09.02.1959
Efri deild: 66. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

103. mál, skattar og gjöld til sveitarsjóða

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég hef fáa menn heyrt tala á undanförnum árum meira um nauðsyn stöðvunarstefnunnar, en þá samherjana í Alþb., fyrrv. félmrh. (HV), 1. landsk. (AG) og fleiri slíka. Þess vegna kemur dálítið á óvart, þegar hv. 1. landsk. lýsir því yfir, að hann sé samþykkur því að hækka fasteignagjöldin, hafi samþykkt það sjálfur sem bæjarfulltrúi í bæjarstjórn Reykjavikur á s. l. hausti, og félmrh. (HV) staðfesti þessa nýju reglugerð orðalaust, en núna, eftir að þeir eru komnir úr stjórn, er alveg bráðnauðsynlegt að snúa við blaðinu, afturkalla allt, sem bæjarfulltrúinn og ráðh. voru búnir að ákveða og samþykkja, og strika út þessa hækkun. Það er eins og þessi hv. þm. vilji nú gefa í skyn, að hann hafi aldrei heyrt minnzt á neina stöðvunarstefnu fyrr en núna, eftir að núv. ríkisstj. tók við. Nei, það er held ég ekki hægt og ekki frambærilegt fyrir hv. þm. að ætla að bera slíkt hringsól í sjálfu sér á borð fyrir Alþingi.

Varðandi það, að fasteignagjöldin í Reykjavík þurfi að lækka til samræmis við launalækkunina, þá veit hv. þm., að hér er hann líka að fara með mjög villandi hluti. Þessi hv. þm. veit, að árslaun launamanna, verkamanna og m. a. allra starfsmanna Reykjavíkurbæjar verða hærri á þessu ári en þau voru á s. l. ári. Þó að meðalvísitalan á s. l. ári hafi væntanlega verið um það bil 184, að ég held, en nú sé gert ráð fyrir vísitölu 175, a. m. k. 11 mánuði þessa árs, þá vitum við líka, að á þessum vetri kom til framkvæmda 6% og 9% grunnkaupshækkun hjá opinberum starfsmönnum, sem vegur meira, en þessi lækkun kaupgjaldsvísitölunnar. M. ö. o.: árslaun opinberra starfsmanna, bæði hjá ríki og bæjarfélögum, verða á þessu ári, 1959, hærri en á árinu 1958. Af því leiðir líka, að útgjöld þessara aðila vegna launagreiðslna verða hærri.

Þegar hv. þm. er að tala um launalækkun, þá ber hann hér blekkingar á borð, því að hann talar þá eingöngu um launin, sem voru samkvæmt vísitölu 202 í janúarmánuði og svo það, sem er nú, en lokar alveg augunum fyrir hinu atriðinu, hvaða tekjur þarf til að standa undir þessum greiðslum.

Eins og ég tók fram áðan, þá er hér í þessu tilfelli eingöngu um að ræða, bæði hjá Reykjavíkurbæ og öðrum bæjar- og sveitarfélögum, tilfærslu á að taka nauðsynlegar tekjur eða hluta af tekjunum með útsvörum eða með fasteignagjöldum.

Ef hv. þm. heldur eða ætlar að gefa mönnum í skyn, að hann sé hér að tala fyrst og fremst máli alþýðumanna eða hinna fátækari, þá er hér um algeran misskilning að ræða, því að meginhluti fasteignagjaldanna lendir auðvitað fyrst og fremst á stóreignamönnum eða þeim, sem eiga eignir hér í miðbænum, þar sem fasteignamatið eða verðmæti eignanna er miklu meira, en annars staðar. Á venjulegri íbúð, 2–3 herbergja íbúð, eru fasteignagjöldin ekki há og hækkunin nemur kannske 100–200–300 krónum yfir árið, svo að hv. þm. þarf ekki að halda, að hann sé að berjast sérstaklega fyrir hagsmunum hinna snauðu. Ef hans tillögur um lækkun fasteignagjaldanna ættu að ná fram að ganga, þá þýðir það m. a., að Reykjavíkurbær ætti að endurgreiða nú, við skulum segja 7–8 millj, kr., sem búið er að borga inn í bæjarsjóð af þessum gjöldum og mikill hluti af því, ég vil segja meiri hlutinn, færi fyrst og fremst til þeirra manna, sem eiga töluvert miklar eignir, en ekki til hinna fátækari.

Það er ekki ástæða til þess á þessu stigi að reifa þetta frekar. En sannast sagna furðar mig nokkuð á framkomu þessa hv. þm., sem leyfir sér, eftir að hans tillögur hafa ekki náð samþykki í bæjarstjórn Reykjavíkur, sem er sú löglega stjórn bæjarfélagsins, að koma klagandi hingað inn í sali Alþingis og meira að segja gera tilraunir og flytja áskoranir um það, að löggjafarvaldinu verði farið að beita. Hann hefur ekki flutt beint till. um, að inn í þetta frv. verði tekið ákvæði um, að viss bæjarfélög skuli lækka þá taxta, sem fyrir eru, en eftir þeim anda, sem hann talar í, þá mætti mjög búast við slíku. Finnst mér sannast sagna vart sæmandi fyrir mann, sem hefur verið kjörinn sem trúnaðarmaður bæjarfélagsins, að fara þær leiðir.