30.01.1959
Efri deild: 60. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það eru aðeins tvö atriði, sem mig langar til að reyna að láta hæstv. forsrh. skilja betur, en mér virtist hann hafa skilið þau af minni ræðu.

Það er rétt, að þeir menn, sem þurftu að keyra hérna milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, höfðu ákaflega gott veður í sumar, alveg laukrétt. En það er dálítið annað, þó að manni finnist gott veður hér á götum bæjarins, heldur en það sé gott fyrir allt landsfólkið. Fyrst er nú það, að vorið var svo kalt, að fé varð yfirleitt að gefa inni fram í júnímánuð. Og t. d. í einum hrepp, þar sem hann þekkir vel til og hann getur spurt mig eins um nánar, varð að taka skuldir á fjórða hundrað þús. kr. til að koma fénaðinum fram.

Vegna þess arna og stöðugra þurrka var sprettan svo lítil, að svo að segja um allt land eru minni hey, en venjulega nú í haust. Það eru undantekningar á einstaka stað, svo sem í Mývatnssveit, sem hefur aðeins meiri hey en venjulega, og nokkrum stöðum öðrum, Saurbæjarhreppurinn t. d. aðeins meiri en venjulega. Það er undantekning um einstaka hreppa, en yfirleitt alls staðar minna og allt niður í ¼ minna, Það var góðærið. Afleiðing kuldanna var svo, að það spratt svo seint, að það var yfirleitt ekki hægt að slá víðast hvar á landinu, fyrr en komið var langt fram í júlí. En 28. júlí byrjuðu óþurrkar um hér um bil helminginn af landinu, sem héldust fram í sept., og ekkert strá náðist inn á þeim tíma. Þetta var árferðið. Og afleiðingin af þessu varð svo sú, að þessir sömu menn hafa verið að fá lán hjá bjargráðasjóðnum fram að þessu og eru líklega hér um bil búnir að fá eins mikið lán, — ég held nú ekki alveg samt, ég held það sé ekki nema á fjórðu milljóninni enn þá, sem þeir hafa fengið, bændurnir, eins og nú á að leggja á þá sérstaklega fram yfir aðra menn. Þetta vildi ég að hann skildi. Og ég veit, að bændurnir í landinu skilja þetta og þakka ekki þessar aðgerðir. Ég veit það. Ég skal ábyrgjast, að það er hægt að koma þeim í skilning um það með hægu móti. Þetta var annað, sem ég vildi að hann reyndi að skilja.

Og hitt, sem ég vildi fá hann til að skilja, er þetta:

Þegar bóndi hérna uppi í Mosfellssveit eða Mosfellssveitin öll á von á því að fá upp úr mjólkinni sinni fyrir árið í kringum 4 kr. á hvern litra, en það kostar hann að senda hana hingað til Reykjavíkur, — ja, ég veit ekki, hvað þeir taka núna, einhvers staðar á milli 40 og 50 aura líklega á lítrann, þá senda þeir hann og kaupa hann aftur, kaupa hann aftur á kringum kr. 2.97, þeir hafa yfir 50 aura hagnað á hverjum lítra. Það er svo að segja um allt land, sem bændurnir hafa núna hagnað af því að leggja inn alla mjólkina og kaupa hana aftur, og þar sem hann er mestur, þar er hann yfir hálfa krónu á lítrann. Og vitanlega fara þeir að gera þetta. Bílarnir koma með tóma brúsana aftur heim. Það er nákvæmlega sami kostnaður, þó að þeir komi með svolitla mjólkurslatta í þeim til heimilisins, alveg sami kostnaður. Þeir senda alla mjólkina að morgninum, kaupa í bænum aftur það, sem þeir ætla til dagsins. Þeir hagnast um frá 50 og upp í 70 aura á hverjum lítra eftir því, hvar er á landinu. Þetta er ekki hægt. Það á ekki að ýta undir svona þróun. Það getur vel verið, að það eigi að ýta undir, að þeir leggi inn hvern skrokk af kjöti að haustinu og kaupi það svo aftur frosið út að vetrinum, — þeir græða líka á því, en ekki nema lítið, — það getur vel verið, að það eigi að gera það og að það sé holl þróun að hætta að láta bændur borða saltkjöt, heldur taka það til sín með bílunum smám saman, eftir því sem þeir koma, — það getur vel verið, ég er ekkert á móti því. En það er alveg áreiðanlega vitlaust að vera að láta þá sjá mikla hagnaðarvon með því að leggja inn alla mjólkina og kaupa hana aftur frá búinu, það er áreiðanlega vitlaust. Það getur vel verið, að læknar segi, að þeir eigi heldur að borða nýtt kjöt og frosið kjöt heldur en kjöt, sem saltað er að haustinu og þess vegna sé rétt að ýta undir, að þeir leggi hvern skrokk inn og kaupi það svo aftur eftir hendinni og græði nokkra aura á hverju kg. Það getur vel verið, að það sé rétt. En það er ekki rétt með mjólkina, — áreiðanlega ekki.

Þetta vildi ég að hann skildi og þetta vildi ég að hann lagaði og hefði niðurgreiðsluna aldrei meiri en það, að menn hefðu ekki hagnað af að leggja inn og kaupa aftur. En núna eru þær orðnar það miklar, að það er beinn hagnaður af því. — Það var talað um, að salan ykist. Ja, hann ætti þá að afla sér upplýsinga um það. Það hefur yfirleitt ekki komið fyrir, að sala aukist, svo að um muni, þótt mjólk sé lækkuð í verði.

Við erum með hæstu mjólkursölu í Reykjavík, — miðað við mann, — sem er nokkurs staðar í heiminum. Það er hvergi í neinni borg í heiminum eins mikil mjólkursala á mann og í Reykjavík, ekki nokkur og það hefur ekki tekizt að auka hana, þó að mjólkin hafi verið lækkuð. Núna t. d. síðan um áramót hefur hún ekki aukizt nokkurn skapaðan hlut. Það hefur minnkað sala, þegar hún hefur verið hækkuð, í hálfan mánuð til mánuð á eftir, en svo er hún komin aftur upp í það eðlilega og er svo alltaf svipuð.

Þess vegna er það alveg óverulegt, sem það hefur áhrif á söluna hvað mjólkina snertir, hvort hún er dýrari eða ekki. Við erum vanir við hana. Reykjavík er byggð upp af sveitafólki að miklu leyti, sem hefur flutzt hingað úr sveitinni og það er vant við að drekka sína mjólk. Það er ekki enn þá orðið það bæjarvant, að það drekki tóma gosdrykki í staðinn.