20.10.1958
Sameinað þing: 3. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

1. mál, fjárlög 1959

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Hv. alþm. hafa nú fengið aðalreikning ríkisins fyrir árið 1957. Vil ég greina frá helztu niðurstöðum, en tel ekki nauðsynlegt að vera langorður um það mál.

Í fjárlögum var rekstrarhagnaður ráðgerður 85 millj., en hefur orðið 63. Gert var ráð fyrir, að rekstrarafgangur mundi duga til þess að standa undir útgjöldum á eignahreyfingum, en vegna þess að rekstrarhagnaður reyndist minni, en ráðgert var, hefur orðið nokkur greiðsluhalli á árinu eða um 22 millj. kr. Kemur hér ýmislegt til greina.

Þótt tekjur færu nokkuð fram úr áætlun, urðu þær minni, en menn vonuðust eftir. Það er ljóst, að útgjöld fara alltaf eitthvað fram úr áætlun, ekki sízt þegar lögboðnu útgjöldin reynast of lágt áætluð, sem við hefur viljað brenna. Verða tekjurnar þá að fara nokkuð fram úr, til þess að ekki verði halli.

Hér kemur til varðandi tekjurnar 1957, sem raunar var ýtarlega rætt í vetur sem leið í sambandi við efnahagsmálin, að í fyrra varð verulegur aflabrestur og rýrnun á útflutningstekjum. Kom þetta m. a. þannig fram, að sérstaklega dróst saman innflutningur á þeim vörum, sem gefa hæstar tekjur í ríkissjóð.

En hér koma einnig til greina tvö óvenjuleg atvik. Eins og sjá má á útgjöldum til dýrtíðarráðstafana, hafa verið notaðar á árinu 1957 17 millj. kr. umfram það, sem veitt var, til þess að greiða niður vöruverð á því ári. Þessi umframgreiðsla er beinlínis vegna þess, að niðurgreiðslurnar voru auknar á árinu 1957 til þess að reyna að halda vísitölunni í skefjum, en ekki af því, að það hafi verið of lágt áætlaður kostnaður við þær niðurgreiðslur, sem í gildi voru, þegar fjárlögin voru sett, eins og stundum áður. Á þetta var einnig rækilega bent við umræðurnar um efnahagsmálin á s. l. vetri, að lagt hefði verið í auknar niðurgreiðslur til þess að halda verðlagi niðri, enda þótt það hefði valdið greiðsluhalla hjá ríkissjóði.

Mjög mikið kapp var lagt á að ljúka sementsverksmiðjunni, enda stórfellt tjón, ef hún hefði ekki komizt upp og getað farið að starfa. Var mikils lánsfjár aflað í því sambandi, en með engu móti reyndist fært að afla til verksmiðjunnar alls þess fjár, sem þurfti. Var þá gripið til þess í fyrra, að ríkissjóður lagði til rúmlega 10 millj., svo að verkið stöðvaðist ekki. Verður leitað heimildar til þess að gera þetta fé að stofnláni til verksmiðjunnar.

Þá er þess að geta, að meðalvísitala ársins 1957 var tveim stigum hærri, en gert var ráð fyrir í fjárlagafrv., og veldur það rúmlega 4 millj. kr. umframgreiðslum.

Af öðrum umframgreiðslum má nefna:

Á 14. gr., kennslumál, 3 millj. og 600 þús., og eru það launagreiðslur í barnaskólum og héraðsskólum aðallega og annar kostnaður skólanna, sem allt reyndist hærra, en fræðslumálastjórnin hafði gert ráð fyrir.

Á 17. gr., til félagsmála, eru umframgreiðslur 3 millj. og 700 þús. og er það sérstaklega vegna mjög mikillar óvæntrar hækkunar á sjúkrasamlagsiðgjöldunum og framlögum ríkisins til sjúkrasamlaga þar af leiðandi.

Á 16. gr. A og B, til landbúnaðar- og sjávarútvegsmála, hafa umframgreiðslur orðið 3 millj. og 50 þús. Jarðræktarframkvæmdir reyndust meiri, en áætlað hafði verið. Hlutatryggingasjóður þurfti á meiru að halda samkvæmt lögum, en áætlað hafði verið og mun meira fé var lagt til þess að gera tilraunir með nýjar síldveiðiaðferðir, en fjárlög ráðgerðu.

Vegamál fóru 4½ millj. fram úr áætlun, vegaviðhald um 2 millj, rúmar og brúargerðir um 1 millj. og 100 þús., sem ákvarðað var að lokum í samráði við fjvn. að skyldi teljast til útgjalda 1957, en ekki klípast af fjárveitingu til brúa á árinu 1958.

Dómsmála- og lögreglumálakostnaður fór fram úr áætlun um 4 millj. og 900 þús. Er þar fyrst og fremst um að ræða skrifstofukostnað sýslumanna og bæjarfógeta, sem hefur verið hreinlega of lágt áætlaður af dómsmálastjórninni. Enn fremur kostnaður við landhelgisgæzlu um 1 millj. og 100 þús. og koma þar m. a. til greina áhrif frá nýjum kjarasamningum, eftir að gengið var frá fjárlögum.

Þá hefur rekstur flugmála orðið um 5 millj. óhagstæðari, en gert var ráð fyrir og er þar stærsta orsökin sú, að tekjur af Keflavíkurflugvelli hafa orðið stórum minni, en vonazt var eftir vegna minni umferðar um völlinn.

Enn fremur hefur útgjaldaáætlun varðandi sumar greinar flugmála reynzt ófullkomin, miðað við óhjákvæmilegan rekstrarkostnað í reynd.

Útgjöld samkvæmt heimildarlögum, sérstökum lögum, þál. og væntanlegum fjáraukalögum urðu 4 millj. og 800 þús. kr. Er þar langstærst einstök fjárhæð 1 millj. og 800 þús. kr., sem greiddar hafa verið til þess að byggja upp hafskipabryggju í Keflavík, sem eyðilagðist og varð að bæta.

Tel ég ekki ástæðu til þess að rekja nánar hér umframgreiðslurnar, en yfirleitt stafa þær af því, að lögboðin útgjöld eða útgjöld, sem óhjákvæmileg eru til þess að halda þeirri þjónustu uppi, sem Alþingi hefur ákveðið, reynast hærri, en áætlað hefur verið í fjárlögum.

Eins og ég hef drepið á hvað eftir annað undanfarið, hafa áætlanir frá einstökum starfsgreinum alls ekki reynzt svo ábyggilegar, að viðunandi sé og þótt ástandið í þeim efnum hafi farið batnandi, er það ekki nógu gott. Er sífellt unnið að því að bæta áætlanirnar og gera þær ábyggilegri.

Ekki er hægt að segja með nokkurri vissu núna, hver afkoma ríkissjóðs verður á þessu ári, sem nú er að líða. En samkvæmt því, sem horfir, geri ég mér ákveðnar vonir um greiðsluhallalausan ríkisbúskap og raunar vonir um, að greiðsluafgangur verði einhver, svo að unnt reynist að greiða hallann frá fyrra ári.

Eins og eðlilegt er, verður mönnum tíðrætt um ríkisbúskapinn og áhrif hans á þjóðarbúskapinn í heild og um það, hvernig til tekst um þennan mikilsverða þátt. Í sambandi við undirbúning fjárlaga að þessu sinni gerði ég nokkra athugun á helztu niðurstöðum í ríkisbúskapnum á undanförnum árum. Miða ég þennan samanburð við árslok 1949 að öðru leyti og á hinn bóginn við árslok 1957, en lengra ná ekki, eins og gefur að skilja, fullgerðir reikningar. Þykir mér rétt að greina hér frá nokkrum höfuðatriðum í þessu sambandi.

Skuldir þær, sem ríkissjóði er sjálfum ætlað að standa straum af, að frádregnum sjóðum og innstæðum, hafa lækkað um rúmlega 20 millj. á þessu tímabili og hefur þó ríkissjóður tekið að sér samkvæmt ákvörðunum Alþingis ýmsar skuldir annarra stofnana og má í því sambandi nefna t. d. 33 millj. vegna íbúðarlánasjóðs.

Nettó-eign ríkisins hefur á þessum árum aukizt um 780 millj. kr.

Af greiðsluafgangi hefur verið úthlutað á þessu tímabili samkvæmt sérstökum lögum 133 millj. Hefur því fé verið þannig varið: Til ræktunarsjóðs, byggingarsjóðs og veðdeildar Búnaðarbankans 52 millj., til íbúðarlánasjóðs, smáíbúðalána, verkamannabústaðalána, fiskveiðasjóðs og atvinnuleysistryggingasjóðs 52 millj., til bjargráðasjóðs 1012 millj. og til ýmissa annarra framkvæmda 18 millj.

Þessi úthlutun á greiðsluafgangi hefur átt stórfelldan þátt í þeim miklu framförum í sveitum og í kauptúnum og kaupstöðum, bæði í atvinnumálum og byggingarmálum, sem orðið hafa á þessu tímabili. Útihúsabyggingar og ræktun í sveitum, íbúðabyggingar og bátakaup í kauptúnum og kaupstöðum hefðu orðið svipur einn hjá sjón undanfarin ár, ef ríkissjóður hefði ekki reynzt þess megnugur að leggja fram fé í þessu skyni.

Á þessum árum, árunum 1950–1957, hefur Alþingi ákveðið mörg stórfelld nýmæli og aukið í mörgum greinum þjónustu við almenning.

Allt hefur þetta kostað stórfé umfram það, sem áður tíðkaðist. Ég nefni t. d., án þess að þar sé um nokkra tæmandi upptalningu að ræða:

Rekstrarstyrkur til sjúkrahúsa hefur verið tekinn upp og framlög til stofnkostnaðar sjúkrahúsa stóraukin.

Ákveðið að greiða þeim sjúkrastyrk, sem haldnir eru ellisjúkdómum og á sjúkrahúsum liggja.

Framlög til almennra sjúkratrygginga og ellitrygginga stóraukin.

Fjölskyldubætur auknar. Atvinnuleysistryggingar teknar upp. Flugþjónusta ríkisins mjög aukin.

Stóraukin framlög til vísindastarfa í þágu atvinnuveganna, landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnaðar og framlög til fiskimiðaleitar og annarrar þjónustu við sjávarútveginn stóraukin.

Skólakostnaður færður í vaxandi mæli yfir á ríkið.

Jarðræktarframlög aukin og stuðningur við nýbýlamenn.

Hlutatryggingasjóður hinn nýi stofnsettur. Iðnfræðslan færð yfir á ríkið til jafns við gagnfræðanám.

Framlög til raforkumála margfölduð, enda sér þess merkin í stórfelldum framkvæmdum. Atvinnuaukningarfé tekið á fjárlög og hefur atvinnuaukningarféð átt mjög ríkan þátt í uppbyggingunni úti um land undanfarin ár. Ríkisábyrgðir til stuðnings atvinnuvegunum stórauknar.

Verklegar framkvæmdir yfirleitt mjög auknar frá því, sem áður hafði verið.

Af þessum dæmum er augljóst, að Alþingi hefur á þessum árum aukið mjög mikið stuðning sinn við atvinnu- og framleiðslulífið í landinu, verklegar framkvæmdir og þjónustu fyrir landsmenn í fjölmörgum greinum. Sumir af hæstu liðum fjárlaganna, eins og framlög til atvinnuleysistrygginganna og atvinnuaukningarfé, hafa t. d. komið til sögunnar að nýju á þessum árum. Hefur þessi stórsókn í atvinnumálum, samgöngumálum, heilbrigðismálum og félagsmálum að sjálfsögðu kostað stórfé úr ríkissjóði, sem ekki er í skuld, heldur greitt. Á máli lýðskrumaranna heitir þetta á hinn bóginn bara gífurleg aukning ríkisútgjaldanna.

Þá kem ég að tekjuöflun og þróuninni í þeim málum og miða ég þá við ástand þeirra mála, eins og það var 1949 annars vegar og er á þessu ári hins vegar. Geri ég þetta vegna þess, að annars mundi sagt verða, að ekki væri gefin mynd af ástandi þeirra mála eins og það er nú.

Beinir skattar hafa verið lækkaðir jafnt og þétt á þessu tímabili. Vil ég í því sambandi nefna: Árið 1950 voru sett lög um lækkun skatta á lágtekjum. Árið 1954 var sparifé gert skattfrjálst. Árið 1954 voru sett ný skattalög og tekjuskattur annarra, en félaga lækkaður stórkostlega, eða um 29% að meðaltali. Fiskimenn fengu þá ný frádráttarhlunnindi og sömuleiðis giftar konur, sem leggja í kostnað vegna vinnu utan heimilis. 1956 var tekjuskattsviðauki félaga felldur niður. 1957 var enn lækkaður skattur á lágtekjum og aukinn skattfrádráttur til handa skipverjum á fiskiskipum.

Nú á þessu ári, 1958, var sett ný löggjöf um skattgreiðslur félaga, þar sem stighækkandi skattur á þeim var afnuminn, en lögfest jafnt skattgjald af skattskyldum tekjum félaganna. Í reyndinni verða þessi nýju skattalög stórfelldur stuðningur við atvinnureksturinn í landinu. Þá var enn á þessu ári lækkaður skattur á lágtekjum og aukinn sérstakur frádráttur fiskimanna, enn fremur leyfður meiri frádráttur á lífeyrissjóðsútgjöldum manna, en áður var. Loks var á þessu ári sett merk löggjöf um skattamál hjóna, þar sem sérákvæði eru lögleidd, þegar svo stendur á, að bæði hjónin vinna fyrir skattskyldum tekjum. Er hér um réttlætismál að ræða, sem vandasamt var að finna heppilega lausn á. Er það von mín, að sú lausn, sem varð á þessu ári, reynist sanngjörn og réttmæt. Talið var af mörgum, að gamla löggjöfin væri farin að koma í veg fyrir stofnun hjúskapar, þegar svo stóð á, að bæði hjónaefnin höfðu hugsað sér að afla skattskyldra tekna. Hafi svo verið, þá vona ég, að nú fjölgi farsælum hjónaböndum.

Oft og að vonum er rætt um nauðsyn þess að búa vel að fiskimönnum í skattalegu tilliti. Mér þykir því rétt að gefa eftirfarandi yfirlit um þróun þeirra mála á þessu tímabili. Er þá miðað við skattgreiðslur fiskimanna árin 1940–50 annars vegar, en á hinn bóginn skattgreiðslur fiskimanna samkvæmt nýsettri löggjöf. Er þá miðað við fiskimann, sem er kvæntur og með tvö börn á framfæri og er á sjó 10 mánuði ársins og er það raunar mikið úthald. Samanburðurinn er þessi:

Ef um 40 þús. kr. tekjur er að ræða, var tekjuskattur eftir gamla laginu 826 kr., en nú enginn.

Ef um 50 þús. kr. tekjur var að ræða, var tekjuskattur eftir gamla laginu 1.523 kr., en núna 107 kr. Lækkun 1.416 kr.

Ef um 60 þús. kr. tekjur er að ræða, var tekjuskatturinn 2.702, en er nú 289 kr. Lækkun 2.413 kr.

Ef um 70 þús. kr. tekjur er að ræða, var tekjuskatturinn 5,411 kr., en er núna 1.086. Lækkun 4.325.

Ef um 80 þús. kr. tekjur er að ræða, var skatturinn 9.483 kr., er núna 1.757 kr. Lækkun 7.726 kr.

Ef um 100 þús. kr. tekjur er að ræða, var skatturinn 18.283, er núna 4.393. Lækkun 13.890 krónur.

Ef um 120 þús. kr. var að ræða, var skatturinn 28.437, er núna 8.999, eða lækkun 19.438. Eins og fram kemur af framansögðu, hafa beinir skattar til ríkissjóðs verið lækkaðir stórkostlega á þessum árum, enda orðnir lágir, eða alls engir á lægri tekjum. Tel ég samt sem áður, að keppa ætti að því að lækka tekjuskattinn enn meira og leita heldur annarra ráða í staðinn.

Framlög ríkissjóðs til framkvæmda og þjónustu í ótal greinum hafa verið aukin stórkostlega á þessu tímabili. Hagur ríkissjóðs hefur samt batnað og miklu fé verið úthlutað af greiðsluafgangi til stuðnings almennri lánastarfsemi. Það er því óhugsandi annað, en óbeinar álögur hafi aukizt til þess að vega á móti lækkun beinna skatta og stórfelldum nýjum lögboðnum útgjöldum. Þar hafa þessar breytingar orðið helztar:

Til lækkunar: Kaffi- og sykurtollur var afnuminn 1952. Veitingaskattur var afnuminn 1954. Tollar af iðnaðarhráefnum voru lækkaðir 1954. Söluskattur í smásölu var afnuminn 1956.

Til aukningar ríkistekjum í krónutali hafa þessar ráðstafanir orðið: Bifreiðaskattur, stimpilgjald, aukatekjur, vörumagnstollur og gjöld af innlendum tollvörutegundum, en þessi gjöld eru miðuð við magn, en ekki verðmæti, hafa verið hækkuð í krónutölu, en hvergi meira, en sem svarar almennri verðhækkun í landinu og í ýmsum dæmum minna. Söluskattur álagður við innflutning var árið 1951 hækkaður úr 6.6% í 7.7%. Verðtollsviðauki var hækkaður úr 65% í 80% árið 1956. Dýrtíðargreiðslur voru færðar yfir á útflutningssjóð 1958. Yfirfærslugjald bættist inn í tollverð vara á þessu ári.

Niðurstöður af athugunum á ríkisbúskapnum 1949–57 verða þessar að mínu viti:

1) Alþingi hefur á þessum árum sett margvíslega nýja löggjöf um nýja þjónustu til handa almenningi og atvinnulífi landsins og stóraukið árlega framlög til verklegra framkvæmda. Eru þannig m. a. nýtilkomnir á þessu tímabili sumir af stærstu útgjaldaliðum fjárlaganna, eins og ég benti á áðan.

2) Beinir skattar hafa verið lækkaðir stórkostlega og með margvíslegu móti.

3) Óbeinir skattar hafa á hinn bóginn verið hækkaðir til þess að mæta lækkun beinna skatta og standa undir kostnaði við hina nýju þjónustu.

4) Hagur ríkissjóðs hefur batnað á þessu tímabili, skuldir að frádregnum innstæðum lækkað þrátt fyrir stórkostlega almenna verðhækkun á þessum árum og hrein eign ríkissjóðs meira, en fjórfaldazt að óbreyttu mati fasteigna.

5) Af greiðsluafgangi hefur á þessum árum verið ráðstafað með sérstökum lögum á annað hundrað millj., og hefur það fé orðið undirstaða margháttaðra framfara.

Mundi hafa verið ólíkt um að lítast nú í sveitum og sjávarplássum landsins, ef ríkissjóður hefði ekki verið þess megnugur að leggja fram til lánsstofnana stórfé aukalega af afgangi á þessum árum. Þetta fé hefur orðið undirstaða byggingar og ræktunar í sveitum, bátakaupa og íbúðarhúsabygginga í kauptúnum og kaupstöðum.

Ég vil þá fara nokkrum orðum um ýmsar meiri háttar fjárfestingarframkvæmdir, sem ríkið hefur afskipti af beint og óbeint og öflun fjár í því sambandi.

Eins og alþjóð er kunnugt, tókst að afla erlends lánsfjár fyrir miklum hluta af kostnaði við Sogsvirkjunina nýju, en hún er eitt hið mesta mannvirki, sem Íslendingar hafa ráðizt í. Þegar ég ræddi það mál síðast á Alþingi, var þó ekki búið að fá fjármagn til þess að standa undir öllum kostnaðinum. Hefur nú tekizt að afla til viðbótar enn nokkurs lánsfjár í Bandaríkjunum til þess að standa undir innlendum kostnaði við virkjunina. Þó er eftir að afla verulegra fjármuna enn til þess að standa undir innlendum kostnaði. Hefur ekki tekizt að ráða fram úr því til fulls enn þá. Er það til marks um, hve erfitt er að afla fjár hér innanlands til þess að standa undir stórum framkvæmdum, að þetta skuli ekki enn hafa tekizt. Er verið að reyna að finna leiðir í málinu. Mun ég ekki ræða það frekar að sinni.

Mestu máli skiptir þó, að Sogsvirkjunin er tryggð þrátt fyrir allt með hinum stórfelldu erlendu lántökum, sem um hefur verið samið.

Á þessu ári hefur verið tekið lán í Bandaríkjunum að fjárhæð sem svarar tæplega 82 millj. ísl. kr. og annað lán í Vestur-Þýzkalandi samsvarandi tæplega 33 millj. ísl. kr. Nema þessi lán samtals um 114 millj. Þessi fjárhæð hefur verið notuð til þess að standa undir stofnkostnaði sementsverksmiðjunnar og raforkuframkvæmdum dreifbýlisins, enn fremur til þess að lána ræktunarsjóði og fiskveiðasjóði. Fór allt þetta fé til þess að mæta fjárþörf þessara stofnana á árinu 1957. Hafa þessar lántökur haft mjög mikla þýðingu fyrir þjóðarbúskapinn.

Eins og ég greindi frá í fjárlagaræðu minni í fyrra, þurfti á miklu fjármagni að halda í þessu skyni og fyrirsjáanlegt, að ef ekki ætti að verða stöðvun á framkvæmdum í ræktun og byggingum í sveitum, á báta- og skipakaupum, raforkuframkvæmdum í dreifbýlinu og byggingu sementsverksmiðjunnar, mundi þurfa stórfé bæði vegna kostnaðar 1957 og einnig á þessu ári til þessara framkvæmda og stofnana. Var alveg óljóst þá, hvernig hægt mundi verða að ráða fram úr þessu.

Nú er þess á hinn bóginn að geta, að þegar nýju efnahagsráðstafanirnar voru gerðar s. l. vor, var ákveðið að greiða 55% yfirfærsluuppbót á mestallan gjaldeyri, sem inn kæmi og ekki ætti rétt til hærri uppbóta samkvæmt ákvæðum laganna.

Þegar þessi nýju lög komu í gildi, var ekki búið að færa heim þetta erlenda lánsfé, þótt búið væri að lána út á það fyrir fram hér innanlands til þess að styðja þær stofnanir og framkvæmdir, sem ég nefndi. Þetta þýðir, að á þetta lánsfé koma yfirfærsluuppbætur á þessu ári. Það drýgist í meðförunum hér innanlands um nálega 62 millj. kr.

Þótt fresta yrði nokkrum raforkuframkvæmdum, sem fyrirhugaðar voru, vegna fjárskorts, verður unnið að raforkuframkvæmdum í dreifbýlinu á þessu ári meira, en nokkru sinni fyrr. Vantar mikið fé til þess að ná þar saman endunum, m. a. vegna þess, að halda varð áfram byggingu aflstöðvar fyrir austan og vestan með fullum hraða.

Haldið var áfram með sementsverksmiðjuna, enda ekki um annað að ræða, þar sem stórtjóni hefði valdið, ef ekki hefði verið hægt að ljúka henni. Hefur það kostað verulega fjármuni umfram það, sem búið var að afla. Nú er þetta glæsilega fyrirtæki á hinn bóginn komið af stað. Framleiðslan gengur ágætlega og er drjúgt innlegg í þjóðarbúið.

Bygging útihúsa og ræktun hefur haldið áfram með jöfnum hraða og haldið hefur verið áfram bátakaupum með eðlilegum hætti, en ræktunarsjóð og fiskveiðasjóð vantar fé til þess að geta staðið undir stofnlánum. Þarf því stórfé til þess að leysa þessi mál enn sem fyrr. Of snemmt er að fullyrða, hvernig verður ráðið fram úr þessum vanda í einstökum atriðum, þ. e. aflað fjár til þess að greiða til fulls stofnkostnað raforkumálanna, stofnkostnað sementsverksmiðjunnar og fullnægja á svipaðan hátt og áður nú um sinn útlánaþörf ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs.

Augljóst er, að grípa verður til þessara rúmlega 62 millj. kr. í því sambandi, sem hin erlendu lán drýgjast um vegna nýju laganna. Ekkert verður um það fullyrt, hvort hægt verður með því að leysa þessi mál til fulls eða ekki, þar sem ekki er hægt að segja í dag með neinni nákvæmni, hvað til muni þurfa.

Ástæða er til að vekja athygli á því, að ráðstafanir þær í efnahagsmálum, sem gerðar voru á s. l. vori, hafa forðað frá stórfelldum samdrætti framkvæmda í öllum þessum greinum, eins og augljóst má verða af því, sem ég þegar hef sagt, því að eigi verður séð, hvernig hægt hefði verið að afla fjár til þeirra, ef þessar ráðstafanir hefðu ekki komið til.

Það er svo annað mál, hvernig unnt verður að afla fjár til þessara mála á næsta ári og næstu árum. Sementsverksmiðjunni er að vísu lokið, en þó er eftir að byggja þar pökkunarstöð. En þá eru það togarakaupin, raforkuáætlunin, ræktunarsjóður og fiskveiðasjóður og svo hafnargerðir, sem ríkisstj. hefur lýst yfir að gangi næst þessum framkvæmdum í sambandi við útvegun erlendra lána. Mun ég ekki ræða þau mál frekar hér að sinni.

Þá er þess að geta, að samningar hafa verið gerðir um viðauka við viðskipta- og greiðslusamninginn við Sovétríkin, að þau greiði út af vöruskiptareikningi Íslands um 50 millj. kr. og auki yfirdrátt á þeim reikningi sem því svarar. Er þetta andvirði hinna 12 stóru fiskiskipa, sem nú fara senn að koma fullsmíðuð frá Austur-Þýzkalandi. Fé þetta á að endurgreiðast á 12 árum með 2½% vöxtum.

Full ástæða er til þess að minna á, að á þessu ári hefur merkum áföngum verið náð í framkvæmdum ríkisins.

Sementsverksmiðja ríkisins er farin að framleiða. Frá upphafi Íslandsbyggðar hefur það verið einn veikasti hlekkurinn í þjóðarbúskapnum, að sækja hefur þurft meginhluta hins varanlega byggingarefnis til annarra landa. Má nærri geta, hvílíkur fjötur þetta hefur verið þjóðinni um fót alla tíð. Það verður því að teljast með merkari atburðum í atvinnusögu landsins, að sementsverksmiðju hefur verið komið á fót og að nú er hægt að framleiða innanlands úr innlendum hráefnum þetta höfuðefni til margháttaðra framkvæmda. Er rík ástæða til þess að fagna þessum mikla sigri.

Þá er rétt að minna á, að á þessu ári hefur einnig verið lokið við að byggja tvö mikil raforkuver, annað fyrir austan og hitt fyrir vestan, Grímsárvirkjun og Mjólkárvirkjun. Á Grímsárvirkjun að framleiða 2.800 kw. og Mjólkárvirkjun 2.400 kw. Eiga þessar stöðvar ásamt varastöðvum í sambandi við þær að sjá fyrir nægilegri raforku í þessum landshlutum og í báðum héruðunum eru miklir möguleikar til þess að auka framleiðslu raforku, eftir því sem reynslan sýnir þörf á.

Bygging þessara aflstöðva veldur tímamótum í þessum byggðarlögum. Verður unnið að því bæði þar og annars staðar að leggja línur út frá aflstöðvunum, eftir því sem fjármagn og aðstaða leyfir. Er að sjálfsögðu nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að slíkt verður að gera í áföngum og óhjákvæmilega á löngum tíma, því að þess er enginn kostur, að við það verði ráðið með öðrum hætti.

Er ánægjulegt að minnast þess, hversu stór skref þegar hafa verið stigin á örstuttum tíma í raforkumálum dreifbýlisins. En óhjákvæmilegt er um leið að minna á, að þessi risaskref hafa reynt mjög á þjóðarskútuna og fjáröflun verið ákaflega erfið.

Ég efast um, að við gerum okkur hversdagslega grein fyrir því, hvílík risaskref stigin hafa verið nú síðustu missirin í raforkumálum dreifbýlisins. Nú í árslokin var búið að verja til áætlunarinnar 371 millj. Til samanburðar má geta þess, að sú fjárhæð svarar til samanlagðs stofnkostnaðar beggja virkjananna við Sogið, Írafossvirkjunarinnar og þeirrar nýju, sem nú er í smíðum og vel það. En Sogsvirkjanirnar eru hvor um sig stærstu og dýrustu mannvirki, sem Íslendingar hafa ráðizt í, hvor um sig enn þá meira mannvirki en áburðar- og sementsverksmiðjan. Hér hefur því ekki verið um neitt smáátak að ræða í raforkumálum dreifbýlisins.

Á þessu ári einu verður varið 113 millj. kr. í áætlunina og er það miklu hærri fjárhæð, en nokkru sinni verður á einu ári varið til Sogsvirkjunarinnar, sem nú er í smíðum.

Þetta verða menn að vita sem gleggst til þess að geta metið það, sem er að gerast. Það er augljóst, að það er ekki mögulegt að fara jafnhratt á næstunni í þessum málum og gert hefur verið um sinn, ómögulegt að útvega svo mikið fjármagn. En áfram verður að sækja sem djarflegast, því að þörfin er mikil.

Þá er þess að minnast, þegar um framkvæmdir er rætt og yfir því að gleðjast, að á næstu mánuðum bætast í fiskiskipaflotann 12, 250 smálesta fiskiskip, hið fyrsta eftir nokkra daga og svo hvert af öðru. Verða þessi glæsilegu skip myndarleg viðbót við flotann og munu dreifast víðs vegar um landið. Verið er að vinna að kaupum stórra togara og fjáröflun í því skyni.

Þegar minnzt er á þau stórvirki, sem verið er að vinna og ræða um fjáröflun til þeirra, hlýtur mönnum að koma í hug það, sem kalla mætti kímnihlið þessara mála. Reynt hefur verið að útvega lánsfé til framkvæmda, eftir því sem hægt hefur verið. Þegar byrjað er á framkvæmdum eða þegar þeim er lokið, gera menn sér oft dagamun og halda þá ræður. Á þessum tyllidögum eru skuldirnar, sem stofnað er til vegna framkvæmdanna, kallaðar lán og útgjöldin, sem þær valda, kölluð fjárveitingar. Þykist þá hver mestur, eins og gengur, sem með einhverju móti getur talið sig hafa verið riðinn við að útvega lán eða fjárveitingar. Keppir þar hver við annan og er af því öllu mikil saga. En á virkum dögum horfir þetta dálítið öðruvísi við. Þá heita lánin bara skuldir og fjárveitingarnar útgjöld og þá þarf ekki að fara í grafgötur um, hver það er, sem stofnað hefur til skuldanna og útgjaldanna. Það er ólíklegt annað, en að mörgum finnist sumt af því, sem um þetta er ritað, góður viðauki við kímnibókmenntir þjóðarinnar, enda raunar engin vanþörf á því í sjálfu sér að auka við þær, því að í þeim efnum höfum við oft búið við nokkra fátækt. Er því sérstök ástæða til þess að gleðjast yfir því, að ýmsir leggja sig svo fram þeim til eflingar og ekki minnkar skemmtigildi þessa ritaða máls neitt við það, þótt því sé víst ekki öllu beinlínis ætlað að lenda í þeirri bókmenntagrein. Þvert á móti mætti segja, að það geri þetta mál allt saman enn kátlegra og auki á skemmtan þá, sem af því má hafa, ef það er skoðað í réttu ljósi.

Ég vil nota tækifærið til þess að rifja það upp, sem áður hefur komið fram, að nú hafa á tveimur árum verið tekin opinber lán erlendis, sem nema samtals um 351 millj. ísl. kr. Er þá ekki talið með lán, sem Flugfélag Íslands hefur tekið, 33 millj. til flugvélakaupa, og ekki andvirði austur-þýzku skipanna tólf, enda ekki byrjað að draga á viðskiptareikning okkar í Sovétlýðveldunum þeirra vegna, þótt samið hafi verið um það, eins og ég greindi frá áðan. Opinberu lántökurnar sundurliðast þá þannig:

Bandarískt lán 65.3 millj. kr. til ræktunarsjóðs, raforkusjóðs, fiskveiðasjóðs og sementsverksmiðjunnar.

Vestur-þýzkt lán 17.6 millj. kr. til flökunarvélakaupa.

Vestur-þýzkt lán 6.7 millj. kr. til Akraneshafnar.

Bandarískt lán 81.6 millj. kr. til Sogsvirkjunar og raforkusjóðs.

Bandarískt lán 36.4 millj. kr. vegna Sogsvirkjunarinnar.

Bandarískt lán 81.6 millj. kr. til raforkusjóðs, sementsverksmiðju, ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs.

Vestur-þýzkt lán 32.9 millj. kr. til raforkusjóðs, sementsverksmiðju, ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs.

Bandarískt lán 27.7 millj. kr. til Sogsvirkjunarinnar og rafmagnsveitna ríkisins.

Og loks svissneskt lán 1.9 millj. kr. til frystihúsa og fleiri framkvæmda.

Samtals er þetta 351 millj. kr.

Talsvert hefur verið rætt fram og aftur um þessa lántöku, eins og gengur og sumt af því býsna kátlegt. Stundum hefur því verið haldið fram, að núverandi ríkisstj. ætti ekki aðgang að nógu miklu lánsfé og ekki eins miklu lánsfé og aðrir hefðu átt aðgang að. Síðan er í sömu andránni talað um hina stórhættulegu skuldasöfnun erlendis og eyðslulán í því sambandi.

Ég hef nú gert grein fyrir því, hverjar þessar lántökur eru og til hvers fénu hefur verið varið. Væri mjög æskilegt, að þeir, sem talað hafa og tala um hættulegar lántökur og eyðslulán, gerðu grein fyrir því, hverjar af þessum framkvæmdum, sem ég hef getið í sambandi við lántökurnar, þeir telja til eyðslu.

Ég hef bent á undanfarið, að þessar lántökur eru óvenjulega stórfelldar og að við getum ekki gert ráð fyrir því að taka á næstunni svo há erlend lán, jafnvel til svo nauðsynlegra framkvæmda.

Rifjast upp í þessu sambandi okkar aðaláhyggjuefni og höfuðhætta í efnahagsmálum, hin litla lánsfjármyndun innanlands. Kemur þar margt til greina. Fólk vill ekki leggja fyrir fjármuni sína vegna verðbólguhættunnar, en vill festa allt fé strax í því, sem kallað er raunveruleg verðmæti. Sé ég ekki annað, en við verðum að fara í vaxandi mæli inn á þá braut að verðtryggja sparifé, ef ekki fæst samkomulag um að hverfa frá vísitölukerfinu í kaupgjalds- og afurðamálum. Yrði þá líka að setja vísitöluákvæði á lánsfé, a. m. k. á lánsfé til lengri tíma.

Hér kemur einnig til, hversu erfitt stofnunum og fyrirtækjum hefur verið gert að eignast fjármagn. Er þar gleggsta dæmið um Sogsvirkjunina, sem er í raun og veru með lögum bannað að eignast nokkurn eyri og getur þess vegna aldrei byggt sig upp eða aukið af eigin rammleik að óbreyttum lögum. Er þar þó um að ræða eitt hið mesta fyrirtæki landsins. Afleiðingin er, að alltaf þegar þarf að auka raforkuframleiðsluna, verður að byggja allt á lánum og ef þau fást ekki í tæka tíð, þá er voðinn vís. Þessu þarf að breyta, að sínu leyti eins og skattalögunum var breytt á síðasta þingi, til þess að auðvelda eðlilega fjársöfnun fyrirtækja og félagssamtaka.

Vaxandi lífeyrissjóðir og tryggingasjóðir geta orðið öflug undirstaða fjársöfnunar, enda séu slíkir sjóðir byggðir á raunverulegri fjársöfnun. Atvinnuleysistryggingasjóður hefur þegar orðið mikil lyftistöng í þessu tilliti, auk þess sem hann er ómetanleg trygging fyrir verkafólk. Lífeyrissjóður togarasjómanna hefur verið stofnaður,og hann er byggður á fjársöfnun. Vil ég í þessu sambandi leyfa mér að minna á þáltill., sem framsóknarmenn fluttu á Alþingi 1956 um að athuga möguleika á því að byggja upp lífeyrissjóð þeirra stétta, sjómanna, bænda, verkamanna og annarra, sem ekki njóta lífeyristrygginga hjá sérstökum lífeyrissjóðum. Síðan hefur lífeyrissjóður togaramanna verið settur upp og hillir undir fleiri. Þannig þarf að halda áfram.

En verði vísitölukerfið notað áfram á sama hátt og verið hefur og verðbólguhjólið þar með látið snúast áfram, þá verður að setja verðtryggingu á innstæður og útlánafé slíkra sjóða og annan hliðstæðan sparnað. Menn hljóta að sjá þann bráða voða, sem af því hlýtur að stafa, ef áfram á að velta verðbólguhjólinu og allir eiga að fá sinn hlut bættan jafnóðum nema þeir einir, sem leggja fé til hliðar í lánsstofnanir eða í tryggingasjóði til ellinnar.

Áður en ég kem að sjálfu fjárlagafrv., mun ég fara fáeinum orðum um ástandið almennt í atvinnu- og efnahagsmálum.

Það er kunnara en upp þurfi að rifja, að allt frá því á stríðsárunum og sérstaklega frá 1942 hefur verið varanlegt verðbólguástand, þó nálgaðist jafnvægi í þjóðarbúskapnum um tveggja ára skeið. Þegar núv. ríkisstj. tók við 1956, var þannig ástatt, að framleiðslan bjó við stórfellt uppbótakerfi, vísitöluskrúfan var í fullum gangi, gífurlegur halli fyrirsjáanlegur fram undan á öllum atvinnurekstri og ríkisbúskap.

Ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hlutu að gera ráðstafanir þegar haustið 1956 til þess að halda framleiðslunni gangandi. Varð ofan á að lappa upp á gamla uppbótakerfið, en breyta þó nokkuð til. Náðist samkomulag við launastéttirnar og framleiðendur um að falla frá hækkun á kaupgjaldi og verðlagi, sem svaraði 6 stigum í vísitölu og dró það mjög úr veltu verðbólguhjólsins um stund. Mun víst enginn hafa séð eftir því, að þetta var gert, eða talið tjón af því, nema þá stjórnarandstæðingar, sem reyndu að spilla því, að þetta samkomulag næðist.

Ekki var búizt við því, að ráðstafanirnar haustið 1956 gætu valdið stefnuhvörfum. Kom það einnig í ljós s. l. haust, þegar yfirlit náðist um afkomuhorfur framleiðslunnar og þjóðarbúskapinn, að tekjur til þess að standa undir uppbótum og ríkisbúskap höfðu verulega brugðizt vegna aflabrests og sakir þess, að of mikið var treyst á tekjur af innflutningi miður nauðsynlegra vara. Varð þá augljóst, einnig vegna aukins framleiðslukostnaðar, að enn varð að gera nýjar ráðstafanir, ef framleiðslan og þjóðarbúskapurinn ættu að geta gengið hindrunarlaust. Var gerð mikil úttekt á þessum málum öllum. Sýndi sig við þá álitsgerð, sem færir hagfræðingar gerðu, að til viðbótar þurfti enn að bæta stórkostlega hlut framleiðslunnar. Sýndi það sig, að afla hefði þurft 200–300 millj. kr. nýrra tekna til þess að geta haldið áfram með gamla laginu.

Jafnframt þessu varð æ ljósara, að stórfelldar hættur fylgdu uppbótakerfinu í þeirri mynd, sem það var þá. Uppbætur voru ákaflega misjafnar til einstakra atvinnugreina og sumar urðu að búa við nær engar eða jafnvel engar uppbætur. Misræmið í verðlagi var af þessum sökum orðið óbærilegt og stórfelld hætta á því, að einstakar þýðingarmiklar greinar þjóðarbúskaparins drægjust saman eða vesluðust upp með öllu vegna þessa ósamræmis. Átti þetta bæði við einstakar greinar útflutningsframleiðslunnar og ekki síður einstaka þætti iðnaðarins og margvíslega þjónustu. Má þar nefna siglingar, skipasmíðar, járniðnað og svo mætti lengi telja þær atvinnugreinar, sem þrengt var að með gamla uppbótakerfinu. Það var því enn ljósara en nokkru sinni fyrr, að óhugsandi var að halda þannig áfram.

Eftir miklar athuganir, eins og gerist og gengur, varð ofan á að fara nýjar leiðir, án þess þó að kasta fyrir borð öllum framleiðsluuppbótum. Höfuðatriði þessarar nýju leiðar var að lögfesta 55% yfirfærslugjald með nokkrum undantekningum, greiða uppbætur framvegis á allan útflutning og nær allar gjaldeyristekjur, nokkuð mismunandi þó, en miklu jafnari en áður hafði tíðkazt.

Segja má með fullum sanni, að með þessu hafi í raun réttri verið stigið skref út úr uppbótakerfinu. Með þessu var mörgum framleiðslu- og atvinnugreinum bjargað frá samdrætti og stöðvun og þjóðinni frá þeim voða, að tekjur hennar drægjust stórlega saman og lífskjörin versnuðu vegna hins gífurlega ósamræmis, sem farið var að kreppa ískyggilega að einstökum greinum.

Þessar ráðstafanir voru mjög til hagsbóta framleiðslunni yfirleitt, enda hefur hún víst sjaldan verið rekin af meira fjöri, en síðan þessi nýju lög voru sett. Benti ég á það rækilega í fyrravetur og margir aðrir, að hvað sem öllu öðru liði, þá væri þessi breyting svo þýðingarmikil og bjargaði frá svo bráðum voða, að hennar vegna væri sú úrlausn, sem þá var gerð, merkilegt nýmæli og þess verð, að fyrir henni væri barizt. Mundi þessi þáttur málsins halda gildi sínu, jafnvel þótt verðbólguhjólið sjálft yrði látið velta áfram og öðruvísi kynni að fara um önnur atriði málsins, en til var ætlazt, þegar ráðstafanirnar voru gerðar.

Á hinn bóginn var það augljóst, að öllum ráðstöfunum, sem til greina gátu komið, hlutu að fylgja verulegar verðhækkanir. Jafnvel þeirri leið að skipta um mynt og lækka allar tölur hlutu einnig að fylgja verðhækkanir í hlutfalli við gjaldeyrisverð, kaupgjald og innanlandsverðlag.

Almenn gagnrýni stjórnarandstæðinga út af verðhækkunum í sambandi við nýjar ráðstafanir í þessu efni hefur því aldrei verið annað en markleysa. Augljóst mál er, að þótt þeir hefðu átt málum að skipa, hefðu aldrei getað orðið minni verðhækkanir, en efnahagslögin gerðu ráð fyrir, en væntanlega miklu meiri hækkanir, ef nokkuð er að marka tal þeirra um, að í stað þeirra ráðstafana, sem gerðar voru, hefði átt að stíga alla leið út úr uppbótakerfinu í einu skrefi. En því hefðu fylgt miklu meiri verðhækkanir, en urðu í sumar. Raunar dettur víst engum með óbrjálaða dómgreind í hug, að þeir hafi búið yfir nokkrum heppilegri úrræðum eða haft nokkra minnstu möguleika til þess að hafa sterkari hemil á þessum málum, en raun hefur á orðið og því máske óþarft að minna á þetta.

Ráðstafanir í efnahags- og framleiðslumálum á s. l. vori voru miðaðar við, að uppbæturnar mundu duga framleiðslunni og fjáröflunin ríkisbúskapnum, ef grunnkaup almennt hækkaði um 5%, eins og lögfest var sem einn þáttur í málinu. Jafnframt var greinilega tekið fram, að hækkaði grunnkaup almennt meira, mundi það kalla á nýjar ráðstafanir vegna framleiðslunnar. Á móti þessari 5% kauphækkun var 9 stiga hækkun á vísitölunni látin niður falla við mælingu á kaupgjaldi og afurðaverði.

Hagfræðingar þeir, sem skoðuðu efnahagsmálin s. l. haust á vegum stjórnarvaldanna, athuguðu um leiðir til jafnvægis í þjóðarbúskapnum og til þess að stöðva verðbólguhjólið. Þeir komust að þeirri niðurstöðu, sem raunar var í samræmi við það, sem áður hafði komið fram, að á meðan sá háttur væri á hafður að hækka kaupgjald og afurðaverð sífellt á víxl í fullu samræmi við hækkun framfærsluvísitölunnar, án tillits til ástandsins að öðru leyti, væri alveg vonlaust, að verðbólguhjólið yrði stöðvað. Það væri alveg sama, til hvaða úrræða gripið væri til þess að koma á samræmi, hvort byrjað væri með gengislækkun, niðurfærslu eða uppbótum, allt bæri að sama brunni. Verðbólguhjólið hlyti að velta áfram, á meðan vísitalan eða spólan, eins og hún hefur stundum verið kölluð, væri notuð á sama hátt og verið hefur, sem mælikvarði. Af slíku hlyti að leiða sífelldar víxlhækkanir, sem engum kæmu til góða, en hefðu í för með sér áframhaldandi verðbólguþróun. Allt var þetta mjög til umræðu s. l. vetur og vor og hefur verið síðan.

Í sambandi við setningu efnahagslaganna í vor var því bent á, að brýna nauðsyn bæri til, að vísitölustefnan í kaupgjalds- og verðlagsmálum yrði endurskoðuð á þessu ári, áður en til þess kæmi, að fyrirsjáanlegar vísitöluhækkanir vegna hinna nýju ráðstafana væru farnar að hafa áhrif til hækkunar á kaupgjald og verðlag á víxl. Var gert ráð fyrir því og er enn, að þessi mál yrðu tekin til meðferðar sérstaklega á þingi Alþýðusambandsins í haust.

Með öðrum þjóðum hefur hinn vélræni víxlgangur í þessum efnum yfirleitt verið stöðvaður, en stefnan í kaupgjalds- og verðlagsmálum byggð á samningum og reynt að sæta lagi, þannig að almennar kauphækkanir séu gerðar í samræmi við framleiðsluaukningu í þjóðarbúinu og skili þannig raunverulegum kjarabótum. Eru þá vísitölur um framfærslukostnað einnig hafðar til hliðsjónar að sjálfsögðu.

Í mörgum löndum hefur verið komið upp öflugum hagdeildum stéttasamtaka, atvinnurekenda og ríkisvaldsins, sem hver um sig skoðar þróun framleiðslumálanna ofan í kjölinn og leiðbeinir stjórnum stéttasamtakanna og stjórnarvöldum um það, hvaða ákvarðanir muni gefa bezta raun.

Enda þótt ráðstafanir í efnahagsmálum væru á síðasta ári miðaðar við 5% almenna kauphækkun og gert ráð fyrir því, að stefnan í kaupgjaldsmálum og verðlagsmálum yrði endurskoðuð, hefur reyndin orðið sú, að kauphækkanir í landinu hafa orðið miklu meiri. Hefur risið almenn hækkunaralda og kaupgjald almennt hækkað verulega umfram þessi 5%. Hafa mörg stéttarfélög talið, að þau væru að leita samræmis með þessum breytingum, og vafalaust sum haft rétt fyrir sér í því. En hvað sem því líður, hefur niðurstaðan orðið almenn kauphækkun og þar með almenn verðhækkun langt umfram það, sem hægt er að gera ráð fyrir að útflutningsframleiðslan geti undir staðið með núverandi verðlagi og uppbótum.

Ég ætla ekki að rekja hér einstök atriði þessara mála, en aðeins geta þess, að vitaskuld hefur það haft mikil áhrif á allan gang þeirra, að úr þeim pólitísku herbúðum, sem fjöldi atvinnurekenda í landinu hefur verið talinn halda sig í, hefur það verið óspart látið út ganga, að ekki væri óeðlilegt, að leitað væri eftir kauphækkunum og það enda þótt vitað væri, að framleiðslan gæti ekki staðið undir þeim. Engum dettur í hug, að þessu og þvílíku hafi ráðið umhyggja fyrir kjarabótum þeirra, sem hér eiga hlut að máli, þegar þess er gætt, að úr þessum sömu herbúðum hefur á undanförnum árum verið lögð megináherzla á að sýna fram á, að almennar kauphækkanir, sem framleiðslan gæti ekki staðið undir án nýrra hjálparráðstafana, væru verri, en gagnslausar fyrir þá, sem laun taka og væru þeim til tjóns eins og ófarnaðar.

En það gefur auga leið, hvernig til muni takast varðandi jafnvægið í efnahagsmálum, þar sem einn hinn veigamesti þáttur þeirra mála, stefnan í kaupgjaldsmálum, er látinn á vald félagssamtaka án íhlutunar ríkisvaldsins, þegar svona vinnubrögð eru viðhöfð.

Engum getur dulizt, vegna þess hve öll þessi mál og samhengi þeirra var upplýst í fyrravetur, að verulegar almennar hækkanir á kaupi og þar af leiðandi hækkanir á verðlagi umfram þau 5%, sem lögfest voru, hljóta að hafa í för með sér nýjar ráðstafanir vegna framleiðslunnar, hækkanir á yfirfærslugjaldi og útflutningsuppbótum eða þá aðrar nýjar ráðstafanir hliðstæðar. Verði svo engin breyting gerð á notkun vísitölunnar við mælingu kaupgjalds og afurðaverðs, verða hinar nýju ráðstafanir þeim mun stórfelldari.

Ég skal engu spá um, hver niðurstaða verður þeirra athugana, sem nú fara fram á næstunni innan stéttasamtakanna og annars staðar um þessi miklu vandamál. En augljóst mun öllum, að í þessu efni þarf endurskoðunar við. Það mun ósk allra góðviljaðra manna, að það takist að finna heppilegri leiðir en þær, sem farnar hafa verið undanfarið.

Það hefur margoft verið bent á og er ástæða til að rifja það upp enn, að hjá okkur er ekki til neitt sterkt miðstjórnarvald í efnahagsmálum fremur en í öðrum löndum, sem byggja á svipuðum stjórnarháttum og við. Alþingi og ríkisstj. fjalla um ríkisbúskapinn sjálfan. Bankarnir hafa með höndum útlánastarfið. En sumir hinir veigamestu þættir þessara mála eru alls ekki í höndum ríkisins eða ríkisstofnana, svo sem ákvarðanir um kaupgjald og afurðaverð, en eru í höndum atvinnurekenda og stéttasamtakanna.

Stéttasamtökunum er því ætlað mjög þýðingarmikið hlutverk í þjóðarbúskapnum. Þeim er beinlínis ætlað að eiga ríkan þátt í meðferð efnahagsmálanna með ákvörðun stefnunnar í launamálum.

Engum getur dulizt, að stéttasamtökin eiga hér hjá okkur talsvert erfitt með að gegna þessu hlutverki. Kemur þetta af því, hversu þau eru sett saman af miklum fjölda félaga. Mörg þessara félaga hafa sýnilega mikla tilhneigingu til þess að fara alveg sínar eigin götur án tillits til heildarstefnu, og samkeppni milli stétta virðist afar mikil og afar hörð. Af þessu leiðir sífelldan skæruhernað í kaupgjaldsmálum, sem veldur launafólki ekki síður en öðrum miklum áhyggjum. Margvíslegt ósamræmi leiðir af þessu á ýmsar lundir. Vinnustöðvanir, þar sem í hlut eiga stundum tiltölulega fámennir hópar, valda stöðvun framleiðslunnar og miklu tjóni, fyrst og fremst þeim, sem ekki hafa fastar tekjur, en eiga afkomu sína undir því, að atvinnurekstur og framleiðslustarf gangi hrukkulaust með fyllsta hraða.

Ég er sannfærður um, að ekkert er nauðsynlegra nú í þjóðarbúskap okkar, en að stéttafélögin nái að styrkja sig og efla, að þeim auðnist að verða samstæð og sterk og fær um að setja sér ákveðna stefnu í kaupgjaldsmálum og framfylgja henni. Þetta er bókstaflega lífsnauðsyn, ef forðast á stórfellt tjón og ef nokkur von á að vera um að koma á jafnvægi til frambúðar í þjóðarbúskapnum.

Eftir því sem stéttasamtökin verða sterkari og samstæðari og ná betri tökum á því þýðingarmikla hlutverki, sem þeim er ætlað að vinna í þjóðarbúskapnum, eftir því munu þau reynast félagsmönnum sínum farsælli tæki í kjarabaráttunni og eftir því munu þau reynast þjóðinni í heild þýðingarmeiri stofnanir. Þannig hefur þróunin orðið annars staðar og þannig mun hún einnig verða hér.

Ósamstæð og sundruð samtök, þar sem hver vinnur í samkeppni við annan, mun alls ekki geta orðið félagsmönnum sínum sú stoð, sem vera þarf og heldur ekki reynzt fær um að eiga jafnríkan þátt í heilbrigðri þróun þjóðarbúskaparins og slíkum samtökum verður að ætla í þjóðfélagi, sem byggir á félagafrelsi og samningafrelsi, en ekki á lagaboði né sterku ríkisstjórnarvaldi um ákvarðanir í kaupgjaldsmálum. Það sama á við um samtök hinna vinnandi framleiðenda í landinu, sem eru áhrifarík í verðlagsmálum. Hér þarf fyrst og fremst mikið starf í samtökunum sjálfum og engir vita það sjálfsagt betur en þeir, sem þar fylgjast bezt með og mestan áhuga hafa fyrir starfi þeirra.

En því bendi ég á þessi atriði hér, að þarna er um einn veigamesta þátt efnahagsmálanna að ræða og að þau mál geta aldrei þróazt á æskilegasta hátt, nema ríkisvaldið og félagavaldið í landinu stefni að sama marki, þ. e. að jafnvægi í þjóðarbúskapnum.

Í samráði við samtök stéttanna þarf m. a. að endurskoða þá löggjöf landsins, sem lýtur að þessum efnum og skoða vandlega, hvort eigi er mögulegt að endurbæta löggjöfina til stuðnings við farsæla lausn þessara mála.

Engar ýkjur eru það, að hjá okkur í þjóðfélagi hinna frjálsu félagasamtaka og hins dreifða valds eru efnahagsmálin í margra höndum og erfitt að samstilla kraftana, en á því er þó þjóðarnauðsyn. Og frelsið viljum við hafa. Ég kem þá, að fjárlagafrv. því fyrir árið 1959, sem hér liggur fyrir til umr.

Breytt er nokkuð niðurröðun efnis. Nokkur mál eru færð á milli greina. Breytingin miðar að því, að þau mál, sem fé er veitt til á hverri grein um sig, heyri undir sama ráðuneyti og að það verði meginregla, að allar fjárveitingar, sem heyra undir hvert ráðuneyti um sig, standi á sömu grein. Frá þessu verða lítils háttar undantekningar af sérstökum ástæðum, en þær raska ekki þessari heildarmynd. Tilætlunin með þessu er sú, að það verði skýrara í fjárlögunum, en áður hefur verið, undir hvaða ráðuneyti einstakir gjaldaliðir fjárlaganna falla. Með þessu móti kemur það skýrt fram, að hvert ráðuneyti um sig hefur sinn eigin fjárlagakafla, sem það annast framkvæmd á, enda á sá kafli fjárl. einnig að vera undirbúinn af hlutaðeigandi ráðuneyti og stofnunum þeim, sem undir það heyra, í samráði við fjmrn.

Í Danmörku og Svíþjóð er þessu þannig háttað, að útgjaldahlið fjárl. er skipt í greinar eftir ráðuneytum, þannig að hvert ráðuneyti sér um sína grein og ber þá auðvitað höfuðábyrgð á henni gagnvart fjmrn. og Alþ.

Með því að færa nú þannig til nokkur mál og málaflokka á frv., eins og ég hef frá greint, verður þetta í svipuðu formi hér framvegis. Er þetta beinlínis ætlað til þess að veita aukið aðhald í ríkisrekstrinum og stuðla að heilbrigðum metnaði hvers ráðuneytis um sig varðandi framkvæmd þess fjárlagakafla, sem undir það heyrir, bæði varðandi vandaðan undirbúning og framkvæmdina sjálfa.

Áætlanir fjárlagafrv. hafa verið miðaðar við kaupgreiðsluvísitöluna, sem í gildi var fram til 1. sept. Þetta hefur sætt nokkurri gagnrýni, og mun ég gera grein fyrir ástæðunum fyrir þessu.

Samkv. lögum um útflutningssjóð skyldi kaupgreiðsluvísitala haldast óbreytt, 183 stig, þangað til vísitala framfærslukostnaðar hefði hækkað upp í 200 stig. Þegar lögin voru samþykkt, var búizt við, að vísitala framfærslukostnaðar mundi ekki hækka upp í 200 stig fyrr en eftir 1. ágúst og mundi því kaupgreiðsluvísitalan ekki hækka fyrr en 1. des., en sú vísitala er reiknuð út á þriggja mánaða fresti.

Eins og fram var tekið í aths. um frv. um útflutningssjóð, var það fyrirsjáanlegt, að hækkun kaupgjalds umfram 5% mundi leiða til krafna um nýjar hækkanir útflutnings- og yfirfærslubóta. Segir um þetta í greinargerð efnahagsmálafrv. í fyrra: „Hækkun þeirra hefði í för með sér meiri hækkun á framfærsluvísitölunni og hún ylli svo á hinn bóginn æ nýrri hækkun á kaupgjaldi og afurðaverði og þannig koll af kolli.“ Í aths. um frv. um útflutningssjóð tók ríkisstj. einnig fram, að til þess að leysa þau efnahagsvandamál, sem hér er við að etja, væri „nauðsynlegt að taka sjálft vísitölukerfið til athugunar, þ. e. þá skipan, að allt kaupgjald og afurðaverð breytist sjálfkrafa með breytingu á framfærsluvísitölu.“ Var enn fremur lýst yfir, að „ríkisstj. væri ljóst, að slíkt mál verður að leysa í nánu samstarfi við stéttasamtökin í landinu, og mun beita sér fyrir samstarfi við þau um þetta efni. Munu mál þessi verða tekin til nánari athugunar, þegar þessi samtök halda þing sín síðari hluta þessa árs.“

Þegar undirbúningur að samningu fjárlagafrv. hófst, var því ljóst, að það yrði ekki fyrr en í lok ársins, sem hægt væri um það að segja, hver skipan kaupgjaldsmála yrði á árinu 1959. Var því sá kostur tekinn að miða áætlun frv. við þá kaupgreiðsluvísitölu, sem þá var í gildi og búizt var við að yrði í gildi fram til 1. des. Síðan í júní hefur það skeð, að kaupgreiðsluvísitalan hefur hækkað nokkru fyrr, en búizt var við eða tveim stigum meira, en ráðgert var. Þá hafa orðið verulegar hækkanir á grunnkaupi almennt umfram 5%, eins og ég hef þegar rakið. Þetta hefur gert það að verkum, að framfærsluvísitala hækkar enn meira, en ella hefði orðið og að fram hljóta að koma rökstuddar kröfur um nýjar hækkanir útflutnings- og yfirfærslubóta. Þær hækkanir munu svo að nýju orka á framfærslu- og kaupgjaldsvísitölurnar að óbreyttri skipan þessara mála.

Vegna þeirrar óvissu, sem þannig var og er ríkjandi í kaupgjalds- og verðlagsmálum, kom ekki annað til mála, en að miða áætlanir frv. að svo stöddu við það ástand, sem ríkjandi var, þegar það var samið.

Það skal tekið fram, að ríkisstj. hefur borizt bréf frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, þar sem bornar eru fram kröfur um, að hækkuð verði laun opinberra starfsmanna og vísað til almennra kauphækkana, sem orðið hafa. Mun það mál koma til kasta ríkisstj. og Alþingis.

Eins og að líkum lætur, er þetta fjárlagafrv. mjög miklu hærra, en gildandi fjárl., enda þótt miðað sé við vísitölu 183. Var gerð ýtarleg grein fyrir því í fyrravetur, að svo hlyti að verða, að ríkisútgjöldin hækkuðu, eins og aðrar greinar yfirleitt, vegna nýju laganna um efnahagsráðstafanir. Er sú hækkun, sem fram kemur nú á fjárlagafrv., af þeim ástæðum mjög lík því, sem hagfræðilegir ráðunautar ríkisstj. áætluðu í fyrravetur að verða mundi.

Þá kemur hér einnig til, að ríkisútgjöldin hækka á hverju ári vegna aukinnar þjónustu með vaxandi mannfjölda og vaxandi atvinnurekstri yfir höfuð. Nægir í því sambandi að minna á kennslumál, heilbrigðismál og vegamál, þótt fjöldamarga aðra útgjaldaflokka mætti nefna. Hljóta því fjárl. að hækka af þessum sökum, eins og raunar þjóðhagsreikningurinn mundi gera, ef öll efnahagsstarfsemi manna í landinu væri færð í einn reikning. Þessa þróun er að sjálfsögðu ekki hægt að stöðva nema með því að draga stórlega úr framlögum til framkvæmda eða minnka þá þjónustu, sem ríkið lætur nú í té.

Um vöxt ríkisútgjaldanna er gjarnan mikið rætt og hafa menn áhyggjur af honum. Í því sambandi skiptir auðvitað mestu, hversu langt Alþingi vill ganga í því að samþykkja nýja lagabálka, sem útgjöld hafa í för með sér, en hér kemur líka til greina, að fullkomin ráðdeild sé í ríkisrekstrinum og allt gert, sem unnt er, til þess að draga úr óeðlilegri þenslu og að þær ráðstafanir, sem Alþingi ákveður að gerðar séu, verði framkvæmdar með sem hagsýnustu móti.

Vitaskuld verður ætið pottur brotinn í svo margbrotnum rekstri sem ríkisreksturinn er. Veltur hér mest á forstöðumönnum hinna einstöku starfsgreina að sjálfsögðu, enda þeim mikill trúnaður sýndur. En sífellt verður að gera ráðstafanir til þess að veita aðhald í þessum efnum og vil ég nota þetta tækifæri til þess að nefna nokkur atriði til dæmis um, hvernig reynt er að veita slíkt aðhald.

Á síðasta þingi beitti ríkisstj. sér fyrir sérstakri löggjöf um ráðstafanir til þess að draga úr kostnaði við rekstur ríkisins. Í þessum lögum er svo fyrir mælt, að ekki megi fjölga starfsliði við ríkisstofnanir né annars staðar í ríkisrekstrinum eða ráða í stöður, sem losna, nema leitað hafi verið tillagna sérstakra trúnaðarmanna. Er einn þeirra tilnefndur af fjvn. Alþingis, annar af ríkisstj., en þriðji er ráðuneytisstjórinn í fjmrn. Einnig er skylt að leita tillagna þessara manna, ef stofnun vill auka húsnæði, kaupa bifreið eða gera aðrar ráðstafanir, sem auka verulega rekstrarkostnað. Þá er og í lögunum ákvæði um, að engar nýjar ríkisstofnanir megi setja á fót nema með lögum og skal um starfsmannafjölda leita tillagna framangreindra trúnaðarmanna, ef lögin sjálf geyma eigi fyrirmæli um starfmannahaldið.

Af þessu sést, að framvegis verður starfsliði við ríkisstofnanir ekki fjölgað umfram það, sem lög ákveða, nema að undangenginni rannsókn trúnaðarmanna Alþ. og ríkisstj. Enn fremur verður eigi ráðið í stöður, sem losna, nema athugað hafi verið hverju sinni af þessum trúnaðarmönnum, hvort unnt sé að leggja stöðuna niður, og loks eiga stofnanir nú ekki að geta án undangenginnar rannsóknar gert ýmsar kostnaðarsamar ráðstafanir. Þessi löggjöf er ný tilraun til þess að veita aukið aðhald í ríkisrekstrinum og sporna gegn útþenslu. Hún er sett fyrir forgöngu fjmrn. og vegna þess, að talsvert hefur borið á því á undanförnum áratugum, að einstakar stofnanir og starfsgreinar hafa þanizt út vegna einhliða ákvarðana forstöðumanna og ráðherra, sem stofnanirnar hafa heyrt undir, án þess að nokkrir aðrir væru kvaddir til þess að meta nauðsyn útfærslunnar.

Enginn vafi er á því, að ef vel tekst um framkvæmd þessara lagaákvæða, munu þau skapa verulegt aðhald.

Þá vil ég geta þess, að í júní s. l. var skipuð nefnd til þess að athuga um útgjöld ríkisins, bæði hin almennu og eigi síður hin, sem ákveðin eru með sérstökum lögum, en langsamlega mestur hluti ríkisútgjaldanna er bundinn með sérstökum lögum.

Þá ber að nefna, að sífellt er verið að setja sérstaka trúnaðarmenn til þess að athuga einstakar greinar ríkisrekstrarins og skoða, hvort ráðstafanir væri hægt að gera til að draga úr kostnaði. Trúnaðarmenn sitja t. d. að því að athuga um bifreiðahald ríkisins og ríkisstofnana og greiðslu bifreiðastyrkja. Trúnaðarmenn hafa rannsakað rekstur flugmálanna með sparnað í huga. Verið er að athuga alla rannsóknarstarfsemi ríkisins með það fyrir augum, hvort hægt væri að koma þar við heppilegri vinnubrögðum. Verið er að athuga um sambyggingu áfengis- og tóbaksverzlunar, ef ofan á verður að sameina þessar stofnanir í framtíðinni. Unnið er að sameiningu tollgæzlu og löggæzlu úti um land, þar sem henta telst. Lagt hefur verið niður hæli á Kvíabryggju. Verið er að athuga námsstjóraskipulagið, og þannig mætti fleira telja og eru þessi atriði nefnd sem dæmi um það aðeins, hvernig sífellt er unnið að því að athuga einstakar greinar ríkisrekstrarins með aðhald í huga.

Samkvæmt minni reynslu tel ég það hafa mesta þýðingu í þessu efni til viðbótar þessum almennu ráðstöfunum til endurskoðunar á útgjöldum og til þess að sporna við nýjum, að hvert rn. um sig veiti þeim stofnunum, sem undir það heyra, sterkt aðhald varðandi reksturinn og alla ráðdeild og að forráðamenn í rn. leggi metnað sinn í, að þær starfsgreinar, sem þar til heyra, séu reknar af sem mestum myndar- og skörungsskap.

Vík ég þá aftur að fjárlfrv.

Heildargreiðslur á frv. eru ráðgerðar 898 millj., en á gildandi fjárl. 806. Hækkunin er því 91 millj., en við þarf að bæta 40 millj., sem út eru teknar af dýrtíðargreiðslum, til þess að samræmi fáist. Raunveruleg hækkun er því rúmlega 130 millj.

Á vegum fjmrn. hefur verið skoðað vandlega, hverjar rætur þessara hækkana eru og hefur verið farið í gegnum hina einstöku gjaldaliði nákvæmlega með þetta fyrir augu, og verður þá niðurstaðan sem hér segir:

Hækkun vegna yfirfærslugjalds, sem lögleitt var í vor, 30 millj.

Hækkun vegna lögboðinnar 5% kauphækkunar 26 millj.

Hækkun vegna aukinnar þjónustu yfirleitt, einkum vegna mannfjölgunar í landinu og svo t. d. aukinnar landhelgisgæzlu, 30 millj.

Hækkun vegna þess, að of lágt hefur að dómi rn. verið áætlað áður, en nú reynt að færa áætlanir í réttara horf, 25 millj.

Auknar fjárveitingar til fjárfestingar nálægt 16 millj.

Vegna ýmissa ástæðna 11 millj. Eru þar langsamlega stærstu liðirnir vegna áætlaðra aukinna greiðslna af ábyrgðarlánum og kostnaði vegna langvarandi sjúkdóma.

Samtals verða þetta tæplega 140 millj., en tekjur ýmissa stofnana vaxa um tæpar 10 millj. og er þá gerð grein fyrir heildarhækkuninni, 130 millj.

Af einstökum liðum, sem hækka, þykir mér helzt ástæða til þess að nefna eftirfarandi: Kostnaður við rekstur landhelgisgæzlunnar er ráðgert að hækki um 8 millj. og 200 þús. Er það vegna aukins rekstrarkostnaðar almennt og aukinnar gæzlu. M. a. er gert ráð fyrir rekstrarkostnaði nýrrar flugvélar á næsta ári. Enn fremur er settur á frv. nýr liður á 20. gr., 6 millj., til skipa- og flugvélakaupa, og kemur þar til viðbótar fé landhelgissjóðs. Landhelgisgæzlan hækkar því á þessu fjárlfrv. frá því, sem áður hefur verið, um 14 millj. og 200 þús.

Styrkur til sjúkra manna og örkumla hækkar um 11 millj. og 400 þús. frá því í fyrra. Talsvert er þetta vegna hækkunar dagpeninga á sjúkrahúsum, en einnig mjög stórar fjárhæðir vegna þess, að sjúkrarúmum í landinu fjölgar sífellt og fleiri sjúklingar koma þar af leiðandi undir lög um framfærslu sjúkra manna og örkumla. Á það ekki sízt við um gamla fólkið, sem þjáist af ýmsum ellisjúkdómum og nýtur laganna, jafnóðum og það fær rúm á sjúkrahúsi.

Vegaviðhald hækkar um 11 millj. Er það þaulathugað mál að þýðingarlaust mundi vera að setja þennan lið lægri, eins og nú er komið, en 44 millj. Ef það væri gert, mundi það hreinlega leiða til umframgreiðslna, því að það er ekki hægt að láta þjóðvegina standa ófæra. Verður Alþ. að horfast í augu við, að sífellt aukast útgjöldin til viðhaldsins, eftir því sem vegirnir lengjast og umferð vex, en umferðin fer sívaxandi og þyngir á viðhaldinu.

Kostnaður við kennslumál hækkar um 21 millj. og 300 þús. Kemur þar margt til greina og fyrst hin almenna hækkun, en jöfnum höndum hin árlega óhjákvæmilega aukning þessa stóra útgjaldaliðs. Gert er ráð fyrir, að bætt verði við 49 barnakennurum og 39 gagnfræðaskólakennurum, eða samtals 88 nýjum kennurum í þessum greinum á þessu ári. Upplýsir fræðslumálastjórnin, að hér sé ekki um neina óvenjulega fjölgun að ræða, heldur það, sem gera verður ráð fyrir árlega vegna fjölgunar barna á skólaaldri og ungmenna í gagnfræðaskólum.

Samkvæmt þessu mundi ekki fjarri lagi, að embættismönnum vegna kennslumála einna fjölgi um nálega 100 á ári, þegar æðri skólar eru teknir með. Bendi ég ekki á þetta í eftirtöluskyni, því að ekkert er jafnþýðingarmikið til velmegunar og þekking og aftur þekking. Ég bendi á þetta til fróðleiks og skilningsauka á ríkisbúskapnum. Ég bendi á þetta til þess að sýna sanngirni og samvizkusemi þeirra, sem tala um alla hækkun ríkisútgjalda eins og ódæði og fjölgun ríkisstarfsmanna sem afbrot. Vilja þeir láta loka skólum og sjúkrahúsum, svo að dæmi séu nefnd eða er þetta tal bara markleysa? Og það er auðvitað hið rétta.

Framlög til almannatrygginga hækka um 11 millj. og 200 þús. kr. Er þessi hækkun vegna áætlunar um fjölgun bótaþega, hækkunar á daggjöldum, sjúkratryggingum og hækkunar á framlagi til atvinnuleysistrygginga vegna kauphækkunar og mannfjölgunar. Þessir liðir, sem ég hef nú minnzt á og mest hafa hækkað, svo sem framlagið til sjúkra manna og örkumla, framlagið til kennslumálanna, vegaviðhalds og tryggingamála, eru ágæt dæmi um, hvernig ríkisútgjöldin hljóta að fara vaxandi árlega vegna aukins mannfjölda og aukinnar starfsemi í landinu, nema stórfelldur niðurskurður komi til.

Ef ríkisútgjöldin stæðu í stað, væri það vottur um stórfelldan niðurskurð útgjalda. Vandamálið er fyrst og fremst, að ríkisútgjöldin vaxi ekki umfram það, sem eðlilegt er í hlutfalli við framleiðslu og þjóðartekjur. Nokkur árleg aukning ríkisútgjaldanna er óhjákvæmileg og eðlileg í menningarþjóðfélagi, þar sem fólki fjölgar ört. Og eftir því sem meira þarf að byggja á þekkingunni, rannsóknum og vísindalegum grunni, eykst þörfin fyrir framlög ríkisins í þjónustu atvinnuveganna. Þetta sæist vel hér, ef athuguð væri sú stórfellda aukning, sem orðið hefur á ríkisútgjöldum til rannsókna í þarfir atvinnuveganna, hvers konar tilrauna, athugunar á orkulindum og öðrum auðæfum landsins, fiskimiðaleitar o. s. frv. En reynslan er sú, að þetta fé kemur margfalt aftur, en það hækkar ríkisútgjöldin og flokkast með afbrotum á máli lýðskrumaranna. Vandinn í þessu öllu er að stilla í hóf og reisa sér ekki hurðarás um öxl, en halda þó ekki í fé til tjóns.

Á fjárlfrv. eru hækkaðar fjárveitingar til sandgræðslu og skógræktar og settur nýr liður til að kosta merkilegar tilraunir með áburðardreifingu úr flugvélum. Enn fremur eru hækkaðar fjárveitingar til þess að reyna nýjar aðferðir við síldveiðar og til þess að leita nýrra fiskimiða. Sandgræðslan stuðlar að því, að landið fjúki ekki undan fótum okkar framvegis, svo sem löngum hefur átt sér stað. Áður en varir, verða skógarnir okkar orðnir að timbri, ef við höldum áfram sem horfir með skógræktina, en herðum þó heldur á. Nýjar aðferðir við síldveiðar eru í þann veginn að gerbreyta þeirri atvinnugrein og gera hana árvissari og þýðingarmeiri, en nokkru sinni fyrr. Markmiðið er að ná síldinni dýpra og lengra úti og að ná henni, þótt bræli, eins og öðrum fiski. Fiskimiðaleitin hefur fært milljónatugi í þjóðarbúið ár eftir ár og kannske aldrei eins og á þessu ári. Sennilega spörum við of mikið til þessara mála og þvílíkra, en vandinn er að setja mörkin og svo er það skattahliðin.

Þá er ástæða til þess að nefna, að liðurinn, sem ætlazt er til að standi undir vöxtum og afborgunum af vanskilalánum með ríkisábyrgð, er hækkaður um 10 millj. kr., eða upp í 30 millj. Vöxtur þessara útgjalda vegna ríkisábyrgða er mjög ískyggilegur, en ekki þykir með nokkru móti fært að áætla hann lægri, en hér er gert. Samkvæmt ákvörðunum Alþ. hafa undanfarið í sívaxandi mæli verið teknar ábyrgðir á lánum til stuðnings atvinnurekstri og samgöngum víðs vegar um land, enda þótt fyrirsjáanlegt væri, að sumar þessar ábyrgðir hlytu að falla á ríkissjóð að meira eða minna leyti. Við afborganir og vexti af erlendum ríkisábyrgðalánum í vanskilum, sem aðallega eru vegna togarakaupa, bætist nú yfirfærslugjald samkv. l. um útflutningssjóð.

Þá þarf ríkissjóður á næsta ári að leysa til sín allmiklu hærri fjárhæð af hinum svonefndu þurrafúalánum, en á yfirstandandi ári. Þessi þurrafúalán eru mjög sérstæð og hefur frá öndverðu verið gert ráð fyrir, að ekki mundi vera hægt að ganga skilyrðislaust að skuldurum fyrir þessum lánum, þó að þau kynnu að falla á ríkissjóð. Hefur verið haft í huga, að þar væri verið að styðja menn, sem hefðu orðið fyrir stórtjóni vegna þurrafúans og að þetta væri í rauninni nokkuð hliðstætt harðindalánum og þvílíkum ráðstöfunum.

Nánari athugun á þessum málum hefur leitt í ljós, að ekki verður hjá því komizt að athuga gaumgæfilega hag hvers einstaks, áður en hann verður krafinn. Hefur ríkisstj. að athuguðu máli þótt rétt, að hér væri farin hliðstæð leið og gert var, þegar heimilað var að afhenda bjargráðasjóði til eignar hin svonefndu óþurrka- og harðindalán, sem á sínum tíma voru veitt bændum víðs vegar á landinu, en lán þessi voru afhent bjargráðasjóði með því skilyrði, að stjórn sjóðsins veitti lántakendum, er þess óskuðu, ívilnun um greiðslu vaxta og afborgana af lánunum, svo sem með því að lækka eða fella niður vexti eða lengja lánstíma eða gefa lánin eftir að einhverju eða öllu leyti, ef stjórnin teldi þess þörf.

Ríkisstj. fer nú fram á í þessu fjárlagafrv. að mega afhenda fiskimálasjóði þær skuldakröfur, sem ríkissjóður hefur eignazt fyrir innlausn á þurrafúalánum, og er ætlunin að setja þá hliðstæð skilyrði og hér á undan var rakið um lánin, sem afhent voru bjargráðasjóði.

Eins og ég gat um áðan, hækka fjárfestingarútgjöld á þessu fjárlagafrv. um 16 millj. kr. Þar er langstærsti liðurinn framlag vegna landhelgisgæzlu, 6 millj. kr., en einnig er hækkun á fjárfestingu í flugmálum og vegna barna- og gagnfræðaskóla. Augljós er nauðsyn þess að efla landhelgisgæzluna og til viðbótar þessum 6 millj. kr. kemur eign landhelgissjóðs, eins og ég gat um áðan.

Það er alveg óhjákvæmilegt að hækka nokkuð fjárveitingu til framkvæmda í flugmálum, bæði vegna öryggismála og eins til flugvallabygginga. Verkefni fram undan í þessum málaflokki eru svo stór, að óbreytt fjárveiting leiðir til algerrar sjálfheldu í flugmálum.

Till um hækkun á framlögum til skólabygginga byggjast á því, að Alþingi hefur tekið svo marga skóla inn á fjárlögin, að það er ekki hægt að ljúka greiðslu til þeirra á fimm árum, svo sem lögskylt er, nema með því að hækka fjárhæðina eins og hér er ráðgert og er þó ekkert til að byrja á nýjum.

Sumir menn vilja benda á, að samkvæmt þessu fjárlagafrv. lækki raunverulega fjárveitingar til ýmissa fjárfestingarframkvæmda, þar sem fjárfestingarliðir ýmsir standa í stað að krónutölu, en kostnaður hafi þegar hækkað. Þessu er því til að svara, að fjárfesting yfirleitt hefur verið meiri, en þjóðarbúið fær undir risið á síðustu missirum,- og fjárfestingargjöld ríkisins hafa farið vaxandi, á sama tíma sem fjárfestingarframkvæmdir annarra hafa einnig vaxið. Fjárfestingarútgjöld í heild hafa því orðið óviðráðanlega mikil og haft mjög mikil verðbólguáhrif í þjóðarbúskapnum. Um þetta er ekki deilt. Auka verður fjárveitingu til fjárfestingar á ýmsum liðum, samtals um 16 millj. kr. Var því óhjákvæmilegt að láta aðra standa óbreytta. Í þessu sambandi er líka ástæða til að benda á, að á s. l. vori voru aukin framlög til vega og brúa með ákvæðum nýju efnahagslöggjafarinnar um 12 aura af benzínskatti. Er þar um 5–6 millj. kr. aukin framlög að ræða til þeirra mála. Vil ég benda á í þessu sambandi, að framlög til fjárfestingarframkvæmda eru í þessu frv. 153% hærri en á árinu 1952, og hafa þau aukizt stórkostlega á síðari árum, þó að hækkun á byggingarkostnaði sé tekin til greina.

Ég hef nú greint í höfuðdráttum ástæðurnar fyrir hækkun fjárlaganna og greint frá nokkrum einstökum liðum, sem ríkastan þátt eiga í henni.

Varðandi tekjuáætlun frv. vil ég taka fram, að hún er, eins og gjöldin, miðuð við núverandi ástand, en ekki breytingar, sem óhjákvæmilegar hljóta að vísu að verða í efnahagsmálunum, en engin veit enn, hvernig verður háttað. Öðruvísi var ekki hægt að taka á þessu máli, eins og gefur að skilja. Verður að sjálfsögðu að endurskoða fjárlagafrv. á Alþingi, þegar það skýrist, hvers er að vænta í framleiðslu- og efnahagsmálum þjóðarinnar.

Ríkisbúskapurinn er aðeins einn þáttur í þjóðarbúskapnum, þótt veigamikill þáttur sé og verður að laga ráðstafanir varðandi hann eftir því, hvernig horfir um heildarþróun þessara mála.

Eigi vil ég að þessu sinni ræða svo um efnahagsmál landsins, að ég ekki minnist á það mál sem efst er í hugum allra Íslendinga um þessar mundir og mesta þýðingu hefur fyrir framtíð landsmanna, að frelsismáli þjóðarinnar einu undanskildu. Þar á ég auðvitað við landhelgismálið.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð, sömdu stjórnarflokkarnir um, að stjórnin skyldi vinna að útfærslu fiskveiðilandhelginnar. Stjórnin ákvað í samráði við stuðningsflokka sína að bíða eftir Genfarráðstefnunni, enda var það tvímælalaust mjög hyggilegt. Á hinn bóginn varð ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar ásátt um, að lífsnauðsyn væri að hefjast handa um útfærslu þegar eftir ráðstefnuna. Íslendingar hafa lengi barizt fyrir allsherjarreglu um fiskveiðilandhelgi, sem fullnægjandi væri fyrir þá, en árangurslaust. Ríkisstj. var sannfærð um, að hættulegt væri að bíða lengur, rétti tíminn væri kominn til þess að hefjast handa. Þess vegna var ákvörðun tekin og við hana staðið, þótt mótmæli kæmu og jafnvel hótanir frá öðrum þjóðum. Ríkisstj. áleit, að það mundi ekki reynast hægt að eyðileggja þetta mál með ofbeldi fyrir Íslendingum, þótt reynt yrði, það mundi ekki reynast unnt til lengdar að fiska í íslenzkri landhelgi undir herskipavernd. Ríkisstj, vann að því öllum árum að kynna þetta mál sem bezt erlendis og þegar útfærslan var gerð, kom í ljós, að allar þjóðir virtu hina nýju landhelgi, þótt þær mótmæltu sumar, nema Bretar. Þeir hafa með hervaldi reynt að halda áfram veiðum í hinni nýju fiskveiðilandhelgi, en slíkt mun ekki takast til lengdar. Það hefur reynslan þegar sýnt.

Íslendingar meta mikils þær viðurkenningar, sem fengizt hafa á útfærslunni. Þeir munu aldrei beygja sig fyrir ofbeldi og fordæma það einum rómi. Ef til vill eiga eftir að verða á vegi okkar í þessu máli enn ýmiss konar erfiðleikar og við getum ekki séð allt fyrir í því efni. En við erum sannfærðir um, að ef við stöndum saman um þetta mál, þá munum við sigra.

Við munum aldrei sætta okkur við, að okkur sé úrskurðaður í þessu máli lakari kostur, en viðurkenndur er í reynd hjá öðrum þjóðum. Við munum halda áfram að vinna að allsherjarreglu í þessu efni, sem allar þjóðir hlíti og þá í trausti þess, að sérstaða þeirra, sem byggja lífsafkomu sína svo mjög á fiskveiðum sem við hljótum að gera, verði viðurkennd. Bjargföst sannfæring okkar í ríkisstj. um það, að rétturinn væri okkar megin, að lífshagsmunir þjóðarinnar í framtíðinni lægju við og að þótt stundum liti út fyrir annað, þá mundi þjóðin á örlagastundinni öll sameinast, gerði það að verkum, að hin mikla ákvörðun var tekin og við hana staðið, töfum hafnað og fleygum hafnað, hvaðan sem þeir komu og ekkert látið breyta settri stefnu. Við treystum m. a. á, að inn á við mundi almenningur í landinu, þegar mælirinn væri fullur talinn og í tæka tíð, kveða niður alla sundrung, enda fór svo.

Ýmsir segja, að það væri sannarlega þörf á því, að jafnöflug samtök mynduðust um úrlausnir í efnahagsmálum og orðið hafa í landhelgismálunum og þá ekki sízt jafnsterkt almenningsálit um sameiginlegt átak í þeim efnum. Þetta er hverju orði sannara. Raunar er ég sannfærður um, að mjög öflugt almenningsálit mundi styrkja skynsamlegar og nauðsynlegar ráðstafanir í efnahagsmálum, ef þau öfl, sem standa að núv. ríkisstj., bæru gæfu til að standa einhuga saman um úrlausnir og taka forustu.

Að lokum: Íslenzka þjóðin hefur aldrei átt jafnmikið af framleiðslutækjum og hún á nú. Þessi tæki hafa sennilega aldrei verið betur notuð, en nú undanfarið, aldrei verið jafnvel búið að framleiðslunni og nú síðustu missirin, enda allt framleiðslustarf örvazt og staðið með miklum blóma. Framfarir hafa aldrei verið meiri né örari en nú, enda atvinnuleysi verið útrýmt, því ægilega átumeini.

Yfir öllu þessu er ástæða til að gleðjast. Á hinn bóginn er skylt að gera sér fulla grein fyrir því, að þrátt fyrir þetta er ástandið í efnahagsmálum landsins geigvænlegt. Niðurrifsöflunum hefur orðið sorglega mikið ágengt í því að rífa niður og viðhalda verðbólguþróun, sem veldur upplausn og lausung og fyrr en varir getur haft í för með sér stöðvun framleiðslu og framkvæmda, samdrátt á öllum sviðum og atvinnuleysi. Gegn þessu niðurrifi er skylt að rísa og tryggja áfram velmegun og framfarir. Það er hægt án þess að taka nærri sér, — nokkrar fórnir í bili, en kemur margfalt aftur, ef rétt er að farið.

Þau öfl, sem standa að núv. ríkisstj., eiga að mínum dómi að gera það, sem gera þarf. Þau eiga að hafa bolmagn til þess. Þau eiga að hafa öll skilyrði til þess að gera það, sem nauðsynlegt og óhjákvæmilegt er og á þann hátt, að það snerti í engu almenning í landinu umfram það, sem brýnasta nauðsyn krefur. Þau eiga að geta komið betri skipan á framleiðslu- og efnahagslíf landsins, sem allir hljóta að sjá að þarf að koma, svo að velmegun geti haldizt og framfarir. Þetta verður að gera og er hægt að gera með samstilltu átaki og þetta eiga einmitt þeir að gera saman, sem standa að núv. ríkisstj.