17.04.1959
Neðri deild: 110. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

103. mál, skattar og gjöld til sveitarsjóða

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. N. hefur rætt þetta mál og er sammála um að leggja til, að það verði samþykkt eins og það liggur fyrir á þskj. 310. Einn nm., Jónas Árnason, var fjarstaddur afgreiðslu málsins.

Ég vil geta þess, að það kom fram bending um það frá ráðuneytisstjóranum í félmrn., að venjulega þyrftu sveitarstjórnir að bera gjaldahækkanir undir félmrn., og þarf samþykki þess til þeirra. Mæltist ráðuneytisstjórinn til þess, að athugað væri, hvort ekki væri rétt að bæta slíku ákvæði inn í frv. N. taldi að athuguðu máli ekki nauðsynlegt að bæta þessu ákvæði hér við, vegna þess að hér er ekki um að ræða hækkun umfram það, sem þegar hefur áður verið leyft í hverju einstöku tilfelli af ráðuneytinu. Hér er aðeins um það að ræða, að ekki þurfi að lækka gjöldin frá því, sem verið hefur, en slíkt kæmi sér mjög illa fyrir þau sveitarfélög, sem hlut eiga að máli og flest eiga við mjög erfiðan fjárhag að búa.