02.04.1959
Sameinað þing: 35. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (2402)

Varamenn taka þingsæti

Forseti (JPálm):

Mér hefur borizt svo hljóðandi bréf frá hæstv. forseta Nd.: „Reykjavík, 1. apríl 1959.

Gunnar Jóhannsson, 6. landsk. þm., hefur í dag skrifað mér svo hljóðandi bréf:

„Þar sem ég verð fjarverandi næstu tvær vikur vegna sérstakra anna heima fyrir, leyfi ég mér, með skírskotun til 3. mgr. 144. gr. l. nr. 80 1942, um kosningar til Alþingis, að óska eftir því, að varamaður, Jónas Árnason rithöfundur, taki sæti á Alþingi í forföllum mínum.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um, að þér látið fram fara í sameinuðu þingi rannsókn á kjörbréfi varamanns.“

Hér liggur fyrir kjörbréfið og vil ég fresta fundi nokkrar mínútur og biðja hv. kjörbréfanefnd að taka bréfið til athugunar. — (Fundarhlé.)