gert í málinu. Það er auðvitað alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að það er fjarstæða að tala um, að það verði gert út um mál hins seka skipstjóra að venjulegum diplómatískum leiðum. Þær venjulegu leiðir til þess að afgera mál sökudólga eru íslenzkir dómstólar, sem eiga um þau að fjalla. Þessi ummæli eru þess vegna, að því er ég bezt fæ séð, þó að það sé ekki mitt að skýra það, sem brezka ríkisstj. segir, en eftir því sem maður bezt fær séð, er þetta ekkert annað en venjulegur, lítilmótlegur fyrirsláttur til þess að segja eitthvað undir þeim kringumstæðum, þegar erfitt er að segja nokkuð.

Það er þess vegna ekki öðru að svara í þessu máli nú, heldur en því, sem ég hef þegar svarað. Hvort viðbrögðin verða þau, sem hv. þm. hefur stungið upp á, eða önnur, get ég ekki sagt, fyrr en málið hefur verið rætt í ríkisstj. Það kemur vitanlega ýmislegt fleira til greina. En það er ágætt, að þessu máli hefur verið hreyft og að hv. þm. hefur látið í ljós skoðanir sínar á málinu. Það gleður mig, að það sýnir, að um þetta mál og þessa framkomu eru ekki skoðanir skiptar, að ég álít, hér á Alþingi.