15.04.1959
Sameinað þing: 38. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í B-deild Alþingistíðinda. (2373)

Landhelgismál

Eysteinn Jónsson:

Fyrir nokkrum dögum skeði atburður, sem virðist hliðstæður þeim, sem nú hefur átt sér stað, að taka brezks togara innan 4 mílna landhelginnar var hindruð af brezkum herskipum og farið með togarann í herskipavernd til Bretlands. Ég gerði þá fsp. um málavexti í því sambandi og hvað stjórnin hefði aðhafzt eða hugsað sér að aðhafast. Hæstv. utanrrh. sagði, að þá hefðu verið send mótmæli, og þá var atburðurinn nýskeður, þannig að hann hafði ekki fengið svar, Síðan hefur ekki verið gefin nein skýrsla um þetta mál, og ég vil leyfa mér af þessu tilefni að spyrjast fyrir um, hvort það hafi alls engu verið svarað þeim mótmælum eða þeirri kröfu, sem þá var gerð um, að togarinn yrði afhentur til Íslands. Um þetta mál hefur hæstv. utanrrh. ekki gefið skýrslu, síðan þessi fsp. kom fram af minni hendi þá. Enn fremur skilst mér, að það muni ekki hafa verið haldnir fundir í utanrmn. um, hvað væri rétt að gera út af því atviki.

Nú bætist þetta atvik við, sem hér hefur verið frá greint, og vil ég strika undir það, að svo mikil nauðsyn sem var á því að taka þá upp fundarhöld í utanrmn. um það, hvað ætti að aðhafast, þá er þó hálfu brýnni nauðsyn að gera það nú, þegar þetta atvik hefur við bætzt.

Við höfum ekki haft þann hátt á í Framsfl. að gera till. um það á Alþingi fram að þessu, hvað gera skuli í tilfellum eins og þessum, þótt þau hafi komið nokkur fyrir, og það er vegna þess, að við höfum talið þá aðferð bezta fyrir þjóðina að, að þessu máli væri unnið þannig, að það ætti sér stað samráð á milli þingflokkanna, áður en till. væri yfir höfuð varpað fram, um hvaða aðferðir skuli við hafa. Það fari fram samráð á milli flokkanna um það, hvað heppilegast sé að gera, til þess að reyna að koma því þannig fyrir, að sem minnst komi fram af till., sem eru ekki teknar til greina, en um það, sem kemur fram, sé samkomulag og því fylgt eftir af öllum. Þannig mundu mestir möguleikar til þess, að það hefði veruleg áhrif út á við. Og enn leggjum við áherzlu á þessa starfsaðferð og á það, að einmitt í utanrmn. mætist þingflokkarnir til þess að ráðgast um, hvað rétt sé að gera og hvað þeir geti staðið saman um, sem gæti haft áhrif til þess að losa um þann hnút, sem orðinn er í þessum viðskiptum við Breta út af þeirra margendurtekna ofbeldi í okkar garð. Ég vil því mjög taka undir það, að þessi fundarhöld verði tekin upp í utanrmn., og spyrjast fyrir um, hvort sú þögn, sem hefur verið um hitt málið, sem ég gerði fyrirspurn um um daginn, þýði, að ekkert hafi gerzt í því síðan.