20.10.1958
Sameinað þing: 3. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

1. mál, fjárlög 1959

Emil Jónsson:

Herra forseti. Þetta fjárlagafrv., sem hér hefur verið lagt fram, er að því leyti ekki ólíkt fjárlagafrv. undanfarinna ára, að það er hæsta fjárlagafrv., sem nokkurn tíma hefur séð dagsins ljós á Alþingi. Niðurstöðutölur á sjóðsyfirliti eru um 900 millj. kr. Svona hefur þetta verið mörg undanfarin ár. Fjárlög hvers árs hafa sífellt verið hærri heldur en, ársins á undan. Tilsvarandi tölur undanfarinna ára hafa verið þannig, — ég nefni þær aðeins til þess, að menn átti sig á, hversu ört þetta breytist: 1953 var þessi sama tala eða niðurstaða á sjóðsyfirliti 392 millj. kr., 1954 430 millj. kr., 1955 497 millj. kr., 1956 579 millj. kr., 1957 714, 1958 851 og nú í kringum 900 millj. kr. Fjárlögin hafa því rúmlega tvöfaldazt á s. l. fjórum árum og nærri þrefaldazt á s. l. 6 árum og nálgast nú orðið 1.000 millj., eða 1 milljarð, sem er eða svarar til 6.000 kr. á hvert einasta mannsbarn í landinu að meðaltali. Útsvörin í stærstu bæjunum munu nú vera í kringum 3.000 kr. á íbúa, eða samtals gjöld til ríkis og bæja um 9.000 kr. á hvert mannsbarn að meðaltali, eða 45 þús. kr. á hverja 5 manna fjölskyldu.

Ef litið er til baka, þótt ekki sé lengra en til minna fyrstu ára á Alþ., þá verður munurinn geysimikill og tölurnar furðulegar, þegar þær eru bornar saman við núverandi upphæðir. Tilsvarandi tölur við þær, sem ég nefndi áðan í fjárlagafrv. nú, þ. e. a. s. niðurstöðutölur á sjóðsyfirliti, voru í frv. fyrir árið 1935 rúmar 14 millj. og hækkuðu þá á 5 árum til ársins 1940 um aðeins 4 millj. kr., samtals upp í 18 millj. kr. 1940. En hækkunin á þessu 24 ára tímabili á heildarupphæð fjárl. hefur orðið í kringum sextíuföld. Þess má einnig geta, að hér eru þó ekki enn öll kurl komin til grafar, því að í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er ekki reiknað með nærri fullri vísitölu, eins og vitað er nú þegar að hún muni verða, og sömuleiðis er vitað, að opinberir starfsmenn hafa ekki enn fengið hliðstæða launahækkun við aðrar starfsstéttir í þjóðfélaginu, sem augljóst er að þeir hljóta að fá, en með þeirri hækkun er heldur ekki reiknað í frv.

Þessi þróun er uggvænleg og stefnir greinilega í fullkomið óefni. En þess er skylt að geta í þessu sambandi, til þess að öllu réttlæti sé fullnægt, að þegar borin eru saman fjárl. eða fjárlagafrumvörp nú og fyrir 20–25 árum, þá er verið að bera saman tvo hluti, sem eru langt frá því að vera fullkomlega sambærilegir. Í fjárl. nú hafa verið teknir heilir dálkar, heilir kaflar, sem ekki voru til þá, fjöldamörg atriði tekin ný á þessu tímabili. Fjárlögin koma miklu víðar við og grípa miklu víðar inn en áður, svo að ekki er nema að litlu leyti sambærilegt við það, sem þá var. En það, sem er uggvænlegt í þróun þessara mála, það er ekki út af fyrir sig, að nýir liðir séu teknir inn á fjárl., ef féð er þá notað í gagnlegum tilgangi, heldur hitt, að sömu hlutirnir og sama vinnan skuli hækka frá ári til árs, eins og raun ber vitni og ekki aðeins í fjárl., heldur á öllum sviðum.

Þegar núverandi hæstv. ríkisstj, var mynduð, var það eitt af hennar höfuðverkefnum að koma lagi á efnahagsmálin, þ. e. a. s. að stöðva hrun gjaldmiðilsins, krónunnar. Voru menn bjartsýnir á, að þetta mundi henni frekar geta tekizt en öðrum, þar sem hún var samansett af fulltrúum þeirra aðila, sem úrslitaáhrif hafa á verðmyndunina í landinu, launþega og bænda. En öllum landsmönnum er nú ljóst orðið, að sú þróun, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og fjárl. eru á vissan hátt spegilmynd af, er í mesta máta óheillavænleg og leiðir til hreinnar glötunar, ef ekki tekst á einhvern hátt að stöðva hana.

Almenn launahækkun, sem gengur nokkurn veginn jafnt yfir alla, kemur ekki neinum að gagni, ef verðlag á vörum fylgir upp á við í sömu hlutföllum. Það er ekki launahæðin, sem hefur þýðingu, heldur er það sjálfur kaupmáttur launanna. Þetta er nú flestum farið að skiljast og ber því vitanlega að haga sér eftir því. En ríkisstj. hefur því miður ekki tekizt að ráða við þetta verkefni, eins og vonir stóðu til, til fulls.

Fyrstu tvö árin hækkaði að sönnu framfærsluvísitalan aðeins um 8 stig, og var það út af fyrir sig viðunandi, ef það hefði orðið með eðlilegum hætti. En þegar það er tekið með í reikninginn, að þessi niðurstaða hefur orðið til með mjög auknum niðurgreiðslum, eins og hæstv. fjmrh. lýsti hér áðan og þegar tekið er tillit til, að sú tilraun, sem gerð var s. l. vetur til úrbóta og áreiðanlega stefndi í rétta átt, hefur nú að verulegu leyti runnið út í sandinn með mjög hækkuðu verðlagi á innlendum vörum og launahækkunum til viðbótar við óumflýjanlega hækkun hinnar erlendu vöru, þá verður ekki komizt hjá því að viðurkenna, að niðurstaðan hefur ekki orðið sú, sem stefnt var að.

Þegar þessi ríkisstj. tók við völdum, lýsti hún því yfir, að um lausn þessara mála skyldi haft samráð við launþega og bændur. Þessarar samvinnu hefur ríkisstj. leita, og sannleikurinn er líka sá, að engin varanleg niðurstaða mun fást né bót á ráðin nema í fullkominni samvinnu við þessa aðila.

En kjarni þessa máls og þann kjarna hafa menn oft og tíðum viljað dylja fyrir sjálfum sér, þó að þeir hafi skynjað hann og sú raunalega staðreynd, sem ekki verður umflúin og kom mjög greinilega í ljós í áliti þeirra sérfræðinga, sem um efnahagsmálin fjölluðu í vetur á vegum ríkisstj., er sú, að þjóðin hefur allar götur síðan í stríðslok eytt meira, en hún hefur aflað. Þessi mismunur hefur verið jafnaður fyrst með inneignum þeim, sem safnazt höfðu erlendis í styrjöldinni, síðan með svokölluðu Marshall-fé og loks nú síðast með gífurlegri skuldasöfnun erlendis. Hér eiga allir flokkar hlut að máli, að vísu mismikinn, en allir nokkurn. Þegar stjórnarandstaðan, Sjálfstfl., nú er að deila á ríkisstj, fyrir núverandi þróun mála, fer honum það heldur illa, því að hann hefur átt sannarlega sinn þátt í því sama og raunar stundum í miklu stærri stíl, enda hefur hann engar tillögur borið fram til úrbóta á neinu sviði og enga tilraun gert í þá átt, — sem sagt ekkert látið í sér heyra nema neikvæða gagnrýni. En þessi met verður að jafna og kapphlaupið milli verðlags og launa verður að hætta. Þetta hefur að vísu oft verið sagt áður, en ég tel nú svo langt komið á þessari braut, að ekki megi lengra halda og líf stjórnarinnar beinlínis undir því komið, að það takist, þó að raunar verði ekki séð, að í því felist út af fyrir sig nein lausn mála, þó að hæstv. ríkisstj., sem nú situr, yrði að fara frá völdum vegna þess, að henni hefur ekki tekizt að koma þessu aðalmáli sínu þannig í framkvæmd, sem hún helzt vildi, og þó að hv. 2. þm. Eyf., sem hér talaði áðan, hafi talið sjálfsagt, að svo yrði af þessum ástæðum, þá leysir það málíð ekki neitt, því að frá sjálfstæðismönnum liggja ekki fyrir neinar tillögur til úrbóta í þessu efni.

En þó að hæstv, ríkisstj. hafi ekki tekizt að leysa þetta mál, eins og til var ætlazt, þá vildi ég minnast á annað mál, þar sem hæstv. ríkisstj. hefur virkilega vel tekizt og það er að viðhalda fullri atvinnu í landinu og bæta mjög verulega atvinnuástandið víða um land a. m. k. Hefur atvinnuástandið sennilega sjaldan eða aldrei verið betra, en nú hin síðustu ár. Þetta er ekki aðeins þýðingarmikið fyrir þá einstaklinga, sem vinnunnar njóta, heldur fyrir þjóðarbúið í heild, ef unnið er að framleiðslustörfum, því að að því verður að keppa að jafna hallann á þjóðarbúskapnum með aukinni framleiðslu frekar, en með því að draga saman seglin í fjárfestingu, þar sem hér er svo margt ófullgert eða draga úr neyzlunni. En þennan halla verður að jafna, ef heilbrigt efnahagslíf á að geta þróazt í landinu. Það er beinlínis grundvallaratriði. Og ef til vill verður að fara að einhverju leyti allar þessar leiðir til þess að ná fullkomnum árangri, bæði þá leið að auka framleiðsluna, draga að einhverju litlu leyti úr fjárfestingunni og neyzlunni.

Eitt allra þýðingarmesta atriðið í öllu efnahagslífi þjóðarinnar er að endurvekja traustið á gjaldmiðlinum, krónunni, en það verður ekki gert, nema hækkunum, svo geysiörum sem nú hafa nýorðið og alltaf eru að gerast, linni.

Sjálft fjárlfrv., eins og það liggur nú fyrir, er ekki unnt að ræða hér neitt verulega í einstökum atriðum a. m. k., en eitt atriði langar mig þó til þess að minnast á. Innborganir og útborganir eru áætlaðar nálega jafnar á sjóðsyfirliti. Ef að venju lætur, þá eiga gjöldin eftir að hækka mjög verulega í meðferð þingsins, og eins og áður hefur verið að vikið, er bæði reiknað með of lágri visitölu í frv. og ekki reiknað með hækkuðum grunnlaunum opinberra starfsmanna, sem vitað er að kemur. Er því fyrirsjáanlegur halli á frv., nema tekjurnar verði auknar eða dregið úr einhverjum gjöldum mjög verulega, því að að mínu áliti kemur vitaskuld ekki til mála að afgreiða fjárlfrv. með halla. Og á það vil ég benda alveg sérstaklega, að árferði getur tæpast verið betra né afkoma yfirleitt heldur en verið hefur nú um sinn með fullri atvinnu nálega allra, sem hafa viljað vinna og öruggri sölu allra okkar afurða. Í árferði eins og þessu ætti vitanlega að reyna að safna einhverjum varasjóði fyrir til mögru áranna, því að vafalaust má gera ráð fyrir því, að þeirra verði enn vart einhvern tíma eða að einhverju leyti.

Þetta gildir kannske allra mest í viðskiptum okkar út á við, og ég efast um, að nokkur þjóð standi þar svo höllum fæti eða tefli á jafntæpt vað eins og við gerum nú. Eftir mörg tiltölulega góð ár með greiðri sölu á öllum okkar afurðum eigum við engan gjaldeyrisforða, heldur þvert á móti, við höfum hrúgað upp lausaskuldum. Fyrir utan hin miklu fastalán, sem við höfum tekið, höfum við hrúgað upp lausaskuldum, sem nema tugum milljóna króna beinlínis og enn miklu meira í ábyrgðarskuldbindingum, sem falla smátt og smátt.

Þetta er — að ég tel — svo glæfralegt, að maður veigrar sér við að hugsa til þess, hvað mundi ske, ef eitthvað smávegis bæri þarna út af. Gjaldeyrisforði, þó að ekki sé ýkja stór, er það, sem við verðum að keppa að og það sem fyrst, meðan möguleikarnir eru fyrir hendi.

Í stað þess að fara nokkuð út í einstök atriði fjárlfrv.; sem heldur ekki er til ætlazt við þessa 1. umr., þá vildi ég mega koma lítillega inn á hugmynd, sem að vísu hefur verið orðuð áður, en ekkert hefur þó orðið úr framkvæmdum á, því miður, því að ég hef lengi staðið í þeirri meiningu, að hún gæti orðið til mikils gagns og því nefni ég hana hér, að hún stendur í nánu sambandi við fjárl. og afgreiðslu þeirra, þó að segja megi, að hér sé um sérstakt mál og það sérstakt stórmál að ræða.

Nú um alllangt árabil eða öllu heldur um áratugi hafa fjárl. verið miklu meira, en áætlun um búskap ríkissjóðs. Þau hafa gripið inn á og haft úrslitaáhrif á fjöldamargar starfsgreinar, sem ekki heyra hinum eiginlega ríkisbúskap til og sama má segja um ýmsa lagasetningu Alþ. og ráðstafanir, sem gerðar hafa verið af hálfu hæstv. ríkisstj. Það má því segja, að þróunin hafi jafnt og þétt færzt í þá átt, að þjóðarbúskapurinn allur hafi verið meira og meira mótaður af ákvörðunum hins opinbera, ríkisstj., Alþ. og raunar einnig mjög verulega af hliðstæðum aðgerðum ýmissa hinna stærri bæja. Að sumu leyti má segja, að þetta hafi orðið með ráðnum hug, en sumpart hefur það einnig orðið eða komið sem lausn á einstökum vandamálum líðandi stundar, sem erfitt hefur verið að ráða fram úr öðruvísi.

Þessi framvinda mála hefur ekki orðið á vegum neins einstaks flokks eða einstakra flokka eingöngu, heldur hafa allir flokkar átt hér einhvern hlut að, mismunandi mikinn að vísu og kannske með mismunandi ljúfum huga, en allir hafa komið hér við sögu að einhverju leyti. Nægir í þessu sambandi að benda á þá margháttuðu fyrirgreiðslu, sem íslenzkur landbúnaður hefur fengið, bæði með mjög fjölþættri lagasetningu og beinum fjárframlögum úr ríkissjóði, en þau nema nú á aðeins einni grein fjárlfrv. u. þ. b. 1/10 hluta af öllum rekstrarútgjöldum ríkissjóðs.

Þá má einnig minnast á sjávarútveginn, sem nú árlega hefur orðið að fá aðstoð hins opinbera, til þess að starfræksla hans stöðvaðist ekki eða drægist mikið saman.

Iðnaðarstarfsemin hefur komið hér minnzt við sögu. En þó vita allir, að ákvæði tollalaga, aðstoð við lánaútvegun eða neitun um slíka aðstoð, framkvæmd innflutningstakmarkana o. fl., o. fl. getur haft úrslitaáhrif á möguleika þessarar starfsemi til að eflast og þróast. Einnig má þar benda á, að sá vísir til stóriðju, sem nú er hér kominn á fót, hefur orðið til fyrir beinar aðgerðir ríkisvaldsins og Alþingis.

Og í nánum tengslum við ráðstafanir hins opinbera til stuðnings þessum höfuðatvinnuvegum er svo íhlutun ríkisvaldsins um fjárfestingarmál, bæði þær hömlur, sem á fjárfestinguna hafa verið settar og sú viðleitni að beina fjárfestingunni inn á þær brautir, sem ætla má að hún komi að sem mestum notum fyrir þjóðina í heild og að halda henni innan þeirra takmarka, sem ætla má viðráðanleg, miðað við þjóðartekjurnar í heild og þá lánsmöguleika, sem fyrir hendi eru, ef menn vilja fara lengra, en árlegar tekjur leyfa.

Allar þessar ráðstafanir hafa við meiri og minni rök að styðjast og má segja, að þær hafi verið ýmist nauðsynlegar eða forsvaranlegar eftir því, hvernig litið er á í hverju einstöku tilfelli.

En það, sem hefur á skort er, að þessar ráðstafanir hafa ekki verið gerðar í samhengi. Hefur því oft komið fyrir, að eitt hefur rekið sig á annars horn og ekki komið að þeim notum, sem til hefur verið ætlazt, a. m. k. ekki að fullu. Má um þetta nefna ýmis dæmi, sem óþarft er að rekja og allir þekkja, sem nokkuð hafa kynnt sér þessi mál. Það skal tekið fram, að þetta er ekki sett fram í ádeiluformi á neinn flokk sérstaklega, því að allir flokkar eiga hér nokkurn hlut að máli, þó að það sé mismikið.

En það, sem er aðalefni míns máls og ástæðan til þess, að ég hef rakið þetta nokkuð, er að vekja máls á því, hvort ekki sé tími til kominn, að samtímis fjárlfrv., sem er áætlun um ríkisbúskapinn, sé einnig gerð önnur áætlun um þjóðarbúskapinn allan í heild. Hjá fjölda þjóða eru nú slíkar áætlanir gerðar og þá jafnvel ekki síður hjá þeim þjóðum, sem aðhyllast „líberalistíska“ viðskiptahætti og efnahagsstarfsemi, heldur en hjá hinum, sem vilja byggja sinn þjóðarbúskap á „plan-ökonómískum“ áætlunum. Slík áætlun er í sjálfu sér hið mikilverðasta plagg, hvernig sem menn hyggjast nota það og einmitt hér á Íslandi, þar sem svo náin tengsl eru á milli rekstrar þjóðarbúsins og ríkissjóðs og ríkisstj., eru mjög miklar líkur til, að þjóðarbúskaparáætlunin geti orðið að ómetanlegu gagni við samningu fjárl. og mótað á skynsamlegan hátt hina mikilsverðustu þætti þeirra.

Hér hefur verið og er starfandi fjöldi nefnda, sem hver um sig hefur tekið til meðferðar nokkra þætti úr áætlun sem þessari og einn þáttur þessarar áætlunar er nú saminn árlega, þ. e. áætlun um viðskipti okkar út á við, bæði útflutning og innflutning, sem innflutningsskrifstofan gerir. En hvort tveggja er, að þessar nefndir taka ekki til meðferðar nema nokkurn hluta af þjóðarbúskapnum og svo hitt, að þær hafa ekki það samband sín á milli, sem æskilegt og nauðsynlegt er til þess að fá þá heildarmynd, sem ég tel nauðsynlegt að fá. Úr þessu þarf að bæta og beini ég því til hæstv. ríkisstj., hvort hún vildi ekki taka þetta mál upp til athugunar nú þegar og gera ráðstafanir, sem þyrfti, til þess að heildaráætlun um þjóðarbúskapinn geti legið fyrir, þegar næstu fjárlög verða samin. Mér er að vísu ljóst, að þetta er mikið verk. En ég gæti hugsað mér, að bæði seðlabanki og Framkvæmdabanki gætu að einhverju leyti lagt fram aðstoð í þessu skyni, því að báðir hafa skyld verkefni með höndum og þeir ráða báðir yfir sérfræðingum á þessu sviði, sem unnið gætu verkið í samvinnu við sérfræðinga ríkisstj.

Þetta mál hefur að vísu áður borið á góma og meira að segja verið gerðar um það ályktanir, en við það hefur verið látið sitja og ekkert orðið úr framkvæmdum. Ef til vill hefur það verið vegna þess, að sérfræðinga hefur ekki tekizt að fá, þeir hafa ekki verið tiltækir til verksins, en þetta verk verður að vinna fræðilega. En ég ætla, að nú sé völ á nægilegum mannafla til þess að sinna því, svo að vel mætti við una.

Ég geri ráð fyrir, að þetta mál verði á næstunni tekið upp í einhverju formi, enda tel ég, að það hafi þegar dregizt allt of lengi.

Á það vil ég svo að lokum benda, að ýtarleg áætlun af þessu tagi á að geta orðið til hins mesta gagns, þegar hin stríðandi öfl þjóðfélagsins takast á um skiptingu þjóðarteknanna. Framleiðslumagn þjóðarinnar er sú eina örugga viðmiðun, sem hægt er að hafa, þegar þau mál eru gerð upp og raunveruleg bót á lífskjörum þjóðarinnar í heild fæst aðeins með því að auka afköstin. Áætlun um þetta og ábendingar um, hvernig þessi aukning megi bezt og auðveldast takast með hliðsjón af öðrum þáttum þjóðarbúskaparins, er því sá grundvöllur, sem byggja verður á. Leggi hæstv. ríkisstj. þennan grunn á næstunni, þá tel ég vel farið.