26.01.1959
Neðri deild: 62. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1930 í B-deild Alþingistíðinda. (2359)

Landhelgismál

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að bera hér fram fsp., sem ég ætlaði að beina til hæstv. dómsmrh., í sambandi við störf landhelgisgæzlunnar. Ég sé nú, að hæstv. ráðh. er ekki mættur, en hins vegar er mættur hér í d. hæstv. forsrh., svo að ég vildi leyfa mér að mega beina fsp. minni þá til hans í staðinn.

Fsp. mín er í tilefni af því, að frá því hefur verið skýrt nýlega í útvarpi og blöðum, að skipherrann á varðskipinu Þór hafi gert samning við flotaforingjann Anderson á einu af brezku herskipunum, sem hér eru við land, um sérstakar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir skemmdir brezkra togara á veiðarfærum íslenzkra báta. Mér þótti fregn þessi, eins og hún er birt í blöðum, harla athyglisverð, og ég vildi gjarnan fá hér nokkru nánari upplýsingar um, hvað hér hefur raunverulega verið að gerast. Í tilefni af því vildi ég sérstaklega beina þeirri fsp. til hæstv. dómsmrh., sem ég sé að nú er kominn í d., hvort hann vildi ekki kynna hér fyrir þingheimi, hvaða samkomulag raunverulega hefur átt sér stað milli íslenzku landhelgisgæzlunnar og fulltrúa hinna erlendu skipa, sem hér eru að brjóta íslenzk landhelgislög. Í fréttinni er skýrt frá því, — ég styðst hér við frásögn í Mbl., — þar er sagt um það, sem þarna hafi gerzt, á þessa leið:

„Tók Eiríkur það fram, eftir að hann var kominn um borð í hið brezka herskip til viðræðu við flotaforingja þar, að eingöngu hefði verið rætt um ráðstafanir til að vernda veiðarfæri vertíðarbátanna án hliðsjónar af því, hvort þau liggja í sjó innan eða utan 12 mílna landhelginnar.“

Samkv. fréttinni er nánar sagt, að skipherrann á íslenzka varðskipinu hafi tekið að sér að koma því til íslenzku bátanna, að þeir forðist að leggja veiðarfæri sín í sjó í veg fyrir togara, þar sem þeir eru að veíðum fyrir.

Nú vildi ég í tilefni af þessu spyrja: Er það rétt, sem þessi frétt virðist bera með sér, að samið hafi verið við hinn brezka flotaforingja um það, hvernig íslenzkir bátar skyldu leggja veiðarfæri sín í sjó innan 12 mílna landhelgi Íslands? Getur það átt sér stað, að íslenzka landhelgisgæzlan standi í samningum við brezka flotaforingjann um það, hvernig bátar okkar hafi leyfi til þess að leggja veiðarfæri sín í sjó innan okkar lögákveðnu landhelgistakmarka? Slíkt væri vitanlega, ef satt væri, mjög fráleitt og væri þar horfið inn á þá braut að fara að semja við yfirgangsmennina af okkur þann rétt, sem við teljum að við eigum alveg ótvírætt.

Þá vildi ég einnig spyrjast fyrir um það í tilefni af þessu, hvort bátum okkar hafi verið settar einhverjar reglur um það, hvernig eða hvar þeir megi leggja veiðarfæri sín í sjó utan 12 mílna svæðisins, því að það er vitanlega ekkert samningamál við Breta, hvar við Íslendingar megum leggjá okkar veiðarfæri í sjó, einnig fyrir utan 12 mílna mörkin.

Eins og kunnugt er, þá eru til gildandi reglur, sem Bretar eru aðilar að með okkur og fjöldamörgum öðrum þjóðum, að togurum og öðrum slíkum skipum beri skylda til þess að virða rétt þeirra aðila, sem lagt hafa veiðarfæri í sjó þar fyrir, sem þeir koma að, og það er með öllu óheimilt fyrir togskip að fara með veiðarfæri sín yfir þau veiðarfæri, sem liggja í sjó, svo framarlega sem veiðarfærin eru eðlilega merkt, þannig að kleift sé fyrir togskipið að forðast þau.

Það, sem okkur ber að gera í þessum efnum, er vitanlega aðeins að halda því fast að okkar veiðiskipum, að þau setji glögg merki á veiðarfæri sín, það liggi alveg ljóst fyrir, hvar veiðarfærin eru í sjó, og Bretar verði síðan að halda sér að fullu og öllu við þá samþykkt, sem þeir eru aðilar að, að virða rétt þeirra, sem á undan eru komnir á miðin og eiga þar veiðarfæri fyrir liggjandi í sjó. Síðan hljótum við vitanlega að halda því fram, að það séu ný lögbrot af hálfu Breta, ef þeir ætla að toga á óleyfilegan hátt, brjótandi þessa samþykkt líka, yfir þau veiðarfæri, sem löglega liggja í sjó.

Í tilefni af þessu vil ég ítreka þá ósk mína að fá upplýsingar nánar um þessa frétt, en vara að öðru leyti við því, að á nokkurn hátt sé farið inn á þá braut, að íslenzk stjórnvöld fari að semja við yfirmenn herskipanna, sem hafa ráðizt gegn okkur með ofbeldi og brjóta okkar lög, varðandi veiðar íslenzkra skipa hér við land, því að slíkt gæti verið hættulegt fyrir okkar landhelgismál.

Ég ítreka svo ósk mína til hæstv. dómsmrh. um það að upplýsa hér fyrir þingheimi nokkru nánar, hvað þarna hefur raunverulega verið að gerast.