09.03.1959
Efri deild: 81. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

123. mál, kosningar til Alþingis

Dómsmrh. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Efni þessa frv. til l. um breyt. á l. nr. 80 frá 7. sept. 1942, um kosningar til Alþingis, sem komið er frá Nd., er í fáum orðum það, að kjörskrár til alþingiskosninga skuli samdar í febrúarmánuði ár hvert og gilda frá 1. maí til jafnlengdar næsta ár og þær skuli miðast við íbúaskrár 1. des., þannig að þar sé maður á kjörskrá talinn, er hann átti heima hinn 1. des. næst á undan. Í gildandi lögum eru kjörskrár miðaðar við heimilisfesti í febrúarmánuði. Þetta ákvæði þykir óheppilegt, sökum þess að íbúaskrár eru nú gerðar upp miðað við 1. des. ár hvert, en nokkrir flutningar á heimilisfangi eiga sér stað að sjálfsögðu á tímabilinu frá 1. des. til febr., og þarf því að breyta kjörskrárstofnum, sem hagstofan lætur í té, til samræmis við þessa flutninga. Þetta veldur fyrirhöfn og óþægindum og því er lagt til, að breyting verði á því gerð.

Þá er í frv. lagt til, að gildistími kjörskránna sé 1. maí til jafnlengdar næsta ár á eftir í stað 15. júní, sem miðað er við í gildandi lögum. Og að lokum felst í frv. sú breyting, að fellt er niður ákvæði um, að sérstök kjörskrá skuli samin fyrir hverja kjördeild. Lagt er til, að sú tilhögun verði niður felld af hagkvæmnisástæðum og er gerð nánari grein fyrir því í grg., sem fylgir frv., og vísa ég til þess, sem þar segir um það efni.

Þessi þrjú atriði, sem ráðgert er að breyta með frv., eru hin sömu og breytt var á s. l. ári í lögum um sveitarstjórnarkosningar, að því undanskildu einungis, að ekki er að svo stöddu lagt til, að kjörskrár til alþingiskosninga skuli því aðeins samdar, að kosningar eigi að fara fram á því ári.

Hagstofustjóri hefur samið frv., og það er flutt eftir hans tilmælum, en á honum sem forstöðumanni þjóðskrárinnar hvílir mestur þungi um gerð kjörskránna.

Ég legg til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.