15.04.1959
Sameinað þing: 38. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1950 í B-deild Alþingistíðinda. (2377)

Dagskrá ríkisútvarpsins 1. maí

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil aðeins, þó að ég ætli mér ekki að flytja hér langt mál, vekja athygli hæstv, forseta á því, að úrskurður hans um það, að þeir, sem á eftir tala, skuli ekki fá að tala nema 5 mínútur, styðst ekki við nein ákvæði þingskapa, og ég tel mér ekki skylt að fylgja honum nákvæmlega. Ég mun ræða málið í eins stuttu máli og mér er unnt, en tel ekki ástæðu til þess að láta brjóta þingsköp á mér í þessu efni.

Mér virðist, að stórt mál, sem umræður voru hafnar um í upphafi þessa fundar, nefnilega landhelgismálið, hafi verið dregið á lægra stig, en því ber með því, að hv. 7. þm. Reykv. (HV) byrjar að pexa hér um það, hvort hann eigi að fá að sjá um sjálfstæða dagskrá í útvarpi á tilteknum degi eða hvort ríkisútvarpið sjálft megi fylgja margra ára venju í þessu efni.

Ég segi, að mér finnst stórt mál hafa verið dregið niður á lægra stig, en því ber með þessu pexi hv. 7. þm. Reykv. En þar sem hann hefur farið með mjög villandi upplýsingar um það mál, sem hann hóf hér umr. um, og ég er nokkuð við það riðinn, þá sé ég mér ekki fært annað en gefa nokkrar upplýsingar í málinu.

Það er rétt, sem hv. 5. landsk. þm. (BG) upplýsti, að mörg undanfarin ár hefur sá háttur verið á hafður, að hátíðisdags verkalýðsins hefur verið minnzt á þann hátt í ríkisútvarpinu, að útvarpið hefur boðið forseta Alþýðusambands Íslands, forseta Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og félmrh. að flytja ávörp í tilefni dagsins. Í öðru lagi hefur útvarpið einnig í því skyni að minnast hátíðisdags verkalýðsins flutt sjálft dagskrá, vanalega í kringum klukkutíma, þar sem sögu verkalýðshreyfingarinnar hefur verið minnzt og dagsins á annan þann veg, sem bezt hefur þótt fara, og oft verið haft samráð við samtök verkalýðsins um þessa dagskrá og um það ríkt, að því er mér er bezt kunnugt, hið bezta samkomulag. Kvartanir hafa ekki borizt um það frá hlustendum, að hátíðisdegi verkalýðsins væru ekki gerð góð skil með þessum hætti. Þvert á móti hefur útvarpinu þótt takast vel, náttúrlega misjafnlega vel, eins og gerist með slíkar dagskrár, en yfirleitt hefur dagsins þótt vel og virðulega minnzt og nokkur dagamunur gerður um ýmislegt skemmtiefni, sem einnig hefur verið tengt sérstaklega hátíðahöldum hátíðisdags verkalýðsins.

Þetta skipulag var komið í nokkuð fast form á s.l. ári. Þá kom upp ósamkomulag um það, hvernig dagsins skyldi minnzt. Stjórn Alþýðusambands íslands, sem þá var skipuð einlitum flokksmönnum hv. 7. þm. Reykv., vildi ekki una við það fyrirkomulag, sem gilt hafði á undanförnum árum um þetta, krafðist þess, að sér yrði selt sjálfdæmi um allt tilhald í útvarpinu á þessum degi. Útvarpið vildi ekki verða við þessari kröfu, og má hver sem er lá útvarpsráði, að það vildi ekki setja þessi hátíðahöld í útvarpinu í hendurnar á jafnhlutlausum manni og hv. 7. þm. Reykv., sem talaði mikið um það áðan, hversu gersamlega hlutlaus stofnun ríkisútvarpinu bæri að vera.

Niðurstaðan varð því sú, að hátíðahöldin á s.l. ári féllu niður. Hv. 5. landsk. þm. tæpti aðeins á því hér áðan, hver var raunveruleg ástæða þess, að Alþýðusambandið stöðvaði þessi hátíðahöld á s.l. ári, en sagði þó ekki greinilega frá því. En ég tel, að það sé rétt, að ástæðan komi fram, vegna þess að það vita einnig margir fleiri um það og margir hv. þm. líka. Raunverulega ástæðan var sú, að það ríkti ágreiningur meira að segja innan hinnar einlitu stjórnar Alþýðusambands Íslands og það meira að segja milli forseta Alþýðusambandsins og varaforseta Alþýðusambandsins. Meginástæðan var sú, að forseti Alþýðusambandsins, Hannibal Valdimarsson, og varaforseti Alþýðusambandsins, Eðvarð Sigurðsson, gátu ekki komið sér saman um, hvað ætti að segja á hátíðisdegi verkalýðsins í fyrra. Þeir voru gersamlega ósammála um afstöðuna til efnahagsmálanna, sem þá var í burðarliðnum, og þeir treystu sér hreinlega ekki til þess að koma fram fyrir þjóðina í útvarpi 1. maí og tala annar í vestur og hinn í austur.

Þetta er raunverulega ástæðan fyrir því, að hv. 7. þm. Reykv. lét koma til þess ósamkomulags við útvarpsráð, sem varð til þess í fyrra, að hátíðahöldin féllu niður, og sá háttur, sem á hafði verið hafður undanfarin ár, var látinn niður falla, að útvarpið annaðist sjálft um sérstaka hátíðadagskrá, en forsetar þeirra samtaka, sem ég nefndi áðan, ásamt félmrh. héldu ræðu.

Ég tel rétt, að þetta komi fram hér, þannig að það skýri nokkuð, hvernig á því stóð í fyrra, að til þessa ósamkomulags kom. (Forseti: Ég vil benda hv. ræðumanni á, að ræðutíminn er búinn.) Ég endurtek það, sem ég sagði við hæstv. forseta áðan, að ég tel, að hans úrskurður hafi ekki stoð í þingsköpum, og ég beiðist þess, að ég fái tækifæri til þess að halda áfram ræðu minni enn um skeið. (Forseti: Eins og allir hv. þingmenn geta séð, hef ég enga tilhneigingu til að brjóta þingsköp, hvorki á þessum vini mínum né neinum öðrum. En í umræðum utan dagskrár eru engin fyrirmæli um rétt þingmanna, og forseti hefur það alveg á valdi sínu, hvað hann leyfir þm. að tala lengi.)

Ég mun stytta mál mitt, herra forseti, og ekki þreyta þolinmæði hæstv. forseta um of. En ég vænti þess, að hann synji mér ekki um það að halda áfram enn um skeið og rekja nokkuð frekar atriði þessa máls.

Ég hef gert grein fyrir aðdraganda þess ósamkomulags, sem nú ríkir í útvarpsráði um það, hvernig háttað skuli hátíðahöldum 1. maí.

Ég vil þá í stuttu máli segja, að það er gersamlega ósatt, sem hv. 7. þm. Reykv. segir, að synjað hafi verið um það af útvarpsráði, að hátíðisdags verkalýðsins 1. maí yrði minnzt í útvarpinu. Þvert á móti, það hefur í fyrsta lagi verið samþ. að bjóða forseta Alþýðusambands Íslands að flytja ræðu í kvölddagskrá útvarpsins ásamt félmrh. og formanni Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Í öðru lagi hefur verið samþ. samkv. brtt. frá mér, sem einnig var samþ. af fulltrúa Framsfl. í ráðinu og hinum fulltrúa Sjálfstfl., að útvarpið verji til viðbótar þessum ávörpum, sem ég fyrr nefndi, einni klukkustund til dagskrárefnis í tilefni 1. maí.

Þetta er sannleikurinn í málinu, að útvarpsráð hefur samþ. að opna útvarpið samkv. venju fyrir ávörpum forseta launþegasamtakanna og félmrh. og í öðru lagi boðið upp á klukkutíma dagskrá.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta, vegna þess að ræðutími minn er þrotinn. En ég vil segja það, að það situr illa á hv. forseta Alþýðusambandsins, hv. 7. þm. Reykv., að tala um hlutleysisbrot af hálfu útvarpsins í sambandi við Alþýðusambandið undir forustu hans. Ég man ekki betur, en það hafi verið Alþýðusamband Íslands undir forustu hans, sem gerðist aðili að stofnun stjórnmálaflokks, og enn fremur má á það benda, að áður en útvarpið tók þann hátt upp, sem nú hefur verið hafður á um skeið í þessum efnum, var hlutleysi þess oft harkalega brotið af hálfu þeirra manna, sem stjórnuðu því.

Ég þyrfti raunar að svara mörgum fleiri atriðum í ræðu hv. 7. þm. Reykv., en skal ekki þreyta frekar þolinmæði hæstv. forseta. En ég vil segja það í tilefni af því, sem 5. landsk. þm. sagði, að hinir fulltrúar útvarpsráðs, þ.e.a.s. aðrir en hann og fulltrúi kommúnista í útvarpsráði, hefðu óskað eftir fresti á afgreiðslu á bréfi Alþýðusambandsins, að við fulltrúar Sjálfstfl. og ég hygg einnig fulltrúi Framsfl. töldum, að áður en útvarpsráð tæki endanlega ákvörðun í málinu, bæri að ræða við framkvæmdastjórn Alþýðusambandsins og stjórn þess um það, hvort ekki gæti tekizt samkomulag um málið, um fyrirkomulag hátíðahaldanna. Þetta var ekki gert eða a.m.k. fékk útvarpsráð engar upplýsingar um það, að nokkuð hefði komið upp úr því. Það má vera, að eitthvað hafi verið þreifað fyrir sér um það, en niðurstaðan varð sem sagt engin.

Ég skal svo ljúka máli mínu með því að segja, að því fer víðs fjarri, að við fulltrúar Sjálfstfl. í útvarpsráði viljum setja fót fyrir það, að haldið sé á verðugan hátt upp á hátíðisdag verkalýðsins 1. maí. Við teljum þvert á móti, að þessum stóru og áhrifamiklu samtökum beri réttur til þess eins og mörgum öðrum að fá að halda upp á hátíðisdag sinn í útvarpinu. En við viljum tryggja það, að þessara hátíðahalda sé þannig minnzt, að ekki séu þverbrotnar þær reglur, sem útvarpið hefur sett sér um hlutleysi, og tryggja það, að hátíðahald dagsins veki ekki stórkostlega óánægju einnig meðal mjög mikils hluta þess fólks, sem innan verkalýðshreyfingarinnar starfar.