15.04.1959
Sameinað þing: 38. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1947 í B-deild Alþingistíðinda. (2376)

Dagskrá ríkisútvarpsins 1. maí

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv. (HV) og forseti Alþýðusambandsins flutti hér alllanga ræðu. Í þeirri ræðu skorti ekki á ásakanir, svívirðingar og aðra slíka hluti. En það var mjög mikill skortur á því, að hv. þm. í fyrsta lagi segði rétt og ýtarlega frá því, sem gerzt hefur, því að frásögn hans af þessu máli var með þeim endemum, að hann velur nokkur atriði úr, sem honum þóknast, til þess að geta svívirt Alþfl. og Alþýðuflokksmenn, — það er tilgangurinn, — en sleppir öðru, sem honum líkar ekki.

Þegar ég kom fyrst í útvarpsráð, hafði það tíðkazt um nokkurt árabil, að útvarpið biði þeim þremur aðilum, sem hann skýrði frá, forseta Alþýðusambandsins, forseta Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og félmrh., að tala að kvöldi 1. maí, en síðan hafði útvarpið sjálft séð um dagskrá kvöldsins að öðru leyti. Um þetta urðu deilur í fyrra, fyrsta skipti sem ég var þarna í sambandi við þetta, og Alþýðusambandið óskaði þá aftur eftir því að fá að sjá um dagskrá kvöldsins. Þá fór eins og hann talaði um, og blandaðist ýmislegt í það, sem ég mun ekki ræða hér, nema tilefni gefist til.

Út af þeirri fullyrðingu hv. þm., að það hafi verið lygi hjá útvarpinu, að það væri að reyna að draga úr kvölddagskrám félaga, þá vil ég benda honum á það, að útvarpið er búið að reyna árum saman að draga heldur úr því, að einstök samtök sjái um heil kvöld dagskrárinnar. Þessi viðleitni hefur enn ekki borið mikinn árangur, en það hefur verið reynt að byrja fyrst og fremst á þeim félagssamtökum, sem eru mjög umdeild og hætta er á að brjóti hlutleysi útvarpsins. Vegna þess að hann segir, að öll önnur félagssamtök hafi fengið slíka dagskrá og hér hafi verið rökstutt með ósannindum, vil ég benda honum á önnur samtök, sem eins stendur á um og fengu ekki sína dagskrá s.l. ár í fyrsta skipti í sögu útvarpsins, og það eru verzlunarmannasamtökin, sem vön eru að sjá um frídag verzlunarmanna. Ég vil segja honum það, að þessi samtök misnotuðu í hittiðfyrra svo kvölddagskrá sína, aðallega á hans kostnað, því að hann var þá félagsmálaráðherra með verðlagsmál, og einmitt af þessum sökum beitti ég mér fyrir því, að þessi samtök fengju ekki að sjá um verzlunarmannafrídaginn framar, og þau fengu það ekki s.l. ár. Þar er meðferð alveg nákvæmlega hliðstæð því, sem Alþýðusambandið fékk.

Nú kemur að 1. maí í ár, og þá gerist það, sem hann greinir frá, að skrifstofustjóri eða framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins skrifar útvarpinu og óskar eftir því, að Alþýðusambandið fái að sjá um kvöldið. Nú vil ég benda hv. þingmönnum á það, sem kom greinilega í ljós í ræðu 7. þm. Reykv., að Alþýðusambandið vill bola samtökum opinberra starfsmanna út úr þessu kvöldi. Það vill fyrirbyggja, að haldið verði áfram þeirri venju, að félagsmálaráðherra fái að tala þetta kvöld. Hlutleysið, sem Hannibal Valdimarsson, hv. 7. þm. Reykv., er að berjast fyrir, er á þann hátt, að það á að útiloka þessi fjölmennu samtök, opinbera starfsmenn, og Alþýðusambandið á að fá að vera þarna eitt. Ég er mótfallinn því að hrekja samtök opinberra starfsmanna frá þessu kvöldi.

Þegar bréf Alþýðusambandsins kom til umræðu í útvarpsráði, samdi ég till. og lagði fram um það, hvernig afgreiða skyldi þetta erindi, og till. mín var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Dagskrá 1. maí verði svo:

1. Útvarpið bjóði félagsmálaráðherra, forseta Alþýðusambandsins og forseta BSRB að flytja ávarp.

2. Alþýðusambandi Íslands verði boðið að sjá um 60 mínútna hátíðadagskrá, er háð verði samþykki útvarpsráðs eftir venjulegum reglum.“

Þessa till. flutti ég í útvarpsráði. Hún miðar að því að varðveita það hlutleysi, sem búið er að koma á með hefð, með því að lofa fleiri, en Alþýðusambandinu einu að tala, lofa opinberum starfsmönnum líka að tala. Þessari venju vildi ég halda, og ég vildi ekki láta kommúnistana í Alþýðusambandinu og aðra, sem þeirra erinda ganga, komast upp með það að hrekja opinbera starfsmenn burt af þessu kvöldi. En þegar þessu atriði væri að minni hyggju fullnægt með þessum þremur venjulegu ávörpum, þá taldi ég eðlilegt, að Alþýðusambandið mætti sjá um, eins og það óskaði eftir, dagskrá að öðru leyti, þar sem fram kæmi, eins og þeir óska í bréfi sínu, efni úr sögu verkalýðshreyfingarinnar.

Þessi mál voru rædd á þremur fundum útvarpsráðs. Ég vildi afgreiða þau á fyrsta fundinum. Hinir fulltrúarnir voru ekki tilbúnir, óskuðu eftir fresti. Ég vildi afgreiða málið á öðrum fundinum. Hinir fulltrúarnir í útvarpsráði óskuðu eftir fresti. Það var þá þegar komið fram á öðrum fundi, að þrír útvarpsráðsmenn voru andstæðir efninu í minni tillögu, að Alþýðusambandið fengi að sjá um 60 mín. dagskrá á eftir þessum erindum. Vegna þess að atkvæðagreiðslan var ein eftir og fyrir lá afstaða manna, þá taldi ég, að útvarpsráð ætti að afgreiða þetta erindi, þó að ég gæti ekki mætt á þessum þriðja fundi. Það sýnir, hvernig þessi hv. þm. fer með sannleika málsins, að hann nefnir ekki þessa tillögu, sem ég flutti um afgreiðslu á erindi Alþýðusambandsins, rétt eins og hún væri ekki til.

Nú kom fram brtt. frá Sigurði Bjarnasyni útvarpsráðsfulltrúa, sem var þannig, að seinni liðurinn í minni till., að Alþýðusambandið fengi að sjá um 60 mínútna hátíðadagskrá, skyldi breytast þannig, að útvarpið sjálft sæi um dagskrána að öðru leyti. Af þessu er augljóst, að atkvæðagreiðslan, sem sker úr um það, hvort Alþýðusambandið fær það, sem það biður um, er atkvgr. um þessa tillögu. Þegar kom að þeirri atkvgr., var brtt. Sigurðar, sem gerbreytti efnislega seinni liðnum í minni tillögu, samþykkt með þrem atkv. gegn einu, eins og augljóst var af fyrri fundum að afstaða manna var. Sjálfstæðismennirnir tveir og framsóknarmaðurinn greiddu atkvæði á móti þessu, Björn Th. Björnsson greiddi atkvæði með því, og mitt atkvæði skipti þarna ekki máli. Þetta var allt vitað fyrir fram, og þessu varð ekki breytt, enda reyndist það vera nákvæmlega eins og komið hafði fram á fundunum þar á undan.

Ég sé því ekki betur en sú afstaða, sem ég hef tekið í útvarpsráði, byggist á því tvennu: í fyrsta lagi að tryggja hlutleysið, sem útvarpinu er lögboðið, með því að tryggja opinberum starfsmönnum, þeim stóru samtökum, rétt til að koma þarna líka fram og sýna svo Alþýðusambandinu þann sóma, sem það á skilið sökum stærðar og stöðu, að það fengi að öðru leyti að sjá um dagskrá kvöldsins. En það voru fulltrúar Sjálfstfl. tveir og fulltrúi Framsfl., sem breyttu þessari tillögu minni svo, að þetta varð ekki, og ég skil ekki, hvernig á að skilja það, að hv. 7. þm. Reykv. skuli beina öllum sínum svívirðingum gegn mér í sambandi við þetta mál, þegar þetta liggur svo augljóslega fyrir. Það er bara hið venjulega pólitíska þvarg. Hann langar til þess að ráðast á Alþýðuflokksmenn og skaða þá, og hann má svo sannarlega gera það mín vegna, ef hann hefur eitthvert gagn af því. Það er verið að tala hér um hlutleysi útvarpsins, en krafan, sem maðurinn, sem vill þetta hlutleysi 1. maí, leggur fram, er sú að bola burt stórum og öflugum samtökum vinnandi manna í landinu. Þetta er hlutleysið, sem verið er að heimta.

Í sambandi við það, hvernig dagskrá þennan dag kann að verða hverju sinni, þá var það svo í fyrra, að útvarpsráði var kunnugt um, að Alþýðusambandið hafði ætlað að biðja Sverri Kristjánsson sagnfræðing um að flytja erindi eða eitthvert efni um sögu 1. maí, og hann hafði búið sig eitthvað undir það. Útvarpið spurði Sverri, hvort hann vildi flytja þetta efni í dagskrá útvarpsins sjálfs þetta kvöld. Nei, það mátti ekki. Það er ekki efnið, sem þessir menn hafa áhuga á, heldur hið pólitíska brölt í kringum það.

Það er viðurkennt mál. að langar dagskrár í kvöldútvarpi, sem ýmis samtök sjá um, jafnvel hestamannasamtök, eru hlutir, sem þurfa að breytast með öðru í útvarpsdagskránni, og auk þess hefur smám saman verið unnið að því í fyrsta lagi að stytta slíkar dagskrár og í öðru lagi að reyna að láta útvarpið sjálft yfirtaka mikið af þessu. Þetta gengur hægt. Það var byrjað fyrir nokkrum árum á 1. maí og var búið að vera án verulegrar deilu um nokkurt skeið þangað til í fyrra, og í fyrra var nákvæmlega sama gert með verslunarmannafrídaginn, einmitt vegna þess, að þeir menn, sem um hann sáu fyrir verzlunarmannasamtökin og heildsalasamtökin, höfðu brotið hlutleysi útvarpsins með árásum á þennan sama 7. þm. Reykv. Og þakkirnar fyrir að reyna dálítið að rétta við þessa hluti eru eins og við erum búnir að heyra hér að þessu sinni.

Ég harma það, að þessi hv. þm. skuli ekki geta farið nokkurn veginn rétt með það, sem gerðist í útvarpsráði. Og ég vil endurtaka það, að það má sjá í fundargerðum útvarpsráðs, þar sem till., sem fram komu í málinu, eru bókaðar og þar sem afgreiðsla á þessum tillögum er bókuð, að það er ekki mín sök, ef í fyrsta lagi hlutleysi útvarpsins þetta kvöld er ekki varðveitt og í öðru lagi Alþýðusambandinu þar að auki gefinn kostur á því að sjá um hátíðadagskrá, sem það væri mjög vel sæmt af.