29.12.1958
Neðri deild: 47. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1958 í B-deild Alþingistíðinda. (2382)

Stjórnarskipti

Eysteinn Jónsson:

Ég skal ekki efna til langra umræðna um þetta, því að meiningin var að koma á framfæri þeirri grg., sem ég hef þegar flutt. En út af því, sem hæstv. forsrh. segir, vil ég aðeins taka fram eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er mér ekki kunnugt um, að hann hafi nokkurn tíma gert tilraun til að koma á fót því allra flokka samstarfi, sem við stungum upp á, og mun það ekki hafa verið reynt. Ef það hefði verið reynt, eins og við stungum upp á, þá hefði komið í ljós, hverjir það voru, sem slíkt strandaði á, hverjir það voru t.d., sem lögðu svo mikla áherzlu á að kasta þjóðinni út í deilur um kjördæmamálið, að þeir vildu ekki ljá máls á slíku. En ég veit, að það var ekki reynt.

Varðandi þessa stjórn, sem nú hefur komizt á laggirnar, að hún sé líkleg til þess að koma einhverju fram, vil ég aðeins segja, að það er varla hægt að hugsa sér óhægari aðstöðu, en nú er orðin við þetta fyrirkomulag, þar sem nú eru fram undan kosningar. Það má svo sem nærri geta, hverju þessi stjórn, jafnvel þótt hún hafi stuðning Sjálfstfl., muni geta áorkað í efnahagsmálunum með kosningar alveg fram undan og það tvennar kosningar, ef hún kemur fram vilja sinum. Eins og ég sagði áðan, er venjulegum mönnum algerlega hulið, hvernig þeir menn hugsa, sem töldu kjördæmamálinu liggja svo mikið á, að það þyrfti að kasta þjóðinni út í deilur um það nú í stað þess að reyna í eitt ár að ná samkomulagi um málið. Það er vandséð, af hverju menn gátu misst með því að hafa slíkan hátt á, en hins vegar augljóst, hvað menn geta kallað yfir sig með því að þjóta nú í þetta á þann hátt, sem gert er. — Aðeins þetta sé ég ástæðu til að taka fram núna.