09.02.1959
Efri deild: 66. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

103. mál, skattar og gjöld til sveitarsjóða

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég stend hér ekki til þess að andmæla frv., sem hér liggur fyrir, né neinu af því, sem hæstv. ráðh. sagði.

Það mun vera sannleikur, að nokkur sveitarfélög missa nú einhvern hluta þeirra tekna, sem þau hafa haft af fasteignaskatti, áður en núgildandi lög tóku gildi. Þau sveitarfélög munu hafa innheimt fasteignaskatt með 400% álagi, eins og eldri lög frekast leyfðu. Einnig kemur til greina, að í sumum sveitarfélögum varð hækkun fasteignamatsins næsta lítil, en hvort tveggja hefur leitt til þess, að tekjur þessara sveitarfélaga verða nú minni, en áður. En þetta hefur ekki orðið svona alls staðar. Í Reykjavík varð á þessu ári stórfelld hækkun þessara gjalda. Mun hún nema um eða yfir 80%. Þetta er mikil hækkun og tilfinnanleg, sem hittir nú alla íbúðareigendur og aðra eigendur fasteigna í Reykjavík. Nú er í sjálfu sér ekkert við því að segja, að fasteignaskattur hækki og sé nokkuð hár, því að hann er sveitarfélögunum að mínum dómi mjög eðlilegur tekjustofn, Ég mundi líka sízt vilja hreyfa nokkrum athugasemdum við hækkun hans, ef ekki stæði sérstaklega á. Ef ofan á 80% hækkun hans í Reykjavík á þessu ári á að bætast 100% hækkun til viðbótar, þá er ég hræddur um, að hann komi illa við marga bæjarbúa. Húsaleiga hlyti að hækka til mikilla muna og margur íbúðareigandinn eiga fullerfitt fjárhagslega með að bæta á sig slíkri hækkun. Þar við bætist svo, að nú hafa laun stórlega lækkað og dregur það sízt úr erfiðleikum leigjenda og fátækra íbúðareigenda.

Þessi vandi var ræddur í bæjarstjórn Reykjavíkur fyrir fáeinum dögum. Þar flutti fulltrúi Framsfl. till. um, að framkvæmd á hækkunum fasteignagjalda í Reykjavík yrði frestað með hliðsjón af samþykkt hinna nýju laga um niðurfærslu verðlags og launa. Benti hann og fleiri á, að nú væri ekki réttur tími til slíkra hækkana. Bæjarfulltrúi Framsfl. og fulltrúar Alþb. í bæjarstjórn börðust fyrir því á þessum fundi í þessu máli og öðrum, að bæjarfélagið virti hin nýju lög og væri ekki nú að stofna til verðhækkana. Jafneindregið börðust fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl. í bæjarstjórn Reykjavíkur gegn því, að verðlaginu yrði haldið í skefjum, og lögðust með því á móti framkvæmd þeirra laga, sem þeir höfðu knúið fram hér á hinu háa Alþingi.

Mér þykir rétt að vekja hér athygli á þeirri miklu fasteignaskattshækkun, sem í byrjun þessa árs var dembt á Reykvíkinga. Þeim finnst því vafalaust mörgum fulllangt gengið, ef leyfa á tvöföldun hans nú þegar. Hitt skil ég, að ólíkt muni vera um nokkur önnur sveitarfélög, sem því þurfi að fá hlut sinn réttan. Væntanlega mun sú hv. n., sem frv. fær, athuga málið frá báðum hliðum, og væri æskilegt, að hún gæti fundið á því réttláta lausn.