01.04.1959
Sameinað þing: 34. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1935 í B-deild Alþingistíðinda. (2368)

Landhelgismál

Eysteinn Jónsson:

Síðan við vorum hér siðast saman, hafa gerzt nýir atburðir í landhelgisdeilunni, sem mér þykir ástæða til að minnast á örfáum orðum. Samkv. opinberum tilkynningum, sem gefnar hafa verið út um það mál, hefur brezkur togari verið staðinn að landhelgisbroti innan 4 mílna landhelginnar gömlu, en brezkt herskip komið í veg fyrir, að hann gæti orðið tekinn og farið með hann til íslenzkrar hafnar og hann fengið þar dóm, og brezka herskipið síðan veitt honum vernd til þess að komast að því er kalla má heim til Bretlands.

Ég vil leyfa mér að spyrjast fyrir um þetta mál hjá hæstv. ríkisstj. og fara fram á, að hún gefi hæstv. Alþingi skýrslu um þessa atburði, sem gerzt hafa, og þá sérstaklega, hvort eitthvað hafi gerzt í málinu, síðan síðasta opinber tilkynning var gefin út um málið. Með þessu hafa Bretar framið hér enn eitt ofbeldisverk í sambandi við þessa landhelgisdeilu, og mun ég ekki fara fleiri orðum um það að þessu sinni, en leggja áherzlu á það til viðbótar hinu, að við getum fengið nú sem fyllstar upplýsingar um það, sem gerzt hefur, og hæstv. ríkisstj. hafi samráð við utanrmn. um það, hvað hyggilegt sé að aðhafast út af þessum atburði. Vil ég fyrir mitt leyti leggja mikla áherzlu á, að þannig verði á málinu haldið til þess að reyna að fá sem bezta samstöðu um það, sem menn telja hyggilegt að aðhafast út af þessum atburði.