29.01.1959
Efri deild: 59. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það er nú ósköp lítið ánægjulegt að endurtaka mikið af því, sem búið er að segja um þetta mál, enda mun ég sneiða hjá því, eftir því sem ég get og aðeins við þessa umræðu segja örfá orð að gefnu tilefni. Það eru fyrst og fremst ummæli hæstv. forsrh., sem gefa nú raunar varla tilefni til þess að ræða þau, en því meira vert að vekja athygli á þeim og það er eiginlega alveg nægilegt svar. Hann sagði: Ég er mér þess ekki meðvitandi, að af hálfu þingflokksins hafi ekki verið gert allt, sem í valdi hans stóð, til þess að stjórnarsamstarfið héldi áfram, og svo sagði hann: Ég tek það fram: af hálfu þingflokksins, annað er mér minna vitað um. — Ég ætla nú ekki að fara nánar út í þetta. Þetta segir alveg nægilega mikið, enda væri mér vitanlega ekkert fjær, en fara að lýsa stjórnarslitunum öðruvísi, en þau raunverulega bar að.

Ég held, að það sé óþarfi að segja meira um þetta, nema tilefni gefist til, en þá væri auðvelt að gefa á þessu þær skýringar, sem enginn efast um, enda vitað.

Í annan stað minntist hæstv. forsrh. á landbúnaðinn og sagði, að samningarnir við hann giltu fyrir árið og þess væri vænzt, að þeir létu kyrrt liggja árið út. Þetta fær vitanlega því aðeins staðizt, eins og maður veit um alla samninga, að sú forsenda, sem er fyrir samningunum, sé óbreytt. Það gera allir samninga á þann hátt, að fyrir þeim eru ákveðnar forsendur og forsendurnar fyrir því, að landbúnaðurinn fær ekki hækkun fyrr, en að hausti og verður að þola hækkanir yfir árið að miklu leyti, eru vitanlega þær, að aðrar stéttir voru látnar búa við þetta. Það var þá alveg ástæðulaust að taka t. d. útgerðarmennina út úr. Þeir urðu að búa við þetta allt árið áður og hvers vegna að taka útvegsmennina út úr og segja við þá: Þið fáið breytingar á þessu, ef það breytist, þá skal það tekið til greina og samningar teknir upp að nýju? Og jafnframt hefur það ekki heldur verið í samningum viðkomandi sjómönnunum, eins og það er núna. Ef sú verður reyndin, að ekki er hægt að halda þessu kyrru, þá fá báðar þessar stéttir, sem ekki fengu þessa hækkun áður, hækkanir á árinu á þriggja mánaða fresti svo að segja jafnóðum og hækkanirnar dynja yfir og um landbúnaðinn er þess vegna látin gilda önnur regla, en gildir um þessar stéttir. En það gilti sama regla um landbúnaðinn og þessar stéttir áður. Það er því ekki nokkurt réttlæti, sem mælir með því, að þessi stétt sé ein tekin út úr og látin búa við annað. Og þegar tekinn er vísitölugrundvöllur 100 1. marz, þá er það í alla staði óeðlilegt, að þeir séu látnir búa við önnur kjör en aðrar stéttir. Þegar vísitalan 100 er lögð til grundvallar, þá eiga þeir að vera eins settir og aðrar stéttir, og mælir engin sanngirni með því, að önnur regla gildi um þá nú, eftir að þessi nýmæli eru tekin upp viðkomandi útveginum og viðkomandi sjómönnum. Það mátti alveg eins segja við útvegsmennina: Við ætlumst til þess, að þið takið skakkann, sem verður á árinu,og bíðið, þangað til samningar verði gerðir næsta haust og sama mátti segja við sjómennina. Nú er hvorugt gert og þá ástæðulaust að taka eina stéttina út úr. Þetta finnst mér vera svo augljós rök, að hv. þd. hljóti að fallast á leiðréttingar á þessu atriði.

Viðkomandi tekjuöfluninni kom nú ekkert fram nýtt frá hæstv. forsrh., og þarf því ekki að ræða það mál frekar. Það stendur óhaggað, það sem hefur verið sagt um þetta mál í hv. Nd. og þau ummæli, sem ég lét hér falla og gefur ekki tilefni til frekari umræðna að sinni.

Ég hlustaði ekki nema á sumt af því, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði um neitun Alþýðusambands Íslands, enda held ég nú satt að segja, að afstaða hv. 4. þm. Reykv. sé orðin svo skýr öll saman, að hún þurfi engrar skýringar við og það þurfi ekkert um hana að ræða. Það er vitanlega saga út af fyrir sig að greiða atkv. með því og jafnvel beita sér fyrir því í sínu eigin félagi, Múrarafélaginu, að ekki skuli gefið eftir eitt einasta vísitölustig og ekki skuli gefið eftir neitt af grunnkaupi, — samþykkja það sama á Alþýðusambandsþingi Íslands að sjálfsögðu í vissum tilgangi, sem hann vitanlega hefur sínar ástæður fyrir og falla svo frá öllu saman síðar, eins og nú er kunnugt. Það er vitanlega gert í ákveðnum tilgangi, sem hann telur sig hafa náð og ekkert er í sjálfu sér við að athuga. En það er miklu mennilegra að kannast við það, heldur en láta það liggja jafnljóst fyrir og það liggur fyrir öllum, sem um málið hugsa. Og þar kemur náttúrlega að því, sem hæstv. forsrh. sagði, að þingflokkurinn hefði staðið að þessu, — það stóð náttúrlega ekki allur þingflokkurinn að dýrtíðarráðstöfununum s. l. ár, en þar kemur að því, að þetta, sem er minna um kunnugt og ég sé ekki ástæðu til að ræða, er einn þátturinn í því, sem hv. 4. þm. Reykv. hefur manna mest beitt sér fyrir.

Um það, að það hefði ekki verið gerð grein fyrir því á Alþýðusambandsþingi, hvernig við hugsuðum okkur að leysa málin, ég hefði ekki minnzt á það, því er fljótsvarað. Ég sagði áðan, að það gæti vel verið, að ég hefði ekki gert ýtarlega grein fyrir því, en ég fullyrði það, að á Alþýðusambandsþingi var eins góð grg. fram borin og frekast er unnt að bera fram af Jónasi Haralz og Alþýðusambandsþingið gat ekki farið í neinar grafgötur um það, hvernig gert var ráð fyrir að leysa málin, svo greinilega voru þau lögð fyrir. Hann lagði þau eðlilega mjög skýrt fyrir, bæði maður gagnkunnugur þessum málum, kunnugur öllum útreikningum og kunnugur því, sem hann taldi vera fært í þessu máli, sem hann allt saman setti fram á mjög skýran og skilmerkilegan hátt.

Þegar hv. 8. landsk. talaði hér áðan, þá sagði hann m. a., og það er það eina, sem ég sé ástæðu til að svara í hans ræðu, að það hefði ekki gefizt tími til þess að ræða ágreininginn í ríkisstj., till. hefðu ekki einu sinni fengizt ræddar. Þetta er ekki rétt. Þetta hefur að vísu margoft verið sagt og hann hefur þetta sjálfsagt eftir einhverjum öðrum. Ég sé, að þetta hefur verið sagt í blöðum. Þetta er ekki rétt. Það var sagt 29. nóv., að liti út fyrir og væri í raun og veru auðséð, að ríkisstj. yrði að segja af sér. En það var beðið eftir tillögum frá Alþb. og þær voru lagðar fram, og ég fullyrði það, að þær voru í engu efnislega öðruvísi en till. Alþýðusambands Íslands, m. ö. o. neitun á því að falla frá nokkru af grunnkaupi eða vísitölu, alger neitun á því. Og það er eitt af því leiðinlega við íslenzka pólitík og er sjálfsagt margt óskemmtilegt við pólitík alls staðar, en það er þetta að þurfa að vera að deila um hluti, sem liggja alveg ljóst fyrir. Þarna var ágreiningur milli Framsfl. og Alþb., og það kom fram í þessum umræðum, að hann væri ekki brúanlegur. Það var ekki hægt að taka 5 mánuði til þess að ræða málin, eins og var á árinu 1958 og þess ber að geta, að á seinasta degi lögðu ráðherrar Alþfl. fram tillögur, sem voru að mörgu leyti svipaðar till. Framsfl. og það var um það spurt, hvort það væri hægt að ræða það í ríkisstj., að gengið yrði inn á tillögur eitthvað svipaðar till. Framsfl. og Alþfl., og þessu var neitað. Það má náttúrlega segja það, um það má alltaf deila, að ríkisstj. hefði átt að setjast á rökstóla og sitja svo og svo lengi, til þess að reyna að ná samkomulagi. Til þess var enginn tími, þar sem liðið var að áramótum og yfirvofandi var stöðvun flotans, og varð þess vegna að reyna aðrar leiðir. En það er það leiðinlega að þurfa að vera að deila um það og ætti nú ekki að þurfa að vera að deila um það héðan af, — þetta var ágreiningurinn og hann hefur komið fram ekki einu sinni, heldur hundrað sinnum í blöðum Alþb., í umræðunum hér á þingi og er uppistaðan í öllum þeirra ádeilum, m. a. hörðum ádeilum á Framsfl.

Hitt má svo aftur deila um og það er einnig gert, — það má deila um það, hvort við í Framsfl. höfum verið of varfærnir í okkar till., viljað hafa vaðið of mikið fyrir neðan okkur. Um það má deila. En um það er enginn vafi í okkar hug, að við erum alveg ófáanlegir til þess að miða við það, þó að komi mikil aflahrota á einu ári og segja sem svo, að það sé alveg víst, að það komi aftur o. s. frv. Margt fleira má ræða um í því sambandi. Við erum alveg ófáanlegir til þess. Um þetta má vitanlega deila. En um hitt verður ekki deilt, hver ágreiningurinn var, enda er það komið skýrt fram, komið svo skýrt fram, að það ætti ekki að þurfa að vera að eyða frekari orðum að því.

Ég sagði í upphafi þessa máls, að það væri leiðinlegt eða óskemmtilegt verk að endurtaka mikið af því, sem margbúið er að segja í þessu máli, þó að það hafi verið sagt í hv. Nd. eða einhvers staðar annars staðar og ég get látið þetta nægja að sinni.