17.04.1959
Neðri deild: 110. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

115. mál, ríkisreikningar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það skeði hér fyrir nokkrum dögum á Alþingi, að hv. síðasti ræðumaður hélt hér mikla ræðu um margvíslega hluti og sagði þar m. a.: Etum og drekkum og verum glaðir. — En mér skilst, að það eigi að fara nokkuð eftir því, hverjir það eru, sem njóta hlunnindanna í ríkisstarfseminni, sem þessi hv. þm. vill skora á að spara sér þau réttindi, sem almennt eru veitt í þessu efni. Hér á árunum, meðan ég var forseti sameinaðs þings, sem ég var um átta ára skeið, þá var það nálega á hverju þingi, að hv. þm. V-Húnv. flutti till. um það að afnema hin svokölluðu réttindi í víni og tóbaki og koma því nafni á með einhverjum sínum félögum að kalla þetta forsetabrennivín og þó er vitað, að forsetar Alþingis eru þarna ekki nema smár aðili á móts við ríkisstj. og fleiri menn, sem hafa þessi réttindi. Eftir að ég hætti að vera forseti Alþingis, brá svo við, að hv. þm. V-Húnv. hætti alveg að flytja þessar tillögur um afnám þessara réttinda og virtist una því vel, að hans flokksbræður og aðrir, sem hlut áttu að máli, fengju þar að njóta þess, sem verið hafði í reglum og gilt um langa tíð og lengi áður, en ég kom nokkuð þar við mál. Ég tek það nú ósköp létt, þó að þessi hv. þm. taki nú upp þennan sið aftur og fari nú að koma með áskoranir og kannske tillögur um það, ef hann er hræddur um, að ég, hans nágranni, njóti einhvers góðs af þessum hlunnindum. En þær athugasemdir, sem ég gerði í sambandi við þetta, voru, eins og ég tók fram í úrskurðartill., aðeins gerðar til samanburðar, því að það hafði komið í ljós, að á árinu 1956 höfðu þessi réttindi verið notuð í miklu stærri stíl, en nokkurn tíma áður hafði þekkzt.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þessa skemmtilegu ræðu hv. þm. V-Húnv., en segja örfá orð út af því, er hæstv. fyrrv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, sagði hér í sambandi við reikningana og athugasemdir og starf yfirskoðunarmanna. Hann virtist leggja á það mikla áherzlu að sýna fram á það, að ég væri í starfi mínu hlutdrægur í athugasemdum, einkanlega gagnvart honum og þeim, sem honum stæðu næstir. En þessi hv. þm. tók jafnframt fram, að þetta mundi vera í fyrsta sinn, sem rétt er, sem ég hefði skilað sérathugasemdum og ég er nú búinn að vera yfirskoðunarmaður ríkisreikninga yfir 20 ár og með mér hafa alltaf starfað menn úr tveimur öðrum flokkum, ævinlega úr Framsfl., flokki hv. 1. þm. S-M., og ég held allan tímann einn sá maður í þeirra liði, sem er meðal þeirra gáfuðustu og óhlutdrægustu manna, sem er Jörundur Brynjólfsson, fyrrv. forseti Alþingis. Við höfum alltaf haft góða samvinnu í þessu efni, og það stenzt ekki að neinu leyti hjá hv. 1. þm. S-M., að það sé sýnileg hlutdrægni frá minni hálfu, sem er samkomulag þriggja manna, sem eru sinn úr hverjum stjórnmálaflokki, eins og verið hefur allan þennan tíma.

Þá var þessi hv. þm. með sína gömlu prósentureglu um það, að umframgreiðslurnar væru nú prósentvís eins háar og þær hefðu stundum áður verið. En ég hef nú sýnt fram á það raunar oft áður, að þetta fer ekki alveg eftir. Ég fer nú meira eftir tölunum sjálfum, en hvað það er prósentvís hátt, því að á meðan ríkisgjöldin voru sérstaklega lág og ekki nema tiltölulega fáar milljónir hér áður, þá var kannske ekki óeðlilegt, þó að umframgreiðslurnar yrðu prósentvís hærri. Ef ég man rétt, þá voru öll ríkisútgjöldin, þegar 1. þm. S-M. tók fyrst við völdum sem fjmrh., áætluð milli 12 og 13 millj., en hann er á sínum langa ferli sem fjmrh. búinn að koma þeim nokkuð yfir tvo milljarða, þegar útflutningssjóðurinn er tekinn með, sem auðvitað eru líka útgjöld ríkisins. Þar af er ekki nema minni hlutinn að vísu á ríkisreikningnum sjálfum, því að eins og ég tók fram, þá er útflutningssjóðurinn orðinn stærri stofnun, en sjálfur ríkissjóðurinn og það eru líka ríkisútgjöld. Þess vegna tel ég, að það beri að taka þau útgjöld eða þá reikninga einnig með.

Hv. þm. var að tala um það, sem stenzt alls ekki samkvæmt þessu, sem ég hef þegar sagt, að ég hafi hagað mér eftir því, hver hafi verið við völd. Hann getur þá alveg sagt hið sama um flokksbróður sinn, Jörund Brynjólfsson, að hann hafi hagað sér eftir því, hver hafi verið við völd, í sínum aths., og aðra þá, sem með mér hafa verið, t. d. Sigurjón heitinn Ólafsson og núverandi yfirskoðunarmann, Björn Jóhannesson, að þeir hafi hagað sér eftir því, hver hafi verið við völd. Þessi ásökun er því, eftir því sem ég bezt fæ séð, út í bláinn, nema ef vera skyldi um þær 25 aths., sem ég hef gert sérstaklega við þennan reikning. Við hann eru 40 aths. frá okkur yfirskoðunarmönnum sameiginlega og mín hlutdrægni er þar a. m. k. ekki að neinu leyti öðruvísi en þeirra hinna, nema ef hv. 1. þm. S-M. gerir ráð fyrir því, að ég skrifi allar aths. og láti þá skrifa undir, en það held ég, að engum öðrum manni detti í hug um þá menn, sem þar eru með mér að starfi.

Það var náttúrlega eitt atriði í ræðu þessa hv. ræðumanns, sem hefur við mikið að styðjast og ég hafði nú eiginlega fyrir fram bent á og fallizt á, að það getur verið mikið álitamál, hvort við hefðum ekki átt, bæði ég í mínum sérathugasemdum og við allir saman, þegar við reiknuðum út umframgreiðslur á hverri grein, að draga það frá, sem var vegna hinna nýju launalaga. En við fórum nú ekkert í það verk og það má segja, að það sé kannske hægt að ásaka okkur fyrir að hafa ekki dregið þetta frá. En það stendur nú nokkuð mikið eftir samt, því að það, sem áætlað var vegna nýrra launalaga, var 23½ millj., en umframgreiðslurnar samkvæmt reikningnum, þó að það sé búið að taka allt tillit til þessara 23 millj., eru 113 millj., og þó eru þessar 23½ millj. komnar inn í heildartölu reikningsins. Það er þess vegna býsna mikið, sem stendur eftir og þarf ekki að eyða mörgum orðum um það. Ég skal ekki fara til sönnunar því, að hér er alls ekki um neina hlutdrægni að ræða, fara að nefna hér einstök atriði, því að ef ég ætti að fara út í að ræða allar okkar aths., sem eru 65 að tölu, og hvað hver og ein sýni, þá tæki það allt of langan tíma.

Þá var það eitt atriði, sem þessi hv. þm. vék að og hann hefur oft gert áður, og það var það, að fjmrn. bæri enga ábyrgð á útgjöldunum, sem væru ákveðin af öðrum ráðuneytum. Ja, starfsemin hefur kannske verið svo og er. En til þess er nú fjmrh. og fjmrn. að hafa eftirlit með því, að fjárl. sé fylgt, hvaða rn. önnur sem með það hafa að gera og oft hef ég rekið mig á það, að það, sem hefur verið ákveðið og fengizt í gegn í hinum ýmsu öðrum ráðuneytum, hefur verið borið undir fjmrn. eða það hefur fylgt því sú krafa, að þetta yrði ekki samþ., nema því aðeins að það yrði samþ. af fjmrn., enda er það svo, að við vitum það allir, sem þekkjum, hvernig þessi starfsemi er, að fjmrn. og fjmrh. eru þeir einu aðilar, sem hafa aðstöðu til þess að stöðva greiðslur og neita um að greiða útgjöld, sem ekki eru samkvæmt lögum eða standa í neinu sambandi við greiðslu fjárlaga.

Eins er það náttúrlega, að hver fjmrh. á eðlilega að hafa eitthvert eftirlit með því, hvernig farið er með fé í stofnunum ríkisins. En það sýnir sig, að það eftirlit hefur verið harla lítils virði og það er eitt af þeim mörgu atriðum í okkar fjármálameðferð, sem þurfa að breytast og það í stórum stíl, ef við eigum að gera okkur vonir um, að eitthvað snúist til betri vegar í okkar fjármálastjórn frá þeim ósköpum, sem skeð hafa á undanförnum árum.