17.04.1959
Neðri deild: 110. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

115. mál, ríkisreikningar

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Hv. þm. A-Húnv., sem er einn af yfirskoðunarmönnum ríkisreikninga, sagði áðan, að útlit væri fyrir, að ekkert yrði gert til leiðréttingar eða úrbóta í tilefni af athugasemdunum og skildist mér hann telja það miður farið. Ég er honum sammála um, að það væri æskilegt, ef hægt væri að gera hér einhverjar lagfæringar, sem til hagsbóta gætu orðið fyrir ríkissjóð og mér kom í hug að vekja hér athygli á tveimur athugasemdum, sem hv. þm. A-Húnv. hefur gert sérstaklega við reikninginn, en þar sýnist mér einmitt vera um atriði að ræða, þar sem hann sjálfur hefði góða aðstöðu til að koma fram nokkrum lagfæringum.

Það er fyrst 4. athugasemd hans. Sú aths. snertir rekstur Tóbakseinkasölu ríkisins. Hann telur, að kostnaður þeirrar stofnunar hafi vaxið á árinu 1956. Og í lok aths. segir hv. þm.: „Afsláttur á tóbaksvörum til ýmissa valdamanna hefur orðið kr. 194.280.80 og er það kr. 36.030.16 hærra, en árið áður.“ Hann getur þess nú ekkert, hverjir þessir ýmsu valdamenn séu, hvernig þetta skiptist á þá, en mikið hlýtur það tóbak að vera, þar sem afslátturinn á verðinu, nemur svona mikilli upphæð.

Þá er hér önnur aths. hans um efni, sem er þessu skylt og það er sú 24. Þar er talað um kostnað við gesti ríkisstjórnarinnar, en síðan segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Auk þess hefur nú sem fyrr vín og tóbak til þessara nota veríð látið með innkaupsverði. Er auðsætt, að úttekt þeirra vara hefur aldrei verið eins mikil og árið 1956. Má til marks um það nefna, að stjórnarráð Íslands hefur á árinu tekið út vín með innkaupsverði fyrir kr. 78.381.00. Á árinu 1955 tók þessi aðili út á sama hátt fyrir kr. 31.660.00.“

Það er auðséð á þessari aths., að hv. þm. A-Húnv. er farið að blöskra, hvað ósparlega er farið með mjöðinn í stjórnarráðinu. Og ég er honum sammála um, að það sé óviðeigandi, þessi tóbaksnotkun og víndrykkja valdamanna ýmissa á kostnað ríkissjóðs. Ég er einn af þeim þm., sem hafa stundum á undanförnum árum reynt að koma fram hér á þingi nokkrum lagfæringum á þessu, en það mál hefur átt örðugt uppdráttar. Nú mun það vera svo, að meðal valdamanna, sem njóta þessara að ég vil telja óeðlilegu viðskiptakjara hjá ríkisverzlunum, eru forsetar Alþingis. Og ég tel það gott, að hv. þm. A-Húnv. hefur gert þessar aths. og bent á nauðsyn þess að taka hér upp nýja og betri siði. Það er nefnilega þannig, að hann er öðrum mönnum líklegri til áhrifa hér, ef hann beitir sér. Og ég vildi einmitt skora á hann að reyna nú þegar að hafa áhrif á hæstv. forseta sameinaðs Alþingis. Hann ætti að leiða honum fyrir sjónir, að það sé ekki sæmilegt af honum og öðrum valdamönnum að taka vörur úr verzlunum ríkisins og borga fyrir þær aðeins lítið brot af því verði, sem almenningur þarf að borga. Og hann veit það vel, að þetta styðst heldur ekki við nein lög. Og ég er nærri viss um, að ef hann beitir sér, þá getur hann fengið hæstv. forseta til að hætta þessu. Ef til vill er það svo, að þessi yfirskoðunarmaður ríkisreikninganna, hv. þm. A-Húnv., Jón Pálmason, sé eini maðurinn, sem örugglega getur haft áhrif á hæstv. forseta sameinaðs Alþingis, Jón Pálmason, og beint göngu hans hér inn á betri braut. Ef hann hættir nú þegar þessum óeðlilegu viðskiptum við þessar ríkisverzlanir, þá tel ég engan vafa á því, að aðrir forsetar á þingi muni fylgja fordæmi hans. Og trúað gæti ég, að þetta gæti haft góð áhrif á þá í stjórnarráðinu og fleiri valdamenn, ef einhverjir eru, sem njóta þessara óeðlilegu kjara hjá tóbaksverzlun og vínverzlun ríkisins. Ég lít svo á, að þannig eigi einmitt yfirskoðunarmenn ríkisreikninga að vinna. Það er ekki nóg að benda á það, sem laga þarf. Jafnframt þarf að beita sér eftir því, sem ástæður eru til og möguleikar til þess að koma fram leiðréttingum. Og ég vil skora á hv. þm. A-Húnv. að fresta því ekki að koma hér á siðabót.