13.11.1958
Neðri deild: 20. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (2356)

Landhelgismál

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur í rauninni þegar sagt allt í þessu máli, sem segja þarf.

Ég fékk fyrst að vita um þessa atburði síðari hluta dags í gær, en þá lá ekki fyrir skýrsla skipherrans á hinu íslenzka varðskipi. Afrit af þeirri skýrslu barst mér fyrst rétt fyrir hádegið í dag, og ég hef því aðeins haft tækifæri til að líta yfir hana lauslega, en ekki haft aðstöðu til að athuga málið nánar. Kemur fram í skýrslunni, að frásögnin, eins og dagblöðin hafa hana eftir skipverjum af íslenzka varðskipinu, virðist vera rétt.

Ekki þarf að taka fram, hversu alvarlegir þessir atburðir eru, til hvers þeir geta leitt og við hverju við megum búast í framtíðinni, ef svo fer sem okkur hefur verið ógnað með á þessari stundu. Þetta er að sjálfsögðu ástand, sem Ísland getur ekki unað við. Verðum við að grípa til allra þeirra ráða, sem við vitum bezt eftir nána athugun, til þess að koma í veg fyrir, að atburðir eins og þessir endurtaki sig og að það ástand haldist lengur, sem verið hefur hér við ströndina síðan 1. sept. Hvaða leiðir verður heppilegast að fara, skal ég ekki segja um á þessu augnabliki. Málið er ekki nógu vel athugað til þess. En eins og hæstv. forsrh. sagði áðan, mun verða haldinn fundur í ríkisstj. um málið síðar í dag, og ég vildi mega bæta því við, að það er ósk mín, að hægt verði að hafa samráð og samstarf við utanrmn. í heild um málið og að ekki þurfi að koma til þess, sem tvisvar hefur komið fyrir á þessu þingi, að orðið hefur að fresta fundum utanrmn. af vissum ástæðum.

Ég tel fyrir mitt leyti, að eftir að ríkisstj. hefur rætt málið og athugað, þá sé æskilegast, að fundur verði haldinn í utanrmn. og málið tekið þar einnig fyrir til meðferðar með það fyrir augum að fá samstarf um meðferð málsins á sem breiðustum grundvelli.