29.01.1959
Efri deild: 59. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Björn Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. Str. (HermJ) lauk hér máli sínu og meðal þess, sem hann gerði að umtalsefni, voru kauphækkanirnar, sem gerðar voru á s. l. sumri, og dæmdi hann þær mjög hart og alla þá, sem að þeim höfðu staðið.

Í því sambandi gat hann þess fyrr í ræðu sinni, að í grg. þeirri, sem fylgt hefði frv. um útflutningssjóð á s. 1. vori, hefði það verið tekið fram og öll ríkisstj. hefði verið sammála um það, að kaup mætti ekki hækka frá því, sem ákveðið var í lögunum, og enn fremur, að öll ríkisstj. hefði verið sammála um það, að endurskoðun vísitölunnar færi fram nú í vetur eða á næsta hausti.

Þegar rætt er um kauphækkanirnar, þá held ég, að það sé nauðsynlegt að muna eftir öllum þeim, sem stóðu að kauphækkunum og að hækkunum á almennu verðlagi og dæma þá alla jafnhart. En staðreynd er það, að á s. l. sumri, áður en verkamenn höfðu hækkað sitt kaup um einn eyri, hafði framleiðsluráð landbúnaðarins undir forustu framsóknarmanna hækkað vinnulið bóndans, þ. e. a. s. hans laun og þeirra, sem hjá honum vinna, um 6%. Rétt áður en Alþýðusambandsþing var haldið og áður en verkalýðshreyfingin tók þar afstöðu í efnahagsmálunum, hafði Framsfl. einnig staðið að því, að kaup allra opinberra starfsmanna í landinu var hækkað um 6–9%. Ég minni á þetta til þess að sýna, að það voru ekki aðeins þeir, sem hv. þm. Str. kallar stjórnarandstæðinga innan samstarfsflokka Framsfl. í fyrrv. ríkisstj., sem stóðu að kauphækkunum, heldur voru það miklu fleiri og verður vafalaust enginn sérstakur flokkur um það sakaður, nema ef vera skyldi sá, sem réð mestu eða a. m. k. allt of miklu um efnahagsaðgerðirnar, sem gerðar voru á s. l. vori.

Það liggur nú fyrir, sem Alþb. hafði raunar spáð, þegar frv. og lögin um útflutningssjóð voru til umr. hér á hv. Alþingi á s. l. ári, að það hefur á þessu ári verið ofheimt af þjóðinni upphæð, sem trúlega nemur allt að 200 millj. kr. Ég held, að hv. þm. Str. geti ekki mótmælt því, að tekjuafgangur ríkissjóðs á þessu ári muni nema 60–70 millj. kr. Ég hygg, að hann geti ekki heldur mótmælt því, að beinn hagnaður útflutningssjóðs á þessu ári nemur a. m. k. 34 millj. kr. Og ég hygg, að hann muni ekki heldur neita því, að ráðstöfun á fé ríkissjóðs hafi vegna erlendrar lántöku, sem var ráðstafað á sérstakan hátt á banadægri fyrrv. ríkisstj., numið 63 millj. kr. Þetta telst mér til að muni vera um 170 millj. kr. Auk þess hefur það svo verið upplýst, að fiskbirgðir í landinu umfram þær, sem voru til um áramótin 1957–58, eru nú um 70 millj. kr. virði, og bæði útflutningssjóður og ríkissjóður eiga því eftir að taka sínar tekjur af þessum fiskbirgðum, sem þó eru framleiddar á fyrra ári.

Það lá heldur ekki fyrir, ekki fullkomlega sannanlega fyrir a. m. k., þegar lögin um útflutningssjóð voru samin og ráðherrar Alþb. stóðu að því og þeirri grg., sem þeim fylgdi, að framleiðsla þjóðarinnar mundi vaxa á árinu um 200 millj. kr., og verð ég að segja það, að komið gæti til álita, að minni upphæð, en þeirri yrði skipt á einhvern hátt milli launþega í landinu.

Ég vil svo líka gera það ranghermi hv. þm. Str. örlítið að umtalsefni, að stjórnarsamstarfið hefði rofnað vegna þess, að þau öfl hefðu orðið ofan á, að mér skildist sérstaklega í Alþb., sem hefðu verið andvíg stjórnarsamstarfinu og viljað það feigt. Þetta veit hv. þm. Str. að er með öllu ósatt. Fyrrv. ríkisstj. rofnaði vegna þess, að Framsfl. setti verkalýðshreyfingunni og Alþb. úrslitakosti í efnahagsmálunum. Þessir úrslitakostir voru fólgnir í því, að 15 stig skyldu vera eftirgefin bótalaust af vísitölu. Það verður þó að segja um aðstandendur þessa frv., sem hér er nú til umr., að þeir krefjast þó ekki nema 10 stiga bótalauss niðurskurðar á vísitölu, en þessi krafa framsóknarmanna hefði þýtt það, að kaup hefði lækkað um 8%. Auk þess lagði svo Framsfl. til, að 6 vísitölustig yrðu greidd niður og 150–160 millj. yrðu lagðar á í nýjum álögum. Þetta voru þeir kostir, sem Framsfl. gerði Alþb. til áframhaldandi stjórnarsamvinnu og verð ég að segja það, að síðar hefur komið í ljós, að allir flokkar aðrir buðu þar hagstæðari býti, þegar rætt var um stjórnarmyndun að þessari stjórn fráfarinni.

Það er rétt hjá hv. þm. Str., að þessar björgulegu till. þeirra framsóknarmanna voru ekki beint lagðar fyrir Alþýðusambandsþing. En þó var öllum, a. m. k. öllum í þeim nefndum, sem fjölluðu um ályktanir þingsins, kunnugt um þær og að sjálfsögðu ber að skoða neitun Alþýðusambandsþingsins á frestunarbeiðni þáv. hæstv. forsrh. í ljósi þeirra úrslitakosta, er Framsfl. hafði sett fram við samstarfsflokka sína. Að þetta hafi verið úrslitakostir, sannast greinilega af því, að eftir Alþýðusambandsþing, þegar bæði Alþfl. og Alþb. höfðu lagt fram sínar till. í efnahagsmálunum, þá fengust þær ekki einu sinni ræddar í ríkisstjórninni.

Fyrir örfáum dögum gat að lesa ummæli í aðalmálgagni hæstv. núv. ríkisstj., svofelld, með leyfi hæstv. forseta:

„Kunnur hagfræðingur hefur sagt um till. ríkisstj. nú, að hann sjái ekki nokkurn aðila í íslenzku þjóðlífi, sem geti hagnazt á þeim ráðstöfunum, sem lagðar eru til. Þetta þýðir, að enginn tapar á þeim, því að enginn getur tapað án þess, að annar græði, sem tapinu nemur.“

Höfundur þessarar ívitnuðu greinar er einn af hv. þm. Alþfl. og jafnframt nú orðinn aðalritstjóri Alþýðublaðsins, svo að hér fer ekki á milli mála, að þarna eru túlkaðar skoðanir hæstv. ríkisstj. á því frv., sem hér liggur fyrir. Og þá vita menn það. Töfrasprotinn, sem þarf að beita í efnahagsmálunum, er fundinn og Alþfl. bregður honum á loft með þessu frv. — og sjá, fram undan blasir við breiður vegur, sem þjóðin mun ganga eftir út úr hörmungum dýrtíðarinnar og inn í hið fyrirheitna land atvinnuöryggis og batnandi lífskjara. Og auðvitað eru allir ánægðir, jafnt auðmenn sem öreigar, atvinnurekendur jafnt og verkamenn, því að „....enginn tapar. Þess vegna hlýtur almenningur að fagna þeim ráðstöfunum, sem núv. ríkisstj. leggur til,...“ segir blaðið, „...almenningur er með lausninni.“ Daginn áður hafði blaðið að vísu slegið upp fimm dálka fyrirsögn, svofelldri: „Niðurfærsla verðbólgunnar, eftirgjöf 10 stiga, kaupmáttur hækkar.“ Í greininni, sem á eftir fer, segir svo: „Eftirgjöfin verður aðeins 10 stig. Er hækkun kaupmáttar við þessar ráðstafanir því 1.6%.“ Eftir allt saman er það þó ekki alveg nákvæmt hjá hv. 5. landsk. þm. (BG), ritstjóra Alþýðublaðsins, að enginn græði. Launamenn græða sem sé svolítið, ekki mikið að vísu, en þó upphæð, sem mundi svara 20–25 millj. kr. fyrir meðlimi Alþýðusambandsins eina. Og enn er sú undantekning að sögn blaðsins, að öryrkjar, mæður og barnafjölskyldur hagnast verulega, því að ekki eigi að lækka þeirra laun nema sem nemi úr 202 stiga verðlagsbótum í 185 stig. Og hverjir skyldu svo bera tapið af þessum hagnaði vinnustéttanna og öryrkjanna? Ekki getur blaðið þess, en trúlega eru það atvinnurekendur, því að öðrum er tæplega til að dreifa, og einhver hlýtur að tapa, þegar annar græðir, samkvæmt kenningu þess manns, sem falin hefur verið opinber málsvörn af hálfu ríkisstj.

Ég nefni þetta dæmi um málatilbúnað vegna þess, að hann er einkennandi fyrir allan málflutninginn á opinberum vettvangi af hálfu hæstv. ríkisstj., síðan hún tók við völdum, spaugilegur kannske að vísu að því leyti, að þar rekur sig allt á annars horn og gífuryrðin hljóma eins og sæmilegustu skrýtlur. En alvara málsins er sú óvirðing, sem almenningi er sýnd með áróðri af þessu tagi, það algera vanmat á dómgreind hans, sem lýsir sér í öllum þessum málflutningi.

Í áramótaboðskap sínum mælti hæstv. forsrh. á þessa lund undir lok ræðu sinnar:

„Ég vil ætla, að mörgum þyki það heiðarlegra að ganga beint framan að mönnum og segja, hvers sé þörf, heldur en að læðast aftan að fólki og taka hið sama eða meira í hækkuðu vöruverði.“

Ég verð að segja það sem mína skoðun, að bæði þetta frv., sem hér liggur fyrir og annar málflutningur í grg. þess ber lítinn keim af hinum karlmannlegu orðum hæstv. forsrh., er hann mælti til þjóðarinnar á nýársnótt. Það er ekki komið beint framan að almenningi með þessu frv., heldur þveröfugt, læðzt í krákustigum að baki honum til þess að fela hina réttu mynd af þeim afleiðingum, sem það hefur í för með sér. Sá maður, sem ekki hefði annað að styðjast við, en þetta frv. og rökstuðninginn með því, mundi sannarlega ekki komast langt til rétts skilnings á því, sem hér er að gerast eða verið er að reyna að láta gerast í efnahags- og kjaramálum.

Þar er þá fyrst að nefna það, að sjálf málsmeðferðin kemur í veg fyrir það, að rétt mynd fáist af því, hvernig ríkisstj, hyggst leysa efnahagsmálin. Þar á ég við það, að ekkert, bókstaflega ekkert liggur enn fyrir um það með neinni vissu, hvernig stjórnarflokkarnir muni afgreiða fjárlög, en afgreiðsla þeirra er annar höfuðþáttur efnahagsmálanna í heild sinni.

Sem dæmi um það, hve reikular og óvissar eru hugmyndir stuðningsliðs stjórnarinnar um þann þátt málsins, má nefna, að um áramótin lét hæstv. forsrh. liggja að því, að fjár til niðurgreiðslnanna yrði að miklu leyti, þ. e. a. s. allt að 70–80 millj. kr., jafnvel enn meira, aflað með sparnaði á gjaldaliðum fjárlaga. En svo, þegar hann lagði þetta frv. fyrir hér á hv. Alþingi, tæpti hann á 40 millj. kr., 40 millj. kr. lækkun gjaldaliða, en hafði þó varla sleppt því orði, þegar formaður þess þingflokksins, sem úrslitavaldið hefur í þessu máli eins og öðrum þeim, sem varða stjórnarstefnuna, reis upp og kvað hart nei við öllum niðurskurði á fjárl., öðrum en bitlingum til framsóknarmanna. Sjálfsagt má þar nú eitthvað spara, þó að varla verði það tugmilljónir og kynni líka að vera, að einhverjum bitling þyrfti að víkja að einhverjum þeim, sem þykist hafa orðið út undan fyrir ásækni framsóknarmanna.

Hugmyndir hæstv. ríkisstj. um 83 millj. kr. hækkun tekjuáætlunar ríkissjóðs virðast líka svífa í álíka lausu lofti og sparnaðurinn á gjaldaliðum fjárl.

Loks hefur hæstv. forsrh. boðað það, að vísu gagnstætt því, sem hann hafði látið í ljós í áramótaboðskap sínum, að nýrra tekna upp á a. m. k. 35 millj. kr. yrði aflað. Hann sagði þó, að þau nýju gjöld mundu ekki koma verulega við. Og loks var sá fyrirvari á öllu þessu mjög svo óljósa tali hafður, að þegar allt þetta væri fengið, mundi skorta nokkra milljónatugi og að auki áætlun fyrir öllu, sem héti óvænt útgjöld. Trúlega er þar enn um nokkra milljónatugi að ræða, sem almenningur verður að greiða fyrr eða siðar. Loks er því lýst yfir, að nota eigi 20 millj. kr. af greiðsluafgangi s. 1. árs til hinna auknu útgjalda ríkissjóðs og útflutningssjóðs, sem fram undan eru.

Hæstv. forsrh, hefur talið, að heildarhækkun útgjalda útflutningssjóðs og ríkissjóðs, sem leiðir af nýgerðum samningum við útvegsmenn, niðurgreiðslum þeim, sem ríkisstj. hefur þegar hafið og óhjákvæmilegum hækkunum öðrum, mundi nema 174.9 millj. kr. Margar veigamiklar upphæðir eða raunar flestar, sem þessa heildartölu mynda, eru áætlunarupphæðir, og er raunar þegar viðurkennt, að sumar þeirra a. m. k. eru stórlega of lágt áætlaðar. T. d. hafa talsmenn ríkisstj. hér á Alþingi viðurkennt, að niðurgreiðslur mundi þurfa að auka um a. m. k. 3 stig, flestir álíta það miklu meira, en það mundi aldrei kosta undir 18–20 millj. kr. Þá gerir hæstv. ríkisstj. ekki heldur ráð fyrir neinum upphæðum til óvæntra útgjalda, eins og ég nefndi áðan, en þær munu á undanförnum árum hafa numið að meðaltali um 40 millj. kr. árlega.

Nú er það svo, að auðvitað hefur enginn hv. alþm. haft minnsta tækifæri til að sannprófa, hversu trúverðuglega eða gætilega aðrar áætlunartölur eru reiknaðar. En með hliðsjón af hinni augljósu tilhneigingu, sem fyrir hendi er, í þá átt að sýna sem skásta mynd af fyrirætlununum án tillits til staðreynda, verður ekki annað ályktað en að heildarútgjaldahækkunin verði ekki 174.9 millj. kr., heldur mikið yfir 200 millj. kr. Þegar svo á hinn bóginn er athugað, að hin gífurlega hækkun tekjuáætlunarinnar svífur að miklu leyti í lausu lofti og annar stjórnarflokkurinn neitar öllum niðurskurði á fjárl. eða svo til, þá getur ekki dulizt, að mjög miklar upphæðir skortir á, að endar nái saman og að stefnt er að stórfelldum hallarekstri á útflutningssjóði, sennilega svo að nemi nokkuð á annað hundrað millj. kr. á þessu ári. Og hverjar skyldu afleiðingar slíkrar ráðsmennsku verða? Ég ætla ekki að svara því. Hins vegar leyfi ég mér að leiða hæstv. núv. menntmrh. sem vitni í því máli. Hann sagði við 1. umr. um útflutningssjóðslögin 14. maí s. l., með leyfi hæstv. forseta:

„Það er rétt, að verðhækkanirnar verða ekki umflúnar og þær koma. Það væri hættuleg sjálfsblekking að gera sér ekki grein fyrir því. Þær munu koma. En það væri líka hættuleg sjálfsblekking að gera sér ekki grein fyrir hinu, að þær eru óumflýjanlegar, þær eru afleiðing þess, að það er sannanlegur halli á útflutningssjóði, á útflutningsatvinnuvegunum og ríkissjóði. Undir slíkum kringumstæðum verða verðhækkanir ekki umflúnar. Það er einungis spurningin: Í hvaða formi vilja menn taka þær?“

Ja, spurningin verður sem sagt ekki um það, að afleiðingarnar verða verðhækkanir, heldur um það, hvort menn vilji meðtaka þær í formi gengisfellingar, hækkaðra aðflutningsgjalda eða þá kannske með nýju, beinu launaráni, álíka miklu eða meira en því, sem nú er ráðgert hér í þessu frv. En það verður þá eina huggunin samkvæmt ummælum hæstv. menntmrh., að menn geta valið um þessar leiðir.

Svo koma talsmenn hæstv. ríkisstj. fram fyrir þing og þjóð og segja fullum fetum, að verið sé að stöðva verðbólguna og að engar nýjar álögur verði lagðar á almenning og á þeirri forsendu á að svíkja inn á þjóðina þá miklu kjaraskerðingu fyrir almenning, sem ráðgerð er. Að vísu fæ ég ekki séð, að neinn grundvallareðlismunur sé á því að leggja beinar skattaálögur á launamenn og fá þær í hendur atvinnurekendum með milligöngu t. d. útflutningssjóðs og á því að lækka laun, án þess að nokkrar bætur komi á móti, hvorri aðferðinni sem beitt er, verður afleiðingin hin sama: minni kaupmáttur launa, skert lífskjör og vöxtur raunverulegrar dýrtíðar.

Ég hef hér bent á, að hallarekstur útflutningssjóðs, sem leiða mun af ráðstöfunum hæstv. ríkisstj., muni leiða til vaxtar verðbólgu, þó að takast kunni að fela þann verðbólguvöxt næstu mánuði eða fram yfir kosningar. En hér kemur enn fleira til og þó sérstaklega það, að afleiðing þessa frv. mun verða aukin fjárfesting samhliða samdrætti í almennri neyzlu. En það er ekki hvað sízt gegndarlaus, stjórnlaus og sívaxandi fjárfesting, sem stuðlað hefur að verðbólgunni á undanförnum árum.

Það er sagt, að útflutningsatvinnuvegirnir spari sér millj. kr. á hinni óumdeildu launalækkun, sem leiðir af þessu frv. Ég vefengi ekki þá tölu. En hitt er augljóst, að þessi launalækkun er aðeins hluti af samanlagðri launalækkun allra, sem laun taka. Aðrir aðilar í þjóðfélaginu, en útflutningsatvinnuvegirnir hirða hinn stærri hlutann og hann langtum stærri af launaráninu. Allir þeir, sem standa að hvers kyns fjárfestingu, taka þar sinn hlut og hann ómældan, ríkið, bæjarfélögin, atvinnurekendur, einstaklingar, sem verja fé til fjármunamyndunar. Enginn vafi er á því, að hvorki ríki né bæjarfélög munu draga að neinu leyti úr sinni fjárfestingu. Engar ráðstafanir hafa heldur verið til þess gerðar. Þegar það svo kemur til, að laun eru skyndilega stórlækkuð og menn sjá á hinu leitinu hilla undir stórfelldar verðhækkanir og jafnvel gengisfellingu, eins og Sjálfstfl. hefur boðað sem næsta skrefið í efnahagsmálunum á næsta hausti eða vetri, þá fer ekki hjá því, að allir, sem komizt geta yfir laust fé eða eiga fé, muni gripnir ofboði í að nota nú tækifærið til þess að fjárfesta, hver eftir sinni ýtrustu getu og þá auðvitað m. a. með því að kaupa það vinnuafl, sem næstu mánuði mun verða falt með undirverði samkvæmt lagaboði, því að enginn mun verða svo grunnhygginn að trúa því, að verið sé að stöðva verðhækkanir til langframa, enda eru yfirlýsingar hins stærri stuðningsflokks ríkisstj. um nauðsyn gengisfellingar ólygnastar um það, hver þróunin verður, ef hann fær henni með nokkru móti ráðið — og hann ræður henni nú og stefnir rakleitt að sínu setta marki.

Nú er það e. t. v. skoðun núverandi hæstv. ríkisstj., að þjóðin öll lifi um efni fram og að þetta frv. muni stemma þar á að ósi. Ég veit ekki um það, en ég tel þó ómaksins vert að skoða þá hlið málsins. Það er rétt, að á undanförnum hálfum öðrum áratug hefur heildarneyzla og fjárfesting verið meiri, en við höfum getað staðið undir með samtíma vinnu. Er talið, að ráðstöfunarfé á síðasta áratugnum hafi numið frá 0.7–8.6% umfram samtíma þjóðartekjur. Þessi umframeyðsla þjóðarinnar hefur þó ekki farið til hlutfallslega aukinnar neyzlu. Þannig hefur neyzla í hlutfalli við þjóðarframleiðslu farið mjög minnkandi síðasta áratuginn eða úr 79.3% 1948 í 70.4% árið 1957, en fjárfesting í hlutfalli við þjóðarframleiðslu aukizt á sama tíma úr 24.3% í 34.3%. Nú má á það benda, að á valdaskeiði fyrrv. ríkisstj. hefur mjög áunnizt í því efni að auka þjóðarframleiðsluna og útflutningstekjur, sem sérstaklega mun koma greinilega í ljós, þegar allar tiltækilegar tölur verða lýðum ljósar yfir árið 1958. Þannig hefur útflutningsframleiðslan aukizt á því eina ári um 200 millj. kr. Það má því óhætt fullyrða, að við höfum ekki síðasta áratuginn staðið nær því en einmitt nú að lifa á okkar eigin samtíma vinnu og framleiðslu.

En ef svo er, að þjóðin í heild lifir um efni fram, þ. e. a. s., að neyzla og fjárfesting samanlögð séu meira en þjóðartekjurnar geta staðið undir, og vil ég þá undanskilja þá fjárfestingu, sem örugglega skilar sér aftur í aukinni útflutningsframleiðslu, þá er um þrjár leiðir að velja til úrbóta: í fyrsta lagi að minnka fjárfestingu, í öðru lagi að draga úr neyzlu, þ. e. a. s. að lækka lífskjörin, og í þriðja lagi að gera ráðstafanir til að auka þjóðarframleiðsluna. Það er skoðun mín og míns flokks og hefur alltaf verið, að hin síðasttalda leið sé sú ákjósanlegasta og við það höfum við miðað okkar stefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar fyrst og síðast. En sé ekki unnt að koma fram á nægilega skömmum tíma fullnægjandi ráðstöfunum, sem leysa vandann að þeirri leið einni saman, teljum við, að grípa eigi til þess að minnka fjárfestinguna, þegar svo stendur á, að það mundi ekki hafa í för með sér neinn samdrátt í atvinnulífinu. Og hér skilur á milli okkar stefnu og stefnu núv. hæstv. ríkisstj., eins og hún birtist í þessu frv. og öðrum fyrirætlunum hennar. Hér er ekki lagt til að gera neinar ráðstafanir til að auka framleiðsluna, og ekki er vitað um að neinar slíkar ráðstafanir séu fyrirhugaðar. Hér er ekki lagt til, að neinar ráðstafanir séu gerðar til að draga úr óarðbærri fjárfestingu. Hér er einhliða og eingöngu lagt til að ráðast á neyzluna, lífskjörin með stórfelldri beinni launaskerðingu. Hér er lagt til, að farin verði sú leið, sem sízt skyldi og margt illt mun af hljótast, ef svo ógiftusamlega tekst til að farin verði.

En hér er síður en svo um það eitt að ræða, að röng og óréttlát leið sé farin í grundvallaratriðum. Sjálf framkvæmd þessarar allsherjar lífskjaraskerðingar er einnig byggð á freklegum ójöfnuði. Hún er hugsuð út frá þeirri alröngu forsendu, að allir þeir, sem laun taka, séu hlutfallslega jafnt aflögufærir, hálaunamaðurinn með 100–300 þús. kr. árstekjur á að skerða laun sín hlutfallslega jafnt og hinn tekjulægsti í hópi verkamanna og verkakvenna, og jafnvel örkumlamaðurinn á að taka sinn skerf. Þetta þýðir auðvitað, — að þeir, sem nú hafa aðeins til hnífs og skeiðar eða tæplega það — og þeir eru margir þrátt fyrir allt – þeir eiga að axla sínar byrðar hlutfallslega við þann, sem ríflegastan hlut ber frá borði af þeim, sem laun taka, þeir eiga að taka sinn skerf af kjaraskerðingunni, á meðan enginn eyrir er tekinn af gróða í atvinnurekstri, verzlun eða neins konar annarri milliliðastarfsemi, heldur hlutdeild þeirra í afrakstri þjóðarbúsins aukin að miklu mun. Þeir launamenn eru vissulega til og þeir margir, sem geta fórnað nokkru af tekjum sínum og lifað samt góðu lífi, en þeirra er áreiðanlega ekki að leita meðal hinna lægst launuðu.

Í hinum nýja vísitölugrundvelli, sem byggður er á neyzlurannsókn, sem framkvæmd var á árunum 1953 og 1954 meðal verkamanna, iðnaðarmanna, sjómanna, skrifstofumanna og opinberra starfsmanna, er gert ráð fyrir, að neyzla meðalfjölskyldu með 4.24 manns sé kr. 53.150.47, miðað við verðlag 1. nóv. 1957. Á verðlagi nú mundi þessi upphæð nema um 60 þús. kr. Í þessum grundvelli eru ekki meðtalin útgjöld vegna skatts eða útsvars og húsaleiga er áætluð aðeins tæpar 800 krónur á mánuði. Raunveruleg útgjöld slíkrar fjölskyldu yrðu því tæpast innan við 65–70 þús. kr., miðað við núverandi verðlag, og þó trúlega meiri. Nú eru laun verkamanns, sem vinnur eðlilegan vinnudag, 8 stundir alla virka daga ársins, með kaupgjaldi því, sem gilt hefur frá 1. des. s. l., 57.264 kr. Skortir því a. m. k. 8–13 þús. kr. á, að slíkur verkamaður, hafi hann fyrir meðalfjölskyldu að sjá, nái inn fyrir vinnu sína þeirri upphæð, sem hagstofan og kauplagsnefnd töldu meðaltalsgrundvöll lífskjara almennings fyrir 4–5 árum. Þegar þessi verkamaður hefur síðan fengið laun sín skert samkvæmt þessu frv., — aldrei gæti verið umdeilt, að sú skerðing hljóti að nema a. m. k. 6%, og 10% eru nær lagi, — mundi hann skorta á milli 11 og 16 þús. kr. til þess að ná vísitölugrundvellinum.

Ég tel með öllu óþarft að viðhafa sterk orð um þann verknað, sem hér er verið að fremja gagnvart þeim lægst launuðu í þjóðfélaginu, því að hann dæmir sig sjálfur. Þeir, sem fyrir honum standa, ættu sjálfir að skammta sér 4.134 kr., en það verður kaupið að þessu frv. samþykktu, ættu að skammta sér þá upphæð í einn mánuð til framfærslu sinnar og sinna og gefa síðan hv. Alþingi og öllum almenningi skýrslu um það, hvernig sá búskapur hefði gengið. Þetta ættu þeir að gera, áður en þeir knýja fram gegn eindregnum mótmælum verkalýðshreyfingarinnar stórfellda lækkun á launum verkamanna og jafnvel á þeim, sem lægri eru.

Því er haldið fram, að þetta frv., kjaraskerðingarfrv., og frv. um breyt. á lögum um útflutningssjóð muni leiða af sér stöðvun verðbólgunnar í landinu. Þetta er herfilegasta blekking. Ég hef áður drepið á, að fyrirsjáanlegur hallarekstur á útflutningssjóði muni verða á árinu mikið á annað hundrað millj. kr. og að sú upphæð öll muni koma fram síðar í hækkuðu vöruverði. Sýndarákvæði frv. um niðurfærslu á vöruverði og þjónustu eru haldlaus og munu ekki koma í veg fyrir mjög verulegar hækkanir, t. d. á svo til öllum iðnvarningi, sem framleiddur er í landinu. Menn hafa séð nú þessa dagana síðast tilkynningarnar frá bæjarstjórn Reykjavíkur um hækkun hvers konar skatta og gjalda og útsvara. Frv. er ekki ætlað að koma í veg fyrir þær hækkanir.

Enn ber að athuga það, að samkv. yfirlýsingum ríkisstj. á að nota á þessu ári til niðurgreiðslu a. m. k. tugmilljónir kr. af tekjuafgangi ríkissjóðs á s. l. ári. Skal sú ráðagerð út af fyrir sig viðurkennd sem eðlileg. En hitt er þó víst, að ekkert slíkt fé verður til ráðstöfunar í lok þessa árs, og yrði þá að afla nýrra tekna í það skarð, þegar þar að kæmi. Sú tekjuöflun mundi bætast við aðrar verðhækkanir þá.

Þá er gert ráð fyrir 70 millj. kr. tekjum í útflutningssjóð vegna lántöku. Þar er heldur ekki um að ræða neinar varanlegar tekjur, heldur tekjur, sem aðeins eru bundnar við þetta eina ár. Augljóst er, að allar breytingar, sem verða á bótum eða áætlunum, sem fyrir liggja um bætur, verða til hækkunar og slíkar breytingar eru nú mjög auðveldaðar með þeim ákvæðum, sem felast í lagafrv. um útflutningssjóð og kveða svo á, að allar breyt. á vísitölu og grunnkaupi verki sjálfkrafa til hækkunar útflutningsbóta.

Að samanlögðu getur því ekki hjá því farið, að niðurstaðan að þessu ári liðnu verði sú, að hundruð millj. skorti í útflutningssjóð og ríkissjóð og þeim vanda yrði ekki mætt nema með stórfelldum nýjum verðhækkunum eða enn nýrri launaskerðingu. Og þannig mundi fara, þótt launamenn og samtök þeirra hlífðust við að gera sínar gagnráðstafanir. Þessi afleiðing yrði m. a. óhjákvæmileg vegna þess, að ekkert á að gera í þá átt að minnka fjárfestingu eða auka framleiðslu, svo sem ég hef áður drepið á.

En eru þá nokkrar líkur fyrir því, að launamenn og þá sérstaklega láglaunamenn eiri því, að lífskjörin séu skert svo freklega sem hér er ráð fyrir gert? Það er athyglisvert í því sambandi, að bátasjómenn hafa að mjög verulegu leyti og sums staðar, eins og t. d. í Vestmannaeyjum, að öllu leyti hrundið af sér kjaraskerðingarákvæði þessa frv., áður en það var lagt fram hér á Alþingi, en eftir að kvisast tók um efni þess. En annars staðar voru bellibrögð höfð í frammi að undirlagi ríkisstj. til þess að knýja fram samþykktir á samningum með kjaraskerðingarskilningi hennar. Með sjómannasamningunum beið ríkisstj. fyrsta ósigur sinn í aðförinni að almenningi, að vísu ekki algeran ósigur, en ég fullyrði, að ósigurinn hefði orðið alger, ef fullkunnugt hefði verið um efni frv., þegar samningar fóru fram.

Næst gerðist það, að Alþýðusamband Íslands mótmælir þessu frv. eindregið og síðan nær því hvert einasta verkalýðsfélag, sem haldið hefur fund, síðan frv. var lagt fram. Jafnvel í Hafnarfirði, fæðingarsveit hæstv. ríkisstj., fannst enginn verkamaður á félagsfundi Hlífar, sem vildi ekki mótmæla kjaraskerðingarákvæðum frv. og skerðingu þess á samningsfrelsi verkalýðssamtakanna. Í Sjómannafélagi Hafnarfjarðar voru hörð mótmæli samþ. einróma. Þannig rís andúðaraldan æ hærra gegn þeirri allsherjarárás, sem hafin er gegn lífskjörum almennings og þó er það víst, að andúð almennings verður því meiri og sterkari sem menn kynnast afleiðingunum betur.

Enn hafa menn ekki kynnzt í raun launaráninu. Enn er unnt að vefja málið og flækja með áróðursbrögðum viðlíka og þeim, sem ég gat um í upphafi máls míns. En slíkt er skammgóður vermir fyrir hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar. Fyrr en varir geta afleiðingarnar ekki leynzt neinum manni. Að vísu verður reynt að fela raunverulega aukningu verðbólgu á bak við skuldasöfnun uppbótakerfisins og frestað að láta hið sanna eðli ráðstafananna að því leyti koma fram að fullu fyrr, en eftir kosningar, hvort sem þær verða einar eða tvennar og til þess eru refirnir skornir. En að liðnum fáum vikum mun hinu ekki verða leynt, að launin lækka um 13.4%, en vöruverð og önnur útgjöld munu standa í stað miðað við þær niðurgreiðslur, sem þegar eru hafnar, að langsamlega mestu leyti og í sumum tilfellum hækka. Og þegar þær staðreyndir liggja fyrir, hygg ég, að leitun verði á þeim verkamanni, sjómanni eða iðnaðarmanni, sem ekki snýst til varnar gegn þeim ójöfnuði, sem hann er beittur undir því falska yfirskini, að verið sé að stöðva verðbólguna.