30.01.1959
Efri deild: 60. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég mun ekki fylgja þessu frv., þar sem bændastétt landsins er sett skör lægra, en allar aðrar stéttir, — þegar af þeirri ástæðu. Að vísu veit ég, að það muni frá hæstv. forsrh. stafa af gersamlegum ókunnugleika, en ekki af beinum illvilja. Hann sagði það í sinni áramótaræðu, að árið hefði verið einstaklega gott fyrir bændur, ágæt veðrátta og allt í fínu lagi. En sannleikurinn er sá, að af þeim fullum tveim þriðju hreppa landsins, sem ég er búinn að sjá, hvaða hey þeir eiga í haust og hvaða skepnur þeir setja á, eru sárafáir hreppar með eins mikil hey og í fyrrahaust og allt niður í einn fjórða minna, en það var í fyrra. Svona er góðærið. Þetta hefur hann ekki þekkt, sem ekki var von og þess vegna haldið, að hann gæti lagt á bændurna 6 millj. meira, en áður að tiltölu við aðra og lækkað þeirra tekjur í bráð og reyndar líka að nokkru í lengd. Samhliða hafa bændurnir þurft að taka — ekki alveg svona mikið, en nærri því — opinber lán til að kaupa sér fóðurbæti og þó hefur bústofni stórfækkað. Á þessu ári vill hann svo bæta á þá 6 milljónum, sem þeir eiga að bera fram yfir alla aðra þegna þjóðfélagsins. Ég endurtek það, að ég veit, að þetta er ekki af illvilja hjá honum, heldur af ókunnugleika. En ég veit ekki, hvernig hann ætlar sér að verja það, að á sama tíma sem hefur verið meiri afli en venjulega við sjávarsíðuna, þá vill hann láta bændurna standa skör lægra með þær byrðar, sem á menn eru lagðar með þessu frv., sem ég út af fyrir sig hef ekkert á móti. Það þarf að taka á sig byrðar og laga ástandið, eins og það er, það er rétt og satt, en það á að ganga réttlátlega yfir.

Á annað atriði vildi ég líka benda, sem er ekki beint í þessu frv., en samt búið að tilkynna um það áður. Það hefur verið ákveðið að borga niður nokkur vísitölustig og það hefur verið gert á þann hátt að setja mjólkina í útsölu í Reykjavík svo langt niður fyrir það, sem bændurnir fá fyrir hana, að það borgar sig í Árnessýslu að flytja alla mjólkina í Flóabúið og keyra aftur heim það, sem bóndinn ætlar að nota í heimilið. Þá græða þeir á milli 50 og 60 aura á lítra. Þetta eru nú vinnubrögð í lagi. Þetta þarf að laga. Þetta er ekki hægt. Það er að vísu langt síðan einn viss hópur manna byrjaði á því að leggja inn kjötið sitt allt saman og taka það út aftur, en þeir hættu því nú aftur, sem betur fór. En þetta er mönnum boðið upp á. Þeir mega ekki hafa hugsunarhátt sjálfstæðismanna hér í Reykjavík, sem vilja pranga og græða, ef þeir nota sér það ekki að keyra mjólkina sína fyrst á stöðina og kippa svo aftur heim nokkrum lítrum, þegar búið er að vega hana inn. Þetta þarf að laga. Það er ekki í þessu frv., sem það þarf að gera. Þetta þarf að laga og á þetta vil ég benda.

Ég vil líka benda á annað. Ég hef einhvern tíma heyrt, að menn eigi ekki að vita, hvað önnur höndin gerir, — menn eigi að vita, hvað sú höndin geri, sem gerir góðverkin, en ekki hin, sem gerir það, sem miður fer.

Mér skilst, að þessi stjórn séu tvær hendur, önnur stjórnist af Sjálfstfl. og hin af jafnaðarmannaflokknum. Jafnaðarmennirnir eru að borga niður; sjálfstæðismennirnir eru að hækka. Á sama tíma og hún boðar lækkun, svolitla ögn á því, sem menn þurfa að kaupa, jafnaðarmennirnir, stjórnin sjálf, þá hækka hinir. Fasteignagjöld hérna í bænum hafa hækkað um 50%, bara núna um leið og stjórnin er að lækka. Það er þó nokkuð miklu meira, sem margir þurfa að borga á ári, en þeir fá með niðurfærslum, sem jafnaðarmenn eru að gera. Á húsinu mínu er það nokkuð á annað þús. kr., sem fasteignagjöldin hækka fram yfir það, sem ég fæ í niðurgreiðslu. Rafmagnið urðu þeir neyddir til að lækka svolítið, en ekki nema pínulítið brot af því, sem þeir gátu lækkað það um og þeim stóð til boða, ef þeir hefðu viljað lækka gjöldin á þegnunum. Þeim var boðið upp á lækkun á því af aðilum, sem vildu taka tryggingarnar að sér, boðið upp á lækkun á brunabótatryggingum. Þeir tóku svolítið brot af henni, — komust ekki undan því, en það var ekki verið að hugsa um að lækka eins og hægt væri þar. Nei, þar var önnur höndin að verki en sú, sem er að reyna að láta líta svo út, að hún sé að lækka.

Ég vildi benda á þetta. Ég vildi alveg sérstaklega benda á þetta tvennt. Það er hróplegt ranglæti, alveg hróplegt ranglæti að taka eina stétt út úr og láta hana hafa önnur kjör, en alla aðra; láta hana bera í kringum 6 millj. kr., sem bændurnir eru látnir sitja við lakari kjör, en allir aðrir. Það er upphæð, sem — eins og forseti deildarinnar sagði áðan — samsvarar því, sem á að taka í búnaðarmálasjóðsgjaldið á fjórum árum og það á að taka það á því ári, sem er bændunum alveg sérstaklega óhagstætt, þannig óhagstætt, að þeir urðu að taka lán á ýmsum stöðum í vor til að koma skepnum sínum fram, því að góðærið var ekki meira en það, að það farið á skíðum 7. júní í einum hrepp á landinu. Það var ekki hægt að komast á milli bæja 7. júní öðruvísi. Það var góðærið. Og ¼ minna af heyi er í þeim sama hreppi, sem ég hér hef í huga, heldur en var í fyrra og þó hefur fækkað fénu um nærri 20% í hreppnum. Þetta er góðærið — og á þá á svo að leggja. Hinir, sem hafa haft nógan afla, nóga atvinnu og hækkandi vísitölu, sem þeir taka sitt kaup eftir, eiga að bera minna, en þessir menn.

Þetta er það ranglæti, sem ekki er hægt að þola.