05.01.1959
Sameinað þing: 18. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1967 í B-deild Alþingistíðinda. (2412)

Kosningar

Forseti (JPálm):

Ég vil leyfa mér að þakka hv. alþm. fyrir vinsamlegt traust og vonast eftir góðri samvinnu, eins og lengi var. Jafnframt vil ég óska hv. alþm., hæstv. ríkisstj. og öllu starfsfólki Alþ. gleði og farsældar á þessu nýja ári. Ég vil enn fremur láta í ljós þá ósk og von, að þetta nýbyrjaða ár verði hamingjuár fyrir okkar stofnun, virðulegustu stofnun þjóðarinnar, Alþingi, þannig að það fái tækifæri til þess á þessu ári að starfa með eðlilegri hætti, en oft hefur verið síðustu árin og þannig, að vandamál þjóðarinnar verði afgr. innan veggja þessarar stofnunar, en ekki einhvers staðar annars staðar. (StgrSt: Þetta er ekki rétt sagt, ég mótmæli þessu. Það er ósmekklegt af forseta að segja þetta. Ég segi það eins og það er og geng út.) — Það liggur engin dagskrá fyrir þessum fundi um frekari störf. Næsti fundur verður boðaður með dagskrá. Fundinum er slitið.