13.05.1959
Neðri deild: 128. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1981 í B-deild Alþingistíðinda. (2469)

Starfslok deilda

forseti (EOl):

Þessi fundur verður að öllu forfallalausu síðasti fundurinn í hv. Nd. á þessu þingi og á þessu kjörtímabili. Ég vil leyfa mér að þakka öllum hv. þdm. innilega ágætt samstarf við mig allan þennan tíma og þakka þeim fyrir það umburðarlyndi og hjálpsemi, sem þeir hafa sýnt mér í mínu starfi. Ég vil sérstaklega þakka þeim samstarfið á þessu tímabili með tilliti til þess, að nú þegar er vitað, að nokkrir af okkar hv. þdm. munu ekki gefa kost á sér á ný, þannig að hverjir okkar sem koma til með að verða á komandi þingum, munum við ekki hitta þá í þessum sölum aftur. Meðal þeirra eru þm., sem setið hafa áratugi í þessari d., og meðal þeirra einn, sem setið hefur allra þingmanna lengst á Alþingi. Ég vil alveg sérstaklega, — og ég veit, að ég mæli fyrir munn allra hv. þdm., — þakka þessum þingmönnum langt og gott samstarf og óska þeim, sem nú hverfa og hafa ákveðið sjálfir að hverfa á brott úr þingsölunum, alls persónulegs velfarnaðar. Ég vil þakka varaforsetum og skrifurum ágætt samstarf á þessu þingi og alla þeirra hjálp á þessu kjörtímabili. Öllum hv. þm. óska ég svo góðrar heimferðar og alls persónulegs velfarnaðar. Starfsfólki þingsins þakka ég ágætt samstarf og flyt því beztu óskir um velfarnað.