29.01.1959
Efri deild: 59. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Forsrh. ( Emil Jónsson ):

Herra forseti. Það eru ekki mörg atriði, sem ég þarf að svara í ræðum þeirra hv. þm., sem hér hafa tekið til máls.

Hv. þm. Str. (HermJ) notaði megnið af sínum ræðutíma til þess að rekja aðdragandann að því, að stjórn hans sagði af sér 4. des. s. l., og þær orsakir, sem hann taldi að til þess hefðu legið. Hann sagði nú, að ágreiningur í Alþfl. og Alþb. um stjórnarsamstarfið hefði verið þess valdandi og vildi, að því er mér skildist, kenna þessum ágreiningi að verulegu leyti um að upp úr slitnaði.

Ég vil aðeins út af þessu taka fram, að ég veit ekki betur, en að af hálfu Alþfl. hafi verið gert allt, sem hægt var, til þess að reyna að halda því stjórnarsamstarfi áfram. Ég er mér þess ekki meðvitandi a. m. k., að það hafi verið gert neitt af hálfu þingflokks Alþfl. til þess að rjúfa þetta stjórnarsamstarf. Ég tel, að ágreiningurinn um lausn efnahagsmálanna á milli Framsfl. og Alþfl. hafi ekki verið það mikill, að það bil hefði ekki verið hægt að brúa og a. m. k. af hálfu þingflokksins hafi verið gert það, sem unnt var, til þess. Ég tel, að af hálfu þingflokksins, því að um annað er mér ekki nákvæmlega kunnugt eða a. m. k. ekki eins kunnugt, hafi verið gert allt, sem hægt var, til þess að halda samstarfinu áfram. Og ég tel, að það þýði ekki fyrir einn eða neinn að fara neitt í kringum það, að það var ósamræmið í till. Framsfl. og Alþb., sem olli því, að upp úr slitnaði.

Annað í ræðu hv. þm. þarf ég ekki að vera margorður um. Ég vil þó aðeins geta þess, að hann taldi, að það hefði verið lofað of miklum greiðslum úr útflutningssjóði og ríkissjóði, án þess að séð væri fyrir tekjum á móti, og — eins og hann orðaði það að lokum botninn væri þar suður í Borgarfirði.

Það hefur komið fram í umr. í hv. Nd. svipað sjónarmið og ég hef svarað því á þann veg, að það væri fjarri því, að það væri ekki ætlað að sjá fyrir tekjum á móti. Hins vegar hefði ekki verið unnt að bíða með þær aðgerðir, sem hér er verið að gera, eftir því, að fjárlög væru afgreidd, því að það mundi hafa kostað miklu meira fé, en annars hefði þurft og gert málið miklu torleystara í heild, ef allt hefði verið tekið í einu og ekkert verið leyst, fyrr en séð var, hvernig tekjuöflunin mundi fara.

Núverandi ríkisstj. er á þeirri skoðun, að það sé unnt eða það sé ekki óviðráðanlegt, svo að ég orði það varlega, að ná því, sem ná þarf út úr núverandi fjárlögum, án þess að stofna til verulegra nýrra útgjalda og með greiðsluafgangi ársins 1958. Þessu hefur verið lýst svo ýtarlega, að ég fer ekki að endurtaka það hér. Ég skal aðeins segja það, sem ég hef líka raunar sagt áður, að það er að vísu teflt á tæpt vað með því að leysa málið á þennan hátt, en það sýnir aðeins, að þar er farið eins skammt í að færa niður kaupgjald eða vísitöluna og frekast hefur verið talið forsvaranlegt í þeirri von, að þá mundi heldur verða sætt sig við það.

Þá sagði hv. þm., að hann kynni því ekki, að það misrétti landbúnaðarins, sem hann ætti nú að búa við, yrði ekki leiðrétt, áður en frá þessu máli yrði gengið og átti þar við, að sú hækkun, sem verkamannafélagið Dagsbrún í Reykjavík hefði fengið s. l. haust, yrði ekki reiknuð inn í verðlagsgrundvöllinn, áður en til lækkunar yrði gengið.

Út af þessu skal ég aðeins segja það, að sá samningur, sem gerður var s. l. haust um verðlag landbúnaðarafurða, gildir fyrir árið, eins og samningar verkalýðsfélaga yfirleitt gilda til lengri tíma. Mér er kunnugt um, að það eru margir samningar verkalýðsfélaga, sem þyrftu leiðréttingar við, ef þeir ættu að ná sömu hækkun og Dagsbrúnarverkamenn fengu s. l. haust, en ég hef vonað, að þau félög láti kyrrt liggja og ég hefði líka vonað, að landbúnaðurinn eða hans fulltrúar létu kyrrt liggja samningstímabilið út.

Ég vil líka í þessu sambandi benda á, að ég held, að ég megi fullyrða, að landbúnaðurinn hefur fengið hærri uppbætur á sínar útflutningsvörur, heldur en gert hafði verið ráð fyrir, þegar verðlagsákvæðin voru sett á s. l. hausti og þar með hafi þeir fengið að verulegu leyti upp borinn þann halla, sem þeir kunna að bíða af því, að Dagsbrúnarkaupið er ekki tekið með inn í verðlagsgrundvöllinn að fullu. En hitt vil ég þó leggja aðaláherzluna á, að ef út í þetta væri farið, þá væri í fyrsta lagi stofnað til enn mikið aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð og í öðru lagi væri málinu í heild stefnt í óefni, ef þetta væri tekið út úr.

Út af ræðu hv. 8. þm. landsk. þm. (BjörnJ) þarf ég ekki að vera langorður, enda hefur hv. 4. þm. Reykv. (EggÞ) svarað hans máli að mjög verulegu leyti, en það var í stuttu máli það að telja mönnum trú um, að launin lækkuðu raunverulega ekki um 5% eða 5.4%, eins og sagt hefur verið af hálfu ríkisstj. og stuðningsmanna frv. að þau gerðu samkvæmt ákvæðum þessa frv., heldur, að því er mér skildist á hv. ræðumanni, að launin gætu lækkað upp í 13%.

Hér er náttúrlega farið með málið út á vettvang, sem mér finnst tæpast vera sæmilegur, því að hann veit vel, hv. þm., að það verður ekki samkvæmt frv. um þessa lækkun að ræða frá því, sem verður, ef frv. nær ekki fram að ganga.

Ég hef áður leitt að því rök, og það hefur komið fram í umr. í hv. Nd. mjög greinilega og er athyglisvert að mínum dómi, að ef ekki verður að gert í málinu, þá hækkar verðlagsvísitalan sennilega um allt að 5 stig á mánuði og þá verða launamenn allir á eftir með sínar greiðslur, sem svarar meira en 10 vísitölustigum. Fyrsta mánuðinn verða þeir 5–10 stigum á eftir, annan mánuðinn verða þeir 10–15 stigum á eftir, og þriðja mánuðinn verða þeir yfir 15 stigum á eftir, þannig að það er ekki ósennilegt, að meðaltalið af þessu verði talsvert yfir 10 vísitölustig, sem þeir þá fá ekki bætt, vegna þess að endurskoðun kauplagsvísitölunnar gerist á þriggja mánaða fresti. Þeir yrðu með þeim verðbólguvexti að gefa eftir hærri upphæð en þetta frv. gerir ráð fyrir, auk þeirra álaga, sem þeir yrðu að taka á sig vegna hækkaðra skatta, sem afla þyrfti, til þess að útflutningssjóður og ríkissjóður gætu staðið undir sínum útgjöldum, ef vísitalan héldi áfram að hækka.

Mér fannst ræða hv. þm. vera gott dæmi um óábyrga afstöðu í málinu og meir til þess ætluð að reyna að véla um fyrir mönnum, en segja þeim sannleikann.

Hv. þm. sagði, að ósamræmi hefði verið eða væri milli áramótaræðu, sem ég hefði flutt, og þessa frv. Ég held, að það sé ekki það ósamræmi þar á milli, að nein ástæða sé til að kvarta um, því að í þeirri ræðu sagði ég, að líkur væru til þess, að heildarkaup manna þyrfti að lækka um 5–6% til þess að ná endunum saman, og það hefur nákvæmlega komið á daginn, að svo er.

Hv þm. sagði, að bellibrögð hefðu verið höfð í frammi við sjómannafélögin, þegar þau voru fengin til þess að fallast á samningana, sem gerðir voru í janúarmánuði. Ég held, að hér sé ekki aðeins rangt til orða tekið, heldur séu þetta sennilega vísvitandi ósannindi hjá hv. þm. Bellibrögð voru engin þarna í frammi höfð, því að öllum félögunum, sem greiddu atkv. um samningana, var sagt, við hverju mætti búast og hvað þessi „klásúla“ í samningunum, sem um var deilt, þýddi. Vísitölulækkun á fiskverðinu, sem samningurinn gerði ráð fyrir, var skýrð þannig, eins og rétt var, að hún tæki bæði til eðlilegrar lækkunar á vísitölunni samkvæmt lækkun verðlags og þess, sem ríkisstj. kynni að hugsa sér að lækka vísitöluna með lögum. Þetta vissu félögin öll um, sem tóku málið til afgreiðslu og samþykktu það með þessum skilningi, enda var það sagt mjög greinilega, að því er mér er tjáð, af þeim hluta samninganefndar sjómanna, sem samband hafði við félögin.

Hv. þm. sagði, að Sjómannafélag Vestmannaeyja hefði fengið með sinni baráttu samþykkta hækkun á sínum kjörum eða launum, sem jafnaðist til fulls á við þá lækkun, sem hugsað væri að gera með þessu frv.

Ég hef sannarlega ekki á móti því, að þessum mönnum tækist að fá laun sín þannig fest eða hækkuð. En á það vil ég benda, að mér hefur verið tjáð, að þær kjarabætur, sem Sjómannafélagi Vestmannaeyja tókst að ná í lokin, hefðu verið meir til samræmis, en til hækkunar, því að ýmis félög hér við Faxaflóa og í nágrenninu hefðu áður haft þau kjör eða svipuð og Vestmanneyingum tókst að lokum að semja um nú.

Um ræðu þessa hv. þm. að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða, aðeins sló það mig strax, að þessi ætti að vera aðferðin, þegar málið kæmi til fólksins, að reyna að telja því trú um, að hér væri um svo mikla og óþarfa kjaraskerðingu að ræða, að það yrði að taka upp baráttu eða andstöðu gegn málinu. Þessi afstaða verður náttúrlega að dæmast af reynslunni og þeim árangri, sem verður af þessari baráttu. Ef hún tekst og ef það tekst að telja verkalýðsfélögunum trú um, að það sé rétt, sem hv. þm. sagði, þá verður tilraunin, sem hér er gerð, að engu og þá verður að grípa til enn nýrra ráðstafana til þess að ráða bót á ástandinu og niðurlögum verðbólgudraugsins með öðrum ráðum, en hér er beitt. En ég vil í lengstu lög vona, að honum og öðrum hans líkum eða sálufélögum takist ekki að telja fólki trú um þetta. Og þeir, sem taka að sér að berjast fyrir þessum aðgerðum, sem hann hér hefur komið inn á, taka á sig mikla ábyrgð. Og fyrr eða seinna munu þeir verða að svara til saka fyrir það, sem þeir eru að gera nú.