30.01.1959
Efri deild: 60. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Frsm. meiri hl. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Eins og í nál. meiri hl. fjhn. á þskj. 212 segir, hefur nefndin fjallað um frv. ásamt fjhn. Nd., auk þess sem það var að nýju tekið fyrir í nefndinni í gær. Samkomulag varð ekki um afgreiðslu málsins og skiptist n. í þrjá hluta. Einn nm., hv. 8. landsk., greiddi atkv. á móti frv., en annar nm., hv. 1. þm. Eyf., tók í nefndinni ekki afstöðu til málsins og munu þeir gera nánari grein fyrir afstöðu sinni með sérstökum nál. En við, hv. 6. þm. Reykv. (GTh) og hv. þm. Vestm. (JJós) og ég, mælum með, að frv. verði samþ. óbreytt í núverandi mynd, eins og það kom frá hv. Nd.

Um efni frv. er óþarft að vera fjölorður. Hæstv. forsrh. rakti í framsögu sinni fyrir málinu hér í deildinni í gær höfuðatriði frv. og ástæður þær, er til þess liggja, og ýtarlegar umræður hafa þegar farið fram um málið í hv. Nd. og m. a. í útvarpi. Rétt er þó að stikla á höfuðatriðum frv.

Í 1. gr. frv. segir, að frá 1. febr. n. k. skuli greiða verðlagsuppbót á laun og allar þær greiðslur, er kaupgjaldsvísitölu fylgja, samkvæmt vísitölu 175 stig og nánar er greint frá, hvernig ákvæði þessi eiga að ná til hinna ýmsu launataxta. Tvær undanþágur eru þó við ákvæði þessarar greinar: greiðslur eða bætur skv. 37. og 38. gr. laga um almannatryggingar, elli- og örorkulífeyrir, og greiðslur skv. lögum um atvinnuleysistryggingar skulu miðast við 185 stig áfram.

Í 2. gr. eru ákvæði um, að vísitala viðhaldskostnaðar og húsaleiguvísitala skuli reiknuð eftir vísitölunni 175.

Í 3. gr. er nánar kveðið á um, að húsaleigan skuli eftir 1. marz reiknuð inn í framfærslukostnaðarreikning kauplagsnefndar.

Núgildandi vísitölugrundvöllur er frá árunum 1939 og 1940 og því 20 ára gamall og miðaður við neyzluvenjur þá. Í 4. gr. er gert ráð fyrir, að horfið verði að nýjum vísitölugrundvelli, og er sú breyting rökstudd með því, að á s. l. 20 árum hafi neyzluvenjur almennings tekið miklum breytingum. Hinn eldri grundvöllur er því orðinn í hæsta máta óraunverulegur og jafnvel hættulega lokkandi fyrir stjórnarvöld landsins á hverjum tíma, t. d. með niðurgreiðslum eins eða tveggja vörutegunda, án tillits til þess, hve nauðsynlegar þær eru almenningi. Kauplagsnefnd hefur nú um langt skeið unnið að undirbúningi hins nýja grundvallar og mun óhætt að fullyrða, að þessi nýi grundvöllur hefði verið tekinn upp, hvort sem þetta frv. nær fram að ganga eða ekki.

Í 5. gr. er ákveðið, að frá 1. marz 1959 verði verðlagsuppbót lögð við grunnupphæðir launa og sett sem grundvöllur 100 frá þeim degi.

6. gr. frv. ákveður, að á tímabilinu frá 1. maí til 30. ágúst skuli greiða verðlagsuppbót á laun skv. þeim breytingum, sem vísitala framfærslukostnaðar hefur tekið á tímabilinu 1. marz til 1. apríl og er þar aðeins um að ræða endurtekningu sama háttar og á hefur verið um þessi mál.

Í 7. og 8. gr. er ákveðið, að færð skuli niður í verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara laun bónda og verkafólks hans, samsvarandi við aðrar launastéttir skv. öðrum greinum frv. um það efni.

8. gr. gerir ráð fyrir því, að kaup bóndans verði nú eins og annað kaupgjald reiknað út með breyttu verðlagi og breytist eftir vísitölu. Í upphaflega frv. hafði þó verið gert ráð fyrir, að breyting þessi á launum bónda og verkafólks hans í verðlagsgrundvellinum yrði að nema 5 stigum eða meira. Nú hefur með samþykkt á brtt. í Nd. verið ákveðið, að þetta mark skuli vera aðeins 2 stig.

Í 9. gr. eru tilsvarandi ákvæði um vísitöluáhrif á skiptaverð á fiski til bátasjómanna. Skv. upplýsingum, sem ég hef aflað mér, mun þessi breyting upphaflega vera komin inn skv. óskum samninganefndar sjómanna um s. l. áramót. Síðar kom þó í ljós, að þessar samninganefndir skiptust í tvo hópa um skilning á verkun þessarar verðlagsuppbótar. Ríkisstj. gaf þá út í tilkynningarformi skoðun sína á ákvæði þessu og taldi, að þeir samningar, sem þá var fyrirhugað að gera, miðuðust við vísitölu 185 og yrðu fyrirætlanir um að lækka vísitölu í 175 samþykktar, lækkaði skiptaverð á fiski til samræmis. Þeir samningar, sem nú hafa verið gerðir við bátasjómenn, eru því samþykktir með þessum skilning. Undantekning er þó frá þessu, þar sem ákveðið er, að kauptrygging sjómanna miðist við vísitölu 185, þó að frv. þetta verði að lögum.

Þá eru í 10. gr. talin upp þau atriði önnur, er ákvæði laganna skulu ná til, t. d. framleiðsla. Framleiðendur hvers konar þjónustu skulu þegar eftir gildístöku þessara laga lækka söluverð til samræmis við þá lækkun launakostnaðar, sem leiðir af lækkun kaupgjaldsvísitölu í 175 stig. Fyrirmæli eru og um, að verðlagsyfirvöld skuli þegar eftir gildistöku þessara laga setja nánari fyrirmæli um framkvæmd þessarar greinar.

Ég hef hér í fáum orðum stiklað á meginefni frv. Um það, sem ég hef látið ósagt, vísa ég til ræðu hæstv. forsrh., er hann flutti fyrir málinu hér í gær.

Ég vil svo aðeins ítreka fyrri ummæli mín um, að meiri hl. fjhn. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það kom frá hv. Nd.