30.01.1959
Efri deild: 60. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Frsm. 2. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Við 1. umr. um þetta frv. gerði ég nokkra grein fyrir áliti mínu á því í heild sinni og mun þess vegna ekki nú fara mörgum orðum um málið almennt, heldur víkja nokkuð að einstökum frv.-greinum.

Meginákvæði frv. er að sjálfsögðu í 1. gr. þess, en þar er svo ákveðið, að greiða skuli verðlagsuppbót á laun og allar aðrar greiðslur, sem fylgja kaupgreiðsluvísitölu, samkvæmt kaupgjaldsvísitölu 175 stig frá 1. febr. n. k., en gildandi kaupgjaldsvísitala er þann dag samkvæmt samningum verkalýðsfélaga og atvinnurekenda 202 stig. Þetta meginákvæði þýðir því 13.4% lögbundna launalækkun allra, sem laun taka. Þessi launalækkun er þó engan veginn hin eina, sem af frv. í heild leiðir, því að bæði ákvæði 3. gr. um vísitölu húsaleigu og 6. gr. um nýja gildistöku ákvæða úr gengisskráningarlögunum frá 1950 um áhrif vöruverðs landbúnaðarafurða á kaupgjaldsvísitölu munu sýnilega hafa allveruleg áhrif á laun til lækkunar, jafnvel um mörg vísitölustig, án þess að nokkrar bætur komi í móti, og því meiri áhrif sem lengra líður.

Á móti þessum launalækkunarákvæðum frv. hafa menn svo í höndum yfirlýsingar núverandi hæstv. ríkisstj. um það, að hún muni greiða niður vöruverð a. m. k. fyrst um sinn þannig, að raunveruleg kaupgjaldsvísitala verði 185 stig, miðað við gildandi vísitölugrundvöll. En engin ákvæði eru um þetta í frv. og þess vegna engin lagatrygging fyrir því, að svo verði gert til frambúðar, þótt hins vegar megi telja sæmilega tryggt, að svo verði til 1. apríl n. k.

Kjaraskerðingin, sem leiðir af 1. gr. frv., er umdeild, hve mikil sé. En varla orkar tvímælis, að hún er allt að 9% hjá meðalfjölskyldu og óumdeilt hjá öllum, líka þeim, sem að frv. standa, að skerðingin nemi 6%, enda þótt lítið stórmannleg tilraun sé gerð til þess í grg. að halda því fram, að kaupmáttur rýrni ekki. Þessi fölsun er reynd með því að miða við 1. okt. s. l., en þá áttu launamenn inni mestar eða allar þær verðlagsbætur, sem komu til útborgunar 1. des., vegna þeirra samningsákvæða í kjarasamningum, að verðlagsbætur komi ekki inn í kaupgjaldið nema á þriggja mánaða fresti.

Þegar því um er að ræða samanburð á kaupmætti fyrir og eftir þær aðgerðir, sem hér er um að ræða og allar eru miðaðar við 1. des. og þá kaupgjaldsvísitölu, sem þá gilti, ber auðvitað að miða einnig við kaupmátt þann dag, en vísitala kaupmáttar þann dag var 109.9 stig, miðað við 100 í júnímánuði. Lækkun kaupmáttar samkvæmt útreikningsreglum höfunda frv. sjálfs er því 109.9 mínus 103.9, eða 6%.

En við frekari athugun á frv. kemur fleira í ljós. Í 2. gr. og 3. gr. eru t. d. ákvæði varðandi húsaleiguvísitölu. Þessi ákvæði leiða af sér að sögn hagstofustjóra 0.7 stiga lækkun framfærsluvísitölu, án þess að um nokkra raunverulega niðurfærslu á húsaleigu sé að ræða.

Það mun vera því nær með öllu óþekkt, að leigutakar og leigusalar hafi lækkunar- eða hækkunarákvæði í leigusamningum eftir húsaleiguvísitölu, og eru því ákvæði 2. mgr. hrein sýndarmennska.

Skattlækkun þeirra, sem búa í eigin húsnæði, leiðir ekki heldur af þessari frvgr., þar sem áætlaðar tekjur vegna eigin húsnæðis eru ákveðnar eftir allt öðrum reglum.

Þannig er um þetta ákvæði, eins og mörg önnur, sem til skrauts eiga að teljast í frv., að þar er um hreint sýndarákvæði að ræða, sem ekki felur í sér neina kjarabót, heldur beina skerðingu um ca. 1 vísitölustig. Má þar segja, að lítið dragi vesalan.

Þá er það 4. gr., sem ákveður nýjan vísítölugrundvöll og að því er hæstv. forsrh. hefur upplýst samkvæmt ósk minni hluta stjórnar A. S. Í. Það er út af fyrir sig ekki lítið athyglisvert, eins og ég gerði hér að umtalsefni í gær, að ríkisstj. taki fremur til greina ábendingar eða óskir minni hlutans í Alþýðusambandinu, en meiri hlutans, ekki sízt þegar um er að ræða breytingar á gildandi kjarasamningum, sem alls ekki er í valdi einu sinni meiri hlutans að breyta, hvað þá minni hlutans. Kannske það verði næsta ákvæðið í einhverju lagafrv. ríkisstj. að löggilda minni hlutann í stjórn Alþýðusambands Íslands sem samningsaðila fyrir verkalýðshreyfinguna. Það væri ekki nema eftir öðru.

En eins og ég sagði í gær og get endurtekið enn, hefði það verið viðkunnanlegra fyrir þennan minni hluta í miðstjórn A. S. Í. að ganga þannig frá þessu samningsatriði, úr því að hann tók upp um það samninga við ríkisstj., að ekki væri auðsýnilega gengið á rétt almennings.

Í síðustu mgr. þessarar gr. segir svo: „Við þennan útreikning skal sleppa broti úr vísitölustigi, hálfu eða minna, en annars hækka í heilt stig.“ Hér er um mjög augljósa skerðingu að ræða frá gildandi kjarasamningum, en þar segir, að hálft stig skuli hækka í 1 stig í kaupútreikningi, en ekki lækka, eins og þarna er gert ráð fyrir. Nú ber þess að gæta, að 1 vísitölustig samkvæmt nýja vísitölugrundvellinum, sem ætlað er að setja, jafngildir rúmlega 2 stigum í þeirri, sem nú gildir. Möguleiki er því til, að með þessari breytingu tapi launþegar allt að 1 vísitölustigi allt árið. Safnast, þegar saman kemur, hugsar ríkisstj. sjálfsagt. Þetta geta gilt 500–600 kr. á verkamannalaun yfir árið.

En þetta er þó ekki veigamesta atriðið varðandi breytingar á vísitölugrundvellinum. Hvort tveggja er, að um það eru mjög skiptar skoðanir og engan veginn fullrannsakað, hvort breytingin er yfirleitt til hagsbóta fyrir launamenn og margir eru þar á alveg öndverðri skoðun. Um það skal ég ekki fullyrða, hvað rétt er í því. En hitt er augljóst, að hér er um samningsatriði að ræða og það eitt hið veigamesta, sem útkljá á með samningum milli atvinnurekenda og launamanna.

En sé þó að því horfið að breyta vísitölugrundvelli, tel ég fráleitt, að ekki sé tekið inn í nýjan grundvöll allt, sem menn þurfa nauðsynlega til lífsframfæris, að öll útgjöld meðalfjölskyldu séu tekin með í reikninginn, en á það skortir hér. Í nýja grundvellinum eru t. d. ekki teknir með aðrir skattar en nefskattar, en þessi útgjöld nema mörgum þús. kr. á meðalfjölskyldu. Vísitalan á auðvitað að gefa sem réttasta mynd af lífskjörunum og breytingum, sem á þeim verða. En það gerir hún ekki, nema öll gjöld, sem geta numið mörgum þúsundum og eru óhjákvæmileg, séu tekin þar með.

Miklu hæpnara sýnist mér að taka inn í grundvöllinn neyzlu tóbaks og áfengis í það stórum stíl, að það hafi mjög afgerandi áhrif á kaupgjald, en svo er í hinum nýja vísitölugrundvelli. Þar er gert ráð fyrir neyzlu áfengis og tóbaks, sem er nokkru meiri, en neyzla alls fiskmetis, um þrisvar sinnum meiri en mjölvöruneyzla alls, nokkuð miklu meiri en brauðvörur og brauð, þrisvar sinnum meiri en garðávextir og grænmeti, fjórum sinnum meiri, en nýir ávextir og þrisvar sinnum meiri en þurrkaðir og niðursoðnir ávextir og um það bil sama og allur nýlenduvöruflokkurinn, þar skakkar aðeins um 200–300 krónum. Ég tel það með öllu óeðlilegt, ef ríkið telur nauðsynlegt að afla aukinna tekna með hækkuðu verði á þessum vörum, að þá geti slík ráðstöfun spennt allt verðlag í landinu upp á við. Hitt er réttmætt og mundi verka sem nokkurt aðhald, sem sannarlega veitir ekki af, ef hækkuð útsvör og skattar fengjust upp borin að einhverju leyti með verðlagsbótum og án þess getur vísitalan ekki heldur verið sá hagfræðilega rétti mælir á lífskjörunum, sem hún á að vera.

Í samræmi við þessar athugasemdir mínar um 4. gr. hef ég leyft mér ásamt hv. samflokksmönnum mínum hér í d. að flytja brtt. og vænti stuðnings hv. þingdeildar við hana.

Þriðja málsgr. 6. gr. frv. er afturganga úr gengisskráningarlögunum frá 1950 og kveður svo á um, að launamenn skuli ekki fá reiknað í kaupgjaldsgreiðsluvísitölu þá hækkun á verði landbúnaðarvara, sem á rót sína að rekja til breytts verðlags á landbúnaðarvörum vegna hækkunar eða lækkunar á launum bónda og verkafólks hans, þeirrar er leitt hefur af greiðslu verðlagsuppbóta á laun almennt frá 1. maí 1959. Hér er um það að ræða að kippa vísitölunni að mjög verulegu leyti úr sambandi við verð landbúnaðarvara, sem mun leiða til þess, að bilið milli landbúnaðarvöruverðs og kaupgjalds hlýtur sífellt að breikka launamönnum í óhag. Ekki er mögulegt að segja, hversu mikla vísitöluskerðingu og raunverulega launalækkun leiðir beint af þessu, en það er víst, að þetta ákvæði hleður á sig og getur, þegar fram í sækir, skipt fjölda vísitölustiga.

Þannig var komið haustið 1956, þegar verðfestingarlögin voru sett, að fram undan var 11.4% verðhækkun á landbúnaðarvörum, sem launþegar hefðu engar bætur eða því nær engar bætur fengið fyrir vegna þessa ákvæðis, sem þá var í gildi. Þessi verðhækkun kom ekki til framkvæmda, vegna þess að launamenn töldu sér hagstæðara, sérstaklega vegna þess lagaákvæðis, að afsala sér 6 vísitölustigum og losna jafnframt undan þessu ósanngjarna kaupskerðingarákvæði í framtíðinni.

Nú hefur hæstv. ríkisstj, vakið að nýju upp þennan draug frá stjórnarárum íhaldsins og hyggst með því hafa allmörg vísitölustig af launþegum. Þetta er gert gegn mótmælum allra, sem um málið hafa fjallað, jafnvel minni hlutans í miðstjórn Alþýðusambands Íslands. Jafnvel hann hefur krafizt þess, að þetta ákvæði verði fellt niður, en auðvitað ekki fengið við neitt ráðið, vegna þess að krafa hans í þessu efni hefði orðið til hagsbóta fyrir launamenn, og slíkt mátti auðvitað ekki ske.

Í samræmi við réttmætar kröfur, m. a. hins margumtalaða minni hluta í miðstjórninni í Alþýðusambandi Íslands, leggjum við til, Alþb.menn, í brtt. okkar, að þetta kjaraskerðingarákvæði verði fellt niður, og tel ég víst, að ekki muni standa á hv. 4. þm. Reykv. (EggÞ) að styðja það, þar sem þetta er m. a. hans krafa.

Ákvæðum 9. gr. frv. er beint gegn sjómannastéttinni, bæði bátasjómönnum og togarasjómönnum, til þess sett að hrifsa aftur verulegan hluta af þeim kjarabótum, sem sjómannastéttin náði fram í vetur, fyrst með samningum togarasjómanna í nóv. s. l. og síðan bátasjómanna nú eftir áramótin. Kemur nú greinilega í ljós, hve þessi stétt stendur sérstaklega nærri hjarta þeirra manna, sem að þessu frv. standa, Alþfl. og Sjálfstfl., — þeirra manna, sem á undanförnum 2 árum hafa talið sig sjálfkjörna forsvarsmenn sjómannastéttarinnar og hamazt hafa við að flytja sýndarfrumvörp um skattfríðindi, lífeyrissjóði o. fl. til handa þeim og haldið uppi látlausum árásum á fyrrverandi ríkisstj. fyrir það, að hún vildi ekki bæta hag hennar nægilega mikið.

En nú, þegar þessir flokkar hafa allt valdið, sem til þarf, þá er fyrsta verkið að ræna af sjómannastéttinni kaupi og réttindum, sem hún hefur aflað sér með samningum eftir réttum lögum og réttum reglum. Má nú sjá, svo að ekki verður um villzt, hve mikil alvara hefur til þessa verið á bak við allt lýðskrumið um sjómannastéttina. Og svo langt er gengið, að ekki er jafnvel skirrzt við að lögfesta fullkomið misræmi milli bátasjómanna og togarasjómanna. Tilneyddir að vísu hafa frumvarpshöfundar þannig ákveðið, að lágmarkskauptrygging bátasjómanna skuli ekki lækka nema niður í 185 vísitölustig, og látið nægja að ræna 10 stigum af hlutarverðinu, en jafnframt er ákveðið, að fastakaup togarasjómanna skuli lækkað niður í 175 vísitölustig. Nú er fastakaup togarasjómanna, sem eru heilar 1.950 kr. í grunn á mánuði, nákvæmlega sama eðlis og kauptrygging bátasjómanna. Fastakaupið er þeirra lágmarkstrygging, sem þeir bera úr býtum, hvort sem aflaverðlaunin eru mikil eða lítil.

Auðvitað mælir því allt með því, að ákvæðin verði hin sömu um fastakaup togarasjómanna og kauptryggingu bátasjómanna, að hvort tveggja verði greitt með vísitölu 185, en ekki 175. Ránið á aflahlutnum og aflaverðlaununum er áreiðanlega nógu tilfinnanlegt, þótt þessi ósómi bætist ekki við.

Þessi aðför að sjómannastéttinni verður þó enn fáránlegri, þegar þess er gætt, að togaraútgerðin gerði sína kjarasamninga við sjómenn í nóv. s. l. án þess að fara fram á nokkrar bætur við þáverandi ríkisstj. Það var ekki einu sinni ýjað í þá átt af hálfu togaraeigenda, sem litu svo á, að rekstrargrundvöllur togaranna væri það góður, að hann þyldi þessa hækkun, sem samtals nam um 8.9 millj. kr., sem þá varð á kaupi og hlut sjómanna án nokkurra nýrra bóta úr útflutningskerfinu. Samningar t. d. Vestmannaeyjasjómanna sýna líka, að bátaútvegsmenn telja sig geta greitt hið umsamda fiskverð og gera það raunar þar og víðar fram hjá kjaraskerðingarákvæðum þessa frv. En launaskerðingin virðist vera fyrir öllu hjá hæstv. ríkisstj., sem er með þessum ákvæðum sínum að banna útvegsmönnum að greiða sjómönnum það, sem þeir hafa samið um við þá og geta greitt án nokkurra nýrra bóta.

Og þá er það að lokum 10. gr., sjálft skrautblómið í þessu frv., greinin, sem á að tryggja launamönnum bæturnar fyrir allar hinar kjaraskerðingarnar, greinin, sem á að tryggja, að verðbólgan stöðvist, allar vörur og þjónusta lækki í verði, sem á að tryggja, að iðnrekendur, kaupmenn, heildsalar, hafskipaeigendur, verkstæðiseigendur, verktakar og yfirleitt allir, sem aðstöðu hafa til að hirða gróða í þjóðfélaginu, leggi nú fram sinn skerf á móti hinum fátækustu, sem lagt hafa fram allt að 9% af sínum lágu þurftarlaunum. Og hvað skyldi það nú vera mikið, sem þessir aðilar, allir þeir með breiðu bökin, eiga að láta af hendi?

Þegar þetta frv. var til athugunar í fjhn. beggja deilda, spurði ég hagstofustjóra, hvaða áhrif 10. gr. mundi hafa að hans áliti, hvað mikil áhrif til lækkunar á vöruverði yrðu af henni og svar hans var, að um það væri ekki gott að segja, en hann gæti látið sér detta í hug, að ákvæði greinarinnar mundu lækka vísitöluna um ½ stig. Þetta var áreiðanlega engin misheyrn hjá mér, að hagstofustjóri sagði þetta, því að ég hef fengið þetta staðfest frá öðrum, sem þarna voru viðstaddir. Nú kann þetta að sjálfsögðu að geta verið eitthvað meira, um það var ekki svo fullyrt. Hálft vísitölustig svarar til 3 millj. í niðurgreiðslum, — ég gæti fallizt á að tvöfalda þessa tölu til þess að vera viss, — en tæpast gætu þetta orðið meira en 6–7 millj., sem þessir aðilar ættu að greiða, en þó að þær væru 10, vega þær samt harla létt á móti þeim 80 millj., sem verkafólkið, er vinnur við útflutningsframleiðsluna, verður að greiða, og á móti þeim 150–160 millj., sem launþegar í landinu greiða samanlagt.

En þó er ekki öll sagan með þessu sögð. Þessi lækkun er nefnilega ekki tekin úr vasa þessara manna, langsamlega minnsti hluti þessarar upphæðar, hvort sem hún er 3 eða 6 eða 7 millj., vegna þess að þessi lækkun er að svo til öllu leyti afleiðing af því, að þessir aðilar fá vinnuaflið ódýrara, en áður.

10. gr. hefst á þessum orðum: „Framleiðendur hvers konar vöru og þjónustu skulu þegar eftir gildistöku þessara laga lækka söluverð til samræmis við þá lækkun launakostnaðar, sem leiðir af ákvæðum þessara laga, svo og svarandi til þess, að hagnaður framleiðenda lækki í hlutfalli við niðurfærslu kaupgreiðsluvísitölunnar.“ Það er því aðeins hagnaðurinn sjálfur, sem á að lækka um 5.4%, og þar er auðvitað ekki átt við raunverulegan hagnað, heldur þann hagnað, sem reiknað er með við verðlagsákvarðanir, en sá hagnaður, sem þar er reiknað með, er aðeins mjög óverulegur og smávægilegur hluti í verðlaginu og álagningunni og segir raunverulega ekkert um þann raunverulega gróða, sem vera kann hjá viðkomandi fyrirtæki.

Ég er nærri viss um, að það mun þurfa nokkuð stórt fyrirtæki til þess, að það þurfi að greiða jafnmikið samkv. þessu ákvæði og einn verkamaður þarf að skerða kaup sitt um á ári.

Í sambandi við þessa grein vildi ég, af því að hæstv. forsrh. er hér viðstaddur, spyrja hann um eitt ákvæði, hvað það þýðir, vegna þess að ég hef ekki getað fengið neina skýringu á því, og hagstofustjóri, sem mun allra manna fróðastur um þessi mál, gat ekki heldur greint frá því, hvað það raunverulega þýddi. En síðast í 1. málsgr. 10. gr. segir: „Ákvæði þessarar málsgreinar taka ekki til vörutegunda, sem verðlagðar eru samkv. sérstökum lögum, né heldur til vöru, sem seld er úr landi eða launa fyrir verk, sem ákveðin hafa verið með samningum stéttarfélaga.“

Mér er það hulin ráðgáta með hliðsjón af 1. gr. frv., hvað þessi síðasti setningarhluti þýðir: „sem ákveðin hafa verið með samningum stéttarfélaga“ — því að í 1. gr. frv. virðist mér vera búið að telja upp flest, sem til greina geti komið.

Eina skýringin, sem ég hef heyrt á þessu, er sú, að þetta muni hafa staðið einhvern tíma í lögum áður, — ég held gengisskráningarlögunum, — og að Múrarafélagi Reykjavíkur hafi tekizt að vinna mál varðandi lækkun á uppmælingartaxta sínum vegna þessa ákvæðis. Nú þykir mér það mjög ólíklegt, að þessi setningarhluti eigi sérstaklega að bjarga Múrarafélagi Reykjavíkur, þó að ég verði að viðurkenna, að af því veitti nú ekki, að það væru einhver sérákvæði, sem tryggðu múrarastéttinni hér í Reykjavík einhver hlunnindi, a. m. k., ef það ætti að vera líklegt, að hv. 4. þm. Reykv. héldi sinni stöðu í verkalýðshreyfingunni. En hvað sem þessu líður, ég tel ástæðu til að spyrja að því, hvað þessi setningarhluti þýðir og óska skýringa á því.

Með síðustu till. okkar þremenninganna á þskj. 215 viljum við þm. Alþb. freista þess að gera 10. gr. þannig úr garði, að hún hafi þó ofur litla raunhæfa þýðingu til lækkunar á verðlaginu, ofur lítið meiri, en nú er. En þar leggjum við til, að álagning í heildsölu verði lækkuð niður í hið sama og hún var í des. 1956. Það er kunnugt, að á s. l. sumri var knúin í gegn í innflutningsnefndinni og í ríkisstj. stórfelld hækkun álagningar, bæði í smásölu og heildsölu. Þessar ákvarðanir voru teknar í fullri andstöðu við verðlagsstjóra og sömuleiðis í fullri andstöðu við ráðherra Alþb., eins og skýrt kemur fram í bréfi frá félmrn., sem er dags. 16. júlí 1958 og ég vil leyfa mér að lesa hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðlagsstjóri hefur lagt fyrir ráðuneytið tillögu sína um verðlagningu á kaffi, kornvörum, ýmiss konar matvörum, nýjum ávöxtum og ýmsum fleiri vörum og einnig höfum vér séð breytingartillögur þriggja forstjóra innflutningsskrifstofunnar um þessa verðlagningu. Ráðuneytið getur ekki fallizt á meiri hækkun álagningar á þessar vörur, en felst í tillögum verðlagsstjóra, en í henni felst rúmlega 1,2% hækkun í krónutölu í heildsölu og tæplega 1% álagningarhækkun í krónutölu á smásölunni. Sýnist svo sem með þessari hækkun sé fyllilega mætt afleiðingum þeirra ráðstafana, sem nýskeð voru gerðar í efnahagsmálunum. Samkv. brtt. yðar er álagningin á þessar vörur hins vegar hækkuð verulega, ekki aðeins í krónutölu, heldur einnig í prósentum. Nemur sú hækkun allt að 6% fyrir vörur, sem mest munar.

Hagfræðingar þeir, sem störfuðu fyrir ríkisstj. að undirbúningi aðgerðanna í efnahagsmálunum, reiknuðu út frá tvennu í álagningarmálunum, óbreyttri álagningu að krónutölu og óbreyttri álagningu að prósentutölu. Þetta virðast þeir því hafa talið hugsanlegt lágmark og hámark, eða m. ö. o., að álagning mætti vera einhvers staðar innan þeirra marka. Tillögur yðar fara því langt yfir það hámark, sem hagfræðingarnir reiknuðu með og það er sannfæring vor, að svo stórfelld hækkun sem í tillögum yðar felst mundi hafa allverulegar afleiðingar í verðlagsmálum, enda verða þær ekki réttlættar sem afleiðing af ráðstöfunum ríkisstj. einvörðungu. Hér væri því um verulega álagningarhækkun að ræða samkv. yðar tillögum.

Þér gerið ráð fyrir rúmlega 32% álagningarhækkun í krónutölu í heildsölunni og nærri því 33% hækkun í smásölunni. Verðlagsstjóri upplýsir, að meðaltalsálagning á þessar vörur hefur verið um 24.5% í smásölunni, en tillaga hans samsvarar, að hún verði um 25.56% meðalálagning í smásölu. Virðist verðlagsstjóri ganga svo langt í þá átt að rýmka álagningu smásölunnar, að hann fer yfir það hámark, sem hagfræðingarnir gerðu ráð fyrir.

Ráðuneytið vill því alvarlega vara við meiri hækkun álagningar á nefndum vörum, en í aðalatriðum felst í tillögum verðlagsstjóra.“

Þetta var bréf þáverandi hæstv. félmrh., Hannibals Valdimarssonar, til forstjóra innflutningsskrifstofunnar. Og ég get bætt því við, að hinn ráðherra Alþb., Lúðvík Jósefsson, ritaði innflutningsnefndinni einnig bréf, þar sem hann varaði alvarlega við þeirri stórfelldu hækkun, sem þarna var verið að knýja í gegn. En sagan er nú ekki alveg öll sögð með þessu. Það kemur fleira til athugunar.

Í fyrsta lagi fengu heildsalar allt að 6% álagningarhækkun á vöruverðið, eins og það var fyrir verðlagshækkanirnar og fyrir efnahagsaðgerðirnar á s. l. vori, en þeir fengu líka að leggja á alla verðlagshækkunina, á öll nýju gjöldin, sem lögð voru á á s. l. vori og það var vitanlega ekkert smáræðis hagræði, sem heildsölum og kaupmannastéttinni var gert með því. Það var í raun og veru miklu meira, en þessi beina álagningarhækkun í prósentutölu. — En það er ekki allt búið með því. Þeir fengu líka aðra hækkun, dulbúna, sem ekki hefur eins mikið orð farið af að vísu, en er sennilega engu minni, ef hún er ekki meiri en þessi, sem ég nú hef talið, en það er að segja, að þeir fengu að hækka allt vöruverðið um ½% þar fyrir utan og þetta var dulbúið þannig, að sá kostnaðarliður í útreikningunum, sem er nefndur kostnaður vegna vaxta, vaxtakostnaður, að þessi liður í útreikningum, kalkúlasjónum, fékkst hækkaður úr 2/2% á vöruverð upp í 1%.

Samkv. því, sem manni virðist nú vera bein afleiðing þessa frv., þ. e. a. s. 3.2% lækkun á sjálfri álagningunni og líka það, sem ríkisstj. hefur góðfúslega fengið heildsala og Samband ísl. samvinnufélaga til að fallast á, það er talið, að það muni nema 5% af sjálfri álagningunni. Þetta er nú að vísu sett þannig upp í blöðunum, að almenningi er sýnilega ætlað að halda, að vörurnar lækki um 5%, þegar um lækkun á álagningunni er að ræða. En sleppum því. Það sanna í málinu er, að sú lækkun, sem leiðir beint af þessu frv., og sú lækkun, sem ríkisstj. hefur fengið fram að öðru leyti, gerir ekki að jafna út þetta ½%. sem þeir fengu í sjálfum grundvellinum. Verzlunarstéttin fær að halda allri þeirri raunverulegu hækkun, sem hún hefur fengið í gegn hjá innflutningsnefndinni og meiri hluta hæstv. fyrrv. ríkisstj. Hér er því síður en svo um það að ræða, að raunveruleg álagning hafi verið lækkuð frá því, sem var, meðan Alþb. hafði þau áhrif, sem það hafði í upphafi við verðlagningu og verðlagsákvarðanir.

Ég verð að viðurkenna það og það fúslega, að brtt. okkar við 10. gr. um, að álagning í heildsölu lækki niður í það sama eða verði hvergi hærri, en hún var í des. 1956, gengur vitanlega allt of skammt, og hið sama er einnig að segja um aðrar brtt. okkar. Þær eru fyrst og fremst fluttar með tilliti til þess, að ekki sé útilokað, að nægilega stór hluti þeirra hv. þdm., sem annars eru ráðnir í því að knýja þetta mál í heild sinni fram hér í deildinni, sé samt sem áður til viðtals um minni háttar breytingar, sem erfitt mun að mæla í gegn að séu til bóta, en varða þó ekki sjálft aðalágreiningsefnið, sem fyrir hendi er.