10.11.1958
Neðri deild: 18. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

40. mál, þingsköp Alþingis

Ólafur Thors:

Herra forseti. Það er eins og hæstv. utanrrh. sagði, að árið 1951 gerði Alþ. þá breyt. á þingsköpum varðandi skipan og starfshætti utanrmn., að n. skyldi velja úr sínum hóp 3 menn, sem væru sérstaklega ríkisstj. til aðstoðar um hin vandasamari mál.

Þetta frv. var flutt í samráði við þáv. ráðh. alla, en þá fóru með stjórn Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn undir forustu hv. 1. þm. Skagf., Steingríms Steinþórssonar. En frv. var á Alþ. samþ. með atkv. lýðræðisflokkanna svokölluðu. Það fór ekki dult, hver var tilgangurinn með þessu frv. Ég hef ekki athugað sjálfa grg. En ég var flm. frv. og hef auðvitað ekki farið dult með þá, hvað fyrir mér vakti, fremur en ella. Ég sagði eins og var, að það væri skoðun lýðræðisflokkanna, að ekki væri hægt að treysta kommúnistunum fyrir þeirri vitneskju í utanríkismálum, er ríkisstj, þó væri neydd til eðli málsins samkvæmt að láta öðrum í té, þeim er á Alþ. eiga sætil. Með leyfi hæstv. forseta, byrja ég þá ræðu mína á þessa leið:

„Ég þarf ekki að fara um þetta mál mörgum orðum, vegna þess að í sjálfri grg. frv., stuttri, eins og hún er þó, segir í raun og veru allt, sem segja þarf um málið. Þar er frá því skýrt, að ástæðan til þess, að farið er fram á breyt. á þingsköpunum varðandi skipan utanrmn., sé sú, að lýðræðisflokkarnir hafi ekki á undanförnum árum séð sér fært og sjái sér ekki heldur fært, enn að sýna kommúnistum þann trúnað í utanríkismálum, sem þó er skilyrði þess, að hægt sé að hafa eðlilegt samstarf í utanrmn. um meðferð þessara mála, eins og í öndverðu var ætlazt til, þegar ákvæði þingskapa í þessum efnum voru sett. Nú er það engu að síður ósk ríkisstj. að geta samt sem áður ráðfært sig við nefnd utan ríkisstjórnar, jafnt hvort sem þing á setu eða ekki, um utanríkismálin og þá sérstaklega við þá menn, sem Alþ. hefur falið að fjalla um þessi mál.“

Þetta er aðalefni málsins af minni hendi og umræður hníga að langsamlega mestu leyti um þessa hugsun. Og eins og ég sagði, þá var þetta frv. þá samþ. með atbeina svonefndra lýðræðisflokka.

Nú er það rétt, að eftir að svokölluð vinstri stjórn, hæstv. núv. stjórn, tók við völdum, hefur ekki tekizt að fá kosna þessa undirnefnd. Í fyrra var hv. 1. þm. Skagf. formaður n. Við umboðsmenn Sjálfstfl. í n., hv. 1. þm. Reykv. og ég, bárum þá fram eindregna ósk, sem raunar áður hafði verið hreyft, um það, að nú yrði þessi undirnefnd kosin tafarlaust. Hv. form. n. mæltist undan því, en hét því, að n. skyldi kosin á næsta fundi utanrmn. Þessi hv. þm., form. n., gerði nú hvorugt að efna það heit né að svíkja það. Hann var ekki líklegur til að vilja svíkja sín ummæli frekar þá en ella. Hins vegar lágu atvik að því, að hann átti ekki auðvelt um vik að efna það og kaus þess vegna þann kostinn að kalla ekki saman neinn fund í n. eftir þetta. Við hreyfðum þessu nokkrum sinnum á þinginu, en á því fékkst engin leiðrétting.

Á fyrsta fundi n. nú var kosinn nýr formaður, hv. þm. N-Þ. Við bárum þá fram ósk og raunar kröfu um, að þessi undirnefnd yrði kosin, en hv. þm. kvaðst ekki geta orðið við þeirri ósk þá, en hét að athuga málið og okkur skildist, að hann mundi vilja láta kjósa n. þegar á næsta fundi, þó að ég megi ekki fara með, að hann hafi gefið um það fyrirheit. En við skildum orð hans þannig, að honum fyndist þetta eðlilegt og bjuggumst við því, að svo yrði. N. kom svo aftur saman á annan fund. Við ítrekuðum þá okkar kröfur og höfðum tilbúna skriflega grg., en formaður tók þá þann kostinn að fresta fundi og grg. var ekki lögð fram með allra nm. samþykki.

Það orkar ekki tvímælis frá mínu sjónarmiði, að það sé skýlaus skylda að kjósa þessa nefnd og jafnvel helzt að kjósa hana á fyrsta fundi. Með leyfi hæstv. forseta, stendur svo í 16. gr. þingskapa, sem um þetta fjallar: „Til utanrmn. skal vísa utanríkismálum. Utanrmn. kýs úr sínum hópi með hlutfallskosningu þrjá menn til ráðuneytis ríkisstj. um utanríkismál, enda skal stjórnin ávallt bera undir þá slík mál, jafnt milli þinga sem á þingtíma.“

Ég hygg, að enginn véfengi, að þegar hin nýja utanrmn. hefur verið kosin, falli niður umboð þessarar 3 manna n., sem áður var að verki, einnig vegna þess, að það er ekki trygging fyrir, að þeir, sem í henni áttu sæti, eigi sæti í þeirri utanrmn., sem hið nýja þing hefur kosið. Ef þessi nefnd samkvæmt þingsköpunum á að vera til ráðuneytis ríkisstj. um utanríkismál og enda skal ávallt bera undir þá n. slík mál, jafnt milli þinga sem á þingtíma, ef þetta er ákveðið í þingsköpum, þá er það líka ákveðið, að um leið og utanrmn. sezt á laggirnar, þá kýs hún þessa nefnd. Það er ekki hægt að bera ávallt, eins og stendur í þingsköpunum, undir nefnd hin mest áríðandi mál, nema n. sé til. Það er þess vegna enginn vafi, að það er hugsun og vilji löggjafans, að um leið og utanrmn. kýs sér formann og ritara, þá kjósi hún einnig þessa undirnefnd.

Ég held þess vegna, að það sé ekki ofmælt, þó að staðhæft sé, að það sé beint brot á þingsköpunum að kjósa ekki þessa n. þegar í stað á fyrsta fundi. Hitt er náttúrlega augljóst mál, að það að láta líða svo ár eftir ár, að nefndin sé ekki kosin, er hreint brot á þingsköpunum, þannig að jafnvel þeir, sem tilhneigingu hefðu til að vefengja mín rök, geta auðvitað ekki komizt undan að viðurkenna það út af fyrir sig. Við skulum ekki vera að fara neitt leynt með hér fyrir hv. þingheimi hver ástæða er til, að þessi undirnefnd hefur aldrei fengizt kosin. Það er ekki af því, að þessir menn, sem fara nú með þessi mál, hæstv. utanrrh. og hans félagar, séu svo rangsleitnir, að þeir út af fyrir sig vilji ekki fullnægja þessum einlægu tilmælum okkar, sem hafa alveg verið borin fram áreitnislaust. Ástæðan til, að n. hefur ekki fengizt kosin, er sú, að í n. eiga sæti þrír menn, eins og talað er um. Sjálfstfl. ræður einum manninum. Hann hefur 2 nm. af 7. Hverjir eiga þá hinir tveir að vera? Það verður ekki undan því komizt, meðan þeir flokkar skipa ríkisstj., sem nú gera það, að stærsti flokkur stjórnarinnar, nefnilega kommúnistarnir, ráði einum manninum. Fram hjá því verður ekki komizt. En út á við má það ekki verða heyrinkunnugt, að kommúnistar fái sæti í þeirri þriggja manna nefnd, sem sérstaklega er til aðstoðar ríkisstj. um utanríkismál. Og það er vegna þess, að hæstv. utanrrh. og aðrir þeir menn, sem í hans nafni tala við umheiminn, segja umheiminum, að kommúnistarnir hafi alls engin áhrif á utanríkismál. Hann segir: Á meðan ég er hér, þá ræð ég og ég þarf enga kommúnista til að ráðleggja mér, hvað ég á að gera. — Þetta er grímulaus myndin, eins og hún er.

Nú sjáum við, hvernig á að komast út úr vandanum. Það á ekki að reiða hnefann framan í kommúnistana og segja: Við kjósum tvo menn, framsóknarmann og Alþýðuflokksmann, í þessa n. Það á ekki að gera það. Það á ekki heldur að segja umheiminum frá því leyndarmáli, að kommúnistar eiga rétt á manni í þessa n. og mundu fá hann, ef nefndin væri kosin. Það á að stýra fram hjá vandanum með því að breyta þingsköpunum aftur. Rök hæstv. utanrrh. í þessum efnum voru ákaflega veigalítil. Hann sagði, að það hefði ekki almennt verið haft samráð við þessa þriggja manna n., en sagði þó, að ráðh. hefði ráðgazt við n., þegar honum hefði þótt nauður reka til eða atvik liggja að því, að það væri heppilegt. Og sannarlega er það satt. Ég hef ekki farið með utanríkismál á þessum tíma frá 1951, en ég þykist muna það, að þessi n. eða þeir, sem þá áttu að mæta fyrir hönd flokkanna, voru kvaddir til ráða undir margvíslegum kringumstæðum. Hvort um það er nokkuð bókað eða ekki, veit ég ekki. Það skiptir heldur engu aðalmáli. Aðalmálið var það, að stjórnin gat þá ráðgazt við menn, sem hún bar traust til og þóttist mega bera utanríkismálin undir, án þess að því fylgdi nokkur sérstök hætta.

Nú segir utanrrh.: Þetta er mjög umhendis allt saman, því að stjórnin verður að geta borið sig saman við alla flokkana. — Ja, því ekki það? Ef stjórnin vill bera sig saman við alla flokkana, þá getur hún líka borið sig saman við þann flokkinn, sem ekki ætti umboðsmann í þessari þriggja manna nefnd. Auðvitað gæti hún það. Hún getur borið sig saman, hvenær sem er, við alla utanrmn. Þetta er þess vegna bábilja, aðeins tyllirök til að leyna sannleikanum.

Við skulum játa, að það, sem hér er að ske, er það, að utanrrh. Íslands er í nafni ríkisstj. að lýsa yfir trausti á kommúnistunum. Hann er að lýsa yfir því, að hann sjálfur, forsrh. og aðrir ráðh. ríkisstj., þeir sem ekki eru taldir í Alþb., beri fullt traust til kommúnistanna. Hann lýsir yfir: Við þurfum enga þriggja manna nefnd, við þurfum hins vegar alla nefndina til að ráðgast við.

Þetta frv. er þess vegna og á að heita traustsyfirlýsing utanrrh. og forsrh. til kommúnista í utanríkismálum. Ég segi það að vísu, að ég veit orðið ekkert, til hvers ég ber mest og til hvers ég ber minnst traust í utanríkismálunum. Ég veit það orðið ekkert. Þetta er allt einn hrærigrautur. Það er ekki einu sinni fyrir gleggstu menn að gera sér grein fyrir, hver er hvað í þessu öllu. Ég hef langmesta tilhneigingu til að láta það alveg afskiptalaust, að hæstv. utanrrh. kemur inn í Alþ. og lýsir trausti á kommúnistunum í sambandi við utanríkismálin. Og mér finnst ekkert óeðlilegt, að hann geri það, eftir að kommúnistar hafa stjórnað stærsta utanríkismáli Íslands nú að undanförnu, þ.e.a.s. landhelgismálinu.

Það hefur að vísu verið talinn glæpur, þegar sjálfstæðismenn hafa sagt frá því, að þetta væri svona. Þá hefur blað forsrh. ráðizt á okkur fyrir það, að við værum að spilla landhelgismálinu með því að segja frá því, hverjir stýrðu förinni. En hins vegar, þegar blað sjútvmrh. hefur sagt, að hann væri hinn athafnamesti foringi í þessu máli, þá þorir enginn að blaka við hári á hans höfði. Þá er allur sá sannleikur látinn vera heilagur, sem er hreinasta og svartasta lygi, ef við segjum hann. Þetta er auðvitað á allra vitund. Til góðs eða ills hafa þeir stýrt förinni — og til ills frá mínu sjónarmiði. Ég veit vel, að ýmsir í ríkisstj. hafa viljað annað, en hér gildir enginn vilji samanborið við verkin. Og við erum ekki búnir að bíta úr nálinni um það mál enn þá. Utanrrh. lýsti yfir í ræðu alveg nýlega, að það væri bábilja, ef nokkur maður héldi, að búið væri að bíta úr nálinni um landhelgismálið, það væri algerlega óleyst. En blað stærsta stjórnarflokksins undir forustu hæstv. sjútvmrh. segir, að það sé búið að leysa þetta mál. En ég spyr: Hafa Íslendingar fengið uppfylltar óskir sínar?

Ég hef ekki umboð til að tala fyrir hönd míns flokks í þessu máli, en mér finnst langeðlilegast, að við sjálfstæðismenn segjum: Ef utanrrh. langar til að gefa kommúnistum traust í sambandi við utanríkismálin, þá er það hans mál. ég tei það hafa sína ókost, og ég skal ekki vera að tíunda þá frekar, en ég gerði í umræðunum 1951, enda ókostirnir nú minni en þá, vegna þess að nú er búið að fela þessum mönnum svo mikið vald í þessum efnum, það skiptir minnstu máli, hvað héðan af er gert.

En það er líka kostur á þessari breyt. Það er nefnilega sá kostur, að þá er hægt að starfa í utanrmn. Utanrmn. hefur af núv. stjórn verið sett út úr starfi. Hún hefur verið rekin frá sinum störfum. Nú er hægt að taka til starfa aftur. Ég mun leggja þetta undir minn flokk, þótt ég viti ekki, hvernig hann tekur undir það, að við látum þetta mál alveg lönd og leið og lofum þeim að eigast við um það, sem eru í stjórninni. Kunnugir bítast bezt — og hæstv. utanrrh. hlýtur að vita vel, að það er óhætt að trúa kommúnistunum fyrir öllu í utanríkismálum! Ég minni aðeins á, að utanrmn. á að vera í nánu samstarfi við stjórnina um utanríkismálin og þetta nána samstarf allrar nefndarinnar var fellt niður með ákvæðinu um, að þrír menn skyldu valdir til þessara starfa. Nú ber sjálfur ráðherra fram frv. um, að þessir þrír menn, sem átti að sýna sérstakan trúnað, séu skornir niður við trogið, en upp af því blóðbaði rísa þá sjö menn, þar sem kommúnistar eiga sinn fulltrúa. Það er hans dómur og hann hlýtur að þekkja öll málsatvik vel, að það sé bitamunur, en ekki fjár, hvort þeir fái að vita í utanrmn. eða uppi í stjórnarráði hans leyndustu þanka á sviði utanríkismálanna.