27.02.1959
Efri deild: 76. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

103. mál, skattar og gjöld til sveitarsjóða

Dómsmrh. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Hv. 1. landsk. þm., sem hefur andmælt þessu frv., sem hér er á dagskrá, veit vel, að í frv. er ekki um að ræða nýjar skattálögur, heldur um hitt, hvort heimila eigi sveitarstjórnum að ráða því sjálfar innan þeirra takmarka, sem í frv. greinir, að hve miklu leyti þær afla tekna sinna með fasteignaskatti í stað útsvara.

Hv. þm. telur það kynlega afsökun fyrir frv., að vegna nýja fasteignamatsins lækkar heimild sveitarstjórna til þess að afla tekna með fasteignaskatti. Ég veit ekki, hvort á að skilja þetta þannig, að hv. þm. telur, að sveitarstjórnir eigi helzt engu um það að ráða sjálfar, hvernig málum þeirra skuli skipað. Maður gæti freistazt til að álita það. Og sami hv. þm. leggur til, að frv. verði fellt, fyrst og fremst, eins og hann segir í grg. fyrir áliti sínu, með hliðsjón af þeirri almennu launalækkun, sem nýlega var lögboðin.

Hér er, eins og hv. þm. vita, ekki um það að ræða, að þetta frv. verki á heildartekjuöflun sveitarfélaga, heldur einmitt á hitt, hvort eigi að heimila sveitarfélögum að innheimta hluta af tekjum, sem þau þurfa að afla, með fasteignaskatti eða með útsvari. Tekjuöflun sveitarfélaganna er hin sama, hvort sem frv. verður fellt eða samþykkt, eða verður hin sama vafalaust. Rök hv. þm. eru því ekki haldbær. Hitt hefði verið hægt að skilja, ef hv. þm. hefði byggt andstöðu sína við frv. á því, að hann væri á móti fasteignasköttum yfirleitt. Þá afstöðu hefði a. m. k. verið hægt að skilja. En málflutningur hv. þm. byggist ekki á því, heldur á hlutum, sem snerta ekki höfuðatriði þessa máls. Efni málsins er einmitt innheimtuaðferð vegna sveitarsjóðanna, en ekki hitt, hvort tekjur sveitarsjóðanna samanlagt skuli hækka eða ekki. Höfuðatriðið er sem sagt þetta, hvort sveitarstjórnir eigi að fá að ráða því sjálfar, hverjar innheimtuaðferðir þær hafa til þess að afla óhjákvæmilegra tekna.

Hv. 8. landsk, er með skrifl. brtt. um íbúðarhúsnæði. Ég held, að það væri ekki skynsamlegt að samþykkja þá brtt. og ég vil benda á, að það er með ýmsum hætti heppilegra fyrir húseigendur, sem hann kveðst bera fyrir brjósti, að greiða gjöld til sveitarsjóðs sem fasteignaskatt, heldur en sem útsvar. Og það má benda á, að fasteignaskatta getur gjaldandinn fengið dregna frá tekjum sínum við skattákvörðun, en um útsvör er því ekki til að dreifa, því að þau eru ekki frádráttarbær við skattálagninguna.

Þess vegna álít ég, að það sé heppilegra fyrir húseigendur að greiða ríflegri hluta af gjöldum sínum til sveitarsjóðanna sem fasteignaskatt heldur en útsvar og fæ ekki séð, að brtt. hv. þm. mundi með neinum hætti geta rétt hlut þessara manna, sem hann ber fyrir brjósti. Þeir mundu þurfa að greiða þeim mun hærri útsvör og þeir mundu ekki geta fengið þau útsvör dregin frá við skattálagningu, en það mundu þeir aftur geta fengið að því er fasteignaskattinn snertir.