04.02.1959
Sameinað þing: 24. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

Landhelgismál

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ríkisstj. og þá fyrst og fremst til hæstv. dómsmrh., hvað ríkisstjórnin hafi hugsað sér að gera út af því, sem gerzt hefur nú nýlega út af Loðmundarfirði, að brezk herskip hafa með hótunum um beitingu vopnavalds hindrað íslenzkt varðskip í því að framfylgja íslenzkum lögum innan íslenzkrar landhelgi og það meira að segja innan gömlu landhelginnar. Þetta er í annað skiptið, sem það kemur fyrir, síðan í nóv. í haust, að brezk herskip hóta með því að skjóta á okkar varðskip og það meira að segja innan gömlu landhelginnar.

Ég býst við, að allir hv. þm. séu mér sammála um, að það er óþolandi fyrir íslenzku þjóðina að láta svona hluti gerast án þess að gripa til einhverra aðgerða sem sýni, að alvara sé á bak við hjá henni. Ég álít þess vegna, að það væri nauðsynlegt, ef hæstv. ríkisstjórn hefur ekki þegar myndað sér ákveðna skoðun í þessu efn, sem hún gæti kunngert þingheimi, að haft yrði samráð við þingflokkana í utanrmn. eða á annan hátt til þess að ráðgast um þær ráðstafanir, sem gera bæri. Mín skoðun er sú, að það ætti að byrja með því að kalla sendiherra Íslands í London heim nú þegar til þess að láta Breta og brezku ríkisstjórnina vita, að við látum ekki bjóða okkur svona framferði. Þeir hafa nú meira að segja látið okkur bíða í tvo sólarhringa, meðan brezka ríkisstjórnin virðist vera að þinga um það, hvort hún ætli sér að gera nokkuð út af því, þótt hennar herskip hafi ráðizt á okkur, — og við erum bara látnir bíða, ekkert tilkynnt. Ég held, að við verðum að hafa alla gát á, að við ekki með aðgerðaleysi gagnvart svona atburðum bökum tjón okkar málefni, sem við stöndum saman um. Ég vildi þess vegna eindregið óska þess, að hæstv. dómsmrh. gæti tjáð okkur nú, hvað ætlun hæstv. ríkisstj. væri að gera út af þessari árás á íslenzka landhelgi.