12.05.1959
Efri deild: 120. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1980 í B-deild Alþingistíðinda. (2464)

Starfslok deilda

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég efast nú um, að þetta þyrfti endilega að vera síðasti fundur þessarar hv. d., af því að mig uggir, að einhver mál verði afgr. í hv. Nd., sem muni þurfa að koma til þessarar d. aftur, og ég hefði því fyrir mitt leyti gjarnan óskað þess, að ekki væri lokað fyrir störf í þessari hv. deild.

En að því er snertir orð hæstv. forseta og hans hlýju orð til mín og annarra hv. dm., þá vildi ég gjarnan mega segja það fyrir mína hönd fyrst og fremst, að ég þakka hæstv. forseta alla þá kynningu, sem ég hef af honum haft í þau mörgu ár, sem við höfum starfað hér á Alþingi, og vil gjarnan votta það, að virðing mín fyrir hæstv. forseta og vinátta mín í hans garð hefur farið vaxandi með hverju ári, sem okkur hefur verið unnt að starfa hér saman á Alþingi.

Ég þykist vita, að ég muni mega mæla fyrir hönd allra annarra hv. dm., er ég þakka hæstv. forseta fyrir hans góðu kveðjur til okkar í þessari hv. d. í þetta sinn og hans velfarnaðaróskir til allra hv. dm., sem ég efast ekki um að hver og einn af okkur þm. í þessari hv. d. muni vilja endurgjalda hæstv. forseta, eftir því sem unnt er.

Ég vil mega mæla í nafni allra hv. dm., þegar ég óska hæstv. forseta og hans heimili alls góðs á ókomnum tíma, og vil vona, að þessi hv. d. megi njóta hans forustu eitthvað enn þá um ókomin ár.

Ég vil leyfa mér að biðja hv. dm. að staðfesta orð mín og kveðjur til hæstv. forseta og hans heimilis með því að rísa úr sætum. (Dm. risu úr sætum.)