29.01.1959
Efri deild: 59. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hv. 8. landsk, lét þess getið í sinni ræðu áðan og lagði mikinn skapþunga í, að sér þætti það einkennileg notkun á lýðræðinu, að minni hlutinn í Alþýðusambandsstjórn taki að sér að vera samningsaðili við ríkisstjórnina fyrir hönd verkalýðssamtakanna.

Af þessu gefna tilefni vil ég aðeins lýsa því yfir, að minni hlutinn í Alþýðusambandsstjórn hefur ekki staðið í neinum samningum við hæstv. núverandi ríkisstj. Það, sem ég átti við áðan, þegar ég var að bera saman, hvaða tillit væri tekið til tillagna, sem fram hefðu komið, þá var það aðeins vegna þess, að það komu fram tvær tillögur í Alþýðusambandsstjórn, það ætla ég okkur, þótt í minni hluta séum, leyfilegt, og eins hitt, að það vill nú svo til, að einn af þessum fjórmenningum, ég sjálfur, á sæti í þingflokki Alþfl. og hef haft aðstöðu þar til að láta mínar skoðanir í ljós, rétt eins og ég gerði í miðstjórn Alþýðusambandsins.

Það er því alger rangtúlkun, að minni hlutinn í miðstjórn Alþýðusambandsins standi fyrir hönd verkalýðssamtakanna í nokkrum samningum. Við höfum að sjálfsögðu beygt okkur fyrir þeirri ályktun, sem samþ. var þar með meiri hluta atkv., þannig að það er sú ályktun, sem fer frá miðstjórninni. Hins vegar hefur sambandsskrifstofunni, framkvæmdastjóra og starfsmönnum Alþýðusambandsins þótt rétt að láta það minnihlutaálit koma fram, sem kom þar fram. Þetta álít ég að nægi til þess að svara þeim mikla hita, sem hv. þm. lagði í þær röksemdir og sleggjudóma, sem hann fór með hér, bæði í minn garð og annarra Alþfl.manna.

Hann sagði undir lokin í ræðu sinni, að hann hefði kosið varaforseta Alþýðusambands Íslands betra hlutskipti, en að standa hér uppi og verja þetta frv.

Ég verð nú að segja, eftir að hafa setið hér í hv. þingdeild með þessum ágæta þm. og séð hann styðja þvert ofan í meirihlutasamþykki verkalýðssamtakanna á s. l. vori þær ráðstafanir, sem þá voru gerðar, að þá tel ég, að hvorugur öfundi hinn af sínu hlutskipti.

Hv. þm. Str. (HermJ), fyrrv. forsrh., kom hér inn á afstöðu mína, eins og ég gat um í minni ræðu og raunar er endurtekning á því, sem hv. 1. þm. S-M. (EystJ) og 7. þm. Reykv. (HV) höfðu um þessa afstöðu mína í Nd., endurtók það hér, þótt með nokkuð hóflegri orðum vær, og taldi, að ég hefði beitt mér fyrir því í Múrarafélaginu og á Alþýðusambandsþingi, að farin yrði þveröfug stefna við það, sem hér er lagt til. — Ég vil ekki teygja tímann á því hér að endurtaka mikið af því, sem ég sagði áðan, en hv. þm. var ekki viðstaddur þá ræðu, að maður gæti séð. En þar skýrði ég skýrt og greinilega frá því, hverjar aðstæður voru fyrir hendi, þegar fyrrv. ályktanir voru gerðar og ég veit, að hv. þm. Str. er sá drengskaparmaður, að hann minnist sinna eigin orða um það við okkur fjórmenningana frá A. S. Í. sem hann kvaddi á sinn fund um þessi mál, þá sagðist hann af ástæðum, sem við skildum, ekki geta sagt, hverjar yrðu endanlegar tillögur þáverandi ríkisstj. í efnahagsmálunum, um það væri ekki samkomulag. Það ætla ég að vona að hann standi við.

Um ræðu hans og Jónasar Haralz á Alþýðusambandsþingi er það rétt, að Jónas Haralz skýrði mjög glöggt og greinilega frá ástandinu, eins og hann taldi að það væri, og benti á ýmsar leiðir, sem til greina gætu komið. En hann gat ekki frekar en hæstv. þáverandi forsrh. sagt, hvernig sú endanlega leið, sem ríkisstj. kynni að fara yrði, eða samkomulag næðist um að lokum.

Það var í þessu óvissuástandi, sem fyrrverandi ályktanir voru gerðar.

Ætla ég þá að vona, að það sé skýrt, hvers vegna sú afstaða var þar tekin til mála, bæði á sambandsþingi og í margnefndu Múrarafélagi um þessa hluti.

Að öðru leyti tel ég mig ekki þurfa að svara því, sem hér hefur fram komið, umfram það, sem ég gerði beint og óbeint í ræðu minni áðan.