13.11.1958
Neðri deild: 20. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (2521)

Landhelgismál

Ólafur Thors:

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. forsrh. fyrir ummæli hans út af því, er ég áður sagði um málið. Ég viðurkenni fyllilega, að það er ekki hægt að ámæla honum né hæstv. ríkisstj. fyrir að vera ekki reiðubúin endilega á þessari stundu til að kveða upp úr um málið. Ég verð að játa það, að ég vissi ekki sjálfur um þetta, fyrr en ég sá það í blöðunum í morgun. Það gleður mig, að bæði hjá honum og hæstv. utanrrh. kom fram fullur skilningur á þessum alvarlegu tíðindum og á því, að nú er full þörf skjótra viðbragða.

Ég vona, að á fundi hæstv. ríkisstj. í dag verði málið rætt, eins og hæstv. forsrh. sagði frá. Ég býð einlægt samstarf við Sjálfstfl. um málið. Það er fyllilega tímabært, og ekkert hefur sannað okkur það betur, en einmitt þessir atburðir, að nauðsyn býður, að við slíðrum vopnin og tökum höndum saman í þessu máli, þó að annað beri á milli og hljóti að bera á milli.

Ég hygg ekki, að það sé rétt eða hyggilegt hjá hæstv. utanrrh. að vilja endilega beina málinu á þessu stigi til utanrmn. Það er kunnugt, að á milli sjálfstæðismanna og annarra í n. — eða hv. stjórnarliðs — hefur ríkt ágreiningur um það, hvort n. eigi að starfa, fyrr en búið er að skipa hana löglega eða breyta lögum. En það er vel hægt að vinna að málinu, þótt það sé ekki formlega gert í utanrmn., með þeim mönnum, sem stjórnin kveður sér til aðstoðar úr sínu liði. Og ég endurtek, að við sjálfstæðismenn erum reiðubúnir til þess að leggja okkar lið fram til allra ráðlegginga, bollalegginga og ákvarðana út af þessu máli, og mælist ég til, að samstarf um það geti verið algerlega miðað við það eitt, sem sómi Íslendinga og nauðsyn býður.