12.03.1959
Neðri deild: 92. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

103. mál, skattar og gjöld til sveitarsjóða

Dómsmrh. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um heimild til handa sveitarstjórnum til þess að ákveða, að innheimta skuli með álagi alla skatta og önnur gjöld, sem miðuð eru við fasteignamat og renna eiga í sveitarsjóð, að vatnsskatti undanskildum.

Frv. er flutt samkvæmt beiðni ýmissa sveitarstjórna norðanlands og vestan, sem sjá nú fram á það, að fasteignaskattar muni lækka um helming eða meira vegna nýrra reglna, sem gert var ráð fyrir að teknar yrðu upp nú um síðustu áramót vegna nýja fasteignamatsins og valda því, að fasteignaskattar yfirleitt eða víðast hvar á landinu munu lækka að óbreyttum lögum.

Samkvæmt lögum nr. 67 frá 1945 er heimilt að leggja á fasteignaskatt, 1% af fasteignamatsverði húseigna. Með lögum frá 1952, nr. 29, var heimilað að innheimta með 400% álagi fasteignaskatta og önnur gjöld, sem miðuðust við fasteignamat og renna skyldu í sveitarsjóð, að vatnsskatti undanskildum. Þessar reglur um skattálagningu voru í gildi til s. l. áramóta, þannig að miðað var við gamla fasteignamatið og 400% álag.

Mörg sveitarfélög notuðu að fullu þessa 400% álagsheimild. Þannig var það t. d. með flesta kaupstaðina á Norður- og Vesturlandi, þ. e. Húsavík, Akureyri, Siglufjörð, Sauðárkrók, Ísafjörð og raunar miklu fleiri sveitarfélög. Um s. l. áramót breyttust þessar álagningarreglur, eins og ég hef þegar sagt. Niður féll þá sú regla, að miða skyldi við gamla fasteignamatíð og 400% viðauka. Í stað þess er miðað við nýja fasteignamatið án viðauka.

Nú er nýja fasteignamatið að vísu hærra en hið gamla, en hækkun frá gamla matinu er mismunandi mikil á ýmsum stöðum á landinu. Mest er hækkunin í Reykjavík, þar er hún 400%, og á Suðvesturlandi frá 260 og upp í 360%, en annars staðar á landinu er hækkunin miklu minni, allt niður í 30% á nokkrum stöðum.

Á Ísafirði var fasteignamatið hækkað um 100%. Ef tekið er dæmi um hús á Ísafirði, sem samkv. eldra fasteignamatinu var metið á 30 þús. kr., þá var fasteignaskattur á slíku húsi 1%, eða 300 kr. að viðbættum 400%, þ. e. 1.200 kr., eða samtals 1.500 kr. Samkv. reglum þeim, sem tóku gildi um s. l. áramót, er hins vegar ekki heimilt að innheimta vegna þess sama húss nema 1% af nýja fasteignamatinu, sem er 60 þús. kr., þ. e. skatturinn er samkv. þeim reglum, sem nú eru í gildi, 600 kr. af þessu húsi, í staðinn fyrir að undanfarin ár hefur af samsvarandi húsi verið 1.500 kr. skattur.

Þannig er þetta eða svipað þessu í öllum þeim kaupstöðum, sem ég nefndi áðan og í ýmsum öðrum sveitarfélögum. Þessu una sveitarstjórnirnar ekki, að fasteignaskatturinn lækki um helming eða meira. Slíkt mundi að sjálfsögðu þýða það, að hækka yrði útsvörin að sama skapi. Frv. er flutt til þess að bæta úr þessu, þannig að sveitarstjórnir hafi þetta nokkuð í hendi sér innan þeirra marka, sem áður giltu um þetta efni.

Frv. tók dálitlum breyt. í Ed., en þær eru meira í samræmi við óskir þeirra sveitarstjórna, sem mál þetta snertir mest, heldur en frv var í upphaflegri mynd sinni.

Ég legg til, herra forseti að, að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.