13.04.1959
Efri deild: 100. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

125. mál, almannatryggingar

Dómsmrh. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Snemma á yfirstandandi Alþingi flutti ég ásamt þeim hv. 5. og hv. 10. landsk. þm. till. til þál. í sameinuðu Alþingi um, að Alþingi fæli ríkisstj. að láta fara fram endurskoðun á ákvæðum almannatryggingalaga um upphæð slysabóta, með það fyrir augum, að slíkar bætur yrðu hækkaðar. Eftir að stjórnarskiptin urðu í vetur og mér hafði verið falin forstaða félmrn., fól ég kunnáttumönnum að endurskoða þessi lagaákvæði almennt. Þar er um að ræða talsvert vandaverk, sem óhjákvæmilega tekur nokkurn tíma.

En svo bar það við, að eftir s. l. áramót, þegar Landssamband ísl. útvegsmanna og sjómannasamtökin innan Alþýðusambands Íslands gerðu með sér heildarsamning um fiskverð og fleira, þá var það eitt atriði samningsins, að samningsaðilar ákváðu að beita sér fyrir því við ríkisstj. og Alþ., að dánarbætur eftir lögskráða sjómenn skyldu hækkaðar um 100% og að þeirri hækkun yrði komið á með lögum á yfirstandandi Alþingi.

Ríkisstj. hefur fyrir sitt leyti viljað verða við óskum sjómannasamtakanna og Landssambandsins um þetta efni, og frv. það, sem hér liggur fyrir og komið er frá hv. Nd., var flutt í því skyni að mæta þessum óskum.

Dánarbætur vegna slysa hafa jafnan verið mjög lágar og er svo enn og þess vegna ekki furða, þó að sjómenn eða sjómannasamtökin hafi áhuga á því, að þar verði breyting á. En í frv., sem hér liggur fyrir, felst það, að sé um að ræða dauðaslys lögskráðra sjómanna, þá skuli dánarbætur þær, sem nú eru í lögum, hækkaðar um helming eða 100% og að slík hækkun dánarbóta skuli greidd fyrir dauðaslys lögskráðra sjómanna, sem átt hafa sér stað eftir s. l. áramót. Óhjákvæmilegt verður að sjálfsögðu, að slysatryggingaiðgjöld hækki af þessum sökum, en eins og kunnugt er, þá er það útgerðin, útgerðarmenn, sem greiða iðgjöld fyrir þá menn, sem vinna við útgerðina, m. a. fyrir sjómenn.

Með þessu, að hækka nú þessar dánarbætur lögskráðra sjómanna, þá breikkar óhjákvæmilega það bil, sem nú þegar er á milli dánarbóta eftir lögskráða sjómenn og aðra slysatryggða menn, sem vinna í landi. Það má vafalaust deila um það, hvort slíkt sé eðlilegt eða skynsamlegt. En ég vænti þess, að þegar n. sú, sem fjallar um þessi slysatryggingamál almennt, hefur lokið sínu starfi, þá muni fást nokkur leiðrétting á þessu, þannig að slysabætur almennt verði hækkaðar, áður en langt líður. En hér í þessu frv. er einungis um það að ræða að hækka dánarbætur fyrir dauðaslys lögskráðra sjómanna.

Ég tel ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum,og ég legg til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.