11.05.1959
Sameinað þing: 48. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (2479)

Almennar stjórnmálaumræður

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj., sú er nú situr að völdum á Íslandi, á trúlega engan sinn líka í víðri veröld. Ég veit ekki betur, en ráðherrarnir hæstv. telji sig vera jafnaðarmenn, og allir eru þeir í þeim flokki, sem minnstur er og veikastur hér á landi, enda forusta hans villuráfandi um langt skeið og nú að lotum komin.

Eins og vonlegt er getur þessi jafnaðarmannastjórn hvorki staðið né setið óstudd. Stuðninginn hefur hún og hann ekki af lakari endanum. Eru það hvorki meira né minna en pólitísk hagsmunasamtök atvinnurekenda, viðskiptajörfa og annarra stóreignamanna, sem liðveizluna láta í té. Voldugur flokkur einkaframtaksins hefur leitt máttvana flokk þjóðnýtingarinnar til öndvegis í þjóðfélaginu. Þetta er heimsundur. Þegar ókunnugum er greint frá því, verða þeir hvumsa við, en spyrja síðan: Hvers konar sjónleikur hefur hér verið settur á svið? Er þetta gaman eða alvara?

Það þætti furðufrétt, að Adenauer hinn þýzki hefði lagt stjórnartaumana í hendur jafnaðarmannaforingjanum Ollenhauer og styddi hann til stórræða af öllum mætti, en eitthvað á þann veg mun íslenzka undrið koma framandi mönnum fyrir sjónir.

Jafnaðarmannastjórn íhaldsins, Alþýðuflokksstjórn Sjálfstfl. eða hvað annað sem fyrirbærið er kallað, þá er það og verður hrærigrautur og mun að líkindum, áður en varir, reynast þjóðinni grátt gaman.

Þeim, sem kunnugir eru íslenzkum stjórnmálum, kom hins vegar ekki algerlega á óvart myndun skammdegisstjórnarinnar í vetur. Þeir vissu, að forustulið Alþfl. er löngu slitið úr tengslum við alþýðu landsins og hefur síðan borizt til og frá sem rótlaust þangið við fjöruborð. Þeir víssu einnig, að Sjálfstfl. er ekki þjóðmálaflokkur í venjulegum lýðræðislegum skilningi, heldur eins konar pólitískt verzlunarfyrirtæki fárra manna og mikilla fjármuna. Þess vegna hefur hann enga fastmótaða, jákvæða stefnu, og þess vegna getur hann leyft sér að bjóða í og kaupa þrotabú fyrrv. keppinauta.

Lýðræðislegur stjórnmálaflokkur gegnir jafnþjóðnýtu hlutverki, hvort sem hann er í stjórn eða utan stjórnar, en sérstaklega er þó stjórnarandstaðan góður prófsteinn á hæfni hans. Frá miðju ári 1956 til ársloka 1958 hafði Sjálfstfl. þá aðstöðu að vera stjórnarandstæðingur. Því hlutverki gerði hann mikil skil, og mun frammistaðan talin góð af húsbændum fyrirtækisins, þótt hið gagnstæða verði upp á teningnum, sé miðað við almannaheill. Lýðfrjáls þjóðmálaflokkur og pólitískt fyrirtæki eru sitt hvort og þjóna gerólíkum tilgangi.

Í tíð vinstri stjórnarinnar var Sjálfstfl. látinn vinna verk niðurrifs og eyðingar einvörðungu, og voru aðfarirnar líkastar manns, sem helgað hefur hefndinni líf sitt. Mun áreiðanlega vandfundin jafnóvirðuleg, óábyrg og neikvæð stjórnarandstaða sem Sjálfstfl. á þessu tímabili. Þeirrar andstöðu er ekki ófróðlegt að minnast nú, þegar flokkurinn hefur á ný náð stjórnartaumunum í sínar hendur. Almenningi er það áreiðanlega meira eða minna ljóst, að Sjálfstfl. notaði orku sína og fjármuni til þess að rífa niður það, sem vinstri stjórnin byggði upp, án alls tillits til, hvað það var eða hvað það kostaði þjóðina. Allt var rægt og reynt að eyðileggja. Sérstaklega forðaðist flokkurinn eins og heitan eld að leggja nokkuð jákvætt fram, þegar stærstu vandamálin bar á góma. Hann var sjálfum sér samkvæmur í stjórnarandstöðunni og reyndist frá því fyrsta til hins síðasta neikvæður niðurrifsflokkur. Þá afstöðu tók flokkurinn á umgetnu tímabili og neytti krafta sinna því meir til niðurrifs sem málin voru þjóðinni mikilsverðari.

Frá upphafi beitti vinstri stjórnin sér fyrir stöðvun verðbólgunnar og naut í því velvildar og trausts vinnandi stétta. Þá viðleitni gat Sjálfstfl. aldrei litið réttu auga. Leynt og ljóst — og í upphafi þó einkum leynt — barðist hann gegn stöðvun verðbólgunnar og hafði til þess öll spjót úti. Var sérstök áherzla lögð á þá baráttu, og bar tvennt til. Ekkert gat skaðað vinstri stjórnina meira, en mistök á sviði efnahagsmálanna, og auk þess var stöðvun verðbólgunnar síður en svo kærkomin húsbændum Sjálfstfl., fésýslumönnunum, sem einir hafa á verðbólgunni grætt. Í þessu efni varð flokknum mikið ágengt, einkum er á leið. Snemma kom hann því til leiðar, að hálaunaðir flugstjórar kröfðust kauphækkunar og gerðu verkfall. og nokkru síðar báru yfirmenn á farskipum sínar launahækkunarkröfur fram til sigurs. Þetta taldi forustan góða byrjun og líklega til árangurs. Þætti leiðtogum íhaldsins dýrtíðarhjólið snúast of hægt, létu þeir sig ekki muna um að bjóða kauphækkanir, og á þann hátt hlaut t.d. iðnverkafólk á sínum tíma verðskuldaða, en óvænta kjarabót. Atvinnurekendur víssu sem var, að launakjörin gætu þeir rýrt, strax og þeir næðu pólitísku völdunum á ný, enda er það nú komið á daginn.

Það kom mörgum spánskt fyrir, að Sjálfstfl. í tíð vinstri stjórnarinnar gerðist kaupkröfuflokkur. Nú skilst mönnum, að þetta var aðeins viðskiptabrella, sömu tegundar og kaupmenn nota, er þeir lækka vöruverð sitt í bili, á meðan þeir eru að hæna viðskiptavinina að. Sjálfstfl. er ekki út í bláinn flokkur heildsala. Á hinu furðaði engan, að flokkurinn fagnaði hástöfum í hvert sinn sem vöruverð hækkaði og að hann fjandskapaðist gegn verðlagseftirliti vinstri stjórnarinnar.

Það er nú orðið alkunna, að við lausn landhelgismálsins þvældust foringjar Sjálfstfl. fyrir, eins lengi og þeir gátu. Kom þar til greina hollusta þeirra við framandi stórveldi og þó ekki síður andúðin á vinstri stjórninni. Var þeim mikið í mun, að vinstri stjórninni tækist ekki að leysa það mál farsællega. Því höfðu þeir allt á hornum sér og hafa haft til þessa dags. Það var óttinn við almenningsálitið, sem beygði þessar sjálfstæðishetjur að lokum. En þær hafa ekki enn í dag getað sætt sig við þá staðreynd, að það var vinstri stjórnin, sem leysti þetta mikilsverða mál.

Í hvert sinn sem fyrrverandi stjórnarvöld leituðu fyrir sér um erlend lán til virkjana og annarra stórframkvæmda ruku íhaldsleiðtogarnir upp með fúki og fáryrðum og reyndu að gera hverja slíka viðleitni sem tortryggilegasta. Sjálfum hafði þeim í sinni stjórnartíð gengið heldur illa að fá lán erlendis, og mun það ekki hafa bætt skapsmunina. En þrátt fyrir þennan andróður tókst vinstri stjórninni að afla lánsfjár til viðreisnarstarfa sinna. Í hennar tíð var lokið við byggingu sementsverksmiðjunnar, hafin Sogsvirkjunin nýja, keypt ný fiskiskip og reistar fiskvinnslustöðvar auk margs annars. Stjórnarandstöðunni tókst ekki að spilla fyrir þeim lántökum, sem nauðsynlegar voru til þessara framkvæmda.

Bjargræðisvegir þjóðarinnar voru í niðurníðslu, þegar stjórnarskiptin urðu 1956. Höfðu fyrri stjórnarvöld sinnt hernaðarvinnu meira, en innlendum bjargræðisvegum. Sennilega verður það talið eitt helzta afrek vinstri stjórnarinnar, er fram líða stundir, hve vel henni tókst á skömmum tíma að endurreisa framleiðsluatvinnuvegina. Atvinna varð nægileg, þar sem hún áður hafði verið stopul, og fólksflutningar til Suðurnesja stöðvuðust, enda var á þessu tímabili ekki leyfð gerð nýrra stórvirkja á vegum bandaríska hersins.

Skýringin á því, hve litlu stjórnarandstaðan fékk áorkað þessum málum til óþurftar, er sú samstaða, sem um þau var innan stjórnarflokkanna. En á slíka samstöðu skorti því miður oft, og var þá hægara um vik fyrir Sjálfstfl. að gera sína neikvæðu afstöðu gildandi.

Þannig reyndist stjórnarandstaða þessa flokksfyrirtækis í smáu sem stóru. Stórmerka löggjöf um húsnæðismálastofnun var reynt að gera sem tortryggilegasta og íhaldsöflum beitt til þess með talsverðum árangri að torvelda þá fjáröflun, sem lögin gerðu ráð fyrir til lánastarfseminnar. Allt var á eina bókina lært, og var ekki einu sinni hlífzt við að gera skyldusparnað unglinga óvinsælan, hvað þá annað, ef verða mætti vinstri stjórninni til hneysu og tjóns.

Allt til þessa dags hafa málgögn Sjálfstfl. haldið á lofti skefjalausum blekkingum um þá stjórn alþýðustéttanna, er mynduð var sumarið 1956. Hefur þessi áróður haft áhrif í réttu hlutfalli við útbreiðslu þessara málgagna og því mest í Reykjavík, þar sem Morgunblaðið nær svo að segja inn á hvert heimili. En miklu beinu tjóni hefur þessi áróður valdið þjóðinni í heild, svo óábyrgur sem hann er. Hann gagnar að vísu litlum hópi fésýslumanna, en bitnar því meir á öllum öðrum, og mun það síðar koma í ljós. Ábyrgðarlaus skollaleikur Sjálfstfl. í dýrtíðarmálunum á eftir að reynast örlagaríkur, og þótt ekki væri öðru til að dreifa, mætti sá skollaleikur einn nægja flokknum til dómsáfellis í næstu kosningum.

Undirróður Sjálfstfl., rætinn og málefnasnauður, átti mikinn þátt í falli vinstri stjórnarinnar. En þar kom fleira til greina. Innan stjórnarflokkanna varð snemma vart óheilinda, sem smám saman sýktu út frá sér. Strax haustið 1956 sáu Alþfl. og Framsfl. ástæðu til að bregðast loforðum sínum um brottför hersins úr landinu. Fékk Alþb. ekki að gert, hvorki þá né síðar, enda tveir gegn einum, en stjórnarsamstarfinu urðu þau brigðmæli mikið áfall. Í efnahagsmálunum tvistigu báðir þessir flokkar, Framsókn og Alþfl., og hugðu framan af á gengislækkun sem úrræði. Gengislækkun fékk Alþb. þó afstýrt, en þessi tilhneiging hinna flokkanna varð til þess að veikja baráttuna við verðbólgu og dýrtíð.

Í stjórnarsamningnum var ákveðið, að stjórnarflokkarnir þrír skyldu beita sér fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar, og var vitað mál, að þar var fyrst og fremst átt við kjördæmaskipunina. Þetta mikilvæga atriði stjórnarsáttmálans var aldrei tekið alvarlega til meðferðar, og er mér ekki grunlaust um, að þar hafi Framsfl. verið mest um að kenna. Virtist mér helzt sem kjördæmabreyting væri bannorð í þeim flokki alla tíð vinstri stjórnarinnar. Hitt er víst, að aldrei stóð á Alþb. að standa við þetta ákvæði, sem önnur, í gerðum samningum.

Landhelgismálið olli um tíma vinstri stjórninni nokkrum erfiðleikum, og var ástæðan sú, að Alþfl. lagðist fast á sveif með Sjálfstfl. gegn lausn þess, vildi ekki frekar, en íhaldið, eiga á hættu að styggja Breta og Atlantshafsbandalagið. Það bjargaði málinu, að Alþb. og Framsókn sýndu engan bilbug, og þeir flokkar tveir máttu sín meir í stjórninni en Alþfl. einn. Því fór ekki um þetta mál eins og hersetumálið.

Fleiri agnúar urðu til þess að veikja vinstri stjórnina innan frá og flýta fyrir falli hennar, og má í því sambandi nefna þau óheillaöfl, sem frá öndverðu varð vart innan Alþfl. og studdu íhaldsflokkinn dyggilega í niðurrifsstarfinu. En þrátt fyrir þessar veilur reyndist stjórnarsamstarfið giftusamlegt á ýmsan veg, og mörgum góðum málum fékk vinstri stjórnin þokað í rétta átt.

Í desemberbyrjun sagði stjórn alþýðunnar af sér. Það voru foringjar Framsfl., sem skáru á bönd samstarfsins, að því er virtist af mikilli hvatvísi. Sú grein var gerð fyrir stjórnarslitunum, að Alþb. hefði ekki viljað eiga hlut í því að lögbjóða þá miklu og bótalausu launalækkun, sem leiðtogar Framsóknar heimtuðu. Grunur lék þó á, að ástæðurnar væru fleiri, m.a. sú, að suma í Framsókn væri farið að langa í gömlu íhaldsflatsængina aftur. Hvað sem um það er, þá er víst, að það var Framsókn, sem sleit vinstra samstarfinu. Að vísu leit svo út sem hún vildi taka það upp aftur nokkrum vikum síðar, en þá var það um seinan. Þá vildi Alþfl. ekki vera með, enda mun hann þá hafa verið ráðinn í vist annars staðar, eins og síðar kom á daginn. Það var þannig Framsfl., sem rauf samstarf íhaldsandstæðinga, og það var Alþfl., sem kom í veg fyrir, að það yrði endurnýjað.

Hræðslubandalagið nafntogaða hrundi til grunna eftir stjórnarslitin í vetur. Þeir átta þingmenn þess, sem eignaðir voru Alþfl. og þó með vafasömum rétti, réðu sig þegar á annað skip og mynduðu ríkisstj. fyrir Sjálfstfl. Alþýðublaðið var látið hrósa þeim fyrir hugprýði og dirfsku, en öðrum fannst tiltækið bera meiri keim af vonleysi og uppgjöf.

Hvað sem því líður, þá kom liðsaukinn íhaldinu vel. því var í mun að ná völdum, en óttaðist hins vegar að sýna eigin ásjónu rétt fyrir kosningar. Nú gat það brugðið yfir sig gæru Alþfl. og undir henni — raunar illa dulið stjórnar það landinu í dag.

Hæstv. ríkisstj. Alþfl. hefur í smáu og stóru rekið erindi og gætt hagsmuna Sjálfstfl., sem hefur hana í hendi sér. Öll handaverk hennar sýna þetta, svo að ekki verður um villzt. Einskis hlutleysis er gætt, og hvergi örlar á stefnu jafnaðarmanna og verkalýðssinna. Verkin eru öll með sama markinu brennd, marki íhalds og afturhalds.

Hver eru þá þessi handaverk hæstv. ríkisstj.? Ég skal nefna örfá dæmi þeirra. Réttur verkalýðsins til frjálsra kjarasamninga hefur með lagasetningu verið traðkaður. Allt umsamið kaup í landinu var lækkað 1. febr. um 13.4% án samráðs við verkalýðshreyfinguna. Þeim milljónatugum, sem launþegar eru árlega sviptir með þessari lækkun, er þegjandi og hljóðalaust stungið í vasa vinnuveitenda. Verðbætur til útgerðarinnar eru samkv. slumpreikningi auknar um 100 millj. kr. á þessu ári, auk hagnaðarins, sem leiðir af lækkuðu kaupi. Almenningur borgar brúsann eftir kosningar. Vöruverð er greitt niður á árinu með 120 millj. kr. og skuldadögum slegið á frest til haustsins. Allar fram bornar till. um sparnað í ríkisrekstrinum eru kolfelldar. Sparnaðarviljinn birtist hins vegar í því að draga úr nauðsynlegu viðhaldi vega, lækka framlög til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis og öðrum ámóta aðgerðum. Í ríkisútvarpinu eru gerðar lymskulegar árásir á verkalýðssamtökin á sjálfum hátíðisdegi þeirra 1. maí. Tilraun er gerð til að eyðileggja orlofslögin, sem verið hafa stolt Alþfl., síðan þau voru sett.

Þessi dæmi sýna glögglega hug hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar til verkamanna og annarra launþega. Hér eru kröfur atvinnurekenda uppfylltar skilyrðislaust, áhugamál Sjálfstfl. einhliða borin fram til sigurs.

Sömu sögu er að segja af handapati hæstv. ríkisstjórnar í mikilsverðustu sjálfstæðismálum þjóðarinnar. Fyrir hernaði Breta í íslenzkri landhelgi er augum lokað. Hrottalegar aðfarir Breta voru nýlega ræddar hér á hinu háa Alþingi, og í því tilefni þótti hv. þm. G-K., Ólafi Thors, ástæða til að lýsa því yfir, að sjálfur hann og hæstv. utanrrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, væru miklir Bretavinir. Máske er sú Bretavinátta sett ofar lífshagsmunum Íslendinga, og verður þá hinn átakanlegi dauðyflisháttur stjórnarvaldanna í þessu máli skiljanlegur. Aðgerðarleysið gagnvart ofbeldi Breta er vináttuvottur við þá stórþjóð. Í herstöðvamálinu er annarri erlendri þjóð sýnd auðsveipni með öðrum hætti, ekki með aðgerðaleysi, heldur virkri hlutdeild. Hermangið gamla er nú aftur hafið til vegs og virðingar. Er þegar samið um byggingu nýrrar bækistöðvar á Snæfellsnesi, og á hún að kosta 40 millj. kr. Er þannig myndarlega af stað farið rétt fyrir kosningar og þó hreinir smámunir hjá því, sem síðar verður.

Engum dylst, að á þessum viðkvæmu sjálfstæðismálum þjóðarinnar er haldið í samræmi við óskir íhaldsmanna. Ber hér allt að sama brunni, minnihlutastjórn Alþfl. framkvæmir stefnu Sjálfstfl. út í yztu æsar og hlýðir í öllu boði hans og banni, en hlýtur að launum klapp á öxlina og slatta af bitlingum, sem hægri kratar fá aldrei nóg af.

En hvers konar flokkur er það, sem leiðtogar Alþfl. hafa vistráðizt hjá? Verkalýðsráð Sjálfstfl. er að vísu til, og það gegnir því veglega hlutverki að skipuleggja og stjórna hagsmunabaráttu atvinnurekenda innan íslenzku verkalýðssamtakanna. Máske eru Alþýðuflokksleiðtogarnir hafðir á snærum þessa verkalýðsráðs sem sérstök herdeild. Það finnst mér sennilegast. Annars er Sjálfstfl. ekki neinn venjulegur íhaldsflokkur, og væri nær lagi að kalla hann hagsmunasamtök þeirra manna, sem kaupa vinnuafl og selja vöru í stórum stíl. Hann er braskfyrirtæki þessara manna, sem stofnuðu hann og hafa stjórnað gerðum hans til þessa dags. Hann er tækifærissinnaður með afbrigðum og það kalla forsprakkar hans frjálslyndi. Reynt er að telja hrekklausu fólki trú um, að Sjálfstfl. sé flokkur allra stétta og var sú fyrirmynd sótt til nazista. Flokkur allra stétta er hann sem betur fer ekki, því að ef svo væri, þá jafngilti það útþurrkun lýðræðis á Íslandi. Flokkur allra stétta er hvergi til nema í einræðislöndum.

Eitt af mörgu athyglisverðu við Sjálfstfl., þetta stóra fyrirtæki, er, að hann heldur ekki flokksþing kjörinna fulltrúa, eins og landsmálaflokkarnir gera. Þess í stað efnir hann öðru hvoru til stórfelldrar leiksýningar, sem hann nefnir landsfund. Taka þátt í sýningunni, sem stendur í nokkra daga, 800–900 manns, og bera þeir allir stóreflisslaufu á brjóstinu. Er meginþorra sýnenda ekki ætlað annað hlutverk, en þessi slaufuburður, enda tekur fundarhúsið ekki nema 200 manns. Þessari skopstælingu lýðræðislegs flokksþings lýkur með hátíðahaldi í þrem stærstu samkomuhúsunum, og síðan halda þátttakendur heim hressir í bragði. Einn hefur notað ókeypis ferð til að sýna sig og sjá aðra, annar til að heilsa upp á ættingja sína, þriðji til að fá sér nýjar tennur o.s.frv. Allir eru ánægðir, einnig fyrirtækið sjálft, sem með þessu hefur auglýst sig og hresst upp á fylgið. En lýðræði ríkir ekki í stjórn fyrirtækisins. Inn í þennan ágæta flokk atvinnurekenda hafa þreyttir leiðtogar Alþfl. verið bergnumdir, og líklega una þeir sér vel í álfaborginni. En hvað hugsa þeir jafnaðarmenn sér að gera, sem hingað til hafa veitt Alþfl. brautargengi? Ætla þeir að fylgja leiðtogunum inn í klettaborg íhaldsins? Því á ég bágt með að trúa. Það má ofbjóða öllu, einnig flokkstryggðinni.

Alþb. stendur nú eitt uppi á sviði stjórnmálanna sem málsvari verkamanna og annarra launþega, og það er orðið eina örugga vígið gegn íhaldi og afturhaldi í þessu landi. Í vinstri stjórninni beitti það sér með góðum árangri fyrir margvislegum kjarabótum launþeganna, uppbyggingu atvinnulífsins og stækkun landhelginnar. Alþb. tókst að hindra gengisfellingu og draga úr hernaðarframkvæmdum Bandaríkjamanna hér. Það reyndi að knýja fram sparnað í rekstri ríkisins, endurbætur á stjórn þjóðarbúskaparins og brottför hersins úr landinu, en átti í þeim efnum við ofurefli að etja. Alþb. barðist gegn þeirri lífskjaraskerðingu almennings, sem lögleidd var í vetur, vel vitandi, að hún á ekkert skylt við stöðvun verðbólgunnar. Það hefur sífellt barizt gegn ríkri tilhneigingu íhaldsaflanna til undansláttar í landhelgisdeilunni við Breta, og það hefur harðlega mótmælt þeim ofsóknum, sem ríkisvaldið nú hefur hafið á hendur verkalýðssamtökunum. Loks varaði Alþb. við þeirri reginblekkingu, sem höfð er í frammi, að kauplækkanir, einhliða gerðar, megni að stöðva verðbólguna. Kaupgjaldið átti engan þátt í myndun verðbólgunnar, og því hefur lækkun þess engin áhrif. Hnitmiðuð heildarfjárfesting þjóðarinnar, skynsamlegur sparnaður í opinberum rekstri og aukning útflutningsverðmætanna er meðal þess, sem gera þarf til lausnar efnahagsvandanum, en launalækkunin er ekki annað en vatn á myllu gróðamanna landsins.

Andstæðingar Alþb. eru að vísu sterkir. En vopnabúnaður þeirra er furðu einhæfur. Eiginlega eiga þeir aðeins eitt vopn, og það er kommúnistagrýlan. Þessi vopnafátækt kemur til af því, að Alþb.-menn standa á traustum grundvelli þjóðlegra málefna og hvika ekki af þeim grundvelli. Þess vegna notast lítt önnur vopn gegn þeim en upphrópanir og ókvæðisorð. Í Alþb. eru vafalaust menn með ólíkar lífsskoðanir og viðhorf, en sameiginleg þeim, er andstaðan gegn íhalds- og herleiðingaröflum þjóðfélagsins. Þeir hafa sameinazt í Alþb. um þau áhugamál, sem sameiginleg eru, en halda hinu utan við, sem á milli kann að bera. Þetta er sannleikurinn um Alþb. í því efni. En kommúnistagrýlan er einkar handhægt vopn, sem hver fáráðlingurinn á auðvelt með að veifa.

Herra forseti. Ég lýk nú máli mínu. Dökkar blikur hafa færzt á loft, síðan Sjálfstfl. tók við völdum í vetur. Vinnandi fólki boða þær versnandi lífskjör og þjóðinni allri ógæfu útlendra yfirráða. Við vonum, að þróttmikill gustur næstu alþingiskosninga tæti þessar blikur í sundur og geri að engu. Sannfæringin um, að Íslands óhamingju verði allt að vopni, heyrir til liðnum öldum armóðs og áþjánar.

Nú treystum við því, að þjóðin sé sinnar eigin gæfu smiður, og vitum jafnframt, að öll gæði eru torsótt. Baráttan er óhjákvæmileg, og hana mun Alþb. heyja. Sigursæl barátta Alþb. ein megnar að sundra þeim óveðursskýjum afturhaldsins, sem nú grúfa yfir þjóðinni.